Æviágrip
Svava Jakobsdóttir fæddist 4. október 1930 í Neskaupstað. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949 og BA prófi í enskum og amerískum bókmenntum frá Smith College í Northampton í Massachusetts, Bandaríkjunum 1952. Svava var í framhaldsnámi í forníslenskum bókmenntum við Somerville College í Oxford á Englandi frá 1952 til 1953 og stundaði einnig nám í sænskum nútímabókmenntum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1965 til 1966.
Svava starfaði í Utanríkisráðuneytinu og í Sendiráðinu í Stokkhólmi 1955 til 1960. Hún kenndi við Barna- og unglingaskólann á Eskifirði 1963 til 1964. Svava var blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsisns 1966 til 1969 og starfsmaður við dagskrárdeild RÚV 1969 til 1970. Hún var þingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1971 til 1979.
Svava sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1968 til 1971. Hún gegndi ýmsum nefndarstörfum og var m.a. í nefnd til að semja frumvarp um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila 1971 og í nefnd til að semja frumvarp til laga um Launasjóð rithöfunda 1973. Hún sat einnig í Rannsóknaráði ríkisins 1971 til 1974 og var varamaður 1978 til 1979. Hún var ennfremur varamaður í Norðurlandaráði 1971 til 1974 og aðalmaður þess 1978 til 1979. Svava var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árin 1972, 1974, 1977 og 1982. Hún var í stjórn Máls og menningar 1976 til 1979 og átti einnig sæti í fulltrúaráði þess. Hún var í Rithöfundaráði 1978 til 1980. Svava var fulltrúi Íslands í samráðshóp sem gerði úttekt á menningarsamstarfi Norðurlandanna á grundvelli norræna menningarmálasamningsins 1972 til 1978. Hún var varamaður í stjórn Norræna hússins í Reykjavík 1979 til 1984 og í safnráði Listasafns Íslands 1979 til 1983. Hún var fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980 til 1983. Hún sat einnig í stjórn Leikskáldafélags Íslands 1986 til 1990. Svava var fulltrúi Íslands í listkynningu Scandinavia Today í Japan 1987.
Fyrsta bók Svövu var smásagnasafnið Tólf konur sem kom út árið 1965 en hún skrifaði smásögur, skáldsögur og leikrit, bæði fyrir svið og ljósvakamiðla. Hún skrifaði enn fremur fjölda ritgerða og blaðagreina og gerði þætti fyrir útvarp. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og hafa leikrit hennar einnig verið flutt víða erlendis. Svava flutti fyrirlestra og kynnti verk sín á vegum félagasamtaka erlendis og í boði bókmenntadeilda háskólanna í Björgvin 1979, Osló 1979 og 1988, London 1984, Freiburg 1987 og Amsterdam 1988.
Svava lést 21. febrúar 2004.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Skáldskapur sem líf og leit
orð mér af orði
orðs leitaði,
stendur í 141. erindi Hávamála. Þessar hendingar þykja mér lýsa vel eiginleikum orðsins og reynslu minni af þeim. Upphafsorðið kærir sig ekki um að vera stakt og einrátt heldur hefur umsvifalaust leit að öðru orði um leið og það verður til og er þó sjálft orðið til af orði án þess að við séum nokkru nær um upprunalega orðið....Hver á að gefa þessum orðum sem kvikna hvert af öðru merkingu eða hafa þau ekki merkingu? Stundum höfum við að orðtaki að eitthvað sé orðin tóm. Orðið tóm er þá orðið tómið þar sem orðin ryðja sér til rúms. Þá mætir Saga til leiks. Hún er sífellt að burðast við að fylla tómið og breyta rýminu í tíma. Upprunalega orðið hlýtur þá að vera líf!
Ætti ég að lýsa viðhorfi mínu til skáldskaparins gætu líf og leit verið lykilorð. Sú sem leitar er haldin forvitni...síspyrjandi hvert orð, hvert atvik: hvaðan ertu, hvert er förinni heitið og hvers leitarðu?
Ég hef tilhneigingu til að vinna mig upp frá rótum. Gunnlaðar saga sem gerist bæði í nútíma og á eiröld er formlega óskrifuð. Hún er þögul upprifjun endurminninga sem sumar hverjar eru munnleg frásögn annarra. Sagan endar á því að aðalpersónan í bókinni, móðirin, er sett í fangelsi og þar ætlar hún að skrifa bókina. Ein síðasta yrðingin í munni hennar er: „Í eldi úr brjósti fangans rís land.“
Ég hef grun um að þetta land megi finna í „raunsæju“ samhengi í samnefndri smásögu í bók minni Undir eldfjalli.
Svava Jakobsdóttir, 2001
Um höfund
Herm þú mér: Skáldverk Svövu Jakobsdóttur
[...] sú staðreynd að hún þekkti umhverfið vakti undrun hennar og óhug; hún sannfærðist um að hún var ekki lengur í Reykjavík, kannski ekki einu sinni á Íslandi, því að vitlaus strætisvagn þræddi aldrei sömu slóð og strætisvagn sem var á réttri leið. Umhverfið hafði verði flutt til og því raðað einhvers staðar annars staðar og nákvæmnin í uppstillingunni gerði ekki annað en staðfesta þessa vitneskju; svona nákvæmni sýndi enginn nema í blekkingarskyni.
Svava Jakobsdóttir: „Kona með spegil“
Fyrsti leigjandinn
Á miðri tuttugustu öld efndi tímaritið Líf og list til smásagnasamkeppni. Sigurvegari var nítján ára stúlka, Svava Jakobsdóttir, og birtist sagan, „Konan í kjallaranum“, í júlíhefti ritsins 1950.
Eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsta saga Svövu sem gekk á prent. Svava tók hana ekki upp í bækur sínar síðar og hefur ef til vill talið hana til bernskubreka í ritlistinni, en sem innlegg í raunsæishefð íslensku smásögunnar stendur þessi saga vel fyrir sínu. Hún er til vitnis um að Svava hefur snemma fengið áhuga á að kafa undir yfirborð þess sögusviðs sem oft er líkt og sjálfgefinn þáttur í sagnagerð, þ.e.a.s. húsnæðis. Svövu er frá byrjun ljóst að þau híbýli sem mynda umgjörð um líf fólks eru merkingarbær í fleiri en einum skilningi; við köllum slíkt athvarf „húsnæði“, en næðið er stundum takmarkað þegar híbýli eru könnuð sem tilvistarsvið og spegill mannverunnar.
