Æviágrip
Kristín Marja Baldursdóttir fæddist 21. janúar 1949 í Hafnarfirði. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og B.A.-prófi í þýsku og íslensku frá Háskóla Íslands 1991. Hún lagði stund á þýskunám við Goethe Institut í Bremen í Þýskalandi 1979-1980, sótti kennaranámskeið í Danmörku 1985-1986 og blaðamannanámskeið í Þýskalandi 1992. Hún kenndi við grunnskóla Reykjavíkur á árunum 1975-1988. Árið 1988 skipti hún um starfsvettvang og hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu þar sem hún starfaði til ársins 1995.
Fyrsta skáldsaga Kristínar Marju, Mávahlátur, kom út 1995. Eftir henni hefur verið unnin leikgerð sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1998. Samnefnd kvikmynd Ágústar Guðmundssonar byggð á sögu Kristínar var frumsýnd í Reykjavík haustið 2001 og hlaut fjölda verðlauna á Eddu-hátíðinni sama ár (Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin). Kristín Marja hefur síðan sent frá sér fleiri skáldsögur, smásagnasafn og skrifað ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur skáldkonu, Mynd af konu, sem út kom 2001.
Kristín Marja er búsett í Reykjavík. Hún er gift og á þrjár uppkomnar dætur.
Forlag: Mál og menning.
Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.
Ritþing um Kristínu Marju Baldursdóttur í Gerðubergi 31. október 2009
Frá höfundi
Frá Kristínu Marju
Þegar ég las ævisögu þýska gagnrýnandans Marcel Reich-Ranickis, rifjaðist það upp fyrir mér hversu bókaástin getur verið vægðarlaus. Eða kannski öllu heldur bókmenntaástríðan eins og Reich-Ranicki nefnir hana. Svangur og kaldur gat maður legið yfir bók þar til yfir lauk. Þótt ég hefði ekki verið búin að lesa alla rússnesku meistarana fyrir fimmtán ára aldur eins og þýski bókmenntapáfinn var ég þó búin að innbyrða ansi gott safn á þeim aldri. Bernskuminningarnar eru bundnar við stofugólfið, bak við borðstofuborðið, innanum bókastafla. Á unglingsárunum flutti maður sig feti ofar, rúmið var þægilegra þegar tíu tíma lestur var framundan.
Í þá daga datt maður hvað eftir annað ofan í góða bók.
Núorðið telst það til stórtíðinda.
Núna les ég bara texta. Texta og aftur texta. Stúdera form og orð og verð sífellt að byrja upp á nýtt því ég man ekki hvað það var sem ég las síðast. Þannig geta nútímabókmenntir verið en ég les þær að sjálfsögðu fyrir forvitnis- og kurteisissakir. Stöku sinnum lenda þó perlur í höndum mér og þá klökkna ég af þakklæti. Reyni að koma mér upp flensu svo ég geti legið í rúminu óáreitt og lesið. En það gerist bara svo sjaldan.
Þegar ég komst í ofangreinda ævisögu hafði ég verið í langvarandi sögusvelti. Það er eins og að fá aldrei neitt almennilegt að borða. Maður bara nartar og tínir upp í sig en man þó óljóst eftir kræsingum sem maður hafði eitt sinn fengið. Og svo keypti ég mér þessa bók upp á tæplega sex hundruð síður og las hana sitjandi og standandi, ég held næstum sofandi líka, og svo mikil var gleðin þegar lestrinum lauk að ég endursagði hana margsinnis öllum sem nálægt mér komu. Nú var þetta ekki skáldsaga, heldur ævisaga og engin fantasía á ferðinni, en svona skemmtilega skrifuð, lifandi og fróðleg að mér fannst ég stundum vera að lesa stórróman eftir meistara.
Ég hef velt því fyrir mér hvort auknar vinsældir ævisagna hin síðari ár megi rekja til skorts á stórrómönum. Lífið er skrautlegra en skáldsagan og með manninum býr þörf fyrir að sjá sjálfan sig og líf sitt í skáldverki.
