Æviágrip
Guðbergur Bergsson fæddist 16. október árið 1932 í Grindavík. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1955, hélt síðan til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958.
Fyrstu bækur hans, skáldsagan Músin sem læðist og ljóðabókin Endurtekin orð komu út árið 1961, en síðan sendi hann frá sér fjölda bóka af ýmsum toga, smásögur, skáldsögur, barnabók, skáldævisögur og fleira. Auk þess ritaði hann greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál í dagblöð og tímarit. Hann var einn afkastamesti þýðandi okkar úr spænsku og átti stóran hlut í að kynna spænsku- og portúgölskumælandi höfunda hér á landi. Bækur Guðbergs hafa verið þýddar á fjölmörg mál og hefur skáldsagan Svanurinn vakið mikla athygli víða um heim. Kvikmynd Ásu Hjörleifsdóttur sem byggð er á bókinni var frumsýnd 2017 en hún ber sama titil.
Guðbergur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og 1998 auk þess að hafa verið tilnefndur til þeirra 1993 og 1997. Guðbergur hlaut Norræn verðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar árið 2004.
Guðbergur lést þann 4. september 2023.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Pistill frá Guðbergi Bergssyni
Guðbergur Bergsson fæddist árið 1932 í Grindavík sem var á þessum tíma aumt þorp með mannlífi sem var gott fyrir hugann á móti úthafinu. Núna er það miklu stærra og hefur fengið bæjarréttindi. Grindavík er enn í fullu fjöri, jafnvel meira en nokkru sinni áður á úfinni suðurströnd Íslands. Á þessum stað eru jarðskjálftar tíðir, jafnvel daglegt brauð en til lítils gagns. Í suðri er ekkert að sjá nema endalaust hafið, til austurs eru fjöll, einnig til norðurs, en í vesturátt er grá hraunbreiða og sums staðar sjást gufur frá hverum. Annars eru hraun allt í kring, líka til suðurs, en það sést ekki undir sjónum þar sem fiskurinn felur sig til að hrygna í þröngum hraungjótum, langt frá skolti gráðugra hákarla og hvala. Á þessari sérlega klóku eðlisávísun þorksins og samleik hennar og náttúrunnar lifðu Grindvíkingar og lifa enn, nákvæmlega eins og þeir hafa gert og munu gera alla tíð.
Faðir Guðbergs var sjómaður á veturna, trésmiður á sumrin, en móðirin vinnukona þangað til hún varð eiginkona og vann heima. Úr því hann fæddist í kreppunni miklu var hvaðeina í kringum hann, húsin, fólkið og lifnaðarhættirnir jafn fábrotið, snautt eða tómlegt, og himinninn, hraunið og veðurfarið. Aftur á móti var það sem sjaldan sást eða lá ekki í augum uppi á landi, hugarfar manna og tilfinningar, álíka auðugt, eða auðugra en á fjölmennari stöðum. Maður er meira manns gaman og með öðrum hætti á fámennum en fjölmennum stöðum þar sem hægt er að finna afþreyingu og skemmtun á sérstakan hátt sem hefur ekki annan tilgang en þann, að menn gleyma sér við stundargaman, það sem er kallað afþreying. Í Grindavík voru allir á þessum tíma sitt eigið dimma kvikmyndahús, en líka á sinn hátt einnig fyrir aðra, með leyndu, hvítu tjaldi. Fólk var sín eigin skáldsaga, ljóð, ópera og dansaði ballet tilfinninganna. Svipað er þetta hjá listamönnum. Ómeðvitundin einkennir þá, en þeir þjálfa sig við að sameina allar listgreinar í sama verki, með sínum sérstaka hætti, fyrst í hugverkinu sem þeir breyta í listaverk, til dæmis skáldsögu.
Guðbergur vann eins og aðrir Grindvíkingar fyrst við sjóinn. Síðan vildu aðrir en hann að hann lærði að smíða skip. Það vildi hann ekki. Þá fór hann að læra, ekki það sem hann langaði heldur eitthvað sem hann gæti lifað á og stundað síðan í frítímum það sem engin leið var að hafa viðurværi af á þessum tíma, skáldskap. Aðrir hindruðu að hann fengi að stunda kennslu barna, svo hann fór að elda mat fyrir útlendinga. Síðan óf hann gólfteppi í nokkur ár. Því næst var hann hjúkrunarmaður á geðsjúkrahúsi. Þá tók hann ákvörðun, að fara úr landi og læra bókmenntir og listasögu í Barcelona á tímum Francos. Smám saman óf hann þar sér heim sem hann hefur lifað í að mestu eftir það, heim listar sinnar. Hann hefur ekki átt heima í öðru en í eigin verkum, sem eru fremur skáldsögur en ljóð. Allt þetta er í eðlilegum tengslum og rökrétt afleiðing af því að hafa fæðst og átt heima sem barn og unglingur á jafn afskekktum stað og Grindavík, á stað þar sem íbúarnir voru sitt eigið leikhús en líka leikhús fyrir aðra, eigin skáldsaga, ljóð, ópera, heimspeki og píanótónleikar. Flest í fari listamanns er afleiðing af honum sjálfum en einnig foreldrum og umhverfi hans. Það er ekki nauðsynlegt að eiga heima í svo kölluðu andlega auðugu umhverfi til þess að geta fléttað eða ofið þann dúk sem er ríkuleg list. En sá sem fæðist í fátæklegu umhverfi, innan um fátækt fólk, þarf að vera gæddur vilja og innri auðlegð sem hann ræktar gætilega. Öðru fremur þarf hann að vera sjálfum sér nógur. Hann getur ekki reitt sig á annan en sjálfan sig. Fáir skilja hann. Hann verður að vera sterkur í einsemd sinni, óhræddur við að halda út í heim til að þroska sig, ekki í hinu þekkta heldur í hinu óþekkta. Sá sem umgengst bara sjálfan sig og sína líka deyr inn í tómleikann og sátt við aðra, jábræður og systur. Ósættin er undirstaða þroskans.