Vitundarmiðja sögunnar „Konan í kjallaranum“ er leigjandi, forveri hins fræga útlenda leigjanda úr samnefndi skáldsögu sem Svava skrifaði síðar, en þessi er stúdent úr sveit (og þannig viss „útlendingur“ í nútímaborginni) og leigir „herbergi á annarri hæð í húsi sem stóð vestur í bæ“. Herbergið er raunar í eigu kjallarafjölskyldunnar og þannig er stúdentinn á írónískan hátt settur undir fólkið sem býr fyrir neðan hann. Ekki nóg með það heldur er konan í kjallaranum að missa manninn sinn þegar sagan hefst. Og hvað merkir það? Eins og segir hnyttilega í sögunni: „Húseigandinn var konan í kjallaranum.“ Stúdentinn fylgist grannt með kjallarabúum (hann er á sveimi útí glugga , sem stundum hefur þótt vera „kvenlegt“ athæfi), og það verður ljóst að þangað beinast margbrotnar þrár hans. Hann fýsir í þetta heimili, líklega bæði sem barn og karlmaður. Hann lætur á það reyna hvort konan bjóðist til að festa tölu á skyrtu hans þegar eiginmaðurinn er heima í veikindaleyfi, eins og til að keppa við hann á heimavelli. Stúdentinn þarf að láta í minni pokann. Og þegar eiginmaðurinn deyr og konan kemur ekki út dögum saman þá „þráði [stúdentinn] að fara niður til hennar“. Þegar hann lætur verða af því tilkynnir hún honum að hann þurfi að flytja út.
„[...] Ég get fengið leigjanda, sem borgar helmingi hærri húsaleigu en þú og — þú skilur— ég þarf á peningum að halda. Ég vona, að það verði ekki langt þangað til þú getur flutt.“
Svo lokaði hún dyrunum og hann stóð einn eftir fyrir utan.
Konan í kjallaranum var orðin ekkja.
Eftir það sem á undan er farið mega þessi endalok teljast til rómantískrar íróníu, auk þess sem hér kemur fram ákveðinn sannleikur um mannleg samskipti og skáldskap. Um hvort tveggja gildir nefnilega að einn plús einn er ekki alltaf tveir.
Stúdentinn er að lesa viðskiptafræði við Háskólann en hann hafði ekki reiknað þessa konu rétt út, blindaður af öðru. Konan vex út úr því rými sem hann „ætlaði“ henni. Sögur Svövu vitna stöðugt um mikilvægi þess staðar sem heimilið er, en jafnframt segja þær okkur að sjálfsveran rúmast ekki á heimilinu – hún vex ævinlega út fyrir það.
12 konur
Ári áður en þessi saga birtist, hafði Svava lokið stúdentsprófi frá MR. Hún fæddist á Neskaupstað 4. október 1930 en fluttist á barnsaldri til Kanada þar sem faðir hennar þjónaði vestur-íslenskum söfnuði í Saskatchewan. Hún var tíu ára þegar fjölskyldan fluttist aftur til Íslands og settist að í Reykjavík. Þessar bernskuhræringar milli mál- og menningarheima hafa haft talsverð áhrif á Svövu og þeirra má sjá stað í verkum hennar, einna gleggst í smásögunni „Fyrnist yfir allt“ sem birtist í bókinni Undir eldfjalli 1989, en sú saga hefst með þessum orðum: „Hún mundi fyrst eftir sér á landamærum tveggja tungumála.“
Ekki fylgdi Svava verðlaunasögu sinni í Lífi og list eftir með öðrum birtum skáldverkum á næstu árum. Hún lagði stund á háskólanám, fyrst við Háskóla Íslands og síðan við Smith College í Massachusetts í Bandaríkjunum, þar sem hún lauk BA-prófi í enskum og norður-amerískum bókmenntum árið 1952. Hún stundaði framhaldsnám í forníslenskum bókmenntum við Oxford-háskóla 1952-1953 en síðan réðst hún til starfa við utanríkisþjónustuna og vann um nokkurra ára skeið í íslenska sendiráðinu í Stokkhólmi. Snemma á sjöunda áratugnum fæst hún við kennslu, dagskrárgerð við Ríkisútvarpið og blaðamennsku, m.a. hjá Lesbók Morgunblaðsins.
Það var því vel menntuð og reynd kona sem gaf út sína fyrstu bók árið 1965 en hún ber heitið 12 konur. Reyndar er erfitt að finna nokkur merki þess að hér sé nýr höfundur á ferð, því þessar tólf smásögur eru samdar af agaðri stílvitund og skörpu, sálrænu innsæi í hugarheim og hlutskipti þeirra kvenna og stúlkna sem hér fylla tölu postulanna. Jafnframt bjó þó ferskleiki í þessum sögum og býr enn, nú þegar þær eru lesnar fjörutíu árum síðar. Í þessari bók má sjá hvernig höfundur vinnur að endurnýjun sagnaraunsæis og hefur ýmsar hefðir undir í þeirri viðleitni sinni, m.a. ævintýri, þjóðsagnaarfinn og trúarminni. Hefðin birtist einnig í sveitinni, hinu hefðbundna íslenska sögusviði þar sem fyrsta sagan gerist og síðasta sagan endar. En sveitin birtist hér sem staður ógna og háska og konurnar sem leika hér aðalhlutverk „missa“ báðar barn sitt á þessum stað (þótt í ólíkum skilningi sé). Þessi sveit er í senn andhverfa og spegill þess nútímaveruleika sem Svava skrifar um og sveitin rúmar ekki þann veruleika — þótt Svava minni á hann með því að láta tvær af persónum annarra sagna, stúlkuna í sögunni „Gerviblóm“ og verkamanninn í samnefndri sögu, vera úr sveit, þangað sem þau eiga líklega ekki afturkvæmt. Tvær sagnanna gerast erlendis en flestar eiga sér stað í hinni nýju íslensku borg.
Það er þetta nýja landnám Íslendinga sem verður meginefni í mörgum sögum Svövu. Þetta landnám er merkt lífsháskanum sem fyrsta sagan innleiðir svo rækilega, og sá lífsháski býr einnig í hversdeginum. Ekki aðeins þegar móðirin í sögunni „Slys“, sem telur sig fórna miklu fyrir dóttur sína, heyrir malarskruðning og ískur í bremsum og óttast að dóttirin hafi orðið undir bíl og einhver löngun hrærist einnig innra með henni. Ekki að hún vilji að barnið lendi fyrir bíl, heldur þráir einhver strengur í henni hlutverk móður sem þyrfti að reyna slíkt og hefja þannig nýtt líf, vafalaust þrautafullt. Enda er epli megintákn sögunnar og fær magnaða viðbótarmerkingu í henni.
