Beint í efni

Eldhylur

Eldhylur
Höfundur
Hannes Pétursson
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1993
Flokkur
Ljóð


Úr Eldhyl:

Klukkukvæði [hluti]

Fyrir langalöngu reið ferðamaður einn um veg. Það var á sumri. Hann kom í fornan eyðidal. Þá hafði sól sigið til fjalla. Hann steig af baki hesti sínum og lagðist til svefns í móalaut hjá reiðgötunni. Um nóttina dreymdi hann draum: Honum þótti sem hann legði hlustir fast að jörðu þar í mónum og væri þá talað til sín skýrum rómi. Ekki gat hann áttað sig á því, hvort röddin barst neðan frá, þar sem hann var staddur, ellegar úr annarri átt, en það heyrði hann þó fyrir víst, að hún kom til hans úr jörðu. Hann mundi, þegar hann vaknaði, hvað við hann hafði verið mælt og fór með það stöku sinnum fyrir aðra síðar á lífsleiðinni. Í draumnum heyrði hann sagt - eftir því sem nú er kunnugt: Um langa tíð hef ég legið í þessari mold. Ég var lögð undir kjarald, gisið búsáhald til geymslu millum árstíða. Annað veifið kom einhver hönd sem lyfti mér úr jörð og hringdi mér, svo hamrarnir undir tóku . . . hönd, hönd sem vissi hversu ég er gjörð: Vox mea est bamba. Possum depellere Satan! Ég nam á þeim stundum, stopulum, ofar mold hvern styrk minn gamli hljómur veitir - og frið er illvættir, jafnt úr austri og vestri, höggva óttafullar sálir sem strá í tvennt. Ég, verndarklukka, kunngjörði hátt yfir dalinn það kall sem er skýrum stöfum í mig brennt: Vox mea est bamba. Possum depellere Satan! Ég nam á þeim stundum, stopulum, ofar mold stjarft auga, hlust sem titrar við og kné sem skelfur, þegar alþekkt umhverfi gerist ógnvænt snögglega, líkt og Djöflinum selt. Ég, verndarklukka, kunngjörði hátt yfir dalinn það kall sem var í málmsteypu mína fellt: Vox mea est bamba. Possum depellere Satan! (s. 41-44)

Fleira eftir sama höfund

Innlönd

Lesa meira

Ljóð í Cold was that Beauty...

Lesa meira

Birtubrigði daganna : lausablöð

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Ljóð í Treasures of Icelandic Verse

Lesa meira

Skemmtiskokk: úr Og dagar líða

Lesa meira

Á faraldsfæti: dagbókarblöð

Lesa meira

Jarðlag í tímanum

Lesa meira

Lirica scandinava del dopoguerra

Lesa meira