Beint í efni

Drekar, egg og ævintýri á gönguför

Drekar, egg og ævintýri á gönguför
Höfundur
Brian Pilkington
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur
Drekar, egg og ævintýri á gönguför
Höfundur
Áslaug Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur
Drekar, egg og ævintýri á gönguför
Höfundar
Julia Donaldson,
 Axel Scheffler
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Dimmalimm verðlaunin fyrir myndskreyttar bækur voru veitt í annað sinn nú í vikunni og komu í hlut Brian Pilkingtons fyrir bókina Mánasteinar í vasanum (Mál og menning 2003). Það er verulega ánægjulegt að sjá að loksins er farið að meta myndrænt framlag til bókmennta á þennan hátt og mikið væri nú ánægjulegt að sjá slík verðlaun ná yfir bæði barna og fullorðinsefni. Á hverju ári kemur út fjöldi barnabóka þar sem myndir og texti stuðla saman að því að skapa heild bókarinnar og eru slíkar bækur með eindæmum eftirminnilegar, myndir hafa sín eigin áhrif sem síðan spila á skemmtilegan hátt saman við textann. Hver man ekki eftir því að hafa skoðað aftur uppáhaldsbarnabók og uppgötvað að allt önnur saga bjó í minninu, saga sem er sprottin uppúr myndunum eða samspili þeirra við textann. Og svo eru náttúrulega sögur sem eru fyrst og fremst myndirnar og textinn er eiginlega meira en stuðningur, en dæmi um slíka bók er einmitt saga Pilkingtons.

Sagan segir frá öldu litlu sem á sér vin, Dínus. Það er aldrei tekið fram að vinurinn sé dreki en við sjáum það strax á myndinni. Alda og Dínus leika sér endalaust saman, drekinn fer með stelpuna í ferðalög um heima og geima og er líka voðalega flínkur að fela sig þegar mamma kemur inn: og þar birtist okkur snilli myndanna, því þegar mamma sér til Öldu litlu breytist drekinn í lítið tuskudýr sem er vel falið í myndinni. Þannig talar myndmálið stöðugt við textann og bætir hann upp. Því það helsta sem mætti finna hér að er að sagan er ansi léttvæg, sem skiptir í raun ekki máli því myndirnar segja svo mikið. Litanotkunin er frábær, drekinn er í grænum og bláum litum með appelsínugult fax og þessir dularfullu litir eru ráðandi í myndunum með drekanum, sem eru yfirleitt dálítið myrkar og ævintýralegar. Þegar mamman kemur til sögunnar breytast litirnir í hefðbundna bjarta liti, meira rautt og bleikt og ljóst og þannig eru dregin skil milli heimanna. Í heild segir bókin því fallega sögu um ímyndunarafl barna og þá gleði sem það veitir, og er þörf áminning til okkar fullorðnu um að hætta að vera alltaf svona óþolandi raunsæ!

Saga Áslaugar Jónsdóttur, Eggið (Mál og menning 2003), er sömuleiðs kannski ekki sérlega mikil saga, en myndirnar eru hinsvegar málið. Þeir sem muna eftir sögunni um bláa hnöttinn ættu að gleðjast, því myndirnar hér eru dálítið í sama stíl, fullar af hreyfingu og krafti. Áslaug notar einnig liti til að skapa andrúmsloft og hér eru ekki hefðbundnir 'barnalitir' heldur, fremur dempaðir, svona það sem litgreinendur myndu líklega kalla haustliti. Sagan lýsir því að egg deggur úr hreiðri og í fangið á villiketti. Þegar kötturinn ætlar að hremma það rúllar það í burtu og lendir í hinum ólíklegustu ævintýrum. Áslaug notar tungumálið skemmtilega og 'egg' orð eru allsráðandi: eggjandi, eggsléttur og eggjun. Í bland við persónur og hluti sem eru dregnir mjúkum línum með breiðum svörtum útlínum utanum, er einskonar klippimyndastíll notaður í bakgrunnin og þetta virkar mjög skemmtilega saman.

Ég verð að játa að mér finnst saga Juliu Donaldson, Greppikló (Mál og menning 2003), myndskreytt af Axel Scheffler og í þýðingu Þórarins Eldjárns, besta sagan af þessum. Reyndar las ég hana fyrir nokkrum árum á ensku, og hef verið á höttunum eftir henni síðan, og finnst þetta því mikill fengur. Greppikló segir frá ráðagóðri mús og gönguferð hennar um skóginn. Þar hittir hún fyrir ýmis dýr sem öll vilja éta hana, en hún hinsvegar gerir sig breiða og segist eiga góðan vin, Greppikló, sem passi uppá hana. Greppikló lýsir músin sem ægilegu skrýmsli, skögultenntu, með tryllt augu og langa tungu. Og viti menn, í því að músin hrósar sigri yfir þessum blekkingarleik birtist sjálf Greppiklóin út úr skógarþykkninu og ætlar sér músina í matinn. En músinni bregst ekki bogalistin, nei hún gerir sig enn breiða og segist aðal ógnvaldur skógarins. Greppiklóin trúir því tæplega, en samþykkir að fara í gönguferð með músinni og þar hitta þær fyrir hin dýrin...

Sagan er hreint frábær og þýðing Þórarins afbragð. Myndirnar eru skemmtilega barnslegar, næstum klaufalegar, skrýmslið sjálft einstaklega eitthvað ólögulegt og svipbrigði dýranna frábær, og skiptir þar miklu að augun eru stór og kringlótt. Músin sjálf, aðalhetjan, gengur alltaf upprétt og fær mjög mikinn persónuleika. Litirnir eru hefðbundnir frumlitir, grænt lauf og brúnir trjábolir, blár himinn og rauðar gorkúlur. Útlínurnar eru fínlegri en hjá Áslaugu, og meira af smáatriðum, án þess þó að myndirnar séu eins þrútnar af skemmtilegum blæbrigðum og myndir Pilkington.

Þar sem ég sit hér og fletti bókunum fram og til baka í leit að lýsingarorðum, þá get ég ekki annað en syrgt fátækt íslenskunnar, en það sárvantar almennt orðfæri til að tala um myndir, og mér finnst ég ekki ná að lýsa dásemdum þessara bóka nægilega, lífinu í myndunum, þessum þremur gerólíku myndheimum sem dregnir eru upp. Dulúðin og litagleðin í myndum Pilkingtons, þessar breiðu glöðu línur Áslaugar sem notar einfaldari og dempaðari liti og svo einfalt og dálítið hefðbundið yfirbragð mynda Scheffers – hef ég dregið upp mynd af þessu í orðum? Svo ég held áfram að fletta og horfa og skoða og niðurstaðan af öllu saman er einföld: það er hægt að fletta þessum bókum endalaust og gleðja sig við þær. Fyrir þá sem hafa ekki börn á heimilinu er alltaf hægt að nota þá afsökun að það þurfi að vera til svona bækur ef slíkt slæðist í heimsókn. Og svo er um að gera að koma sér þægilega fyrir og njóta.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2003