Æviágrip
Yrsa Þöll Gylfadóttir er fædd þann 25. ágúst árið 1982 í Reykjavík og eftir fimm ára búsetu í Kanada ólst hún að mestu upp í Garðabæ.
Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2002 og flutti í kjölfarið til Frakklands til að nema franskar bókmenntir og málvísindi, fyrst við Michel de Montaigne háskóla í Bordeaux og loks við Sorbonne háskóla í París. Næst lauk Yrsa meistaraprófi í frönskum fræðum frá Háskóla Íslands, með viðkomu sem skiptinemi í UQAM háskóla í Montréal. Síðar lauk Yrsa kennsluréttindum á framhaldsskólastigi og prófi frá Leiðsöguskóla Íslands.
Auk skrifanna hefur Yrsa Þöll að mestu unnið sem leiðsögumaður og kennari (frönskukennari og kennari íslensku sem erlends máls) en hefur einnig fengist við túlkun og þýðingar, dagskrárgerð í útvarpi, séð um ritsmiðjur og kennt fullorðnum og börnum borðspil.
Fyrsta skáldsaga Yrsu Þallar var Tregðulögmálið (2010). Þriðja skáldsaga hennar, Strendingar (2020), var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins
Verðlaun
Tilnefningar
2021 - Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins: Strendingar
Greinar
Um einstök verk
Strendingar
Brynja Hjálmsdóttir: „Fyrir alla fjölskylduna"
Tímarit Máls og menningar 2021, 82. árg., 4. tbl.
Bekkurinn minn
María Bjarkadóttir: „Ólíkir krakkar í óvæntum aðstæðum – dagur í lífi skólasystkina“
Börn og menning 2020, 24. árg., 2. tbl.
Móðurlífið, blönduð tækni
Soffía Auður Birgisdóttir: „Hvað gerir maður ekki fyrir þessar mæður?"
Tímarit Máls og Menningar 2018, 79. árg., 2. tbl.
Tregðulögmálið
Ásta Gísladóttir: „Nútímastúlkurnar Nína og Úlfhildur“
Spássían 2010, 1. árg., vetur.
Um höfund
Flóknar konur og fyndnir krakkar!
Yrsa Þöll Gylfadóttir (f. 1982) hefur sent frá sér þrjár skáldsögur frá árinu 2010 auk sex barnabóka. Höfundarferli hennar einkennist af fínlegum og vönduðum stíl sem heillar lesendur á öllum aldri. En hún er líka glettinn höfundur og óhrædd við að prófa nýjar aðferðir og taka áhættu.
Skáldsögur
Tregðulögmálið (2010) er fyrsta skáldsaga Yrsu Þallar, en þar fylgjum við háskólanemanum Úlfhildi sem er að kljást við að skrifa BA ritgerð í bókmenntafræði. Hún á erfitt með að finna tengingu við fjölskyldu sína og samferðamenn og er föst í misheppnuðu sambandi við Binna sem er byltingarmaður í leit að málefni. Það er í sjálfu sér engin framvinda eða söguþráður í verkinu, en við fáum að fylgjast með innra stríði Úlfhildar og tilraun hennar til þess að finna tilgang í lífinu. Lýsingar hennar á umhverfi sínu eru fullar af vonbrigðum og kaldhæðni. Háskólasamfélagið er yfirborðskennt og endalaust upptekið af eigin ágæti en á sama tíma eini staðurinn sem Úlfhildur finnur einhvern farveg fyrir hæfileika sína. Tilgangsleysið er yfirþyrmandi og fær hana til þess að fjarlægjast fólkið í kringum sig. Verkið minnir um margt á háskólasögu (campus novel) sem er algengt fyrirbæri í til að mynda bandarískri bókmenntahefð en þar eru háleitar hugmyndir akademíu settar andspænis mannlegu eðli svo úr verða kaldhæðnar og oft hnífbeittar ádeilur. Þar má til að mynda nefna The Human Stain (2000) eftir Philip Roth sem tekst á við veruleika kynþáttafordóma og undirliggjandi valdakerfi. Verkin eru oftast sögð frá sjónarhorni akademískra starfsmanna, en þar má einnig finna skáldsögur sem eru skrifaðar útfrá sjónarhorni stúdenta. Þá er tónninn oftar einlægur og frekar gerð tilraun til þess að fanga tíðaranda. Skáldsaga Yrsu Þallar lendir einhverstaðar á milli þessara tveggja gerða, sem kaldhæðin ádeila frá sjónarhorni stúdents.
