úr bókinni
Hann svitnar þegar hún segir þetta. Deginum ljósara að þessi heimsókn er ekki til neins. Hann er búinn að gera sér kolrangar hugmyndir um hana. Asni gat hann verið að telja sér trú um að hún hefði einhverjar taugar til hans! Eins gott að hann fór ekki að stynja upp einhverri hallærislegri ástarjátningu. Hún hefði hlegið að honum.
Hann ypptir öxlum þegar hún spyr hvað hann vilji gera. Sér í gegnum hana. Hún á í vandræðum með hann. Hann er fyrir. Þó að hún sé að taka fram að það sé ekkert víst að hún verði neitt lengi. Og þó að hún sé með þetta breiða bros á vörunum.
- Ætli maður komi sér ekki bara.
Sigurbjörg Sveinsdóttir lítur brosandi til hans. Tekur ekki mark á honum.
- Þú ferð ekkert að rjúka neitt þó að hún þurfi að skreppa aðeins frá! Ég tek það ekki í mál! Þú kemur auðvitað niður. Bíður bara hjá okkur!
Hann réttir drenginn fram. Setur hann í fangið á móður sinni sem er farin að tvístíga í gættinni. Beiskur.
- Ég sé á öllu að það fer best á því að ég láti mig hverfa. Það er greinilega einum ofaukið hér. Það var gaman að fá að sjá strákinn!
Í næstu andrá er hann kominn framhjá henni út á ganginn. Lætur sem hann sjái ekki undrunarsvipinn. Lætur sem hann heyri ekki þegar hún kallar á eftir honum. Stekkur niður stigann. Skeytir engu um augu sem góna á hann úr stofunni. Heldur sínu striki og strunsar út. Hugsar um það eitt að komast í burtu. Sem lengst í burtu frá þessu húsi.
Það er komið myrkur. Klukkan að verða hálfellefu. Kvöldloftið svalt og tært. Ljósahaf borgarinnar í fjarska handan við breiða vík.
Tekur til fótanna. Sár og svekktur.
Sár út í sjálfan sig fyrir að hafa verið að ana þetta til hennar. Sár út í hana fyrir að segja ekki hreint út að þessi ljósmyndari í Kópavogi væri að gera hosurnar grænar. Þessi Þór eða hvað hann heitir.
Meira hvað henni lá á að komast til hans!
Eini ljósi punkturinn við þetta allt að hann veit þá hvar hann hefur hana núna. Þarf ekki að velta vöngum yfir því lengur hvort það geti orðið eitthvað á milli þeirra. Þarf ekki að velkjast í neinum vafa.
(s. 106-7)