Æviágrip
Álfrún Gunnlaugsdóttir fæddist í Reykjavík 18. mars 1938. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt síðan í bókmenntafræði- og heimspekinám til Katalóníu. Hún lauk Lic. en fil. y en letras-prófi frá Universidad de Barcelona 1965 og Dr. Phil.-prófi frá Universidad Autónoma de Barcelona 1970. Hún vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966-70.
Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum. Á haustmisseri 2002 gegndi hún einnig stöðu skorarformanns við bókmennta- og málvísindaskor heimspekideildar HÍ.
Álfrún sendi frá sér átta skáldverk, fyrst smásagnasafnið Af manna völdum 1982 og síðan skáldsögur. Hún hlaut bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir aðra bók sína, skáldsöguna Þel. Þrisvar voru sögur hennar tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrst Hringsól 1991, síðan Hvatt að rúnum 1995 og Yfir Ebrofljótið 2003. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 og einnig skáldsagan Rán 2008. Álfrún þýddi auk þess eina skáldsögu úr spænsku og skrifaði greinar í fræðirit.
Álfrún var gerð að heiðursdoktor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands árið 2010, og árið 2018 var hún heiðruð með Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi.
Álfrún lést þann 15. september 2021.
Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.
Frá höfundi
Pistill frá Álfrúnu Gunnlaugsdóttur
Sköpunargleði er mönnum í blóð borin. Hún birtist raunar alltumkring því að hún tekur til flestallra mannlegra athafna. Hún er sambland af leik og alvöru. Það sambland endist samt ekki öllum út ævina, þeir virðast ekki gera sér grein fyrir að um er að ræða sitthvora hliðina á sama peningi. Þeir leyfa leiknum að fjara út.
Leikir bernskunnar eru alvörufullir.
Þegar ég var barn talaði ég ekki aðeins við brúðurnar mínar, ég fyllti veröldina af ósýnilegu fólki og talaði upphátt við það og fyrir munn þess. Ég vissi ekki til að nokkur hlustaði þar til ég fór að mæta spyrjandi augnaráði hinna fullorðnu, það varð stundum rannsakandi og jafnvel hvasst. Þá skildist mér að ekki væri viðeigandi að tala við ósýnilega fólkið svo aðrir heyrðu. Ég skammaðist mín svolítið, varð kannski sár og þagnaði. Hélt samt áfram að tala inni í mér. Mig fór að gruna, þótt ég kynni ekki að koma því í orð, að maður ætti hug sinn aleinn.
Seinna rann upp fyrir mér að það atriði er ekki eins einfalt og ég hafði haldið.
Jafnvel þótt sköpunargáfa blundi í okkur fær hún ekki alltaf að blómstra. Ekki aðeins þarf að hafa fyrir henni, það gæti líka þurft að berjast fyrir henni og láta ekki þagga niður í sér. Með þessu er ég ekki að segja að í bernskunni sé að finna ástæðuna fyrir því að maður skapar og skáldar. Ég er aðeins að minna á hið augljósa að sköpunargleði fylgir mönnum. Til lítils væri fyrir listamann að skapa ef aðrir væru ekki reiðubúnir að taka á móti verki hans og skapa það að sínu leyti með honum.
Á þeim afstæðistímum sem við lifum væri ekki við hæfi að fara að leita að sameiginlegum einkennum á rithöfundum og sameiginlegri ástæðu fyrir því að þeir skrifa. Það er að minnsta kosti vissara að ganga út frá því að ástæðurnar séu eins margar og höfundarnir, og að hver höfundur eigi sér fleiri ástæður en eina. Þetta hefur aldrei verið fyllilega skoðað. En sannast sagna hef ég takmarkaðan áhuga á að vita hvers vegna ég skrifa. Þó skal tekið fram að það stafar ekki af því að ég haldi að sú athöfn sé sveipuð einhverri dulúð.
Svokölluð vesturlönd hafa um nokkurra alda skeið haldið til streitu þeirri „áráttu“ að grafast fyrir um orsök flestra hluta. Það er engin afleiðing án orsakar, eins og Altúnga heldur fram í sögu Voltaire, Birtingi, og telur að nefið hafi verið skapað til þess eins að halda uppi lonníettum. Þótt enginn efist um vísindalegt gildi þess að grafast fyrir um orsök, er óþarft að stunda slíkan uppgröft ef hann stefnir í tvísýnu. Af þeirri ástæðu verður því látið ósvarað hvers vegna ég skrifa. Hins vegar hef ég skrifað nógu margar sögur til að taka eftir vissum endurtekningum tengdum skriftum, sem ég má líklega vara mig á úr því að ég geri mér grein fyrir þeim. Ég veiti því til dæmis athygli að ég er lítið fyrir leiftrandi hugmyndir, þegar þær snúa að sjálfri mér. Við nánari athugun reynast innviðir þeirra oftast ekki nógu sterkir. Hugmynd á víst að geta staðið undir sér og til að svo verði þarf að vinna með hana og úr henni. Þegar ég sé neista á flugi depla ég augunum fyrst til vonar og vara. Einnig hef ég vantrú á óstöðvandi flæði. Penninn flýgur yfir pappírinn (ég nota ekki tölvu fyrr en á seinni stigum), höndin er í þjónustu hugans, en hversu vel sem hún vinnur er aðeins lítið af því nothæft, örfáir sprettir. Þá kemur þolinmæðin til sögunnar. Ég vil þó ekki meina að ég sitji með ritskoðanda mér við hlið. Óheft flæði er vísast ekki til.
Mér sýnist að ég velji að öllu jöfnu að skrifa um það sem mér hugnast ekki eða er ekki sátt við, eiginlega gegn sjálfri mér. Við það myndast togstreita sem ég nýti til að reyna að skerpa efnið og tökin á því. Atburðarásin verður ekki fyrst til eins og búast mætti við, heldur persóna eða persónur sem tekur sinn tíma að kynnast. Kynnin eru svo upp og ofan eins og í lífinu, ánægjuleg eða til ama, en verst er þó að eiga við yfirgangsseggi sem vilja troða sér í söguna. Ég hef samt ekki enn séð ástæðu til að koma upp dyravörslu.
Margir hafa orðið til að benda á að það sé fyrst og fremst vinna í því fólgin að skrifa skáldsögu, ímyndunaraflið eigi þar aðeins lítinn hlut að máli. Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir þetta. Það þarf ímyndunarafl til að búa til heim. Heim sem heldur sér uppi á orðum.
Og hvað með gleðina sem fylgir því að skrifa og hefur andlit Janusar?
Álfrún Gunnlaugsdóttir, 2002
Um höfund
„Nú ertu farin að skálda“: minni, tími og frásögn í skáldverkum Álfrúnar Gunnlaugsdóttur
I
“Bogga kunni þetta utan að, þó breyttist sagan alltaf. Ný atriði bættust við og kollvörpuðu fyrri skýringum. Nánast ómögulegt að gera sér grein fyrir hvað var satt, hvað logið. Eða var þetta allt saman ímyndun? Þegar Daníel var orðinn veikur og sat í hornstól í stofunni, reyndi hún að spyrja, leitaði brota en náði aldrei að raða þeim saman” (Hringsól, 135).
Þessi spurning um að segja sögur, aftur og aftur, og oft í mismunandi útgáfum (“Ekki vissi ég að þú værir eins og börnin og vildir heyra aftur og aftur sömu söguna” (Hringsól, 228)), er eitt af leiðarstefjum skáldsagna Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Það er hið brigðula minni sem breytir sögunni, en minnið er annað áberandi tema í skáldverkunum. Saman tengist þetta svo vangaveltum um tíma, minningin breytist með tímanum og tíminn býr til sínar eigin frásagnir. Minningin er vopn Álfrúnar í skáldskapnum, hún notar minningar til að fella saman ólíka heima og tímabil, og sundra tímalegri frásögn. Þannig verður lesandi verka hennar að glíma við frásögnina á sama hátt og Bogga í Hringsóli (1987); leita brota og reyna að raða saman, og velta fyrir sér hvað af frásögnum sögumanna Álfrúnar er hrein ímyndun.
Segja má að í Hringsól gangi Álfrún hvað lengst í þessum leik við frásögnina, en þar ferðumst við með Boggu í gegnum minningar hennar frá bernsku til fullorðinsára. Sagan hefst í bernskunni og endar á efri árunum, en þarmeð er ekki sagt að frásögnin sé línuleg lýsing á ævi stúlkunnar, því textinn er stöðugt á flakki um tíma og rúm, líkt og augun hvarfli til og frá milli minningarbrota. Bogga, sem líka er kölluð Ella, fæðist í litlu sjávarþorpi, en faðir hennar neyðist til að koma henni í fóstur hjá vel stæðum barnlausum kaupmannshjónum, Jakobi og Sigurrós, í Reykjavík. Þar elst Bogga upp og gengur illa að passa inn í hið borgaralega munstur, en svo virðist sem hún sé á einhvern hátt ekki vel stöðug á geði, ástríðufull og viðkvæm og með líflegt ímyndunarafl. Það kemur meðal annars fram í því hvernig hún skynjar umhverfi sitt í sjávarþorpinu, en yfir því rís fjall sem minnir stelpuna á konu: “Kona á líkbörum og krosslagði hendur upp við háan barm. Þannig var fjallið” (9). Þessi kona er í minningu barnsins líka móðirin, sem dó af barnsförum þegar hún fæddi yngri systur Boggu og Bogga heldur því fram að hún hafi séð hana liggjandi á börum. Faðirinn mótmælir: “Nú ertu farin að skálda […] Hún var ekki á neinum börum.” (115)
Þegar til Reykjavíkur er komið sér barnið dreka fljúga yfir borgina og ógnvænlegan orm í Tjörninni, en við hana stendur hennar nýja heimili. Stríðið er í uppsiglingu og pólitísk átök skekja lítið borgarsamfélagið, Bogga kynnist ungum eldhuga og verður ófrísk eftir hann, fósturforeldrarnir vilja að hún giftist yngra bróður Jakobs, Daníel, en Bogga neitar því þrátt fyrir að elskhuginn hafi reynst giftur og sé horfinn. Hún flýr að heiman og leitar á náðir þjónustustúlkunnar Dísu sem var rekin fyrir að koma í veg fyrir að Daníel nauðgaði Boggu. Þar elur Bogga upp soninn Fjalar og á stutt ástarævintýri með hermanni af íslenskum ættum. En drengurinn ferst voveiflega og Bogga missir fótana. Jakob leitar hana uppi á spítala og tekur hana aftur inná heimilið og þar gengur hún í þjónustustörf, en er augljóslega ekki heil. Daníel kemur heim og þau giftast og eignast barn, en stúlkan Lilja getur ekki komið í stað sonarins Fjalars og Bogga hverfur meira og meira inní sjálfa sig. Aðstæður á heimilinu eru enda nokkuð sérstakar, því Daníel er, og hefur lengi verið, elskhugi Sigurrósar. Jakob deyr og síðan Sigurrós, Daníel veikist og deyr, en stærstur hluti sögu hans, frá því tímabili sem hann dvaldist í Evrópu, er sagður af honum deyjandi - og dauðum, því hann gengur aftur á heimili Boggu, sem nú býr ein í stóra húsinu við Tjörnina.
Á þennan hátt hef ég púslað saman frásagnarbrotum Hringsóls, og sjálfsagt hefur minning mín um bókina leikið mig grátt og bæði bætt inn atriðum og þurrkað út önnur. Í raun væri hægt að lýsa bókinni allt öðruvísi, þannig að í fyrsta hluta sé aðaláhersla á bernskunni, í bland við minningabrot frá síðari tímum, næsti hluti snúist um endurkomu Boggu í húsið við Tjörnina, þriðji hluti lýsi fyrst og fremst dvöl Daníels erlendis og í fjórða hlutanum sé sagt frá tímabilinu milli fyrsta og annars hluta, tíma Boggu fjarri húsinu við Tjörnina, en á þeim tíma er Daníel í Evrópu. Þó væri sú lýsing ekkert meira ‘rétt’ en sú fyrri. Þessar frásagnir mínar af Hringsóli eru dæmigerðar línulegar frásagnir, sem hafa það að markmiði að skipa öllu niður og raða í tímaröð og þarmeð í einskonar línulegt orsakasamhengi, en samkvæmt frásagnarfræðum þjónar frásögnin einmitt því hlutverki að koma skipulagi á óreiðu minninga og atburða og gefa þeim þannig merkingu; skipa þeim upp í rökrétt samhengi upphafs, miðju og endis. Talað er um að frásögnin skiptist upp í tvo þætti, föflu og fléttu. Fafla eru atburðirnir sjálfir, fléttan er það form sem þeim er raðað í. Orðið flétta á einhvernveginn sérlega vel við skáldskap Álfrúnar, en hún einmitt fléttar texta og atburði, minningar og brot saman í þéttan og margslunginn vef. Uppistaðan er, eins og áður sagði, minnið, minningar, og iðulega eru það einhverjir atburðir eða hlutir sem á óvæntan hátt kalla fram ólíkar minningar, frá ólíkum tíma og rúmi. Þannig er það hurðin strax á fyrstu síðu sem gefur lesandanum til kynna væntanleg átök sögunnar:
...þekki ekki þá sem bjuggu handan við hurðina: úr drungalegum viði. Þung. Um það vissi stelpan ekki þá, og ekki vissi hún að hurðin lagðist að stöfum með lágu andvarpi og skall aldrei. Nema þegar hún hljóp, mörgum árum seinna, alfarin (að hún hélt) út úr húsinu; um þann atburð vissi náttúrulega enginn þegar hún stóð þarna á tröppunum framan við ókunna hurð og mændi á gljáfægða læsinguna rammaða inn í dökka rönd, hérumbil svarta. (7)
Seinna í sögunni skapar hvarf og dauði tengingu milli tíma og rúms: Bogga fréttir að elskhugi hennar sé týndur, mögulega dáinn og frá þeirri minningu hvarflar textinn til annars líks, konulíks sem leikur lykilhlutverk í mótsagnakenndri frásögn Daníels af dvöl sinni í Evrópu. Konan hét Rósa og var kannski njósnari og á einum stað er henni líst svo að hún “gleymdi ekki neinu, hennar hlutverk var annað og átti að muna það sem hún sá og heyrði, leggja á minnið” (284). Á þennan hátt er textinn hlaðinn vísunum til minninga og minnis, gleymsku og ímyndunar, sagan af Rósu er sögð aftur og aftur og í hvert sinn breytist hún - mögulega færist hún nær sannleikanum, ef marka má senu undir lok sögunnar, en eins og komið hefur í ljós er erfitt að vita hvað er ímyndun Daníels og hvað ekki.
Hringsól vísar þannig í hringsól í tíma og minningum, og þetta hringsól minnir nokkuð á hið móderníska bókmenntaeinkenni sem kallað hefur verið hugarflæði. Á stundum leysist frásögnin alveg upp í minningabrot frá ýmsum tímum og hverfist næstum í ljóð. Dæmi um þetta er í upphafi annars hluta þegar Bogga er komin aftur í húsið, enn að jafna sig eftir áfallið. Bogga situr í herbergi sínu og heyrir fótaspark og hugleiðir stríðið og örlög jarðarinnar, sem síðan minna á örlög hennar sjálfrar:
þessa jörð sem allir héldu að þeir ættu og var óþekkjanleg orðin, en vitaskuld átti hana enginn þóað örfáir ráðskuðu með hana, gengu til leiks sem ekki nokkur hafði skilið og drógu með sér hina í skelfilega hringiðu ekki úr henni komist og ekki við neitt ráðið situr og hlustar dynir og holt dósarhljóð, eitthvað þungt hafði kastast á vegg. Flöskur brotnuðu. Ekki vogandi að opna hurð eða glugga, ekki að vita hvað úti beið, nema auðvitað miskunnarleysið sársauki missir lét sig þetta engu varða, engu, og ekki mátti opna glugga, ókvæðisorð ryddust inn og á hana yrði bent henni að kenna dauði með honum er maður einn rétt eins og hinir og barnið sem Dísa átti að gæta og Bogga hvarflar augunum alltumkring húsgögn og yfir þau breytt með upplituðum tuskum eins og þeir sem byggju þarna í kjallar hússins við Tjörnina væru farnir í langferð, hefðu flutt burt á gólfinu ferðataska. (83-4)
Módernísk einkenni má einnig greina í knöppum myndskeiðum smásagnanna í Af manna völdum, en fyrsta sagan lýsir minningarbroti frá hersetunni, ótta mæðgna við hermann og flótta undan honum. Sagan hefst á upphrópun: “Guð minn góður. Hvað er að sjá barnið?” (9) og lýsir svo í örstuttu máli því að móðirin er að ná í vatn í brunn og björt sólin minnir stelpuna á logandi hlutinn sem féll til jarðar og þarmeð ferðumst við á milli minninga til borgarinnar, loftárásar. En nú er fjölskyldan flutt út í sveit til að forðast návígi við hermannabraggana. Á leiðinni að bruninum gefur hermaður sig á tal við móðurina og býður barninu súkkulaði en móðirin verður hrædd og þær flýja, fyrst inn í húsið, en síðan út úr því aftur og yfir gaddavírsgirðingu að nágrannahúsi. Þar kemur kona “hlaupandi á móti þeim og hrópaði...” (14). Fleiri sögur eru í þessum knappa stíl, þó aðrar séu meiri um sig. Smásagnasafnið ber undirtitilinn “Tilbrigði um stef” og má hugsa sér að það stef sé bæði stríðið, eða stríð yfirleitt, og minningar.