Verkið fellur einnig vel að svokölluðum hrunbókmenntum þar sem sögupersónur kljást við rótleysi eftir áfall efnahagshrunsins 2008. Hrunbókmenntir spanna ýmsar gerðir bókmennta og hefur áhrif hrunsins verið lesið inn í allt frá íslenskum glæpasögum til ljóðlistar. Það sem helst tengir þetta verk við hrunið er það stefnuleysi sem birtist í sögunni og pælingar um forréttindi og óréttlæti. Úlfhildur finnur vel fyrir forréttindum sínum en virðist á sama tíma staðsetja sig sem fórnarlamb einhvers óljós óréttar. Skáldsagan er metnaðarfullt verk og frábær tilraun til þess að fanga tíðaranda en helsti vankantur þess er að lesandi á erfitt með að finna fyrir samkennd með Úlfhildi sem hefur allt og alla á hornum sér.
Móðurlífið, blönduð tækni (2017) er önnur skáldsaga Yrsu Þallar en í henni kynnumst við Kamillu og fjölskyldusögu hennar. Kamilla er kona á miðjum aldri sem er dóttir eins fremsta framúrstefnu listamanns Íslands, listamanns sem snéri baki við maka sínum og börnum til þess að helga sig listinni. Það sem greinir söguna frá öðrum sambærilegum sögum er að listamaðurinn er kona að nafni Sirrí og hefur brotthvarf hennar af heimilinu þannig allt aðrar félagslegar afleiðingar en þegar karlmenn gera slíkt hið sama. Kamilla hefur þurft að takast á við þessa sögu alla ævi og er komin á nokkuð góðan stað í lífinu þegar ákveðið er að halda yfirlitssýningu um móður hennar. Sýningarstjórinn notfærir sér meðvirkni Kamillu og áður en hún veit af er hún komin í hörku rannsóknarvinnu um líf og starf móður sinnar. Restin af fjölskyldunni hefur lítinn áhuga á að upphefja listamanninn og því stendur Kamilla ein í þessu. Eins og fram kemur af titli bókarinnar þá er hér um blandaða tækni að ræða. Fyrri hluti verksins er mjög íhugull, þar kynnumst við fjölskyldunni og sjáum hvernig framferði Sirríar hefur haft áhrif á þau. Seinni hlutinn er hraðari og spennuþrunginn. Kamilla tekur afdrifaríka ákvörðun og þarf að gæta að framfylgd hennar og úrlausn. Þar myndast bæði mikil spenna og hlægilegar aðstæður sem koma allt öðruvísi við lesenda en fyrri hlutinn. Verkið fjallar um listina, barnæskuna en líka um það hverjir eigi rétt á sögunni og fyrir hverja hún sé skrifuð. Verkið settur fram áleitnar spurningar um að þörf okkar til þess að þekkja innstu rök listamannsins er oftar en ekki á kostnað þeirra sem standa honum næst og það hvernig opinbert líf stelur sögu aðstandenda.
En skáldsagan fjallar einnig um móðurlíf, í skilningnum: „lífið sem móðir.“ Sirrí og Kamilla hafa átt gjörólíkar upplifanir af móðurhlutverkinu. Sirrí upplifði barneignir sem árás sem ógnuðu henni og listrænum hæfileikum hennar á meðan Kamilla hefur notið þess að finna styrk í því að ala son sinn upp. Kamilla hefur meira að segja haldið áfram að vera skapandi þrátt yfir barneign og ræktað söngferillinn. En hún glímir heldur ekki við þessa þrúgandi hugmynd um listamanninn sem einfara og snilling, hún vinnur tónlist sína í samstarfi við aðra. Þótt hún hafi mikinn skilning á stöðu móður sinnar og beri virðingu fyrir ferli hennar finnur hún auðvitað fyrir beiskju og sorg í hennar garð. Verkið lýsir vel því flókna sambandi sem er á milli mæðra og dætra og er síalgengara viðfangsefni í nútímaskáldskap. Höfundur leikur sér mikið með kyngervi og hlutverk kynjana í verkinu og má segja að karlmenn innan verks eigi það allir sameiginlegt að vera háðir konunum í sínu lífi. Andstætt hefðbundnum kyngervum eru þeir stöðugt lúffandi fyrir geðþótta kvennanna, hvort sem það er í ástarmálum, trúarbrögðum eða innanhús innréttingu. Jafnvel í senu sem annars gæti túlkast sem kynferðislegt áreiti gegn Kamillu tekur hún fulla stjórn á aðstæðum og hafnar fórnarlambs-hlutverkinu. Hún verður nánast gerandi og karlmaðurinn situr eftir með efasemdir og skömm. Þetta er einmitt gott dæmi um það hvernig Yrsa Þöll sem höfundur er óhrædd við að takast á við staðlaðar hugmyndir um kyn og kyngervi.