Á stríðsárunum var Reich-Ranicki hundeltur eins og aðrir Gyðingar. Pólskur bóndi skaut yfir hann og konu hans skjólshúsi og til að fá stöku sinnum eitthvað í svanginn, brauð eða gulrót, sagði hann bóndahjónunum sögur á kvöldin. Vikum og mánuðum saman endursagði hann allt sem hann hafði lesið. Werther unga, Wilhelm Tell, Effi Briest og jafnvel söguþráð ópera, Aidu, Traviata og Rigoletto. Og þótt bændur þekktu hvorki haus né sporð á Shakespeare, höfðu þeir mikla samúð með Lé konungi og þurftu mikið um hann að tala.
Sundurlausir textar hefðu víst tæpast dugað fyrir gulrótunum.
En slíkum textum til hróss má þó segja að það er auðveldara að skrifa þá, það tekur styttri tíma og þeir reyna ekki á tilfinningarnar. Og það er í sjálfu sér afar hentugt fyrir tímabundið tölvufólk.
Maður getur ekki alltaf legið í flensu.
Kristín Marja Baldursdóttir, 2002
Um höfund
Konan, listin og listin að vera kona
Kristín Marja Baldursdóttir hefur sent frá sér fjórar skáldsögur og er nýjasta verk hennar Karítas án titils sem kom út á þessu ári (2004). Hún hefur einnig skrifað smásagnasafn ásamt stakri smásögu í safnriti og ævisögu skáldkonunnar Vilborgar Dagbjartsdóttur. Þegar litið er á verk hennar sem heild má sjá að bækur hennar eiga margt sameiginlegt, og fjalla um svipaða hluti en frá mismunandi sjónarhornum. Verk hennar fjalla oft um listina og áhrif hennar á líf fólks, en einnig um konur, líf þeirra ástir, ástríður og sorg. Persónusköpun í bókunum er heildstæð og hvergi er ósamræmi í söguþræði. Allt hefur tilgang og ástæðu, stíll Kristínar Marju er áleitinn og hrífandi og henni tekst að gera lesandann að flugu á vegg í lífi persónanna.
Mávahlátur er fyrsta skáldsaga Kristínar Marju en hún kom út árið 1995. Í bókinni segir frá Öggu sem missir ung að árum foreldra sína og elst upp hjá ömmu sinni og afa ásamt eldri móðursystrum sínum. Þau búa í litlu sjávarplássi skammt frá höfuðborginni, afinn er sjómaður en amman heimavinnandi. Frænkurnar Dódó og Ninna búa ennþá heima, og í kjallaranum býr afasystirin Kidda, sem tekur ríkan þátt í lífi fjölskyldunnar. Á heimilinu ríkir sannkallað kvennaveldi þar sem heimilisfaðirinn er oft fjarverandi og enn ein konan bætist svo við á heimilinu þegar Freyja, frænka þeirra sem fluttist ung til Ameríku, snýr aftur eftir fráfall eiginmanns síns og sest að hjá fjölskyldunni.
Sögumaður bókarinnar fylgir Öggu en það er í raun besta leiðin fyrir hann að komast að því hvað er að gerast. Í upphafi bókar er Agga ennþá barn og verður að nota aðferðir barnsins til að komast að því hvað er á seyði í fjölskyldunni því eins og í flestum öðrum fjölskyldum er nóg um leyndarmál, og Agga fær ekki að taka þátt í þeim. Forvitni hennar er mikil og hún liggur á hleri til að komast að því hvað er að gerast. Agga stundar hleranirnar af kappi og veit þess vegna nánast allt sem gerist í bænum.
Fyrir utan Öggu er Freyja aðalpersóna bókarinnar, enda snýst lífið í bænum að miklu leyti í kringum hana eftir að hún kemur að utan. Freyja er breytt frá því að hún fór, hún er orðin grönn, með mikið sítt hár, og ber sig og klæðir eins og dama. Frá fyrstu stund skynjar Agga að allt er ekki með felldu með frænku hennar frá Ameríku, og forvitni hennar staðfestir fljótt grun hennar. Freyja heldur því fram að maður hennar hafi dáið af hjartaslagi en þegar hún hittir afa Öggu í fyrsta sinn eftir komuna til Íslands segir hún honum að hún hafi drepið eiginmanninn. Þó að lítið sé tekið mark á þessum orðum hennar kemur fljótlega í ljós að kannski er eitthvað til í því sem hún segir. Eftir því sem Freyja dvelur lengur í bænum fara fleiri vafasamir hlutir að gerast í kringum hana og ljóst verður að það er öruggara fyrir alla að halda henni góðri.