Guðbergur hefur reynt að semja lífsverk byggt á eigin fagurfræði og hann vissi að henni yrði ekki vel tekið. Í öllu tók hann mið af hrauninu þar sem hann ólst upp. Hraun er þannig: Glóandi magn grjóts sem rennur úr eldfjalli. Það stöðvast, kólnar og deyr, en aðeins að vissu marki. Í þannig úfnu ástandi safnar það smám saman á sig mosa sem molnar og breytist í jarðveg sem úr geta jafnvel vaxið há tré við réttar aðstæður.
Guðbergur vissi að líklega færi þannig fyrir því sem hann lagði hönd að árum saman, í leikhúsi hans, í óperunni, í kvikmyndahúsi hans sjálfs.
Fátt getur verkað miskunnarlausara á hugann en endalaust úthaf, gróðurlaust hraun, jarðskjálftar og þorp á útkjálkum þar sem allar óveðurslægðir koma að landi, en um leið er þetta uppbyggilegt ef ytri aðstæðum er tekið með vissum hætti: „Svona er þetta af náttúrunnar hendi.“
Líklega á þetta viðhorf í heimahögum Guðbergs þátt í því að höfuðeinkenni á skáldskap hans er ekki tilraun til að vekja samúð heldur íhugun, undrun, uppreisn gegn aðstæðum og spurninguna:
Hvernig getur maður staðist þá flóknu þraut sem náttúran leggur fyrir líf og eðli hans og annarra?
Guðbergur Bergsson, 2001
Um höfund
Lífið sem tilraun í skáldskap Guðbergs Bergssonar
Sá maður er ekki til sem langaði ekki til að hverfa á ný til staðarins sem hann kom frá, til að sameinast honum að eilífu, vegna þess að við fæðumst ekki frjáls og glöð, þótt við höldum það. Við fæðumst inn í ævilangt umkomuleysi.
- Guðbergur Bergsson: Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar.
Höfundur Játninganna, Ágústínus (354–430), skrifaði svo mikið að samkvæmt 5. aldar hótfyndni getur guð einn blaðað í gegnum ósköpin. Í afköstum svipar Guðbergi Bergssyni til Ágústínusar og vilji einhver nálgast samhengi verka hans gæti sagan frá 5. öld endurtekið sig. Mitt í aragrúa skáldsagna, skáldævisagna, ljóða, smásagna, greina og þýðinga finnur lesandi fyrir vanmætti og hugsar: Í verkefni sem þessu þarf ég að búa yfir sjónarhorni eilífðarinnar. Þessi höfundur getur því ekki verið að skrifa fyrir mig og mína líka, heldur guð. Megi eilífðin eiga hann! En að þessum orðum sögðum er lesandinn ekki aðeins flæktur í sköpunarverk Guðbergs – sem spannar svið skáldskapar, fagurfræði, gagnrýni og þýðinga – heldur skapandi endurtekningu menningarsögunnar, sögu sem um langa hríð hefur haft hugsun um manninn, kringumstæður hans og tilvistarskilyrði að meginviðfangsefni sínu. Samhengið í verkum Guðbergs er með öðrum orðum ekki einleikið og sjálfur segir hann eftirfarandi um sögurnar sínar í viðtalsbókinni Guðbergur Bergsson metsölubók (1992): „Sögurnar eru eins og maðurinn – aldrei einvörðungu þær sjálfar heldur skírskota þær til víðara sviðs og minna á að enginn er eingetinn; allt eru endurtekin orð. Þær eru því gletta á sinn hátt“ (200).
