Beint í efni

Kristján Karlsson

Æviágrip

Kristján Karlsson fæddist þann 26. janúar 1922 að Eyvík á Tjörnesi í Suður-Þingeyjarsýslu. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942 lagði hann stund á nám í enskum bókmenntum við University of Berkeley í Kaliforníu og lauk þaðan B.A.-prófi 1945. Hann hélt til New York í framhaldsnám við Columbia University og lauk þaðan M.A.-prófi í samanburðarbókmenntum 1947.

Kristján sat í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags 1979 og Hins íslenska þjóðvinafélags 1984-1985. Hann átti jafnframt sæti í dómnefnd Minningarsjóðs Björns Jónssonar 1985. Hann ritstýrði tímaritinu Islandica á árunum 1948-1952, sem gefið er út á vegum Cornell háskóla í Íþöku, Andvara 1984 og Skírni, ásamt Sigurði Líndal, 1983-1986. Kristján var einnig meðritstjóri Nýs Helgafells á árunum 1956-59.

Kristján hefur fengist við ljóðasmíð, smásagnagerð og greinaskrif auk þýðinga. Hann hefur ennfremur ritstýrt fjölda bóka. Hann stóð að ýmiss konar útgáfum áður en hann sendi frá sér ljóðabókina Kvæði árið 1976. Hann hlaut Davíðspennann 1991 fyrir ljóðabókina Kvæði 90 og viðurkenningu Rithöfundarsjóðs Ríkisútvarpsins ári síðar.

Kristján lést 5. ágúst 2014. Hann var kvæntur Elísabetu Jónasdóttur bókaverði.