II
Álfrún Gunnlaugsdóttir er ekki afkastamikill höfundur, né er hægt að segja að verk hennar séu almennt vel þekkt. Þó hafa þrjár af skáldsögum hennar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Hringsól (1987), Hvatt að rúnum (1993) og Yfir Ebrófljótið (2001), en þær tvær síðarnefndu voru einnig tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Önnur verk hennar eru Af manna völdum (1982) og Þel (1984). Álfrún var komin á miðjan aldur þegar hún sendi frá sér smásagnasafnið Af manna völdum og átti þá að baki langskólanám í Sviss og á Spáni, auk þess að hafa starfað um árabil sem lektor og dósent í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún er því einstaklega gott dæmi um fræðikonu sem hefur sameinað krafta fræðanna og skáldskaparins á ferli sínum, en skáldverk hennar bera vitni um mikla þekkingu á bókmenntaformum og frásagnarstílum, án þess þó að virka á nokkurn hátt íþyngd af fræðum.
Álfrún flokkast illa eftir bókmenntalegum stefnum og straumum, þó vissulega megi sjá módernísk einkenni í verkum hennar, sérstaklega í Af manna völdum og Hringsóli. Þá ber Hvatt að rúnum mörg einkenni póstmódernismans.
Í þessari þriðju skáldsögu sinni, Hvatt að rúnum, heldur Álfrún áfram að skapa fléttu úr minningum og sögum. Titillinn vísar til þess að kalla einhvern á eintal og það er það sem sögukona Hvatt að rúnum gerir; hún kallar til sín persónur frá fyrri tímum, annari öld og frá öðru tímabili í lífi sínu, og lætur þær segja sér sögur.
Sagan er sögð í fyrstu persónu af konu sem býr ein í stóru húsi en er heimsótt af tveimur draugum fortíðar, annarsvegar lifandi manni og fyrrum nágranna hennar sem hún átti í ástarsambandi við, en það samband endaði skelfilega, og hinsvegar af ungum manni frá 18. öld, sem hún eltir uppi og seiðir til sín. Hann segir henni svo sögu sína og inn í hana blandast þriðja sagan, einskonar riddarasaga sem hann er að lesa. Þannig er Hvatt að rúnum öllu forneskjulegri en fyrri bækur höfundar og vísar til galdramála, bæði hér og í Evrópu, hjátrúar og goðsagna, auk þess að flytja með sér bókmenntaarf riddarasögunnar, en þar koma galdrar og hjátrú einnig við sögu. Dularfullir atburðir koma einnig við sögu í nútímafrásögninni, fyrst og fremst í formi hnykils sem gömul kona geymdi í bauk í húsi elskhugans og konu hans, og biður sögukonu að leita uppi. Miklu skiptir að með hnykilinn sé rétt farið og hann á sér svo hliðstæðu í 18. aldar sögunni og tengist þar forneskju. Í ljós kemur að hér er á ferðinni sjálfur söguþráðurinn, eða söguþræðirnir, sem sögukona vor fléttar að lokum saman, í óþökk hins dularfulla H, sem nokkrum sinnum er nefndur til sögunnar, aðallega þó af elskhuganum Jóni Pétri, og reynist vera höfundurinn - ekki þó endilega Álfrún Gunnlaugsdóttir. Jón Pétur forvitnast um baukinn og hnykilinn en “hann má ekki vita að einmitt fyrir atbeina hnykilsins hef ég fengið visst ráðrúm og vald, það skildi ég eftir heimsókn mína til Þorgerðar. Vatt hnykilinn upp aftur og upp frá því hafði ég gætt hans eins og sjáaldurs auga mins. Batt við hann vonir um frelsi” (246).
Sögukonan hefur því í lokin hrifsað söguþráðinn úr höndum höfundarins, og í því virðist galdurinn fólginn, eða hvað? Það er best að fara varlega í miklar alhæfingar í túlkunum á þessari fjölþættu fléttu Álfrúnar, því þræðirnir sem hún spinnur gera bæði að flækja og binda persónur og gefa þeim “ráðrúm og vald”, og lesandi er sömu örlögum ofurseldur. Þó er vissulega gaman að leika sér að því að láta þræðina renna um greipar sér, slíta hér og þátta saman þar.
Hver saga er sögð í viðeigandi stíl og út af fyrir sig eru þær magnaður skáldskapur sem magnast enn við fjölkynngi hinna fléttuðu söguþráða. 18. aldar sagan segir frá hinum unga Stefáni, sem er munaðarlaus en elst uppi á prestsetri. Þar ber að erlendan gest, Martein, sem eitthvað virðist dularfullur, en vingast við Stefán. Presturinn er Stefáni góður og kennir honum að lesa og leyfir honum aðgang að bókum sínum og þar kynnist Stefán riddarasögunni góðu um Diafanus og ævintýri hans með galdrafólki og sköllóttri, íðilfagurri konu, en hún er fyrrum unnusta félaga Diafanusar. Í kjölfar ógnvænlegra atburða og skelfilegs líkfundar fer Stefán til Evrópu með Marteini (og hnoð í buðki) og þar lenda þeir í plágum og pólitískum átökum og kynnast meðal annars hinum unga Júlíusi. Stefán brennur ekki aðeins af plágunni heldur engist hann einnig af afbrýðisemi út í Júlíus og ljóst er að samband þeirra Marteins er náið. Þessir tveir ástarþríhyrningar spegla svo þann þriðja sem birtist í nútímasögunni, en hún er, líkt og 18. aldar sagan, sögð í hinum kunnuglega tímaflakkstíl Hringsóls (riddarasagan er hinsvegar í nokkuð línulegri tímaröð). Þegar Jón Pétur ber að garði rifjar sögukonan upp þeirra fyrri ástir, en þær voru all sérstæðar, því Jón Pétur var giftur hinni fögru Nönnu sem hvatti hann eindregið til ásta með nágrannakonu sinni, svo að um stund skiptu þær manninum á milli sín, viku fyrir viku, og virðast sjálfar hafa átt í nokkuð nánu sambandi . Þessi frjálslegi þríhyrningur endar svo á því að hin tilfinngaheita og hviklynda Nanna sviptir sig lífi, en hún var meðal annars miður sín yfir því að sonur hennar var tekinn frá henni. Upprifjanir frá þessum tíma blandast svo endurkomu Jóns Péturs, og samtölum þeirra sögukonunnar, sem, eins og áður sagði, vísa meðal annars til hins dularfulla H.
Höfundurinn H er einskonar fulltrúi póstmódernismans, að því leyti sem slík vísun til höfundar og skrifa þykir sérlegt póstmódernískt einkenni. Þó er ekki að sjá að hlutverk höfundarins eða póstmódernismans sé mikið, því eins og áður sagði nær sögukonan að hrifsa söguþræðina úr höndum hans. Því það er jú sögukonan sem kallar fram sögur Stefáns og Diafranusar og því er ljóst að hún togast á við höfundinn um vald yfir sögunni. Þegar Jón Pétur heimtar upprifjun af sögukonu segir hún það ekki undir sjálfri sér komið. “Hverjum þá? H?” spyr Jón Pétur og sögukona svarar:
- Það er á hans könnu en þú færð að ráða ef þú vilt. - Hann hefur mig í greip sinni. - Segðu heldur að þú sért hræddur um að ég nái tökum á þér. Ég bít á vörina. Gáleysislega sagt. Jón Pétur gæti komið sér í mjúkinn hjá H og fengið hann til liðs við sig, spunnið um mig vef. Ekki má það gerast” (97-98).
Þessi leikur með höfundinn er hóflegur en jafnframt áhrifaríkur. Álfrún fer að öllu með gát í þessu póstmóderníska samspili sagna og söguþráða, sögukvenna og höfunda, og spin ur fimlega saman íróníu gagnvart þessum höfundarleik, og dauðans alvöru, en þó vísanirnar til H séu á stundum næsta léttúðugar og kómískar eru þær jafnframt órjúfanlegur hluti sögunnar, sem eins og bent er á, gerist ekki fyrr en höfundurinn hefur skrifað hana: “Og strangt til tekið ætti að t la um atburð sem enn hefur ekki gerst: það fer eftir hvernig á hann er litið. Ekki stjórna ég honum né heldur H sem öllu þykist ráða. Tveir menn í reiptogi um mig” (44).
Ástarþríhyrningar eru endurtekið stef í verkum Álfrúnar, en fyrsta skáldsaga henanr, Þel, gengur út á einn slíkan og segir frá vináttu þriggja ungmenna, Einars, Unu og sögumanns. Einar er draumóramaður, og sögumaður reyndar líka, en þegar Einar fer til Evrópu til náms og skilur Unu og sögumann eftir taka þau saman og sögumaður gengst inná hið borgaralega líf. Sagan er að hluta til sögð útfrá Unu líka og svo blandast inní hana frásagnir Einars af dvöl sinni á Spáni, en þar koma pólitísk átök tengd borgarastyrjöldinni við sögu. Á Spáni er svo annar ástarþríhyrningur, Einars, hinnar dularfullu Yolöndu og enn dularfyllri vinar hennar, sem reynist kvæntur henni. Hér birtist enn ferðalag minninga, en bókin hefst á jarðarför Einars. Sögumaður fer heim til sín eftir athöfnina og minningarnar taka að flæða.
Hringsól býr einnig yfir ástarþríhyrningi, en eins og áður sagði er Daníel elskhugi mágkonu sinnar, bæði meðan maður hennar er á lífi og eftir að hann sjálfur giftist Boggu. Þetta tema býður upp á undarlega tilfinningalega breidd og undirliggjandi spennu í verkunum, átök í ástum spegla svo, eða kallast á við margskonar pólitísk átök og þannig verða hinir fáguðu, þaulunnu textar höfundar hlaðnir ástríðu.
