Beint í efni

Hjörtur Pálsson

Æviágrip

Hjörtur Pálsson er fæddur 5. júní 1941 að Sörlastöðum í Fnjóskadal í S-Þingeyjarsýslu og ólst upp í Fnjóskadal og á Akureyri. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1961. Hann lagði stund á íslenska málfræði, bókmenntir og sögu við Háskóla Íslands og útskrifaðist með Cand.mag. próf í íslenskum fræðum í upphafi ársins 1972. Hann stundaði nám í finnsku og finnskum fræðum og bókmenntum við HÍ á árunum 1987-91, dvaldist sumarlangt í Helsinki 1991 og sat á sumarnámskeiði í finnsku í háskólanum í Tampere ári síðar. Hann tók þátt í einu af þýskunámskeiðum Germaníu haustið 1997 og lagði stund á forngrískunám við HÍ 1998-99. Hann hefur jafnframt verið búsettur í Kanada, Danmörku og Færeyjum.

Hjörtur starfaði sem blaðamaður á Tímanum 1961-62 og Alþýðublaðinu 1963-64. Hann var bókavörður í Íslandsdeild bókasafns Manitobaháskóla, Elizabeth Dafoe Library, í Winnipeg 1963. Hann vann við ýmis störf hjá Ríkisútvarpinu samhliða námi á árunum 1964-72, bæði sem fréttamaður og dagskrárfulltrúi. Hjörtur var dagskrárstjóri hljóðvarpsdeildar Ríkisútvarpsins 1972-84, en var á þeim tíma tvívegis árlangt í orlofi í Danmörku. Gegndi þá fyrst lektorsstöðu í íslensku og íslenskum bókmenntum við Árósaháskóla 1974-75 í forföllum annars, en dvaldist í seinna skiptið, 1982-83, við ritstörf í Digterhjemmet, Julius Bomholts hus, á Fanø. Hann var forstöðumaður Norræna hússins í Færeyjum 1984-85. Hefur síðan stundað ritstörf og þýðingar, málfarsráðgjöf, prófarkalestur og fleiri skyld störf, einkum við útvarp og í tengslum við bókaútgáfu. Hann var við bókmenntarannsóknir í Lundi og Stokkhólmi haustið 1992.

Hjörtur hefur verið virkur í ýmiss konar félagsstarfi. Má þar nefna eftirfarandi: Margra ára þátttaka í starfi Norræna félagsins. Ritstjóri Norrænna jóla 1985-91. Fulltrúi í útgáfuráði Almenna bókafélagsins um 10 ára skeið og í dómnefnd af Íslands hálfu um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1976-82. Varamaður í stjórn Norræna þýðingasjóðsins um skeið, svo og í stjórn Rithöfundasjóðs Íslands og Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins. Í stjórn Rithöfundasambands Íslands um skeið og Soumi-félagsins frá 1998, formaður þess frá 1999 . Varamaður í Þjóðleikhússráði frá 1999.

Hjörtur hefur sent frá sér ljóðabækur auk  þess sem ljóð eftir hann hafa birst í tímaritum. Hann hefur þýtt mikinn fjölda bóka í bundnu og óbundnu máli, skáldverk, ferðabækur, barnabækur og önnur rit úr ensku, þýsku og Norðurlandamálum, þ.á m. færeysku og finnsku. Flestar þýðingarnar hafa verið prentaðar á bók, en hinar birst í blöðum og útvarpi eða verið leiknar á sviði. Auk þess er Hjörtur höfundur margra útvarpsþátta og hefur birt greinar og þýðingar í blöðum og tímaritum. Þá hefur Hjörtur séð um útgáfur fjölda bóka og búið þær til prentunar. Ljóð og önnur skrif eftir Hjört hafa birst í ýmsum safnritum, bæði hér á landi og erlendis.