Fleiri mæður og húsmæður eru þannig með lífið að veði í þessum sögum Svövu og tilvera sumra hefur runnið svo rækilega saman við hið borgaralega heimili að siðfræði þeirra og gildismat virðist beinlínis tala til þeirra úr dauðum hlutum og heimilislegum „skyldustörfum“. Í sögunni „Snyrtimennska“ hefur kona skipulagt saumaklúbbsferð út á land, ekki síst í því augnamiði að eiga ástarfund með manni sem hún hefur kynnst. Það sem aftrar henni að lokum frá því að fara virðist ekki vera tregðan við að vera eiginmanni sínum ótrú, heldur hitt að buxur hans eru ópressaðar og sú spurning hvort blómavasinn færi kannski „betur á litla borðinu?“ (12 konur, 1965, s. 33). Í þessari lævíslegu kímni leynist einnig lævíst innsæi í tilvistarspurningar sem brenna undir niðri: Á ég heima hér? Er þetta allt hluti af mér, þessi umgjörð, þessi merki hins borgaralega lífs? Eða er ég ef til vill í jaðri þeirrar tilveru sem þessi vistarvera staðfestir og speglar? Það er raunar athyglisvert að þeir tveir karlmenn sem konurnar í þessum sögum ná að tengja sig við eru annars vegar verkamaðurinn sem hefur flosnað upp upp úr sveit sinni og hinsvegar utangarðsmaðurinn og flækingurinn í sögunni „Merkið“.
Hugarheimar og speglar
Eins og sjá má af þessu, spyr Svava djúpristra spurninga í sögum sínum, spurninga sem varða sjálfsmyndir og frelsi kvenna. Og þessar spurningar varða í ýmsum tilvikum einnig börn; tilvera kvennanna er mörkuð strengnum sem tengir þær börnum. Þetta á jafnvel við þegar ljóst er að kona getur ekki eignast barn, eins og í sögunni „Veggur úr gleri“. Þar með virðist ljóst að konan geti ekki á heilli sér tekið — nema þá helst að hlutir fylli í tómið sem hún skynjar: „Hlutir. Stórir og litlir. Hrjúfir, sléttir, mjúkir — en allir óvefengjanlega raunverulegir í höndum hennar. Vasar, skálar, bakkar, dúkar, borð — feginsamlega og falslaust þáði allt þetta umhyggju hennar“ (12 konur, s. 76).
En í þessu sagnasafni kemur einnig fram að Svava hefur fágæta hæfileika til að skyggnast í hugarheim barna og sérstaklega sviðsetur hún sjónarhorn ungra stúlkna af dirfsku og næmni og án tepruskapar (sbr. sögurnar „Rautt og gult“, „Merkið“ og „Faðir minn í kví kví“). Þroskasögur drengja er efni sem bókmenntirnar hafa sinnt kappsamlega, en það sama verður varla sagt um þroskaferil stúlkna. Innsæi Svövu í það ferðalag, bæði hér og í síðari verkum, birtist í þeirri athygli sem hún veitir brennandi tilvistaraugnablikum sem mynda áfangastaði eða vegamót í lífi stúlknanna. Í því samhengi beitir hún stundum minnum úr þjóðsögum, ævintýrum eða öðrum fornum sögnum af ritúalískum toga, en slíkt sagnagóss er ekki alltaf fagurt í ósnyrtum útgáfum og stundum grimmilegt. Stúlkan Erla Herlaugsdóttir í sögunni „Faðir minn í kví kví“ þekkir ekki föður sinn en fréttir að hann sé um borð í skipi við höfnina. Hún fær vinkonu sína Sillu til að fara með sér um borð og þær halda til káetu hans þar sem Erla segir til sín. Hann spyr þá Sillu hvort hann eigi hana líka og býður upp á drykk. Kokkurinn kemur inn og spyr hvort hann sé að trufla:
„Ekki aldeilis. Þetta er fjölskylduboð og allt í sóma og huggulegheitum. Þetta eru dætur mínar.“
Silla hélt áfram að flissa.
„Þú ættir að slátra alikálfinum,“ hélt hann áfram. „Eða passar það kannske ekki núna? Ég man aldrei hvernig það er með þennan alikálf.“
Flissið í Sillu nísti hana í eyrun eins og skerandi, óbærilegur hlustarverkur. Hún var komin með dunandi hjartslátt, og á rök augun dró slikju smánar og vonleysis. Og nú fyrst áttaði hún sig á því að Silla sat við hliðina á Herlaugi, þrýsti sér flírulega upp að honum og handleggur hans um öxl hennar og brjóst. Glasið í hendi hennar tæmt til hálfs. (12 konur, s. 46)
Það er því ekki bara ein heimsmynd sem hrynur hér, heldur í senn hugmyndir um föðurinn, æskuna og vináttuna. Um leið og hún hraðar sér upp úr skipinu verður ljóst að innra með henni hefur opnast ný vistarvera og þó ekki ókunn: „Og harka móðurinnar bjó nú í hennar eigin orðum og bergmálaði kunnuglega frá öllum veggjum“ (s. 47).
Komi alikálfurinn á óvart í tilvitnuðum texta, er Svava ekki síður djörf í framsetningu þar sem hún við fyrstu sýn virðist vinna með venjubundin tákn. Í sögunni „Gerviblóm“ segir af sambandi ungrar konu við karlmann sem ber greinilega ekki til hennar miklar tilfinningar, þótt hann sækist eftir vissum samvistum. Þegar hann kemur sér fyrir á legubekk heima hjá henni horfir hún „á blómavasann, sem stóð á borði við legubekkinn og bar við höfuð hans. Hún hafði aldrei haft dálæti á þessum vasa. En ekki fyrr en nú hafði hún tekið eftir hvað hann líktist mannslíkama. Öruggur og óhagganlegur stóð hann á flatri borðplötunni, sveigðist aðeins inn í miðju og belgdist svo oflátungslega út að ofan; haldið eins og ögrandi handleggur studdur á mjöðm, og upp úr stútnum spruttu gerviblóm“ (s. 60). Gerviblóm — sem virðast í fyrstu vera næstum of augljóst tákn fyrir ástleysi mannsins — fá hér endurnýjaðan mátt í myndrænni útfærslu vitnisburðar sem þeytist út í loftið í hlægilegu stærilæti, hvort sem við greinum þar orð mannsins eða efniskenndari afurð, nema hvortveggja sé. Jafnframt er þetta dæmi um það sem kalla má „afbyggingu“ karlmennskunnar.
Tepruleysi og dirfska höfundarins í lýsingum á samskiptum kynjanna, m.a. kynferðislegum tengslum, birtist þó hvað gleggst í sögunni „Séð í spegli“ sem hefst svo:
Ég stóð í svefnherberginu fyrir framan spegilinn. Þetta var stór spegill og gljáandi; vel fægður. Hann náði frá lofti niður á gólf. Ég gat séð mig alla í honum. Speglar hafa ætíð haft mjög sterkt aðdráttarafl á mig. Þeir snúa sjóninni við. Við sjáum það, sem aðrir sjá. Og það er nokkur lífsreynsla að hafa slík endaskipti á sjóninni — hægri verður vinstri og vinstri hægri, og það, sem er innan í mér, verður utan við — og þess vegna nálgast ég aldrei spegil af alvöruleysi. (S. 49)
Hið sama má segja um rithöfundinn Svövu Jakobsdóttur. Speglar af ýmsu tagi hafa alltaf verið mikilvægir í bókmenntum en Svava er meðal þeirra höfunda sem ekki aðeins nota sér spegla, heldur beinlínis kafa í þá og kanna þannig þessi fyrirbæri sem leika stórt hlutverk í sjálfskilningi og í allri eftirmyndun, þar á meðal sjálfri hermilist skáldskaparins.