Þar sem Freyja neitar að taka þátt í þeim venjum og siðum sem eru til staðar í bænum, að hylma yfir óréttlæti og sætta sig við stéttskiptingu, kemur hún upp um ýmiss vandamál sem höfðu fram að komu hennar verið þögguð niður. Hún kemur frá landi hinna frjálsu, Ameríku, og hefur kynnst öðruvísi lífsháttum en þeim sem eru ríkjandi í íslenskum smábæjum. Hegðun Freyju veldur uppnámi í bænum, hún selur rónunum spritt, býður þeim heim, ber að mati Öggu ábyrgð á dauða manns og stingur undan leikfimikennara bæjarins sem er kominn af fyrirfólki bæjarins. Þegar hún er búin að næla sér í besta karlmannsefni bæjarins, Björn Theódór verkfræðing og læknisson, tekur hún til við að gera tengdamóður sína brjálaða til að ná sér niður á henni fyrir að móðga sig. Freyja brýtur í bága við allt sem íbúar bæjarins telja rétta og góða hegðun, en hún gerir það frekar til að ná fram hefndum og fá vilja sínum framgengt en af samfélagslegri hugsjón.
Freyja yfirgefur Björn Theódór þegar upp kemst um framhjáhald hans með gömlu kærustunni, og snýr aftur á heimili Öggu. Björn Theódór gerir ítrekaðar tilraunir til að nálgast eiginkonu sína aftur, en hann gerir ekki ráð fyrir samstöðu kvennanna í kringum Freyju. Agga er ekki ennþá orðin partur af lokuðu samfélagi kvenanna, þar sem hún er ennþá barn. Hún hefur alla tíð fært vini sínum, lögregluþjóninum Magnúsi, fréttir af Freyju samhliða því að hún hefur reynt að sannfæra hann um glæpsamlegt eðli hennar. Þegar Agga áttar sig á afleiðingum þess, að fjölskylda hennar geti blandast í málið, dregur hún allt til baka, og segist hafa logið öllu. Agga neitar að ganga til liðs við karlmennina og valdið en hefur þá tekið sér stöðu með konunum. Þá er hún einnig orðin að kynferðislegu viðfangi og kynferðisleg spenna myndast milli hennar og Magnúsar undir lok bókarinnar.
Næsta bók Kristínar Marju er skáldsagan Hús úr húsi sem kom út 1997. Hún fjallar um unga konu, Kolfinnu, sem flytur heim til móður sinnar eftir misheppnaða sambúð. Sambandið á milli móður og dóttur er stirt og dóttirin gengur atvinnulaus en eyðir dögum sínum í vídeógláp. Líf Kolfinnu virðist staðnað og engin útleið er sýnileg fyrir hana fyrr en hún fær vinnu við hreingerningar á nokkrum heimilum í miðborginni. Vinnan er þó aðeins til bráðabirgða því hún er að leysa vinkonu sína af á meðan hún tekur sér barnseignarfrí. Fólkið sem þrifið er hjá er afar ólíkt, eldri frú í fínu húsi, myndarlegur lögfræðingur á uppleið, hrokafullur og óvingjarnlegur fræðimaður og söngkona sem lifir og hrærist alfarið í list sinni.
Kolfinna þrífur eitt hús á dag og byrjar á gömlu konunni, Listalíni. Í húsi hennar er herbergi sem hefur undarleg áhrif á Kolfinnu en í hvert sinn sem hún þrífur þar svífur á hana og vökudraumar eða ofsjónir sækja á hana. Hún sér sjálfa sig eldast og skorpna en í þessum draumum kristallast óttinn við að eldast, án þess að hafa afrekað nokkuð, án þess að eiga nokkuð. Það er einnig óttinn við að enda uppi eins og móðir hennar sem vinnur í matsal og á sér lítið líf utan vinnunnar, er síkvartandi, lifði í ástlausu hjónabandi og er undirlögð af verkjum. Listalín er aftur á móti holdgervingur þess sem Kolfinna vill verða, kona sem er sátt við líf sitt og finnst hún hafa lifað fögru lífi.
