Beint í efni

Guðrún Helgadóttir

Æviágrip

Guðrún Helgadóttir fæddist í Hafnarfirði þann 7. september 1935 og ólst hún þar upp í stórum systkinahópi. Hún starfaði sem ritari við Menntaskólann í Reykjavík frá 1957 - 1967 og sem deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 1973 – 1980. Guðrún var fulltrúi Alþýðubandalagsins í borgarstjórn Reykjavíkur frá 1978 – 1982 og alþingismaður frá 1979 - 1995. Hún var forseti Alþingis 1988 - 1991, fyrst kvenna til að gegna því embætti.

Fyrsta bók Guðrúnar, Jón Oddur og Jón Bjarni, kom út árið 1974 en hún er fyrsta bókin af þremur um þessa uppátektasömu tvíburabræður. Allar hafa þær verið endurútgefnar mörgum sinnum og gerð hefur verið kvikmynd byggð á sögunum. Guðrún var einn þekktasti núlifandi barnabókahöfundur á Íslandi og hafa bækur hennar verið þýddar á fjölmörg tungumál. Hún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 1992 fyrir bók sína Undan illgresinu, var tilnefnd til H.C. Andersen verðlaunanna 1988 og hefur auk þess fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín á Íslandi, meðal annars var bókin Öðruvísi fjölskylda tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004. Árið 2018 hlaut hún Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi.

Guðrún skrifaði aðallega fyrir stálpuð börn en sendi einnig frá sér nokkrar myndabækur fyrir yngri börn með myndskreytingum eftir þekkta listamenn. Hún sendi frá sér eina skáldsögu og sjónvarpsleikrit fyrir fullorðna. Leikrit hennar Óvitar var frumflutt í Þjóðleikhúsinu 1979 og hefur einnig verið sett á svið í Færeyjum og Noregi.

Árið 2019 setti Reykjavíkurborg á fót ný barnabókaverðlaun sem veitt eru fyrir handrit að barna- eða unglingabók og eru þau kennd við þennan merka barnabókahöfund, Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. 

Guðrún Helgadóttir lést þann 23. mars, 2022.

___

Þann 5. október 2014 var haldin hátíðardagskrá í Borgarbókasafninu Grófinni undir yfirskriftinni „Að þið skulið vera að þessu“, í tilefni af fjörutíu ára rithöfundarafmæli Guðrúnar Helgadóttur.

Dagskráin var haldin í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg og Forlagið, og á sama tíma var opnuð sýning tileinkuð höfundarverki Guðrúnar, þar sem sjá mátti myndir úr bókunum í félagi við fleygar tilvitnanir.

Fram komu Ari Eldjárn, Katrín Jakobsdóttir (í félagi við syni tvo) og Silja Aðalsteinsdóttir. Guðni Franzson og Egill Ólafsson fluttu atriði úr tónverki Guðna sem samið var við Ástarsögu úr fjöllunum. Og Hildur Knútsdóttir ræddi við Guðrúnu sjálfa.

Hér fyrir neðan má sjá upptöku af dagskránni. Hljóðupptakan mætti vera betri en þó má vel heyra hverju fram fer.