Beint í efni

Guðbergur Bergsson

Æviágrip

Guðbergur Bergsson fæddist 16. október árið 1932 í Grindavík. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1955, hélt síðan til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958.

Fyrstu bækur hans, skáldsagan Músin sem læðist og ljóðabókin Endurtekin orð komu út árið 1961, en síðan sendi hann frá sér fjölda bóka af ýmsum toga, smásögur, skáldsögur, barnabók, skáldævisögur og fleira. Auk þess ritaði hann greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál í dagblöð og tímarit. Hann var einn afkastamesti þýðandi okkar úr spænsku og átti stóran hlut í að kynna spænsku- og portúgölskumælandi höfunda hér á landi. Bækur Guðbergs hafa verið þýddar á fjölmörg mál og hefur skáldsagan Svanurinn vakið mikla athygli víða um heim. Kvikmynd Ásu Hjörleifsdóttur sem byggð er á bókinni var frumsýnd 2017 en hún ber sama titil. 

Guðbergur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og 1998 auk þess að hafa verið tilnefndur til þeirra 1993 og 1997. Guðbergur hlaut Norræn verðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar árið 2004.

Guðbergur lést þann 4. september 2023.

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.