Hér verður skáldskapur Guðbergs ekki kortlagður og sú djúpstæða samræða sem þar má greina milli veruleika íslenskrar menningar og samfélags annars vegar og vestrænnar menningarsögu og frásagnarhefðar hins vegar. En til þess að nálgast samhengið í skáldskap Guðbergs; til þess að þreifa um stund á „víðara sviði“ skáldskapar hans og þeirri skapandi endurtekningu sem minnst hefur verið á, getur lesandi slegist í för með manninum í Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar (1997). Maðurinn er kominn í hús æsku sinnar; húsið sem stendur í þorpinu Grindavík við sjávarsíðuna á suðvesturhorni Íslands. Það gengur á með hviðum og maðurinn segist finna til öryggis við að heyra átök stormsins við viðinn í húsinu. Þar vill hann leita að upprunanum og ganga að eigin vild inn í hvaða atburð fortíðarinnar sem er.
En er það hægt? Hver er þessi maður? Og hvað kemur leit hans sögunum við sem eru aldrei einvörðungu þær sjálfar heldur skírskota til víðara sviðs og minna á að enginn er eingetinn; allt eru endurtekin orð.
Maðurinn er „Guðbergur Bergsson“ og hann hefur afráðið að gera uppruna sinn að viðfangsefni í ritverki um föður, móður og dulmagn bernskunnar. Eins og eftirfarandi skilgreining hans á upprunanum ber með sér, er verkið ekki hefðbundin sjálfsævisaga: „Uppruni manns er alls staðar og hvergi, en hann er jafnan að finna í hugsuninni og orðunum“ (27). Lesandinn er líka minntur hvað eftir annað á þá endursköpun forms og innihalds sem hér um ræðir. Þegar í inngangi verksins má finna eftirfarandi orð: „Þetta verk er sagnfræðilega rangt. Því er einungis ætlað það hlutverk að vera nokkurn veginn rétt, tilfinningalega séð, hvað höfundinn varðar. Þetta er því skáldævisaga.“ Þessi orð finna samhljóm í öðrum, þeim sem finna má skömmu síðar í byrjun fyrri hluta verksins og varða einnig vilja höfundarins og ætlun: Hann segist vilja skapa hliðstæðu við hið liðna í minningu foreldra sinna í rituðum orðum. Ævisögur, segir hann jafnframt í inngangi verksins, eru strangt á litið ekki til því „fátt glatast jafn algjörlega og ævi manns, þannig að aðeins er hægt að færa í letur löngun hans til að varðveita andblæ hennar í orðum.“
En hvað er andblær af ævi manns? spyr lesandi forviða. Hvað er skáldævisaga? Er þetta verk kannski náskyldara listinni en lífinu? Hvernig eru þessi mörk hugsuð?
Í gjörvöllu höfundarverki Guðbergs Bergssonar má greina þrotlausa hugsun um mörk lífs og listar. Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar er því ekki einstætt verk hvað efnistök Guðbergs varðar, heldur má þar finna margar af helstu spurningum skáldskapar hans sem og þá fagurfræðilegu afstöðu sem þær spretta af. Orðin um upprunann hér að framan, hvernig hann er alls staðar og hvergi en hvernig hann er jafnan að finna í orðunum og hugsuninni, kallast nefnilega á við fyrstu útgefnu verk Guðbergs, ljóðabókina Endurtekin orð (1961) og skáldsöguna Músin sem læðist (1961). Í þeirri fyrri má sjá skáld kynna sig á sviði þeirrar veraldar sem er vettvangur endurtekinna orða, orða sem eru í senn ofurseld guðshugmyndinni – þeirri hugmynd að guð sé höfundur tilverunnar – um leið og þau krefjast frelsis undan henni, til handa skapandi mannsmynd. Í hinni síðari má sjá skáldsagnahöfund glíma við umhverfi og innra líf drengs sem líkt og verður tilvistinni að bráð eftir að ægivald móður hans yfir honum brestur. Sprottinn úr berangurslegu landslagi, hrjóstrugu mannlífi og þeim veruleika menningar sem skáldskapurinn einn er fær um að tjá, skynjar drengurinn – lifandi dauður – á víxl takmörk sín og vilja frammi fyrir svimandi verkefninu: að lifa.
