Beint í efni

Ég læt sem ég sofi

Ég læt sem ég sofi
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Einstæð móðir tveggja barna fær íbúð leigða á mjög góðum kjörum en kemst fljótlega að því að það er engin tilviljun. Húsið á sér afar sorglega sögu. Lögreglan er send heim til smákrimma og þar finnst fyrir tilviljun taska sem kann að varpa ljósi á margra ára gamalt mál – þegar ung stúlka hvarf úr garðskúr og sást aldrei aftur.

Ég læt sem ég sofi er fjórða og síðasta bókin um lögreglumennina Karó og Tý og réttarmeinafræðinginn Iðunni en serían hófst á Lok, lok og læs.

Úr bókinni

  Á meðan Guðmar sótti símann í vasann til að skoða skilaboðin greip Karó inn í. Henni var orðið of kalt til að skoða skilaboð sem augljóslega voru röng eða í það minnsta illa orðuð.„Það væri gott ef þú hringdir í hana og fengir hana til að koma heim.“ Karó vildi síður þurfa að fara tvisvar með sömu erfiðu rulluna um peysuna og svo var einhvern veginn ósanngjarnt að annað hjónanna fengi fréttirnar fyrst. „Það sem við ætlum að ræða við ykkur snýst um hvarf dóttur ykkar. Það væri betra ef þið væruð bæði viðstödd.“

  Maðurinn opnaði munnin en kom ekki upp orði. Hann starði á þau opinmynntur á meðan hann virtist vera að melta þetta. Svo leit hann undan þegar sársauki færðist yfir andlitið, sneri sér aftur að símanum og hringdi. Þegar konan hans svaraði ekki leit hann á þau og stakk upp á því að þau færu saman til hennar í vinnuna. Begga, konan hans, hlyti að vera þar. Kannski væri hún of upptekin við að klára pöntunina sem bráðlá víst á, nú eða þá að hún væri með tónlist í eyrunum og heyrði ekki í símanum. Hann tvíté, vissi ekki hvort hann ætti að taka soninn með eða skilja hann einan eftir. Á endanum varð niðurstaðan sú að Hrafn kæmi með. Hann fullvissaði þau um að á vinnustað konunnar væri afdrep þar sem barnið gæti beðið á meðan þau segðu þeim fréttirnar. Maðurinn opnaði inn, kallaði í drenginn og klæddi hann í úlpu í anddyrinu.

  Þetta var ekki ákjósanleg staða. Ef þau skildu óðamála manninn rétt þá vann konan hans hjá fyrirtæki í dúnvinnslu. Karó hefði miklu frekar kosið að ræða við þau í stofunni heima hjá þeim. Hún vissi ekkert um þetta fyrirtæki en það var eitthvað kaldranalegt við það að fólkið fengi fréttirnar í vinnunni. Fæstir vinnustaðir voru innréttaðir með hlýju í huga. Andrúmsloftið gekk yfirleitt út á annað, hreinlæti, afköst og öryggi. Ekkert fyriræki hugsaði fyrir því að starfsfólki lið vel þegar það fengi slæmar fréttir.

Þegar þau óku að dúnvinnslunni fékk Karó enn meiri bakþanka. Dyrnar á innganginum stóðu opnar og hún sneri sér við til að spyrja manninn í aftursætinu hvort þetta væri venjulega svona. Það gat svo sem verið að óhreinsuðum dúni fylgdi óþægileg lykt sem þyrfti að lofta út. Maðurinn hristi höfuðið og Týr bað feðgana að bíða í bílnum á meðan þau athuguðu hvað væri á seyði.

  Enginn svaraði þegar þau kölluðu inn um opnar dyrnar að þau væru frá lögreglunni. Þau horfðu inn í vinnslusal með alls kyns vélum. Engin þeirra virtist vera í gangi. Sama þögn mætti þeim þegar þau fóru inn, kölluðu og spurðu hvort Bergþóra væri á staðnum. Einu ummerkin um að einhver væri í húsinu eða hefði nýlega verið þarna voru stór pollur við bílskúrsdyr sem Karó gerði ráð fyrir að væru nýttar til að taka á móti og afgreiða vörusendingar. Við hliðina á þeim var krani á vegg sem garðslanga var tengd við en hún lá við hliðina á pollinum. Í honum miðjum var niðurfall sem pípari þyrfti greinilega að kíkja á miðað við afköstin. Bergþóru var hvergi að sjá.

(s. 91-92)

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira