Beint í efni

Álfrún Gunnlaugsdóttir

Æviágrip

Álfrún Gunnlaugsdóttir fæddist í Reykjavík 18. mars 1938. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt síðan í bókmenntafræði- og heimspekinám til Katalóníu. Hún lauk Lic. en fil. y en letras-prófi frá Universidad de Barcelona 1965 og Dr. Phil.-prófi frá Universidad Autónoma de Barcelona 1970. Hún vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966-70.

Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum. Á haustmisseri 2002 gegndi hún einnig stöðu skorarformanns við bókmennta- og málvísindaskor heimspekideildar HÍ.

Álfrún sendi frá sér átta skáldverk, fyrst smásagnasafnið Af manna völdum 1982 og síðan skáldsögur. Hún hlaut bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir aðra bók sína, skáldsöguna Þel. Þrisvar voru sögur hennar tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrst Hringsól 1991, síðan Hvatt að rúnum 1995 og Yfir Ebrofljótið 2003. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 og einnig skáldsagan Rán 2008. Álfrún þýddi auk þess eina skáldsögu úr spænsku og skrifaði greinar í fræðirit.

Álfrún var gerð að heiðursdoktor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands árið 2010, og árið 2018 var hún heiðruð með Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi.

Álfrún lést þann 15. september 2021.

Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.