Söngkonan sem Kolfinna þrífur hjá er full af orku og ástríðum en virðist fremur áttavillt. Hún tekur þó að sér óumbeðin að reyna að finna Kolfinnu stefnu í lífinu og reynir að kenna henni að meta fagra tónlist og söng. Hún hjálpar Kolfinnu að skapa sig upp á nýtt, velur henni persónuleika, klæðaburð, hárgreiðslu og áhugamál en Kolfinna er eins og óskrifað blað við hliðina á henni, stöðnuð á unglingsárunum sem eru löngu liðin. Kolfinna hrífst af söngkonunni, sem býður henni framtíðarstarf sem aðstoðarmanneskja sín, en þegar hún leitar á hana kynferðislega áttar hún sig á að þetta er ekki það líf sem hún vill.
Hús lögfræðingsins unga er stórt og ópersónulegt, módernísk listaverk hanga á veggjum og húsið virðist að miklu leyti vera stöðutákn sem er allt of stórt fyrir eina íbúa þess. Lögmaðurinn er afar sjarmerandi, og reynir að kynna Kolfinnu fyrir myndlist sem er eitt aðaláhugamál hans utan lögfræðinnar. Hann leiðbeinir henni einnig í fjármálum og kennir henni hvernig hún geti komið sér vel fyrir í lífinu. Þó að Kolfinna hrífist af honum í upphafi gengur hann einnig of langt þegar hann vill hafa hana sem frillu, heimilishjálp og framtíðarbarnfóstru og hún sér að þetta er ekki heldur það líf sem hún hafði hugsað sér.
Fræðimaðurinn er einnig ungur og hrífandi á karlmannlegan og grófan hátt en Kolfinnu blöskra óhreinindin heima hjá honum og dónaskapurinn sem hann sýnir í hennar garð. Hús hans er lítið og sóðalegt, hann sankar að sér rusli og bókum og gengur afar illa um. Eins og hin reynir hann að kynna Kolfinnu fyrir áhugamáli sínu, lestri og lærdómi og svo virðist sem honum takist að einhverju leyti að vekja áhuga hennar. Kolfinna verður ástfangin af fræðimanninum og þau eiga saman eina nótt en hún kemst skömmu seinna að því að hann er ekki allur þar sem hann er séður frekar en hin.
Þessir þrír yngri viðskiptavinir Kolfinnu virðast allir falla fyrir henni, enda allir í leit að einhverskonar lífsfyllingu sjálfir. Henni er boðin aukavinna hjá þeim öllum, hún passar húsið fyrir lögfræðinginn, uppvartar í veislu hjá söngkonunni og flokkar bækur fyrir fræðimanninn. Það má segja að þessir þrír af yngri kynslóðinni sem Kolfinna þrífur hjá tákni þær þrjár leiðir sem hún gæti eða hefði getað farið í lífinu. Þau reyna öll að hafa áhrif á hana, þessa stefnulausu og að því er virðist persónuleikalausu konu.
Viðskiptavinir Kolfinnu eru settir upp sem sterk andstæða við þær lífsleiðir sem Matthildur, vinkonan sem Kolfinna er að leysa af, og móðir Kolfinnu hafa valið sér. Matthildur er einstæð þriggja barna móðir og á engan að nema Kolfinnu, og móðir Kolfinnu er bitur yfir því hvernig líf hennar hefur orðið. Móðirin og vinkonan sýna Kolfinnu báðar það sem hún vill ekki verða en virka einnig sem veruleikatenging Kolfinnu sem gengst að þeirra mati fullmikið upp í að finna sig í gegnum viðskiptavinina.