Strendingar : fjölskyldulíf í sjö töktum (2020) er margradda fjölskyldusaga sem gerist í skálduðu sjávarplássi á Norð-Vesturlandi. Þar kynnumst við hjónum Evu og Pétri sem eiga saman tvö börn, hinn sex ára Steinar og Ólafíu sem er um sex mánaða þegar sagan hefst. Auk þeirra býr unglingsdóttir Evu úr fyrra sambandi hjá þeim. Sagan spannar sex mánuði af lífi þeirra, frá febrúar til júní og er sögð til skiptis frá sjónarhorni hvers fjölskyldumeðlims fyrir sig. Meira að segja heimiliskötturinn Mjálmar á sína kafla, en hann er furðuvera sem bætir ákveðinni fantasíuvídd við söguna. Raunverulegt nafn hans er Sahure, hann er fornaldardýr og getur rekið sögu sína aftur til forna og inn í aðrar víddir. Þeir atburðir sem eiga sér stað í sögunni eru bara stuttur kafli í hans langa lífi og setur það atburðarrásina í stærra samhengi. Þetta er skemmtileg viðbót við raunsæið í verkinu en getur líka virkað truflandi. Í öllu falli er þetta gott dæmi um hversu áreynslulaust Yrsa Þöll blandar saman mismunandi bókmenntagerðum.
Strendingar er að mörgu leyti áfallasaga, en móðir Péturs andast í upphafi verks og þau neyðast til að taka Berg föður hans inn á heimilið. Kaflar Bergs eru óreiðukenndir, þar sem hann glímir við heilabilun og er í huganum ýmist staddur heima á bænum sínum eða í fjölskylduferð til Benidorm. Margröddun sögunnar færir lesanda inn í heim hverrar sögupersónu fyrir sig og oft þarf að lesa um sömu atburði frá mismunandi sjónarhornum til þess að átta sig fyllilega á því hvað eigi sér stað. Á meðan Pétur glímir við andlát móður sinnar og heilabilun föður síns, þráir hann sjálfur að finna sig. Hann reynir að fylgja eftir gömlum skáldadraum og týnir sér í endalausum pælingum um fagurfræði og eigið fegurðarskyn. Eva kona hans er á sama tíma að glíma við mikla erfiðleika í vinnunni þar sem hún sem byggingarfulltrúi staðarins lendir í átökum við sterka hagsmunaðila. Þeir birtast í sögunni sem frekir karlar og er hún ásökuð um valdgræðgi og einræðistilburði fyrir það eitt að sinna starfi sínu. Hún stendur ein sem ung kona gegn karlaveldinu og fær engan stuðning frá samfélaginu. Hún fær taugaáfall og þarf að segja sig frá starfinu.
Átökin snúast um kirkju bæjarins og speglar frásögnin Innansveitarkroniku (1970) Halldórs Laxness og fylgir líkt og fyrirrennarinn örlögum kirkjunnar; allt frá deilum um hana, eyðileggingu hennar og þar til að hún tekur að rísa á ný. En ólíkt skáldsögu Laxness þar sem alvitur sögumaður leiðir okkur í gegnum þau átök sem eiga sér stað í sveitinni, þá fylgjum við hér rödd Evu sjálfrar sem í stað þess að leggja til atlögu við hagsmunaöflin dregur sig lengra og lengra inn í sjálfa sig. Átökin verða innri átök, taugaáfall og dvöl á geðdeild og úrlausnin felst í sjálfhjálparbókum og hugleiðslu. Þannig speglar verkið stöðu nútímamannsins þar sem öll átök verða spurning um innri afstöðu, væntingastjórnun og núvitund. Við þessar stóru frásagnir hjónanna bætast svo þroska og ástarsaga unglingsins Evu, sem er að kynnast sjálfri sér og eigin hæfileikum í flóknu félagslegu umhverfi. Drengurinn Steinar er komin með takmarkaðan skilning á þeim heimi sem hann er hluti af og reynir að fóta sig í honum með misgóðum árangri. Hér tekst verkið á við hugmyndir um einelti og hversu stutt er á milli þess að vera gerandi og þolandi. Í seinni hluta verks tekur smábarnið Ólafía svo til máls og skreytir söguna með sínum hugleiðingum og tilraunum til þess að ná utan um tungumálið. Verkinu tekst vel til að rúma allar þessar mismunandi frásagnir og gefa þeim form og eftirstanda áhugaverðar og flóknar persónur sem hvetja lesanda til umhugsunar.