Slík er skynjun verka Guðbergs, líkt og mök séu höfð við tilveruna, tilraunakennd skynjun sem tekur á sig skapandi myndir hugsunar í endurtekningu orða við útmörk Evrópu. Í Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar er umrædd skynjun sjálft viðfang skáldsagnahöfundarins í leit að uppruna lífs og listar. Samfara þeim djúpstæðu spurningum sem verkið vekur í því efni, spurningum á borð við: Hvert er samband ímyndunar og dauða? Hvað er það við lífið sem deyðir manninn hið innra? Hvernig viðheldur maður trú sinni á lífið andspænis öllu því sem stöðugt er að deyja, hið ytra jafnt sem hið innra? Öðlast lesandi ekki aðeins þátttöku í leit skáldsagnahöfundar að uppruna sínum, handan kreddu sagnfræðinnar um rétt og rangt og handan regluþrælkunar viðtekinna hugmynda um það sem á að vera satt í lífi manns, heldur í hugsun nútímaskáldsagnahöfundar um listina, séð frá sjónarhóli lífsins:
Ég veit að hugsunin getur farið vítt um loftið, sest á mölina og gróið marglit hvar sem hún festir rætur. Hún er ekki bæn til lífsins, lífið þarf ekki á bæn að halda, það fer sínu fram og hefur enga samúð með þeim sem eru á lífi og lífið hefur engin lögmál, bara við sem búum þau til. (232)
Nú kann það sem hér er nefnt sjónarhorn lífsins að fæða af sér harmleik. Í umræddri skáldævisögu Guðbergs öðlast lesandi líka tækifæri til að horfast í augu við bág tilvistarskilyrði í frásögn af uppvexti og lífsbaráttu föður hans og móður. En í stað þess að vekja tíma– og staðbundna samúð lesandans og fá hann eða hana til að hugsa í dúrnum: „Hvílíkt óréttlæti hefur almúgafólk á Íslandi mátt þola í byrjun 20. aldar!“ vekur Guðbergur mun meiri skelfingu með því að fá sama lesanda til að hugsa – í víðu samhengi – um mannlega náttúru og það bergmál lífsins sem nema má í skynleysi hennar. Í kjölfar slíkrar hugsunar verður þörf fólks fyrir manngerð lögmál ekki aðeins áþreifanleg, heldur hefur vandi mannlegrar tilvistar tekið við, án sýnilegrar lausnar. Maðurinn í húsinu – hann sem hefur ekki aðeins skapað sér gjörólík lífsskilyrði og lifað löngum stundum víðsfjarri hraunbreiðunni og þorpi æsku sinnar, heldur gert sjónarhorn lífsins aftur og aftur að viðfangsefni sínu í skáldskap – hann hefur þetta að segja um vonir manns í lífinu: „Maður getur aðeins gert sér vonir um að ráða við störf sín; næstum allt annað er óviðráðanlegt“ (93).
Í ókláruðu húsinu finnur Guðbergur sem barn það sem mótar seinna fagurfræðilega afstöðu hans í lífi og list: Hvernig það sem er ólokið og hálfkarað vekur sérstaka töfra, hvernig tilveran einkennist ekki af því sem er fullgert og tæmt heldur af hugsanlegum möguleikum. Þegar hann var barn fannst honum miklu leyndardómsfyllra og skemmtilegra að sitja undir vegg og finna hvernig þurr sandur í krepptum hnefa streymir kitlandi um lófann og fingurna, stöðugt meira eftir því sem hann tæmist og rennslið streymir hraðar út við handar jaðarinn og virðist fylla um leið hnefann af tómleika. Ég fann í þessum einfalda leik vitneskju um jafna tilveru fyllingar og tómsins, það að tómið er líka fylling, en auðvitað bara á sinn sérstaka hátt. Í þessu felst jafnvægi og hliðstæða efnis og efnisleysis, hins áþreifanlega og þess sem er ekki hægt að snerta nema með hugsun og skynjun þetta er samruni formsins og innihalds þess. Ég gat legið tímunum saman, stundum allan daginn við þessa iðju, finna unaðinn við að skynja efnið og efnisleysið bæði í hendi mér og í lífinu og kannski í listinni um leið, samruna forms og innihalds í tilverunni. (31-32)
Í leit að hugsanlegum möguleikum í húsi æskunnar hugsar maðurinn um sorgina sem lífið vekur og hvernig manns eigin sorg hefur engan annan tilgang en þann að vökva tilfinningarnar svo að þær þorni ekki upp. Sami maður segir á öðrum stað í annarri bók:
Um skáldskapinn hjá mér gegnir svipuðu máli og lífið: ef mannveran gæti valið einhvern annan vettvang fyrir skynjanir sínar eða heild en lífið sem hún lifir, þá mundi hún velja hann og hafna lífinu. Lífið er aðeins ill nauðsyn fyrir þann sem fæðist. Það sama gæti ég sagt um iðkun mína eða skáldskap minn. […] það að kunna að flokka tilfinningar og gefa þeim nöfn gildir einu fyrir hausinn eða búkinn sem elur þær af sér. Þess vegna segi ég, að til allrar hamingju fyrir tilfinningar mínar finnst mér líkt og ég sé lifandi dauður í senn.
(Guðbergur Bergsson metsölubók, s. 70.)
En hver eru þessi mörk lífs og listar? Maðurinn í húsinu rifjar upp banalegu móður sinnar og hvernig hann á dánarbeði hennar fann fyrir djúpri smán: Dauðastríð móðurinnar vakti minningu um sögu eftir Borges, sögu um konu sem lá fyrir dauðanum en æskublóminn birtist skyndilega á andliti hennar. Hann man að honum fannst hann vera á valdi skáldskaparins, eins og veruleiki sinn væri veruleiki skáldskapar. „Var þá ekkert til nema skáldskapur í lífinu?“, spurði hann sjálfan sig. „Er það sem vekur sögur alltaf einskonar dauðastríð?“ (190). Í þessu efni man hann eftir dulmagni bernskunnar, hvernig hugmyndir um skáldskapinn og eðli hans fæddust og hvernig skáld deyr í verki sínu svo því takist að lifa sjálfstæðu lífi.