Þegar móðir Kolfinnu deyr skyndilega vaknar Kolfinna úr doðanum og blindunni sem einkennt hefur tilveru hennar og fer að endurmeta líf sitt á eigin forsendum. Hún kemst að því sem hún hefur ekki séð áður að viðskiptavinir hennar tengjast allir nánum böndum en ósætti hefur skilið þau að. Þegar hún kemst að sannleikanum fer hún að sjá þessa augljósu tengingu og áttar sig á því að þau hafa öll verið að nota hana. Eftir að hafa útheimt réttmæta hefnd tekur hún sig saman og fer að þrífa sitt eigið hús.
Myndmál bókarinnar gerir augljósa tengingu á milli húsa og sálarlífsins. Kolfinnu dreymir í upphafi bókar draum um hús sem er í fyrstu aðeins fokhellt en verður svo fallegra og fallegra eftir því sem á líður. Listalín túlkar drauminn á þann hátt að þetta sé líf Kolfinnu og að það muni verða fagurt líf á endanum. Í upphafi er heimili Kolfinnu niðurnítt, grátt og guggið alveg eins og Kolfinna sjálf og á sama hátt tákna hús hinna persónanna þau sjálf og lýsa sálarlífi þeirra. Þegar Kolfinna ákveður að taka til í húsinu sínu er það merki um að hún sé tilbúin til að finna sjálfa sig, og hún tekur til í sálarlífinu líka.
Þórsteina Þórsdóttir er aðalpersóna þriðju skáldsögu Kristínar Marju, Kular af degi (1999). Þórsteina er kennslukona að Guðs náð að eigin mati og þar að auki elegant heimskona. Smáborgarlegt líf fer í taugarnar á henni og hún vill lifa menningarlega upphöfnu lífi enda fer hún reglulega til Frakklands, á franskan elskhuga og eldar franskan sælkeramat. Kennslan er henni mikilvæg og hún hefur í gegnum tíðina þróað útpældar aðferðir til að kenna hverjum nemanda á hans eigin forsendum. Hún tekur sjálfa sig mjög alvarlega og álítur sig yfir aðra hafna, leikur útvarpsviðtöl við sjálfa sig í huganum og virðist vera með snert af mikilmennskubrjálæði.
Þórsteina les orðabækur. Á skipulagðan hátt lærir hún þær utan að, hún vigtar bækurnar og tekur svo nokkur orð fyrir á dag. Hún les alls konar orðabækur og stund með nýrri orðabók er helgistund í hennar huga. Orðabókalesturinn segir margt um persónuleika Þórsteinu. Hún er kona sem vill hafa skipulag á hlutunum í kringum sig og þegar út af því ber bregst hún illa við.
Þegar einn af gömlu nemendum Þórsteinu kemur sem afleysingakennari í skólann til hennar kemur þó í ljós að heimurinn er ekki alveg eins og hún hafði hugsað sér. Hann tekur eftir því sem Þórsteina og hinir kennararnir sjá ekki eða vilja ekki sjá, að nokkrir unglinganna í skólanum eru villingar. Þeir leggja afleysingakennarann í einelti, klæmast við hann, mæta ekki eða eru í eiturlyfjavímu þegar þeir mæta. Þegar hann segir Þórsteinu og kennslukonunum sem hún umgengst frá þessu vill engin af þeim taka á vandamálinu, þær hafa nóg á sinni könnu og hafa aldrei orðið varar við neitt sjálfar.
Köflum bókarinnar er skipt í stuttar einingar. Sagt er frá hversdagslegu lífi Þórsteinu í skólanum, samskiptum hennar við Stíg á neðri hæðinni og samkennarana. Einnig kemur fyrir eins konar innri eintal, þar sem Þórsteina fer yfir samskipti sín við fólk í huganum og þar sem hún leikur viðtölin sem hún mun fara í í framtíðinni og ræður haldnar henni til heiðurs. Inn á milli virðist Þórsteina vera í yfirheyrslum þar sem hún hefur að sjálfsögðu yfirhöndina og yfirheyrslurnar fara fram samkvæmt hennar eigin skipulagi. Nokkrum sinnum inn á milli koma mjög stuttir kaflar sem gefa til kynna að allt er ekki með felldu í lífi Þórsteinu, eða í húsi hennar. Ytri rödd spyr hana undarlegra spurninga en engin svör eru gefin, fyrr en í blálokin.
