Jump to content
íslenska

Leiðin að heiman (The Road from Home)

Leiðin að heiman (The Road from Home)
Author
Ari Trausti Guðmundsson
Publisher
Uppheimar
Place
Akranes
Year
2005
Category
Novels

Leiðin að heiman er fyrsta skáldsaga Ara Trausta.

Af bókarkápu:

Ástvin er tólf ára. Fjölskylda hans berst við erfiðleika, hann á í basli með skólann og verður fyrir einelti. Sumarlangt dvelur hann fyrir vestan hjá Enok, listamanni sem þykir fara ótroðnar slóðir. Um haustið er Ástvin orðinn læs - og á ýmislegt fleira en bækur. 

Úr bókinni:

Enok bjó í kjallaraíbúð neðarlega við Njarðargötuna. Ólíkt Önnu hans Einars bauð hann krökkum inn til sín. Öll höfðum við orðið hrædd við beinagrindina sem hékk í forstofunni. Enok leiddi öll börn í fyrstu framhjá henni og í litla stofu sem var eins og safn. Hann átti alltaf mjólk og kremkex. Bækur, myndir og skrýtnir hlutir þöktu veggina og uppstoppaður api stóð í einu horninu. Enok kallaði hann frænda. Ég vissi að apinn var frá Danmörku. Enok eyddi hræðslunni við beinagrindina með því að segja hvað hvert bein héti í henni og lét okkur ýta á sams konar bein í okkur sjálfum. Það var bannað innan sjö ára að heimsækja Enok. Þegar maður var orðinn svo gamall fékk maður að skoða beinagrindina. Fljótlega var bara hægt að hræða krakka nýkomna í hverfið, eða smákrakka, með sögum um beinagrindina og aldrei lengi. Þeir heimsóttu Enok fyrr eða síðar og fengu að læra um bein. Einhverjir foreldrar höfðu skammað Enok fyrir að hafa beinagrindina hjá sér, það sagði mamma mér, og einu sinni kom lögreglan til hans að tala um beinagrindina. Hún kom líka tvisvar þegar Enok spilaði músík allt of hátt. Krakkar á Njarðargötunni sögðu að hann hefði verið fullur en ég hafði aldrei séð Enok fullan. Bara pabba og hina og þessa kalla.
   Ég sagði ekki pabba frá því að ég heimsækti Enok, bara mömmu og ömmu. Pabbi vildi ekki að ég druslaðist í kringum Enok sem hann uppnefndi stundum. Pabbi sagði að Enok væri ekki bara ríkur og kynni ekki að fara með peninga heldur hefði hann alls konar undarlegar hugmyndir sem heiðarlegt og iðjusamt fólk skildi ekki, jafnvel hættulegar hugmyndir.
   Einu sinni spurði ég Enok hver hefði verið með beinagrindina inni í sér. Hann sagði að hún væri keypt í París og talin af frönskum hermanni frá því 1815. Þá var stríð í Evrópu og Napóleon sem hann kallaði Naflaljón, hefði skipað þessum soldáta fyrir. Svo sýndi hann mér gat á vinstra herðablaði beinagrindarinnar og sagði að þarna hefði byssukúla borast í gegnum bakið og lent í hjarta mannsins sem dó fyrir Naflaljón og föðurlandið, en til einskis. Þá vildi ég vita af hverju hann léti beinagrindina hanga. Hann sagði alvarlegur og strauk mér um kollinn:
   - Beinagrindur tákna manninn eins og hann er innst inni. Þetta er kjarninn, fyrir utan heilann. Hann benti á höfuðið og bætti við: Þessi beinagrind verndar mig fyrir falsi og lygum. Hún minnir mig á að maðurinn vill ekki stríð heldur frið. Ég sýni fáum kúlugatið, skarnið mitt, þú segir engum frá því.
   Svo skellti hann tvisvar í góm.
   Ég skildi ekki hvað hann átti við nema hvað gatið væri leyndarmál. En ég var alveg viss um að ég var vinur Enoks. Enginn annar en ég fékk að vita leyndarmálið.

(11-12)
  

 

More from this author

Landið sem aldrei sefur (The land that never sleeps)

Read more

Eyjafjallajökull : Der ungezähmte Vulkan (Eyjafjallajökull : Grandeur of Nature)

Read more

Bæjarleið (Into Town)

Read more

Krókaleiðir (Detours)

Read more

Land þagnarinnar (Land of Silence)

Read more

Borgarlínur (City-Lines)

Read more

Landið sem aldrei sefur (The land that never sleeps)

Read more

Blindhæðir (Blind-Rise)

Read more

Vegalínur (Road-Lines)

Read more