III
Pólitísk átök í verkum Álfrúnar tengjast iðulega stríðsrekstri, en öll verk hennar vísa til stríðs, hvort sem er heimsstyrjaldarinnar síðari í Hringsóli og borgarastyrjaldarinnar á Spáni í Þeli, eða þeirra beggja og fleiri í Af manna völdum. Það hefði því ekki átt að koma á óvart að fyrr eða síðar myndi höfundur skrifa sögu um stríð - en gerði það samt.
Yfir Ebrófljótið fjallar um borgarastyrjöldina á Spáni sem er Álfrúnu greinilega afar hugleikin. Hér er á ferðinni einskonar söguleg skáldsaga byggð á æviminningum eins sjálfboðaliðans sem barðist í borgarastyrjöldinni, en segja má að það stríð hafi verið eins og einskonar æfing fasismans fyrir síðari heimsstyrjöldina. Eins og ljóst má vera af ofangreindum lýsingum á verkum Álfrúnar einnkennast skáldverk hennar af gríðarlegri vandvirkni. Þessi vandvirkni nær hæstu hæðum í þessari sögu af stríði og hernaði, en lýsingar á aðbúnaði og brölti eru svo nákvæmar að lesandi sogast inn í þennan heim kulda, hita og raka, hávaða, lúsa og óhreininda, vonleysis, skilningsleysis og hugsjóna.
Sagan er sögð af öldruðum manni, Haraldi, sem hefur orðið fyrir áfalli og minnistapi og til að þjálfa minnið rifjar hann upp árið sem hann barðist sem sjálfboðaliði í alþjóðasveitunum í borgarastyrjöldinni. Sem fyrr ferðumst við fram og til baka í tíma, bæði innan sögu Haralds af stríðinu og ungdómi sínum, og síðan innan sögunnar af heimkomunni, ástinni og hjónabandinu með hjúkrunarkonunni Heddu, og svo auðvitað milli allra þessara sagna. Hér birtist enn á ný hinn sérstæði og heillandi fimleiki í því að tengja saman tímann, Álfrún flytur sig áreynslulaust á milli sviða, frá hversdagsveruleika gamla mannsins sem saknar eiginkonu sinnar sem hann álítur hafa yfirgefið sig, og yfir í blóðbað borgarastyrjaldarinnar. Oftar en ekki er það tunglið sem tengir sviðin saman, gamli maðurinn stendur við gluggann og leitar að mána, sem er duttlungafullur og brigðull, þó á stundum sýni hann miskunn hermönnum sem þurfa ýmist að skýla sér í myrkri eða greina glætu í tunglsljósi:
Ég hvarfla augunum yfir að rúðu og er kominn að henni í einu stökki. Þarna ertu Máni sæll, fölur og fár af næturgöltri, gleður mig að þú skyldir sjá þér fært að koma ... stefnumótið manstu ... Ekki hverfa blessaður ... ekki strax ... kyrr ... farðu þá kolaður! Feldu ... hlauptu í felur rétt eins og Hedda. Ég kemst af án ykkar skaltu vita. Pluma mig prýðilega takk, óþarft að gera sér áhyggjur. Frekar að maður hafi gert sér áhyggjur af þér, komst kannski óboðinn ... boðflenna. En um árið vorum við fullir þakklætis í þinn garð þegar við ætluðum að laumast í skjóli myrkurs yfir Ebro. (37)
Hér er hverfulleiki mánans orðinn að hliðstæðu við brotthvarf eiginkonunnar, en lesanda verður fljótlega ljóst að hún er dáin, þó Haraldur haldi að hún hafi yfirgefið hann. Á öðrum stundum falla sviðin saman eins og þegar sprengjugnýr í minningu Haralds breytist í gjallandi símhringingu og síðar er “kyrrðin í stofunni […] rofin af fallbyssuskotum.” (204) Frásagnarflakkið er þó ekki eins mikið hér og í Hringsóli eða Hvatt að rúnum, stríðssagan er á stórum köflum línuleg, enda leggur Haraldur stöðugt áherslu á það að hann verði að halda sig við efnið og rekja söguna í réttri röð: “En það er ekki komið að samtali okkar Ramón, ég fékk ekki tækifæri til að tala við hann fyrr en fáeinum dögum síðar, og við Eugenio erum ennþá að paufast niður brekku, nemum staðar neðst í henni” (276). Seinna rýfur hann þó tímalínuna viljandi, forðast að hugsa um daginn sem hann særðist og rifjar í staðinn upp spítaladvölina og samvistirnar við vininn Andrés (sem sonurinn heitir eftir), sem lætur hann lofa sér að segja söguna, eins og hún var:
Það er aðeins eitt sem ég vildi biðja þig um, og það er að þú berir vitni. Að þú vitnir hvert sem þú ferð og hvar sem þú ert staddur um ástandið eins og það er, ekki eins og blöð segja frá því. Þú verður að segja frá svikunum við lýðveldið, svikum Breta, Frakka, Bandaríkjamanna. Segðu sannleikann. Lofarðu því? (435)
Haraldur lofar en svo guggnar hann á því loforði og segir ekki söguna. Meðal annars kemur það til af brostnum vonum og hugsjónum, líkt og Haraldur geti ekki hugsað sér að segja sögu vonbrigða sinna, hneikslaður á því sem fylgdi í kjölfarið. Þannig er sagan öðrum þræði uppgjör við pólitískar væntingar og hugsjónir, en Haraldur tapar öllum slíkum í kjölfar styrjaldarinnar. Hvað eftir annað er vísað í tilgangsleysi stríðsins, mannfall og eyðingu, sem aðeins leiddi til sigurs fasismans og aukinnar fátæktar og hörmunga fyrir þjóðina.
