Úr Elsku besta Binna mín:
Mörg börn eru ein heima á meðan foreldrar þeirra vinna. Þau eru með stóra lykla í bandi um hálsinn og ráða yfir heilu íbúðunum og öllu sem inni í þeim er. Binna var eitt af fyrstu dæmigerðu lyklabörnunum á Íslandi. Sagan um hana gæti gerst fyrir svona tuttugu og fimm árum. Hún lenti ef til vill í meiri vandræðum en gengur og gerist, en kannski var það bara vegna þess að foreldrar hennar gátu hvorki geymt hana fyrir framan myndbandstæki né tölvuspil. Þess háttar undragripir voru ekki til hjá venjulegu fólki fyrir aldarfjórðungi.
(s. 5)
Sjálf heiti ég Brynhildur Bera Guðmundsdóttir og auðvitað er Bera með stóru bé-i. Foreldrar mínir skírðu mig eftir ömmu minni og langömmu, en langamma mín hét Bera. Hrekkjusvínin kalla mig stundum Binnu beru, Binnu allsberu eða Binnu berrössuðu. Mamma og pabbi hafa ekki verið alveg í lagi þegar þau völdu nöfnin á mig. Þau segjast alls ekki hafa áttað sig á því að það væri hægt að misskilja nöfnin mín. Mamma segir að það megi misskilja allt ef maður bara reynir.
(s. 9)
Elsku besta Binna mín
- Höfundur
- Kristín Helga Gunnarsdóttir
- Útgefandi
- Mál og menning
- Staður
- Reykjavík
- Ár
- 1997
- Flokkur
- Barnabækur