Hér verður ekki leitað endanlegra svara við spurningunni: Er þá ekkert til nema skáldskapur í lífinu? Annar maður í annarri sögu Guðbergs kann hins vegar að varpa frekara ljósi á efnið; á þessa þrotlausu hugsun um mörk lífs og listar og hvernig þau mörk eru í senn bundin sköpun og dauða í innra lífinu. Í skáldsögunni Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma (1993) hittir lesandi fyrir persónu sem afræður að lifa möguleika mannlegrar náttúru, bæði í lífinu og á pappír. Eftir að hafa lifað vammlausu lífi sem eiginmaður, faðir og kennari í Reykjavík nútímans, erfir hann íbúð og elskhuga æskuvinar síns. Við tekur ástríðukennd prófun á möguleikum þeirra tilfinninga sem hverri manneskju stendur til boða; maðurinn stígur með fúsum og frjálsum vilja upp í þá hringekju tilfinningasambanda sem menningarsagan knýr. Líkt og Ágústínus í Játningunum sínum skráir maðurinn í dagbók sína þrotlausa leit anda og líkama að mögulegum farvegi fyrir ást sína á lífinu, sjálfum sér og öðrum. En ólíkt Ágústínusi – hann sem tekur á endanum ástina á guði fram yfir tilvist í bitru mannhafinu – er maðurinn í skáldsögu Guðbergs kvöldu ástinni trúr. Fyrir vikið getur lesandi ekki aðeins skynjað ógnina sem býr í lífinu, ógn sem maðurinn í Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar einsetur sér að ganga til móts við og „eignast fyrir bragðið eitthvað sem yrði jafn ævarandi og kvölin yfir að hafa fæðst“ (169), heldur listrænt gildi lífstjáningarinnar í þeirri bókmenningu sem við á Vesturlöndum fæðumst í og deyjum frá eftir fálmkenndar tilraunir í því sem skáldið kallar ævilangt umkomuleysi:
Kannski er lífstjáningin, ást manns á lífinu, ástin á manni sjálfum og öðrum stöðugur dauði einhvers í fari okkar, andlát þess sem við vildum síst sjá af og þráum að verði eilíft vegna þess að það sama gildir um hugsunina og efnið: eftir að hún hefur verið mynduð, hlýtur hún líka að eyðast.Þess vegna hefur farið á annan hátt en ég hélt í upphafi: að ef ég gerði dagbókina að trúnaðarvini mínum mundi ég veita tilfinningunum eilíft líf í orðum. Reynslan hefur orðið önnur. Lífstjáningin og ástin hafa beðið í þeim vissan bana. Ég held að ég hafi ekki getað gefið neinu í lífi mínu listrænt varanlegt form eða ódauðlegt innihald og ég elski í raun og veru ekkert nema efnið sem ég færi í dagbókina til þess að eyða því þar.
(173)
Birna Bjarnadóttir
Ég vil þakka Ástráði Eysteinssyni fyrir lestur á þessari samantekt.
Greinar
Almenn umfjöllun
Birna Bjarnadóttir: Holdið hemur andann. Um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003
Birna Bjarnadóttir: „Í guðlausu fjaðrafoki. Um sambönd og innra líf í sögum Guðbergs Bergssonar“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 1. tbl. 1998, s. 34-52
Birna Bjarnadóttir: „Fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar : kynning á doktorsverkefni“
Tímarit íslenskra háskólakvenna, 2. árg., 2. tbl. 1999, s. 12-16
Einar Kárason: „Af þremur sagnamönnum“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 2. tbl. 1988, s. 208-217
„Entervista con Gudbergur Bergsson, escritor“ (viðtal)
Cuadernos Cervantes de la Lengua Espanola, 27. árg. 2002, s. 8-9
Garðar Baldvinsson: „Goðverur loftsins : um Tangasögur Guðbergs Bergssonar“
Stína 2012, 7. árg., 1. tbl. bls. 81-99.
Jakob F. Ásgeirsson: „Guðbergur“ [viðtal við Guðberg Bergsson rithöfund]
Í húsi listamannsins : 25 svipmyndir,. Ugla, Reykjavík, 2006, s. 32-48
Marta Jerábková-Bartoskova: „Guðbergur Bergsson (1932- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Partick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 70-76
Jón Yngvi Jóhannsson (ritstj.): Ritþing um Guðberg Bergsson
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 1999
Tone Myklebost: „En fandenivodsk ironiker : møte med Guðbergur Bergsson“
Vinduet, 54. árg., 1. tbl. 2000, s. 53-56
Örn Ólafsson: „Guðbergur Bergsson“
Stína 2012, 7. árg., 2. tbl. bls. 44-53.