Þessar þrjár skáldsögur Yrsu Þallar eru í raun gjörólíkar. Fyrsta er íslensk háskólasaga, svo saga Kamillu sem er bæði heimspekileg og spennuþrunginn og svo þessi margradda fjölskyldusaga með fantasíu ívafi. Hér er því um höfund að ræða sem er óhrædd við að láta inntakið móta formið og beita ólíkum stíl í ólíkum sögum. Sammerkt er þó áherslan á sterkar og ögrandi kvenpersónur og þroskasögur þeirra. Hvernig þær takast á við eigin hugmyndir og annarra um lífið og tilganginn. Verkin búa öll yfir innsæi og kímni og eru skrifaðar af metnaði og vandvirkni. Þó að höfundur bregði á leik með formið þá er rödd hennar ávallt tilstaðar.
Barnabækur
Yrsa Þöll hefur einnig sent frá sér sex barnabækur í bókaflokki sem nefnist Bekkurinn minn, en þar kynnumst við mismunandi krökkum sem eiga það sameiginlegt að vera í sama bekk í íslenskum skóla. Bækurnar er ætlaðar fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor í lestri og eru auðlesnar og vel uppsettar. Sögurnar eru skemmtilegar og sagðar frá sjónarhorni hvers og eins krakka fyrir sig. Þær byrja á blaðsíðu sem eldri lesendur kannast kannski við úr gömlu vinabókunum þar sem krakkarnir gera grein fyrir sér, sínum uppáhaldslit og áhugamálum. Það er hugað vel að öllum smáatriðum og uppáhaldslitur hverrar persónu fyrir sig er að finna á bókarkápu og er það einmitt hluti af því sem litlir lesendur kunna að meta. Bækurnar eru samvinnuverkefni Yrsu Þallar og Iðunnar Örnu þar sem sú síðarnefnda sér um myndirnar sem eru órjúfanlegur hluti af söguþræðinum. Þetta eru fjölbreyttar frásagnir sem opinbera heim barna í ólíkum aðstæðum. Eins og til að mynda saga Bjarna Freys í Geggjað óréttlátt (2020) þar sem við upplifum hið mikla óréttlæti sem felst í því að vera skammaður fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert. Í gegnum stutta frásögn af Bjarna Frey og Mikael vini hans tekst höfundi að opinbera heim þar sem sumum krökkum líður illa í skólanum. En það er ekki mikið rætt í barnabókum, sérstaklega ekki fyrir þennan hóp. Þessir tveir strákar hafa báðir upplifað óréttlæti í skólanum og fundið fyrir vanmátt og reiði. Í Lús! (2021) upplifum við hversdagsáfall með augum Sigríðar, sem einnig er í bekknum, en það hefst með tölvupósti um lús í bekknum. Við fylgjum Sigríði í gegnum angistina þegar á að kemba og eitra fyrir lús en líka vangaveltum hennar um tilvistarrétt lúsarinnar og nýlendustefnu. Í Prumpusamloka (2020) kynnumst við Nadíru sem er nýkomin til Íslands frá Írak og þarf að tileinka sér tungumálið, en líka Leónóru sem er sannfærð um að húsvörðurinn sé varúlfur. Þannig höfða bækurnar til krakka með mismunandi áhugamál og reynslu og gefa færi á að setja sig í stað annarra. Án þess þó að það sé verið að predika eitthvað, því sögurnar eru spennandi og grípandi og geta staðið einar. Eins og til að mynda í sögu Nadíru þar sem stelpurnar í bekknum eru að hjálpa henni að læra íslensku. Þær kenna henni að segja „prumpusamloka“, sem engin veit hvað þýðir og skemmta sér konunglega við að kalla orðið á eldri krakkana.
Þó að ljóst sé að verið sé að dýpka orðaforða barnanna með lestrinum þá flækist það ekki fyrir og fléttast eðlilega inn í sögurnar. Við fylgjumst alltaf með sama bekknum, svo persónur úr einni bók dúkka upp í hinum og þannig eiga Hulda og Lenóra, sem eru vinkonur Nadíru í fyrstu bókinni, sínar eigin bækur. Svo það er hægt að lesa um allan bekkinn eða eina og eina sögu eftir áhuga.
Allar bækurnar eru auðlesnar og ætlaðar byrjendum en bækur 1- 4 hafa líka verið gefnar úr í laufléttri útgáfu. Þá eru þær styttar örlítið og meira pláss á milli setninga, sem gerir þær enn læsilegri án þess að gefinn sé afsláttur af fjörinu.
