Beint í efni

Jójó

Jójó
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Jójó er skáldsaga um ást og uppgjör, glæp og refsingu – órannsakanlega vegi vináttunnar. Hvernig geta virðulegur læknir og óhrjálegur útigangsmaður bundist órjúfanlegum vináttuböndum?

Úr Jójó:

En það breytir ekki því að utangarðsmaðurinn í París er blettur á fínu yfirborðinu og má helst ekki vera til. Í Berlin er hann eðlilegur. Flestir líta hvort sem er út fyrir að vera utangarðs, hústökumenn eða listamenn, og það er það góða við að vera hér, maður sker sig ekki úr. Það er mjög mikilvægt, hver vill ganga um stimplaður? Í Frakklandi ertu orðinn áberandi ef þú ert með tveggja daga skeggbrodda, í Berlín ertu áberandi ef þú ert búinn að raka þig. Þá er eitthvað að. Þú ert grunsamlegur eða embættismaður, nema hvort tveggja væri.

Í Berlín er beinlínis gert ráð fyrir heimilisleysingjum og rónum. Það eru athvörf, þvottastöðvar og veitingahús í miðbænum þar sem rétturinn kostar næstum því ekki neitt. Og það er rétt út reiknað, það er betra fyrir sálina að borga táknræna aura en að borga ekkert.

Ég er nú bara mjög stoltur yfir því hvernig er haldið á þessum málum í minni borg.

Þú mátt vera það, var viðkvæði Martins, og svo æddi hann áfram um fyrralífið:

Margir halda að líf rónans sé skipulagslaus efja, en það er ekki rétt. Ef við skipuleggjum ekki, erum við dauðir á nóinu. Þá er ekkert að drekka, ekkert að éta, engin volg rist að sofa á, enginn pappakassi að halla sér í. Það kostar líka mikla skipulagningu, ef maður vill vera sæmilega hreinn. Það var nú ekki rónaþvottastöðvunum að heilsa á Parísarárunum mínum. Hvar átti að tannbursta sig, fara í sturtu, raka sig, hver átti að klippa hárið?

Ég passaði alltaf að vera vel klipptur. Mér datt ekki í hug að bera sjálfur skæri í hárið á mér, eða láta vinina um það. Ég kom mér í mjúkinn hjá klippurum í óhrjálegum götum, dúkkaði upp á morgnana þegar ekkert var að gera, og ég lét klippa mig í hverjum einasta mánuði. Yfirleitt ókeypis.

Róninn á mikið undir því að vera ekki ófrýnilegur. Þessi sem var ég leit ekkert endilega út eins og heimilisleysingi, bara dáldið fullur náungi sem gat hugsanlega verið í ástarsorg. Ég spilaði á að láta vorkenna mér og þar reyndust eldri kvenhjörtun best. Matrónurnar mínar eiga í mér líftóruna. Unga konur eru grimmar og hugsa bara um sjálfar sig, ógæfumaður gerir ekki annað en flækjast fyrir – en matrónurnar, þær áttu vísast margmisheppnaða syni og mömmustráka og það hentaði þeim vel að gera eitthvað fyrir mig. Þeim fannst eins og þær væru að gera eitthvað fyrir elsku drenginn sinn.

Ég var alltaf með snyrtidót í bakpokanum mínum, tannbursta, tannkrem, rakgræjur, og sat um að vippa mér inn þar sem ég gæti rakað mig átölulaust og tannburstað mig í friði. Ég kom mér í mjúkinn á nokkrum kaffihúsum, þar sem var áreiðanlega heitt vatn í krönum, og rakaði mig til skiptis á klósettunum. Alltaf með samþykki, auðvitað. Allt og sumt sem þarf er samþykki. Ef einhver hræða er að raka sig í leyfisleysi á klósettinu þínu, þá er voðinn vís og lögreglan þess vegna. Ef maður biður um að mega raka sig er manni jafnvel rétt hreint handklæði.

(s. 98-100)

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Liebe auf den ersten Blick

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Amour de l'Islande

Lesa meira

Ljóð í Poésie islandaise contemporaine

Lesa meira

The Thief of Time

Lesa meira

Ástarljóð af landi

Lesa meira

Der lebende Freund

Lesa meira