Þórsteina er eins og fleiri persónur Kristínar Marju ekki öll þar sem hún er séð. Mikilmennskubrjálæði hennar gerir hana að óáreiðanlegum sögumanni en lesandinn skynjar að hún á sér leyndarmál sem kemur fram í ósamræmi í frásögnum hennar og lýsingum. Þórsteina er eins og Freyja í Mávahlátri vafasamur karakter og ljóst er að ekki er hægt að trúa öllu sem hún segir. Hún lifir í sínum eigin heimi og fer eftir sínum eigin reglum, njósnar um þá sem eru í kringum hana og gerir það sem hún álítur rétt að hverju sinni þó það stangist oft á við það sem almennt er talið æskilegt í samfélaginu.
Í nýjust bók Kristínar Marju, Karítas án titils (2004) er viðfangsefnið að vissu leyti hið sama og í fyrri bókum hennar, konan og listir. Bókin fjallar um Karítas sem flyst á unglingsárum ásamt fjölskyldu sinni úr sveit til Akureyrar þar sem móðir hennar hefur ákveðið að öll börnin hennar skuli ganga í skóla. Lífið er ekki auðvelt fyrir ekkju með sex börn en henni tekst ætlunarverk sitt með mikilli vinnu og staðfastri trú á þau og sjálfa sig. Karítas kynnist fínni frú á Akureyri, sem tekur hana til sín í einkatíma í teikningu og Karítas fer á hennar kostnað í listaháskóla Í Kaupmannahöfn. Þegar hún snýr aftur heim eftir fimm ára nám ákveður hún að vinna sér inn peninga til að geta unnið við list sína en leiðin að markmiði hennar reynist löng. Hún kynnist Sigmari og verður ólétt og líf hennar tekur aðra stefnu en hún hafði ætlað sér. Eftir mörg ár, mikla sorg og sterkar ástríður verður hún aftur ein, og fær tækifæri til að sinna listsköpun sinni af heilum hug.
Bókin fjallar um baráttu Karítasar fyrir að fá að vera hún sjálf og stunda list sína án truflana og án þess að litið sé niður á hana. Í samfélaginu sem hún lifir er mikið lagt upp úr því að vera hin fullkomna húsfreyja, eins og Bjarghildur systir hennar, og Karítas fær margoft að heyra að ætlanir hennar séu ekki nógu góðar. Karítas þarf að berjast mikið fyrir að geta gert það sem hún vill helst og verður barátta hennar til þess að hún fjarlægist flest alla sem í kringum hana eru, þeir annað hvort fara frá henni eða eru teknir frá henni. Hlutskipti hennar er erfitt en hún er sterk og ætlun hennar verður eins og ljós í myrkrinu þegar erfiðast er. Titill bókarinnar er dreginn af teikningum og málverkum Karítasar en hver kafli heitir eftir mynd sem hún teiknar, og myndunum sem kaflarnir eru nefndir eftir er lýst í upphafi hvers kafla.
Karítas án titils fjallar á svipaðan hátt og Mávahlátur og Hús úr húsi um það að finna sér sinn stað í samfélaginu, eða öllu heldur á jaðri þess. Aðalpersónur bókanna eru allar jaðarpersónur, sem búa í samfélaginu en þó ekki. Agga í Mávahlátri tekur sér stöðu ásamt konunum í bókinni, hjálpar til við að hylma yfir glæpi Freyju og tekur afstöðu gegn lögreglunni Magnúsi sem er bæði fulltrúi karlmennsku og valds. Freyja er aftur á móti á jaðrinum frá upphafi líkt og Þórsteina en báðar fara þær eftir sínum eigin reglum. Karítas tekur afstöðu gegn samfélaginu en með sjálfri sér og ákveður, eins og Kolfinna í Hús úr húsi að fara sínar eigin leiðir, þó leið hennar sé reyndar lengri og sársaukafyllri en leið Kolfinnu.
Stíllinn í Mynd af konu sem er ævisaga Vilborgar Dagbjartsdóttur er að miklu leyti svipaður stílnum í skáldsögum Kristínar Marju. Vilborg virðist eiga margt sameiginlegt með persónum bóka Kristínar Marju og henni tekst vel að skapa tengsl milli lesandans og Vilborgar. Frásagnir Vilborgar eru áhugaverðar og verkið er algerlega laust við að vera þurr frásögn af lífi skáldkonunnar.