...
Skáldsögur Yrsu Þallar eru áræðnar og metnaðarfullar tilraunir til þess að fanga íslenskan samtíma. Þær bera vott um vandaðan höfund sem veigrar sér ekki við því að vinna með bæði form og inntak á fjölbreyttan og áhugaverðan hátt. Persónusköpun Yrsu Þallar er einstaklega áhugaverð þar sem henni tekst vel að skapa margbrotnar persónur sem lesandi þarf að takast á við. Þær eru ekki endilega geðfelldar og taka ekki endilega réttar ákvarðanir en bera engu að síður uppi sögurnar þannig að lesandi neyðist til þess að kynnast þeim. Þetta á sérstaklega við um kvenpersónur á borð við Úlfhildi, Kamillu og Evu, og ber það vott um ferskan blæ í samtímabókmenntum þar sem konur eru oftast annað hvort sýndar sem vanmáttugar eða ofurhetjur. Hér ber við nýjan tón og þær fá að birtast sem flóknar persónur sem hafa atbeini og áhrif á eigið líf, til góðs og ills. Sama má segja um barnabækur Yrsu Þallar þar sem hún er óhrædd við að taka fyrir flóknar persónur þó það sé auðvitað allt annars eðlis þegar tekið er tillit til lesendahópsins. Þessi gerð bóka er oftar en ekki skrifuð á forsendum kennslufræði, sem getur verið gott og gilt, en hér sést greinilega hversu mikil gæði eru fólgin í skapandi nálgun og frásagnargleði. Auðlesnar bækur eru vanrækt bókmenntaform, en þær eru einmitt það fyrsta sem mætir börnum á leið þeirra inn í heim bókarinnar. Flestir foreldrar kannast vafalaust við að sitja yfir börnum við lestur á lestrarheftum sem eru hvorki til þess fallinn að vekja áhuga né gleði. Þá er allt kapp lagt á að kenna börnum stafi eða hljóð og engin áhersla á söguþráð eða inntak. Því er það mikið heillaspor fyrir íslenskar fjölskyldur að Yrsa Þöll og Iðunn Arna hafi tekið þennan bókaflokk fyrir og glætt hana nýju lífi með sögum úr íslenskum samtíma.
Rósa María Hjörvar, desember 2022
Bekkurinn minn 6 : Unnur Lea (Lauflétt að lesa)
Lesa meiraÞessi bók fjallar um Unni Leu og jólaskemmtun bekkjarins. Unnur Lea skrifar leikrit, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið! . .Bekkurinn minn 5 : Leonora (Lauflétt að lesa)
Lesa meiraÞessi bók fjallar um Leonoru og orðróminn um varúlfinn í skólanum.. .Bekkurinn minn 7 : Bumba er best!
Lesa meiraBumba er best fjallar um Óðin, sem er óvenju daufur í dálkinn þessa dagana.. .Rambó er týndur
Lesa meiraÁ æskuheimili hennar í Þingholtsstræti þótti svívirða að henda nokkru. Gömlu gólfborðin voru gersemi og gluggafögin heilög, silfurskottur voru krútt og myglusveppir voru ekki til. Allt gert frá grunni eða lagað, aftur og aftur, og sjaldan var nokkru skipt út. Samkvæmt pabba Söndru var æðsta dyggð mannsins að veita hinum forheimskandi heimi eyðslusemi og græðgi viðnám. Ikea var höfuðból plebba og uppaBekkurinn minn 5 : Varúlfurinn
Lesa meiraEr Héðinn húsvörður í alvörunni varúlfur sem er læstur inni í kompu þegar myrkrið skellur á?Bekkurinn minn 4: Hjólahetjan
Lesa meiraHjólahetjan fjallar um Jón Ingva sem lendir í vandræðum með hjólalásinn sinn þegar hann fer með pabba í vinnunaBekkurinn minn 3: Lús!
Lesa meiraLús! fjallar um Sigríði og lýsnar sem hreiðra um sig á höfði hennarStrendingar – fjölskyldulíf í sjö töktum
Lesa meiraSérhver fjölskylda geymir mörg líf og margar raddir. Í þessari skáldsögu fylgjumst við með hálfu ári í lífi fjölskyldu, þar sem allir sjö hugarheimar hennar fá röddBekkurinn minn 2: Geggjað ósanngjarnt!
Lesa meiraGeggjað ósanngjarnt! fjallar um Bjarna Frey sem finnst hann ítrekað hafður fyrir rangri sök