En konan í sögunni stendur semsé í svefnherberginu, „við glampandi og jökulkaldan spegilinn“ (s. 49), henni leiðist samkvæmið frammi, og hún tekur að horfa á sig „eins og Gylfi var vanur að gera“, því þótt hún sé orðin þreytt á honum þá þarfnast hún augnaráðs hans. Inn kemur Gerða. „Það var eitthvað dimmt og hrjúft yfir manneskjunni allri. Hún var þéttholda, næstum kröftuglega vaxin“ og hún stígur upp að hlið sögukonunnar og horfir á hana í speglinum. Gerða segist hafa fylgst með henni úr dyrunum. „Og það kurraði lágt í hálsinum á henni“ en síðan segir hún: „Ég elska þig“ (s. 50-52). Þetta hefur eflaust sumum þótt rammur seiður árið 1965, hvað þá lýsingin sem fylgir af þeim saman í rúminu, en það er endurlit sögukonu til draums, eða martraðar, um þær Gerðu. Síðan er Gylfi skyndilega kominn í herbergið og þegar sögukona bregst ekki við samkvæmt því mynstri sem þau hafa komið sér upp í sambandi sínu, sendir hann hnefann í spegilinn og hún fylgist með sprungunum éta sig undarlega hægt „eftir yfirborði spegilsins“ og þar sér hún „afskræmt andlit Gerðu. Hún stóð fyrir aftan okkur og beið, og brosið í munnvikunum var orðið að glotti undir þungum augnalokunum“ (53-54).
Þessi spegill er líkt og raunsæið í sögum bókarinnar; það er mikil spenna í því, jafnt í tjáningunni sem í því sálræna innsæi sem miðlað er. Og í þessari sögu brestur raunsæið eiginlega undan „álaginu“ og sagan vísar að því leyti (ásamt sögunni „Veggur úr gleri“) til þeirra módernísku verka sem Svava átti síðar eftir að birta. En brotinn spegill speglar samt veruleikann, þótt hann raði honum að einhverju leyti upp á nýtt, jafnvel þannig að bros í munnvikum verður að glotti undir augnlokum.
Veisla undir grjótvegg
Ég hef dvalið við fyrstu bók Svövu, ekki síst vegna þess að hún hefur oft fallið í skugga þeirra bóka sem á eftir koma og hafa að geyma þekktustu sögur hennar: smásagnasafnið Veizlu undir grjótvegg (1967) og skáldsöguna Leigjandann (1969). Í sumum sagnanna í Veizlu undir grjótvegg beitir Svava áfram því skarpa og táknríka raunsæi sem einkenndi fyrstu bókina. Þetta á við um upphafs- og titilsögu bókarinnar, „Veizlu undir grjótvegg“, en hún fjallar um áðurnefnt landnám í borginni, þar sem fólki hættir til að spenna bogann umfram vaxandi velmegun. Viðleitni til að koma sér upp þaki yfir höfuðið umbreytist í löngun til að reisa musteri og virki. Jafnvel sveitin og náttúran skulu ekki skildar eftir fyrir utan — og ekki nægir að hafa málverk af hinum gömlu átthögum fyrir ofan sófann, eins og algengt var, heldur má segja að heilu fjöllin séu flutt inn á heimilið í formi hleðsluveggja sem eru meginprýði stofunnar, eins og hjá hjónunum í þessari sögu. En veggurinn gnæfir líka yfir heill hins nýja heimilis og í táknrænum skilningi er hann veggur á milli hjónanna. Raunar segir í upphafi sögu að öryggi konunnar reis „eins og veggur á milli þeirra“ (Veizla undir grjótvegg, 1967, s. 9). Sem minnir á söguna „Veggur úr gleri“ í 12 konum, þar sem auðmýkt eiginkonunnar gagnvart hlutskipti sínu í líflausu hjónabandi „hlutgaðist í vegg úr gleri, gljáandi, skínandi, undurfagran glervegg, sem skildi milli hennar og mannsins og skýldi henni eins og skjöldur“ (12 konur, s. 78). Lesandi býst síðan við að þetta fantastíska augnablik fái sinn röklega sess sem myndhverfing í raunsæissamhengi sögunnur, en það gerist ekki. Glerveggurinn er þarna, hlutur meðal hluta, og raunar sá hlutur sem henni er kærastur. Hann er þarna uns eiginmaðurinn deyr og „tók glerið með sér í fallinu“ (s. 79).
Það eru því ekki bara speglar sem eru teknir alvarlega heldur líka myndhverfingar, enda eru þær einskonar speglar þegar að er gáð. Í hinni kunnu „Sögu handa börnum“ er tekin bókstaflega hin hefðbundna hugmynd um móðurina sem ákveður að „fórna heimili og börnum kröftum sínum“ (Veizla undir grjótvegg, s. 43). Hér er það ekki aðeins í symbólskum skilningi sem börnin eiga hug hennar og hjarta, heldur er það bláköld staðreynd – já og bara líkamann eins og hann leggur sig. Börnin skera fyrst af henni stóru tána í rannsóknarskyni og þegar þau vilja vita hvernig mannsheili lítur út lætur hún eftir þeim að fremja viðeigandi aðgerð í eldhúsinu og heilinn er settur í krukku. Húsmóðirin heldur áfram störfum sínum á heimilinu og fórnarlund hennar er takmarkalaus. Þegar börnin eru farin að heiman breytist margt og konan lætur að lokum fjarlægja úr sér hjartað en ekki tekst henni að koma því í vist hjá börnum sínum.
Þessi mjög svo líkamlega fantasía, sem jafnframt er hvöss satíra um hlutskipti kvenna og mæðra, hefur löngum haft mikil áhrif á lesendur; sumir hafa hneykslast á sögunni, sumir hlæja, um aðra fer hrollur. Kannski gerist allt þetta í senn, enda lokar sagan á venjubundnar hugmyndir um þá fórn sem sprettur af móðurástinni og staðsetur þessa fórn á mörkum fáránleikans og hryllingsins, þannig að hvortveggja virðist búa undir hinu „saklausa“ yfirborði heimilislífsins.