Smásögur Kristínar Marju eru töluvert frábrugðnar skáldsögum hennar en sögurnar í Kvöldljósin eru kveikt fjalla aðallega um samskipti milli fólks. Þær segja frá fólki á mismunandi aldursskeiðum og í mismunandi aðstöðu, félagslega og fjárhagslega og samskiptum þeirra við fólkið í kring. Með sögunum eru dregnar upp myndir, örstutt atriði í lífi fólks sem lesandinn fær að skyggnast inn í um skamma stund. Sagt er frá hjónum, foreldrum og börnum, systkinum, tengdabörnum, ömmum, ungum og öldnum. Samskipti fólksins eru það sem mestu máli skiptir og samböndin þeirra á milli. Þannig er fjallað um það að eldast, framhjáhald, skilnaði og hjónabönd, samband móður og dóttur og svo mætti lengi telja. Frásagnarstíllinn í sögunum er innilegur og lesandinn fær á tilfinninguna að hann sé viðstaddur atburðina sem verið er að lýsa, sé nánast eins og Agga í Mávahlátri, á hleri.
Allur skáldskapur Kristínar Marju Baldursdóttur einkennist af sterkum persónum og nálægu sambandi milli lesanda, persóna og sögumanns, hvort sem fjallað er um skáldsögur hennar, smásögur eða ævisöguna. Kristín Marja hefur afar sterkan stíl og lýsingar hennar á persónum og atburðum í lífi þeirra eru djúpar og innilegar. Verk hennar fjalla um margar mismunandi hliðar lífsins, þó samnefnararnir séu ávallt þeir sömu, konan, listir og listin að vera kona.
© María Bjarkadóttir, 2004.
Greinar
Almenn umfjöllun
Pétur Blöndal: „Ég hélt að allir væru svona“
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 136-159
Um einstök verk
Hús úr húsi
Sólveig Jónasdóttir: „Miklu meira en alveg nóg. Fagurt líf“
Vera, 16. árg., 6. tbl. 1997, s. 55
Kantata
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Þvinguð fjölskyldumynd“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 48.
Karitas án titils
Soffía Auður Birgisdóttir „Án titils“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 106-109
Úlfhildur Dagsdóttir: „Karitas án titils“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þorbjörg Daníelsdóttir: „Saga um íslenskar konur : Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur“
Vera, 23. árg., 5. tbl. 2004, s. 50
Karlsvagninn
Dagný Kristjánsdóttir: „Karlsvagninn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 3. tbl. bls. 109-11.
Ingvi Þór Kormáksson: „Karlsvagninn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kular af degi
Sigríður Albertsdóttir: „Særðar en sterkar“
Tímarit máls og menningar, 61. árg; 4. hefti, 2000 s. 142-145
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir: „Kennslukona í Chanel“ (ritdómur)
Vera, 18. árg., 6. tbl. 1999, s. 55
Mávahlátur
Kristín Jónsdóttir: „Mávahlátur“ (ritdómur)
Vera, 14. árg., 6. tbl. 1995, s. 29-30
Óreiða á striga
Úlfhildur Dagsdóttir: „Blönduð tækni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2008, 3. árg., 2. tbl. bls. 123-34.
Soffía Auður Birgissdóttir: „Stórróman um listakonu“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 1. tbl. bls. 112-5.
Verðlaun
2012 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir ritstörf og framlag til íslenskra bókmennta
2011 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
2010 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2008 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Karítal án titils og Óreiða á striga
Tilnefningar
2008 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Karítas án titils og Óreiða á striga
2006 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Karítas án titils
Gata mæðranna
Lesa meiraA sirályok kacagása
Lesa meiraFrelsun heimsins
Lesa meiraDas Echo dieser Tage
Lesa meiraHavblik
Lesa meiraBuz Ressami: Karitas
Lesa meiraKaritas : ruðuleiki á lørifti
Lesa meiraKaritas við ongum heiti
Lesa meiraKøligt daggry
Lesa meira