Myndir eftir Helga Þórisson.
Um bókina:
Spennandi saga um tvo bræður sem koma í Gásakaupstað sumarið 1222; annar ætlar að hefna föður síns, hinn ferðast með dularfullan böggul. Brynhildur studdist við sögulegar heimildir og niðurstöður forleifauppgraftar við gerð sögunnar.
Úr Gásagátunni:
Tveir liðsstjórar eru í óðaönn að velja lið og barist er um hverja stöðu. Annar þeirra er þó ekki beinlínis íþróttamannslega klæddur, í síðum munkakufli, enda kemur hann frá klaustrinu að Munka-Þverá. Hinn liðsstjórinn kemur úr hópi Hólabiskups. Þeir velja með sér nokkra leikmenn úr hópi áhorfenda en fleiri úr eigin röðum. Margir ungir menn eru í sömu sporum og Þórður og Kolsveinn sem dreymir um að leika knattleik í útlöndum með frægum hirðliðum.
Kolsveinn veifar knatttrénu feimnislega en hvorki munkarnir né Hólamenn veita honum athygli. Það veit enginn hversu mikið hann æfir sig heima í Grímsey þegar enginn sér til. Knatttréð leggur hann aldrei frá sér, ekki einu sinni þegar hann sefur. Þegar hann er sendur út að sækja egg ber hann þau heim á knatttrénu til að æfa jafnvægið. Þegar hann gengur í fjörunni slær hann steina á haf út til að æfa sendingarnar. Og þegar hann gætir kúnna æfir hann hittnina með því að slá flugurnar sem sveima kringum halann á þeim.
Þórður nýtur hins vegar góðs af því að vera af valdamestu ætt fjórðungsins. Hann er strax valinn í lið Þveræinga og á að gegna lykilhlutverki í sókninni. Stulli bróðir hans er einnig valinn í lið þeirra en ekki fyrr en aðeins einn mann vantar. Hann er flinkur leikmaður en fullbardagaglaður og á það til að munda knatttréð eins og sverð. Það getur kostað hann dýrmæt stig.
Munkarnir hafa æft stíft í vetur og æðruleysi þeirra gerir þá nær ósigrandi. Biskupsmenn eru hins vegar þekktir fyrir miskunnarleysi í knattleik sem öðru. Það stefnir því í spennandi leik og áhorfendur eru beðnir að færa sig frá hliðarlínunum til að verða ekki fyrir hörðum knettinum sem náð getur feikilegum hraða.
(s. 49-50)