Sögurnar tíu í Veizlu undir grjótvegg fjalla flestar á einn eða annan hátt um það hvernig fólk hreiðrar um sig í nýjum heimi, á heimili sem á að endurspegla hið nýja líf. Konurnar halda sig gjarnan innan veggja en karlarnir koma og fara og í þeim tveimur sögum þar sem karlar og eiginmenn eru í aðalhlutverki, „Naglagöngu“ og „Víxlinum og rjúpunni“, sjást þeir fara í reiðileysi um víðan völl. Í sögunni „Kona með spegil“ er verið að ganga frá nýju heimili og síðasta verk smiðanna er að setja upp spegil á ganginum. Þetta heimili á að vera griðastaður konunnar í svo bókstaflegum skilningi að hún hyggst læsa að sér og kasta eina lyklinum. Hún hefur útbúið glæsilega stofu og spegillinn „átti að endurspegla alla dýrð stofunnar […] í ganginum mundu laufskrúð og krónublöð öðlast nýtt líf.“ Hið nýja líf býr semsé í speglinum; í hann hyggst konan horfa og væntanlega segja: Herm þú mér … En þegar hún gengur til móts við uppsettan spegilinn kemur í ljós að hann er of lítill: „Í honum birtist ekkert nema afskræming urtagarðs, afskorin lauf, hálfir blómknappar“ (s. 86-87). Edensgarðurinn neitar að birtast í speglinum, enda má túlka söguna svo að konan hafi verið að leita að sjálfri sér í honum, eins og fram kemur þegar hún leggur upp í merkilegt ferðalag til að skila speglinum. Á leiðinni lítur hún í spegilinn. „Þarna sá hún sjálfa sig, að vísu ekki alveg heila“ (s. 89). En það er raunar sem hún sjái heiminn allan í sérkennilegum spegli, líkamsparta vantar á samferðamenn hennar í strætisvagninum og umhverfið er ekki rétt, það „hafði verið flutt til og því raðað einhvers staðar annars staðar og nákvæmnin í uppstillingunni gerði ekki annað en staðfesta þessa vitneskju; svona nákvæmni sýndi enginn nema í blekkingarskyni“ (s. 92).
Stúlka nokkur í annarri stórbrotinni fantasíu, sem nefnist „Krabbadýr, brúðkaup, andlát“, er líka að leita að sjálfri sér, en hennar spegill er bókakostur heimsins. Snemma vitrast henni við lestur hvenær hún muni deyja og nú er komið að þeim degi, en hann er raunar einnig brúðkaupsdagur hennar. Brúðguminn er að hjálpa til við frágang hins nýja heimilis en brúðurin reynir að ljúka síðustu sögunni sem hún á ólesna. Sú saga fjallar um lífsamstur lítils krabbadýrs sem telur sig fórna tíma sínum göfuglega með því að baða út öngum og knýja þannig sjávarstrauma fyrir systkini sín. Þetta er endurtekningarsöm iðja og einnig fer að bera á endurtekningum í frásögninni, og það vekur undrun brúðarinnar sem hefur ekki mikinn tíma aflögu til að ljúka sögunni því að öllu vindur ört fram í hennar heimi. Raunar svo ört að brúðkaup, flutningur í nýtt hús og jarðarför falla saman í eitt; þetta er ein samþjöppuð vígsla. Sögusviðin tvö spegla hvort annað; sagan fjallar meðal annars um lestur og felur jafnframt í sér áskorun til lesandans um að „skrifa“ þessi sögusvið saman, ævintýrið um krabbadýrið, sem býr við hversdagslega endurtekningu, og fantastísku söguna um forvitru brúðina, sögu þar sem allt gerist bara einu sinni — og varla það.
Leigjendur og hornsteinar
Oft hefur verið haft á orði að með tveimur fyrstu bókum sínum hafi Svava orðið einn allra fremsti smásagnahöfundur landsins og verður því ekki andmælt hér. Jafnframt hefur iðulega verið lögð áhersla á mikilvægt framlag hennar til íslenskrar kvennabaráttu; verk hennar séu spegill sem sýni ófrelsið er konur hafi búið við á ýmsum sviðum, ófrelsi sem sumstaðar blasir við en á sér einnig duldari myndir, jafnvel í aðstæðum þar sem konum virðist hampað eða „vel að þeim búið“. Þetta hlutskipti kvenna er kannað á ýmsan hátt í fyrstu bókum hennar, sem birtust á umbrotatímum og í aðdraganda mikilla hræringa í kvenréttindamálum.
En þessar fyrstu bækur koma einnig út á umbrotatímum í bókmenntasögunni. Með fantasíum sínum og róttækri táknbeitingu varð Svava einn af þeim lykilhöfundum sem ruddu módernismanum braut í íslenskri sagnalist á síðari hluta sjöunda áratugarins. Einkum losnaði þá um ýmis höft í skáldsagnagerð og í fyrstu skáldsögu sinni, Leigjandanum (1969), vinnur Svava áfram í senn að endurnýjun raunsæislegrar orðræðu og að módernískum tilraunum sínum með söguheiminn og eftirlíkingu veruleikans. Hér eiga vel við þau orð úr „Konu með spegil“ sem vitnað var til áður og standa einnig fremst í þessari grein. Það vekur undrun og óhug að við skulum þekkja þetta umhverfi; það er í Reykjavík en þó ekki; umhverfið hefur verið flutt til og því raðað einhverstaðar annarstaðar, af stakri nákvæmni og áreiðanlega í blekkingarskyni — en hvar og hversvegna?
Slíkar spurningar skipta miklu, því hér er fjallað um tengsl milli íslenskra og erlendra heima og heimsmynda. Enn sem fyrr er hið nýja íslenska landnám í fyrirrúmi. „Maður er svo öryggislaus þegar maður leigir“ segir í upphafsorðum sögunnar og þessi almæltu tíðindi fá uggvænlegan enduróm í gegnum alla söguna, sem snýst um leigu og ekki bara í einum skilningi og hið sama á við um öryggið. Inn til leigjendanna, hjónanna Péturs og sögukonunnar, flyst óvænt erlendur maður, nefndur „leigjandinn“, og hreiðrar um sig í forstofu þeirra. Þegar þau flytja loks í nýja húsið sitt, er hann orðinn svo heimilisfastur að hann flytur með þeim og undir lok sögunnar beinlínis vaxa þeir Pétur saman.
