Um þýðinguna
The Certificate eftir Isaac Bashevis Singer. Hjörtur Pálsson þýddi úr ensku.
Ég sat um hríð og reyndi að hughreysta sjálfan mig. Ég hafði lifað næstum full nítján ár í þessum heimi, þau gat enginn frá mér tekið ... Og ég hafði eytt nótt með Sonju, ástarnótt. Hana gat enginn tekið frá mér heldur. Fyrstu nítján árin voru áreiðanlega besti tími ævinnar. Seinna kom ellin ... En hvað sem öllu öðru leið, hver vissi hvort Kalmenzohn var í Varsjá eða hvort alheimurinn var ekki bara tilviljun? Og ef allt sem koma átti var fyrirfram ákveðið af æðri öflum, þá voru þeir einhvers staðar til sem vissu hvað fyrir mig mundi koma. Fyrir framan þá lá framtíð mín eins og opin bók.
Úr Vegabréfi til Palestínu
Já, þú verður mér þakklátur, en þú giftist einhverri annarri. Svona er ég alltaf heppin.
Ég samdi við Sonju um stefnumót kvöldið eftir; síðan lagðist ég upp í sófann og beið þess að Edúsja birtist. Ég sperrti eyrun í hvert skipti sem ég heyrði eitthvert hljóð í stiganum. Hvað hefur komið fyrir hana? hugsaði ég. Var ég ástfanginn af henni? Nei, Edúsja var ekki mín týpa. Hún var of mikil heimskona, of vinstrisinnuð, of mikil nútímakona fyrir mig. Ef ég átti að geta elskað og virt konu varð hún að vera eins og móðir mín - guðhrædd Jerúsalemsdóttir. Ung kona sem gat kysst einn karlmann í dag og einhvern annan á morgun gat aldrei öðlast virðingu mína. En hvað um sjálfan mig? Var hegðun mín eitthvað öðruvísi?
(s. 115)