Að þessu leyti er áhugavert að skoða Yfir Ebrófljótið útfrá grein David K. Herzberger sem fjallar um spánskar sögulegar minningaskáldsögur eftir tíma borgarastríðsins. Hann leggur aðaláherslu á tímabilið eftir dauða Francós, þegar höfundar reyndu að brjóta niður þá sögulegu mýtu sem rithöfundar og sagnfræðingar hans tímabils sköpuðu kringum hetjuskap stríðsins - með her fasista í hetjuhlutverkinu auðvitað. Vissulega er Álfrún ekki að skrifa gegn mýtum Francós, en hinsvegar er ljóst að sögunni er stefnt gegn mýtum stríðsreksturs og hernaðar í þágu hugsjóna, eða réttara sagt, hvernig hugsjónir eru notaðar til að gefa stríði hetjulegan bjarma. Þannig má sjá ýmislegt í lýsingum Herzbergers sem á við sögu Álfrúnar, eins og til dæmis þá skáldskaparlegu aðferð að gera mannkynssöguna huglæga með því að miðla henni í gegnum minningar og brjóta þannig niður mýtuna um hetjuljóma stríðsins.
Herzberger lýsir minningaskáldsögunni, eða skáldsögu sem fjallar um minningar, svo að hún “sýni einstaklinginn (yfirleitt, en ekki alltaf, í fyrstu persónu frásögn), í leit að skýringu með því að fella saman fortíð og nútíð í gegnum ferli upprifjunar. Þessu ferli er ýmist hleypt óviljandi eða viljandi af stað” (37). Hann bendir ennfremur á að í skáldsögum sem fjalla um minningar sé óstöðugleiki frásögunnar sem sannleiksbærs forms afhjúpaður, og sem slík sé slík skáldsaga því í fullkominni andstöðu við (skáld)sögur mýtunnar sem gefa sér vald yfir merkingu þess sem er raunverulegt og þarmeð satt: “Minningaskáldsagan býður uppá ólíka staðhæfingu um sögu og sagnfræðilegan sannleika” (37).
Hér má sjá margt líkt með því sem að ofan hefur komið fram um Yfir Ebrófljótið. Sögu borgarastríðsins er miðlað gegnum einstaklingsvitund Haraldar, sem í þokkabót er óstöðug, því minni hans hefur orðið fyrir áfalli. Hann spyr sjálfan sig: “Hverjum vil ég segja eins og er? Sjálfum mér? Það væri hreint ekki svo galið. Ryðja burt lyginni. Hvað situr þá eftir? Sannleikurinn? Allir vita að hann er afstæður og ... ég aðeins að drepa tímann. Tala við sjálfan mig eins og barn” (50). Haraldur er á vissan hátt að leita að skýringu á hermennsku sinni, en ferli upprifjunarinnar er honum frekar á móti skapi, því hann hefur aldrei viljað segja söguna. Þó er ljóst að einhver brot hafa verið sögð Heddu, sem greinilega hefur spurt mikið, en aldrei fengið söguna - og þó Haraldur sé allur af vilja gerður að segja henni alla söguna nú, þá er það of seint.
Þannig skapast einkennileg stemning í kringum þessa frásögn upprifjunar, sem kallast á við önnur skáldverk Álfrúnar og snýst að einhverju leyti um frásagnartækni hennar. Eins og Soffía Auður Birgisdóttir bendir á er sögufólk Álfrúnar stöðugt hvatt að rúnum, kallað á eintal minninganna, sem oftar en ekki er því á móti skapi: Soffía Auður bendir á að minningarnar sæki að Boggu, sem er lítið spennt fyrir slíkum upprifjunum og eins og áður sagði eltir sögukona Hvatt að rúnum Stefán uppi, en hann varar við afleiðingum þessa og virðist því einnig ófús að gefa upp minningar sínar. Sjálf er hún treg til að rifja upp liðna atburði úr eigin lífi, en kemst ekki hjá því þegar Jón Pétur kemur til hennar: “Mig langar ekki að tala um bruna, vil slá því á frest, slá á frest sársauka.” Hún er vansvefta og örmagna: “að því komin að kasta þessu öllu frá mér og harðneita að halda áfram, hvað sem H kynni að segja, þótt illa sé mér við að hætta í miðjum klíðum. Hefði í för með sér að ég losnaði ekki úr prísundinni sem ég hef sjálf komið mér í. Og ég sem hafði undirbúið þetta allt vandlega” (241). Minningarnar sækja að sögumanni Þels, en þar er fyrirstaðan minni, því hann tekur sér tíma til að muna eftir jarðarförina.
Í grein um hlutverk skáldskapar og rithöfunda bendir Álfrún á að “í skáldskap koma menn sér ekki “beint að efninu” […] flestallt er umorðað, jafnvel vafið í hjúp myndmáls, ótal þræðir og mynstur spinnast og boðið er uppá leiki hugans” (485). Líkt og Haraldur fer fram og til baka yfir Ebrófljótið í tilgangslausum og óskiljanlegum hernaði er í sögum Álfrúnar ferðast fram og til baka í tíma og rúmi, milli persóna og milli ólíkra tímabila í lífi persóna. Hún notar form minningaskáldsögunnar til að takast á við hið knýjandi form línulegrar frásagnar sem gefur sér mýtu sannleikans og formfestunnar. Minningar sögupersóna hennar og minningar þeirra af frásögnum annarra eru raktar upp, eins og þær séu undnar ofan af hnykli sem síðan er undinn upp aftur og þráðurinn þáttaður saman við aðra þræði, líkt og þegar sprengjugnýr stríðsins rýfur kyrrðina í stofu Haraldar eða þegar sonur hans geltir eins og hríðskotabyssa. Þannig umorðar og spinnur Álfrún bæði sögu og frásögn, vefur í hjúp myndmáls - fljótsins, hnykilsins - og býður lesanda upp á leiki með orð, minningar og skáldskap.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2006
Heimildir
Dagný Kristjánsdóttir: "Álfrún: Hvött að rúnum" Viðtal.