Um einstök verk
Anna
Ólafur Jónsson: „Anna. Ritdómur“
Skírnir, 144. árg., 1968, s. 234-237
Steinunn Inga Óttarsdóttir: „Maðurinn er ekki einn. Gróteska í Önnu Guðbergs Bergssonar“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 3. tbl. 1994, s. 26-29
Ástir samlyndra hjóna
Gunnar Benediktsson: „Ástir samlyndra hjóna. Ritdómur“
Tímarit Máls og menningar, 29. árg., 1. tbl. 1968, s. 89-94
Jóhanna Sveinsdóttir: „Guðbergsk siðbót“
Tímarit Máls og menningar, 39. árg., 3. tbl. 1978, s. 281-300
Sverrir Hólmarsson: „Ástir samlyndra hjóna, tólf tengd atriði“
Skírnir, 142. árg., 1968, s. 191-194
Don Kíkóti frá Mancha
Sigrún Ástríður Eiríksdóttir: „Miguel de Cervantes. Don Kíkóti frá Mancha I-VIII“
Skírnir, 159. árg., 1985, s. 274-286
1 1/2 bók – hryllileg saga
Kári Páll Óskarsson: „Hryllileg bók“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 1. tbl. bls. 115-8.
Eins og steinn sem hafið fágar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Að hafa fjarlægð á nálægðina“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 3. tbl. 1999, s. 108-112
Endurtekin orð
Einar Bragi: „Litið í fáeinar ljóðabækur“
Birtingur, 8. árg., 1.-2. tbl. 1962, s. 43-64
Þorgeir Þorgeirsson: Ritdómur
Tímarit Máls og menningar, 23. árg., 4.-5. tbl. 1962, s. 418-420
Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar
Birna Bjarnadóttir: „Endurfæðing harmleiks. Um skapandi mörk lífs og listar í skáldævisögu Guðbergs Bergssonar“
Andvari, 124. árg., 1999, s. 141-156
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Það að lifa er að setja tæting saman“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 4. tbl. 1998, s. 132-136
Þórður Helgason: „Þetta er skáldævisaga“
Frjáls verslun, 59. árg., 2. tbl. 1998, s. 70
Flateyjar Freyr
Pétur Örn Björnsson: „Nokkur orð um Flateyjar-Frey“
Mímir, 18. árg., 1. tbl. 1979, s. 52-65
Froskmaðurinn
Margrét Eggertsdóttir: Ritdómur
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 1. tbl. 1987, s. 119-123
Örn Ólafsson: Ritdómur
Skírnir, 160. árg., 1986, s. 335-340
Hið eilífa þroskar djúpin sín
Berglind Gunnarsdóttir: „Lifandi rómur; vegna nýlegra ljóðaþýðinga úr spænsku“
Skírnir, 168. árg., vor 1994, s. 219-232
Hin eilífa þrá – lygadæmisaga
Ásta Kristín Benediktsdóttir: „Af lottómiðum og SÁÁ-álfum“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 50.
Hinsegin sögur
Kristján Árnason: „Hinsegin sögur. Ritdómur“
Skírnir, 159. árg., 1985, s. 297-300
Hjartað býr enn í helli sínum
Þorvaldur Kristinsson: „Þetta eru vorir tímar“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 3. tbl. 1983, s. 337-340
Leikföng leiðans
Gunnar Benediktsson: „Þrjú ung sagnaskáld“
Tímarit Máls og menningar, 29. árg., 1. tbl. 1968, s. 83-94
Gunnar Sveinsson: „Ritfregnir“
Skírnir, 138. árg., 1964, s. 280-281
Jón frá Pálmholti: „Spegill á kojugaflinum“
Birtingur, 10. árg., 1.-4. tbl. 1964, s. 149-151
Þorsteinn frá Hamri: „Grindavík“
Tímarit Máls og menningar, 25. árg., 4. tbl. 1964, s. 403
Leitin að landinu fagra
Guðmundur Andri Thorsson: „Ó, hann felur djúp sín“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 1. tbl. 1987, s. 114-119
Lömuðu kennslukonurnar
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lömuðu kennslukonurnar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Missir: stuttsaga
Ásta Gísladóttir: „Saga um tvo líkama“
Spássían 2010, 1. árg., 1. tbl. bls. 36-7.