Leigjandinn hefur verið túlkaður sem dæmisaga eða allegóría um setu bandaríska herliðsins á íslenskri grund, og leigjandinn þá sem persónugerving þess. Erfitt kann þó að reynast að láta söguna „ganga upp“ í slíkri túlkun, þ.e. að fella alla atburðarás hinnar meintu allegóríu að sögulegum aðstæðum í raunheimi, enda hefur þegar komið í ljós í þessari umfjöllun að Svava bregður mjög á leik einmitt í slíkum „speglunum“. En hersetan er vissulega hluti af heimsmynd verksins og raunar allt andrúmsloft kalda stríðsins og sú orðræða öryggisleitar og ógnar sem einkenndi það. Það efni tók Svava svo alllöngu síðar fyrir á annan hátt í leikritinu Lokaæfing (1983); hjónin þar hafa þegar komið sér upp eigin húsnæði en keppast við að ganga frá kjarnorkubyrgi áður en sprengjunum verður varpað. Og svo þarf að æfa dvöl í byrginu af fullu raunsæi …
Leigjandinn fjallar á sinn hátt einnig um húsakost á heljarþröm og áhersla er lögð á samband konu og húsnæðis. Konan á í flóknu sambandi við nýja húsið sitt. Hún leggur lófann á vegginn, er fegin að finna fyrirstöðu, „líkt og hún hefði búizt við að finna þar aðeins loftið tómt“, en stendur við uns „hún gat ekki lengur greint að húð sína og steininn, en fann taugar og æðar liggja viðstöðulaust út í veggi þessa húss, fann hjartað dæla hennar eigin blóði þangað sem steypan markaði henni rúm í tilverunni“ (Leigjandinn, 1969, s. 101). Oft hefur verið vitnað til þessara lína í sögunni og vafalaust telja sumir þetta vera hámark þeirrar efnishyggju og firringar sem Svava gagnrýni í verkum sínum. Vissulega stundar Svava slíka gagnrýni en virkni textans er víðtækari. Konan í sögunni, eins og svo margar aðrar persónur Svövu, er allan tímann — einnig eftir að hún flytur í nýja húsið — að leita sér að húsnæði, staðfestu, samastað í tilverunni. Hina hliðina á efnishyggjunni í sögum Svövu má kannski kalla hluthyggju, viðleitni til að mynda lífræn tengsl við efnisheiminn og þar með nánasta umhverfi sitt. Firringin birtist frekar í því hversu erfitt er að mynda tengsl við aðra manneskju — án þess að hún gleypi líf manns. Stúlkan í smásögunni „Gerviblóm“ óttast að hún sé „ekki lengur til nema í athöfn og orðum þessa manns; eða einhvers staðar á bak við þau. Eða ósögð“ (12 konur, s. 61).
Leigjandinn er meðal annars saga um konu sem vill forðast slíka prísund og síðasta hreyfing hennar í sögunni beinist að því að opna útidyrnar, en það reynist ekki létt verk. Sagan er hins vegar flóknari vefur en svo að hægt sé að benda þar á skýran femínískan þráð. Slíkt verk var hinsvegar næst á dagskrá hjá Svövu, því haustið 1970 frumsýndi leikfélagið Gríma leikrit hennar Hvað er í blýhólknum? (gefið út 2003). Í því má sjá atriði úr ævi Ingu nokkurrar, sem sýna hvernig karlveldið og hugarfar þess beina henni inn á ákveðna braut, þótt hún streitist stundum á móti, og „loka“ hana síðan inni í föstu hlutverki á heimilinu þegar hún sem „fullveðja“ kona hyggst stunda frekara nám og móta sér eigin farveg. Inn í samræður verksins er skotið ýmsum athugasemdum úr fjölmiðlum, af borgarstjórnarfundi og öðrum opinberum vettvangi, m.a. þetta: „Í sjónvarpsþættinum Á öndverðum meiði þann 11. ágúst 1970 sagði karlmaður eftirfarandi setningu: Hver karlmaður mundi verða fyrstur til þess að frelsa konuna, ef hann teldi að það gerði hana hamingjusama“ (Hvað er í blýhólknum?, 2003, s. 27). Þegar eiginmaður Ingu segir að heimilið sé „hornsteinn þjóðfélagsins“ spyr Inga: „Og hvað er í blýhólknum?“ og lætur svo eiginmanninn rifja upp að þar standi eitthvað „til minja … um bygginguna, býst ég við. Eitthvað sem hefur sögulegt gildi, nú eða einhver verðmæti.“ Jafnframt þarf hann að viðurkenna að þessi verðmæti líti vart aftur dagsins ljós „nema í landskjálftum, kannski“ (s. 33-34). Það kann því að vera langsótt að fá að vita hvaða verðmætum eða upplýsingum var komið fyrir í „hornsteini þjóðfélagsins“; heimilið stendur eins og ævaforn bygging. Inga gerir sér fulla grein fyrir hlutskipti sínu og þessari hefð; en það er hægara sagt en gert að ætla sér að hagga byggingunni.
Gunnlöð og eldfjallalíf
Á áttunda áratugnum dregur nokkuð úr skáldskapariðkun Svövu, enda var hún þá önnum kafinn alþingismaður — hún sat á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið frá 1971 til ársloka 1979. Á þessum árum birtir hún samt nokkrar smásögur og skrifar þrjú leikrit fyrir svið og útvarp. Hún tekur svo rækilega upp þráðinn í smásagnagerðinni með bókinni Gefið hvort öðru … árið 1982. Þar birtir hún nýjar sögur ásamt þeim sem birst höfðu á prenti árin á undan, þannig að þessi bók myndar eiginlega brú frá sagnaverkunum seint á sjöunda áratugnum yfir til upphafs þess níunda. Titilsagan, sem birtist fyrst á prenti 1968, hafði haldið ferskleika sínum og gerir það enn, því manni hnykkir við að lesa um fórnfýsi stúlkunnar sem bregst jákvætt við þegar beðið er um hönd hennar:
Hún opnaði efstu skúffuna í snyrtiborðinu og tók þaðan öxi. Öxina bar hún upp að birtunni og íhugul á svip renndi hún fingri yfir eggina. Síðan lagði hún aðra hönd á plastdúkinn, með hinni hóf hún öxina á loft, miðaði, og með snöggu átaki hjó hún af sér höndina.
Ekki var laust við að hún fyndi til nokkurs stolts þegar hún virti fyrir sér handbragð sitt. Þetta var snyrtilega gert, furðusnyrtilega er þess var gætt að hún hafði aldrei gert þetta áður. (Gefið hvort öðru ..., 1982, s. 10)
Öxi í snyrtiborðsskúffu, orðið „handbragð“ og umsögnin um frumleika þessa gjörnings valda því að óhugnaður og kímni renna hér saman á býsna áleitinn hátt, líkt og í fleiri sögum Svövu. Myndhverfingin í sögunni er í senn dauðans alvara og leikrænt tilefni til að endurskoða veruleikann og vandann að vera heil manneskja.
