um bókina
Í þessari þriðju ljóðabók höfundar er það heimshornaflakkarinn sem hefur orðið og miðlar lesendum upplifun sinni af fjölmörgum borgum - allt frá Osló eða Auckland til Ulaanbaatar.
úr bókinni
Hugsað heim
Eftir að hafa reynt að lesa úr
mörgum kílómetrum af veggjakroti meðfram járnbrautinni
horft á mannlaus blokkahverfi
misslakar þvottasnúrur og hundruð glugga
staðnaðar bílaraðir í svækjunni
risastórar auglýsingar
er mér tilbreyting kær
að sjá skólastelpur af ólíkum þjóðernum
í ólögulegum mjaðmabuxum
sumar með magadansmeyjarkeppi milli laga
og spékoppa yfir rasskinnum
áhyggjulausar eins og þær eigi heiminn.
Þær yfirgefa lestina með mér
sveifla töskum og skvaldra.
Eftir að hafa komið við á Café Jelinek í 6. hverfi
þar sem tíminn er mældur
í ljósmyndum á tóbaksgulum veggjum
af þungbrýndum hugsuðum
dreymnum tónlistarmönnum
stífpúðruðum leikkonum fjarrænum málurum
og upplitsdjörfum skáldum
er endað við dúkað borð hjá Stemann
með steikingarlykt síðan 1920.
Varla er umtalsins vert þótt ég hugsi heim rétt sem snöggvast
heim
þar sem allt nýlegt er orðið gamalt eða úrelt
alltof margir hugsuðir og listamenn gleymdir
en tíminn mældur í kauphallarviðskiptum
sjónvarpsfréttanna
og flökti úrvalsvísitölunnar.
Varla umtalsins vert.