Guðbjörn Sigurmundsson: „Skyggnst undir yfirborðið“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 1. tbl. bls. 141-3.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Vatnið suðar í katlinum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Músin sem læðist
Ólafur Jónsson: „Músin sem læðist: ritdómur“
Andvari, 87. árg., 2. tbl. 1962, s. 233-235
Gunnar Sveinsson: „Ritfregnir“
Skírnir, 136. árg., 1962, s. 236-237
Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma
Geir Svansson: „Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“
Skírnir, 172. árg., haust 1998, s. 476-512
Friedhelm Rathjen: „Weißes, teuflisches Geheimnis : Guðbergur Bergsson“
(um Svaninn og Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma)
Tintenkurs Nordwest : 2006, s. 152-156
Svanurinn
Ástráður Eysteinsson: „Í svartholi eða svanslíki. Heilabrot um tvær nýjar skáldsögur“
Skírnir, 166. árg., 1992, s. 211-225
Umbrot : bókmenntir og nútími, s. 320-334. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999
Hallgrímur Helgason: „Hin hversdagslega eilífð“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 1. tbl. 1992, s. 99-104
Friedhelm Rathjen: „Weißes, teuflisches Geheimnis : Guðbergur Bergsson“
(um Svaninn og Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma)
Tintenkurs Nordwest : 2006, s. 152-156
Torfi Tulinius: „Um Svaninn eftir Guðberg Bergsson“
Bjartur og frú Emilía, 6. árg., 1. tbl. 1992, s. 14
Tómas Jónsson: metsölubók
Árni Óskarsson: „Sannleikur hugaróra og ótrúlegrar lygi“
Fjölnir, 1. árg., 2. tbl. 1997, s. 61-63
Ástráður Eysteinsson: „Fyrsta nútímaskáldsagan og módernisminn“
Umbrot : bókmenntir og nútími, s. 56-91
Bjarni Benedikt Björnsson: „Karllæg þjóð í kör: Tómas Jónsson Metsölubók“
Mímir, 39. árg. (48). 2000, s. 55-68
Ólafur Jónsson: „Tómt mas, Tómas?“
Líka líf: greinar um samtímabókmenntir. Reykjavík: Iðunn, 1979, s. 100-113
Sigfús Daðason: „Útmálun neikvæðisins“
Tímarit Máls og menningar, 27. árg., 4. tbl. 1966, s. 423-426
Svavar Steinarr Guðmundsson: „Bræðrabylta : af karlfauskunum Þórði Sigtryggssyni og Tómasi Jónssyni“
Ritið 2013, 13. árg., 2. tbl. bls. 107-25.
Sverrir Hólmarsson: „Um bækur. Tómas Jónsson metsölubók“
Mímir, 61. árg., 1967, s. 39-41
Tóta og táin á pabba
Hildur Hermóðsdóttir: „En víst er táin laglegt leikfang“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 1. tbl. 1984, s. 113-116
Ólöf Pétursdóttir: „Tóta og táin sem týndist“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 3. tbl. 1986, s. 329-332
Það sefur í djúpinu
Dagný Kristjánsdóttir: „Um bækur. Það sefur í djúpinu“
Mímir, 13. árg., 1. tbl. 1974, s. 40-42
Brot úr greinum
Úr Tóta og táin sem týndist
Bók Guðbergs er einnig gleðilegur viðburður í sögu íslenskra barnabókmennta fyrir það að hér birtist ómenguð fantasía sem stendur undir nafni. Á sama hátt og í ódauðlegum listaverkum Lewis Carroll er draumaheimur kannaður. Þar eru að verki önnur lögmál en í vökuheimi en milli draums og vöku liggja margslungnar taugar. Að baki fantasíu Guðbergs býr engin leiðinleg siðapredikun. Nei, hér á að skemmta þeim sem kemur auga á tvíræðnina og það tekst dável. Jafnframt má ætla fantasíunni það hlutverk að sætta bernska lesendur við erfið tímamót í uppvextinum, án þess að þeir þurfi að gleypa við meinhollu en bragðvondu lýsi fullorðinsskynseminnar - hvorki með eða án sykurhúðar.
(s. 329-330)
Sjá Ólöf Pétursdóttir: „Tóta og táin sem týndist“
Úr En víst er táin laglegt leikfang
Það hlýtur að vera mikið vandaverk að skrifa bókmenntir fyrir börn og til að gera það hlýtur höfundurinn að verða að beita sjálfan sig miklum aga. Hann verður að setja sig í spor barnsins, tala við það þannig að það skilji án þess að tala niður til þess. Hann verður að neita sér um að láta ýmislegt flakka sem annars væri nothæft fyrir fullorðna og hann verður að hafa eitthvað fram að færa, eins og auðvitað allir höfundar. Þessi skilyrði uppfyllir Guðbergur vel að öllu öðru leyti en því að hann lætur of mikið flakka, með öðrum orðum hann skýtur yfir markið í tvíræðni. Orðaval er slíkt að ekki fer á milli mála þegar skírskotað er til kynlífssviðsins, en því verður hins vegar ekki á móti mælt að Guðbergur er meistari tvíræðninnar og framan af sögunni heldur hann sér vel á mottunni. Þegar líður á verður tvíræðnin of groddaleg og þá á kostnað hins gamansama ævintýris um tána sem eignast eigið líf og leikur lausum hala út um borg og bý með telpunni Tótu. Með ofurlítið mildari orðalagi hefði það ævintýri notið sín betur og viðkvæmar sálir sloppið við hrollinn.