Aðrar sögur í safninu teygja sig yfir tilbrigðaríkan skala milli sálfræðilegs raunsæis og fantasíu. Næsta sagnabók Svövu, skáldsagan Gunnlaðar saga (1987), spannar einnig þann skala, en með öðru móti. Þar fara saman raunsæisleg frásögn um samtímaatburði og hefðarefni, raunar forsögulegt efni, sem virðist markað fantasíu. Móðir flýgur til Danmerkur þar sem dóttir hennar, Dís, situr í fangelsi fyrir tilraun til ráns á gersemi, gullkeri sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Danmerkur. Ker þetta — sem er meðal annars lýst sem einskonar spegli — hefur opnað Dís leið inn í hinn forsögulega heim Gunnlaðar, gyðjunnar sem hafði það hlutverk að varðveita hið helga ker og vígja konung til hásætis, í þessu tilviki Óðin. Því skáldsagan sprettur öðrum þræði af könnun forns vitnisburðar um Gunnlöðu þá sem getið er í Hávamálum og saga Svövu felur meðal annars í sér endurritun hinnar frægu frásagnar Snorra-Eddu af Óðni og skáldskaparmiðinum.
Hér eru því tvö sögusvið, eiginlega tvö tilverusvið, eins og í smásögunni „Krabbadýr, brúðkaup, andlát“, og hér má líka notast við lestrarhugtakið, því segja má að þessi svið lesi hvort annað jafnharðan og þau eru spunnin listilega saman í skáldsögunni. Heimar mætast og fólk vígist til nýs skilnings, nýrra (hlut)verka. Það er ekki aðeins að móðirin fylgi dóttur sinni í vissum skilningi yfir í jarðheim Gunnlaðar, heim sem svikinn er um leið og Gunnlöð. Móðirin kynnist einnig í Kaupmannahöfn tveimur „undirheimum“ sem raska borgaralegri heimsmynd hennar. Hún gengur sjálfviljug, forviða eiginlega, inn í annan þessara heima, sem opinberast í skítugri ölkrá, og þar með hrynja stéttamúrar í sögunni rétt eins og skilin milli samtíma og hins forsögulega sviðs þaðan sem berast ýmis skilaboð um verðmæti og lífsgildi.
Svava lagðist í miklar rannsóknir við undirbúning og ritun þessarar skáldsögu. Hún gerir grein fyrir þeim rannsóknum í merkilegri ritgerð, „Gunnlöð og hinn dýri mjöður“, sem birtist í hausthefti Skírnis 1988 og síðan aftur í bók Svövu, Skyggnst á bak við ský (1999), en þar er einnig að finna þrjár ítarlegar ritgerðir um skáldskap og skáldskaparfræði Jónasar Hallgrímssonar. Jafnframt því sem lesendur fylgja Svövu eftir þar sem hún sökkvir sér af ástríðu ofan í hugmyndir og orðlist Jónasar, hljóta þeir að velta fyrir sér hvernig þessi umræða og greining spegli fagurfræðina í hennar eigin skáldverkum. Um skáldskaparfræði eigin ritlistar hefur Svava einnig fjallað í greininni „Reynsla og raunveruleiki“ sem birtist fyrst árið 1980 (í bókinni Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur) og mun verða endurbirt í bókinni Kona með spegil (ritstj. Ármann Jakobsson), sem væntanleg er hjá JPV-útgáfu í tilefni af 75. afmælisdegi skáldsins 4. október 2005.
Síðasta sagnabókin sem Svava birti er Undir eldfjalli sem út kom 1989 og geymir sex smásögur. Þar er ekki að finna fantasíur eins og þær sem sjá má í Veizlu undir grjótvegg og Gefið hvort öðru …, en táknauðgin ber handbragði skáldsins vitni sem fyrr, stundum ákallandi en stundum læðist hún að lesandanum og mótar skynjunina á hljóðlátan hátt áður en maður rankar við sér. Og raunar er ævinlega einhver fantastísk og frjó spenna í þeim hefðatengslum sem Svava vinnur með. Hér sækir hún enn í þjóðsagnaarfinn (í „Sögu bróður míns“), í trúarminnin (í „Pálmasunnudagsgöngu“) og í Völuspá (í titilsögunni, „Undir eldfjalli“). Slík tengsl eru mörkuð vitundinni um að nútímamaðurinn lifi á mörkum heima; hann hefur glatað sínum sjálfgefnu heimkynnum og stað í tilverunni, og þarf að búa sér eigið ból. Þetta birtist og í sögunni sem minnst var á í upphafi þessarar greinar, „Fyrnist yfir allt“, þar sem stúlka man eftir sér á landamærum tveggja tungumála; hún er að flytjast til útlanda. Í „Endurkomu“ snýr hins vegar kona aftur til Íslands í heimsókn eftir að hafa búið lengi erlendis. Margt er henni sem opinberun. „Hún furðaði sig á að hún skyldi veita þéttum smágróðrinum athygli út um bílgluggann“ (Undir eldfjalli, 1989, s. 35).
Í þessari sögu, sem og fleirum í bókinni, má greina vitund um forgengileikann og henni fylgir ný náttúrusýn, sem einnig má sjá stað í Gunnlaðar sögu. Hafi konunni í Leigjandanum ekki lánast að mynda lífrænt samband við steinsteypuna í nýja húsinu, þá skapast nú tengsl milli manns og steins í sögunni „Fjörusteinn“: „Þetta var venjulegur fjörusteinn sem hann hefði ekki litið við þegar hann var yngri en uppgötvaði nú að með aldrinum lærðist manni að greina mál steina, gat hlýtt á ævisögu þeirra og sagt þeim sína“ (Undir eldfjalli, s. 72). Slíkar samræður stunda einnig hjónin í titilsögu bókarinnar, sem hafa ákveðið að rækta upp hrjóstrugan jarðskika við Heklurætur, þótt þau séu ekki lengur á léttasta skeiði og þrátt fyrir vitund um eyðingarmátt fjallsins. Efnið í þessar samræður má sækja býsna langt aftur í tímann, svo sem sjá má í Gunnlaðar sögu. Um móðurina í þeirri sögu segir Svava Jakobsdóttir sjálf í pistli sem hún skrifaði fyrir Bókmenntavefinn og finna má hér í næsta rafræna herbergi á þeim vef: „Ein síðasta yrðingin í munni hennar er: „Í eldi úr brjósti fangans rís land.“ Ég hef grun um að þetta land megi finna í „raunsæju“ samhengi í samnefndri smásögu í bók minni Undir eldfjalli.“ Við það má bæta að síðustu orð Gunnlaðar sögu eru reyndar þessi: „Já, tvö tré á ströndu“ og í „Undir eldfjalli“ segir að „hér mundi rísa ný jörð, iðjagræn þar sem fyndust gullnar töflur í grasi“ (Undir eldfjalli, s. 27). Þessar tvær sögur tengjast þannig gegnum Völuspá og hugmyndina um nýjan heim, nýtt mannlíf, nýjan skilning á náttúrunni.
1. okt. 2005
© Ástráður Eysteinsson.
Athugasemd
Við samningu þessarar yfirlitsgreinar hef ég haft óbeinan stuðning af öðrum greinum mínum um verk Svövu Jakobsdóttur (sjá eftirfarandi lista), og á einum stað sæki ég texta beint í greinina „Að eiga sér stað“.