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 1. tbl. 1994, s. 11-24.
Soffía Auður Birgisdóttir: "Mannkynssagan í formi samtímaskáldsagna. Um Yfir Ebrófljótið og önnur skáldverk Álfrúnar Gunnlaugsdóttur."
Tímarit Máls og menningar, 63. árg., 3. tbl. 2002, s. 15-18.
Grein David K. Herzberger er á slóðinni http://proquest.umi.com/pqdweb? index=22&did=1770653&SrchMode=1&sid=3&Fmt=6&VInst= PROD&VType=PQD&RQT=309&VName=PQD&TS=1134422969 &clientId=58032. Síðast skoðað 30.10.2022.
Greinar
Almenn umfjöllun
Dagný Kristjánsdóttir: „Álfrún : Hvött að rúnum : Viðtal við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 1. tbl. 1994, s. 11-24
Dagný Kristjánsdóttir: „Magt mod kærlighed – kærligheden mod magten“, „Det spøger i litteraturhistorien“
Í På jorden 1960-1990, Nordisk kvinndelitteraturhistorie, bind iv, ritstj. Elisabeth Møller Jensen og fl. København, Rosinante 1997, s. 460-461
Kristín Ómarsdóttir: „Ætli við náum nokkurn tímann að snerta veruleikann?“
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 1. tbl. 2015, s. 5-18
Magdalena Schram: „Sumar bækur verða eins og vinir: samtal við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur“
Vera, 4. árg., 1. tbl. 1985, s. 28-29.
Margrét Eggertsdóttir: „Ein ásjóna verður að mörgum : Um sögur Álfrúnar Gunnlaugsdóttur“
Andvari, 115. árg., 1990, s. 62-75
Matthías Viðar Sæmundsson: „Og óttinn við hlið mér“
Í Stríð og söngur, Forlagið, Reykjavík, 1985, s. 103-27
Soffía Auður Birgisdóttir: „Mannkynssagan í formi samtímaskáldsagna : Um Yfir Ebrofljótið og önnur skáldverk Álfrúnar Gunnlaugsdóttur“
TMM, 63. árg., 3. tbl. 2002, s. 15-18
Um einstök verk
Af manna völdum: Tilbrigði um stef
Böðvar Guðmundsson: „Af manna völdum: Tilbrigði um stef“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 2. tbl. 1983, s. 225-8
Soffía Auður Birgisdóttir: „Af manna völdum“ (ritdómur)
Vera, 1. árg., 3. tbl. 1982, s. 37
Fórnarleikar
Úlfhildur Dagsdóttir: „Innviðir skáldskaparins“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 78. árg., 3. tbl. 2017, s. 102-107
Hringsól
Svava Jakobsdóttir: „Hringsól“
Skírnir, 162. árg., 1988, s. 187-95
Soffía Auður Birgisdóttir: „Hvað varð af stelpunni Ellu?“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 4. tbl. 1988, s. 500-7
Hvatt að rúnum
Jón Hallur Stefánsson: „Ordets magi / Word Spell“
Nordisk litteratur 1994, s. 29
Rán
Soffía Auður Birgisdóttir: „Harmljóð um missi og glötuð tækifæri“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 1. tbl. bls. 129-32.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Átök og minningar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Siglingin um síkin
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Siglingin um síkin“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Bátnum ruggað“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 15.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Siglingarleiðir frásagnarinnar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 3. tbl. bls. 136-41.
Yfir Ebrófljótið
Soffía Auður Birgisdóttir: Mannkynssagan í formi samtímaskáldsagna: Um Yfir Ebrófljótið og önnur skáldverk Álfrúnar Gunnlaugsdóttur.“
TMM, 63. árg., 3. tbl. 2002, s. 15-18
Dagný Kristjánsdóttir og Soffía Auður Birgisdóttir: „Å svike eller bli sviktet av idealene / Have You Betrayed Your Ideals – Or Have they Betrayed You?“
Nordisk litteratur 2003
Þel
Margrét Eggertsdóttir: „Sárt að vera sekur“
Vera 3. árg., 3. tbl. 1984, s. 51.
Svava Jakobsdóttir: „Úr þeli þráð að spinna“
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 2. tbl. 1985, s. 248-52
Verðlaun
2018 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi
2009 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Rán
2008 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Rán
2001 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1985 – Bókmenntaverðlaun DV: Þel
Tilnefningar
2008 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Rán
2003 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Yfir Ebrofljótið
2001 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Yfir Ebrofljótið
1995 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Hvatt að rúnum
1991 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Hringsól
Fórnarleikar
Lesa meiraSiglingin um síkin
Lesa meiraRán
Lesa meiraLe Passage de l'Èbre
Lesa meiraIm Vertrauen
Lesa meiraHvað rís úr djúpinu? : Guðbergur Bergsson sjötugur
Lesa meiraSagan og undraborgin
Lesa meiraYfir Ebrofljótið
Lesa meiraÖver Ebrofloden
Lesa meira
Sálumessa yfir spænskum sveitamanni
Lesa meira