Einhvern veginn er það svo að í barnabókum eru kynhvöt og árásarhvöt bannorð. E.t.v. er þetta ein ástæða þess hve barnabækur eiga erfitt uppdráttar. Margar hverjar hafa hreinlega lítið að segja barninu, jafnvel þó að þær séu vel gerðar og dálítið skemmtilegar. Vantar ekki einmitt lesefni sem getur leyst eitthvað af bældum hvötum barna úr læðingi eins og t.d. gömlu ævintýrin gerðu? Bæði árásarhvöt og kynhvöt, eru ríkur þáttur í sálarlífi barna. Mjög fátt í samfélaginu gefur börnum tækifæri til eðlilegrar útrásar á þessum sviðum, allra síst þær bækur sem þeim eru ætlaðar. Guðbergur rýfur þessa hefð og og ryðst inná bannsvæði barnabókmenntanna.
(s. 115-116)
Sjá Hildur Hermóðsdóttir: „En víst er táin laglegt leikfang.“
Úr Ósegjanleg ást
Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma er gegndarlaus gagnrýni á borgaralega orðræðu og gildi. Líka ádeilu er að finna að meira eða minna leyti í öllu höfundarverki Guðbergs Bergssonar en sjaldan hefur hún verið beittari og meinhæðnari en hér. Tómas Jónsson. Metsölubók hneykslaði á sínum tíma en það er nær óhugsandi að Sú kvalda ást hefði fengist útgefin á því herrans ári 1966. Skáldsagan olli samt engu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 1993. Kannski hafa frekar dauflegar viðtökur hennar að einhverju leyti verið vegna þess að bókin kom í kjölfarið á glæsisiglingu Svansins á íslenskri bókmenntatjörn. Sú kvalda ást er að mörgu leyti margræðari, meira ögrandi og mun ósvífnari. Orðræða sögunnar er nýstárleg í íslenskum bókmenntum og árásir á helstu stofnanir samfélagsins óvægnar og hefðu einhvern tíma verið kallaðar ótækar. Þessi atriði eiga eflaust þátt í því hvað þessi mikilvæga og magnaða skáldsaga fór tiltölulega hljótt en hugsanlega hefur umfjöllunarefnið sjálft líka haft sitt að segja. Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma er fyrsta íslenska skáldsagan þar sem ástarsamband tveggja karlmanna er í brennidepli og þar sem slíku sambandi er lýst á raunsæislegan og hispurslausan hátt.
(s. 506)
Geir Svansson: „Ósegjanleg ást: hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi.“
Verðlaun
2013 - Heiðursdoktorsnafnbót við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði Háskóla Íslands
2004 - Norræn bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar
2001 - Heiðurslaun listamanna
1997 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar
1994 - Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu
1991 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Svanurinn
1988 - Heiðursmerki spænsku krúnunnar: Riddarakross afreksorðunnar (Cruz de la Orden del mérito Civil) fyrir framlag hans til spænskra bókmennta sem þýðandi
1983 - Menningarverðlaun DV: Hjartað býr enn í helli sínum
1978 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1967 - Bókmenntaverðlaun dagblaðanna
Tilnefningar
2016 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Þrír sneru aftur
2014 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Þrír sneru aftur
2010 - Íslensku þýðingarverðlaunin: öll dagsins glóð: Safn portúgalskra ljóða 1900-2008
2006 - NONINO bókmenntaverðlaunin (á Ítalíu): Il Cigno (Svanurinn) í ítalskri þýðingu Silviu Cosimini
2000 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar
1999 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Eins og steinn sem hafið fágar
1999 - Aristeion verðlaunin: Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar
1998 - Menningarveðlaun DV: Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar
1993 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma
1993 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Svanurinn
1982 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans
1975 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Það sefur í djúpinu og Hermann og Dídí
Hálfgerðar lygasögur með heilagan sannleika í bland
Lesa meiraSkáldið er eitt skrípatól. Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa
Lesa meiraTre mand vendte tilbage
Lesa meiraTómas Jónsson: Bestseller
Lesa meiraÞrír sneru aftur
Lesa meiraLitla hugsanabókin: 100 léttar hugsanir fyrir allan almenning
Lesa meiraDeuil
Lesa meiraFlatey-Freyr
Lesa meiraHin eilífa þrá
Lesa meira
Popol vúh: trúarrit Kítse-indíána af kynstofni Maya
Lesa meiraÖll dagsins glóð
Lesa meiraStrákurinn sem var ekki stoltur af höndunum á sér
Lesa meiraEndurheimt
Lesa meiraLitla fiðlan
Lesa meiraAð uppgötva stafrófið
Lesa meiraVeronika ákveður að deyja
Lesa meiraEllefu mínútur
Lesa meiraDon Kíkóti : um hugvitssama riddarann Don Kíkóta frá Mancha
Lesa meira