- „Að gefa í boðhætti. Módernismi og kvennapólitík í Gefið hvort öðru … eftir Svövu Jakobsdóttur“, í: Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999 (upphaflega birt í Tímariti Máls og menningar, 5. hefti 1983).
- „At Home and Abroad. Reflections on Svava Jakobsdóttir’s Fiction“, inngangur að sagnasafni Svövu í enskri þýðingu: The Lodger and Other Stories, þýð. Julian D’Arcy o.fl, Reykjavík: University of Iceland Press 2000.
- „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“, í Andvara, 126. árg., 2001.
- „Mörk byggðar og óbyggðar“, í: Kona með spegil, ritstj. Ármann Jakobsson, Reykavík: JPV-útgáfa 2005.
Greinar
Almenn umfjöllun
Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005. Safn greina um verk Svövu eftir ýmsa höfunda, auk þriggja viðtala við hana og þriggja fræðigreina eftir Svövu sjálfa.
Ástráður Eysteinsson: „At Home and Abroad. Reflections on Svava Jakobsdóttir´s Fiction.“ Inngangur að sagnasafni Svövu í enskri þýðingu: The Lodger and Other Stories, þýð. Julian D´Arcy o.fl. Reykjavík: University of Iceland Press 2000.
Ástráður Eysteinsson: „Mörk byggðar og óbyggðar“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 149-162
Bára Magnúsdóttir: „Ég vissi að ég var KONA“ [Um málþing um Svövu Jakobsdóttur sem haldið var þann 11. nóvember 2000 í tilefni af sjötugsafmæli skáldkonunnar]
Vera, 20. árg., 1. tbl. 2001, s. 62-63
Birna Bjarnadóttir: „Að vera opin fyrir goðsögulegri skynjun. Um hversdagslega reynslu í smásögum Svövu Jakobsdóttur.“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 131-148
Dagný Kristjánsdóttir: „Oprindelsens sprog“
På jorden 1960-1990, Nordisk kvinndelitteraturhistorie, bind iv, ritstj. Elisabeth Møller Jensen og fl. København, Rosinante 1997, s. 36-41
Dagný Kristjánsdóttir: „Hvert einasta orð er mikilvægt.“ Viðtal við Svövu Jakobsdóttur
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 3. h. 1990, s. 3-13. Birtist einnig í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 30-43
Dagný Kristjánsdóttir: „Af texta ertu komin. Um hefð og textatengsl í verkum Svövu Jakobsdóttur“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 101-115
Dagný Kristjánsdóttir: Frelsi og öryggi. Um sögur Svövu Jakobsdóttur og íslensku kvennahreyfinguna
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1977
Fríða Á. Sigurðardóttir: „Rithöfundakynning – Svava Jakobsdóttir. Spyrill Fríða Á. Sigurðardóttir“
Mímir, 9. árg., 1. tbl. 1970, s. 48-50. Birtist einnig í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 26-29
Gerður Kristný Guðjónsdóttir: „Grasaferð að læknisráði.“ Viðtal við Svövu Jakobsdóttur
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 3. h. 1998, s. 4-14. Birtist einnig í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 44-55
Gerður Kristný: „Á bak við veruleikans köldu ró“
Skírnir 2009, 183. árg., haust, bls. 445-54.
Helga Kress: „Kannski var hún alls ekki þarna. Hugleiðingar um spegla og orð í áður óbirtum handritskafla eftir Svövu Jakobsdóttur.“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 93-100
Kristinn Jóhannesson: „Två isländska författarinnor.“ [Skáldkonurnar Jakobína Sigurðardóttir og Svava Jakobsdóttir. Útdráttur á ensku]
Gardar, årsbok 7 1976, s. 5-24
Kristín Ástgeirsdóttir: „Þingkonan Svava Jakobsdóttir“
Vera, 23. árg., 2. tbl. 2004, s. 44-45
Neijmann, Daisy L: „Á landamærahafinu: hugleiðingar um sögur Svövu Jakobsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 77. árg., 2. tbl. 2016, s. 66-74
Ragnar Ingi Aðalsteinsson: „Brestur í hvelfingunni. Fáein orð um sögur Svövu Jakobsdóttur sem kennsluefni“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 204-215
Rannveig Jónsdóttir: „Maður verður að bera virðingu fyrir sjálfum sér.“ [Viðtal við Svövu Jakobsdóttur]
19. júní, 33. árg., 1983, s. 13-17
Rósa Björg Brynjarsdóttir: „Verk Svövu Jakobsdóttur ganga í endurnýjun lífdaga!“ (viðtal)
19. júní, 2006, s. 46-48
Sigríður Albertsdóttir: „Fantasía og karnival í sagnaheimi Svövu Jakobsdóttur“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 163-175
Sigurður A. Magnússon: „The Icelandic short story. Svava Jakobsdóttir.“
Scandinavian studies, 49. árg., 2. tbl. 1977, s. 208-216
Soffía Auður Birgisdóttir: „Lífið, leitin, listin“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 14-25
Soffía Auður Birgisdóttir: „Svava Jakobsdóttir (1930-2004)“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 343-348
Svava Jakobsdóttir: „Skáldskapurinn um sjálfa mig“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 56-59
Um einstök verk
Endurkoma
Kristján B. Jónasson: „Endurkoma“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 3. h. 1990, s. 15-21
Fyrnist yfir allt
Jón Yngvi Jóhannsson: „ Á landamærahafinu“
Ársrit Torfhildar 1994, s. 32-39
Gefið hvort öðru
Ástráður Eysteinsson: „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 126. árg. 2001, s. 141-157
Ástráður Eysteinsson: „Að gefa í boðhætti. Módernismi og kvennapólitík í Gefið hvort öðru... eftir Svövu Jakobsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 5. h. 1983, s. 535-549
Umbrot, 1999, s. 122-136. Reykjavík, Háskólaútgáfan
Kristín Jónsdóttir: „Svava Jakobsdóttir, Gefið hvort öðru“
Vera, 3. tbl. 1982, s. 37-38
Gunnlaðar saga
Ástráður Eysteinsson: „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 126. árg. 2001, s. 141-157
Ármann Jakobsson: „Sagðirðu gubb? : Svava Jakobsdóttir og goðsögurnar í samtímanum“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 1. tbl. 2007, s. 35-45
Dagný Kristjánsdóttir, 1991. Gunnlaðar saga eftir Svövu Jakobsdóttur. Kennarahandbók
Reykjavík, Forlagið
Dagný Kristjánsdóttir: „Stabat Mater Dolorosa.“ Um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 113. árg. 1988, s. 99-112
Elín Garðarsdóttir: „Gunnlaðar saga. Svava Jakobsdóttir“
Vera, 7. árg., 1. tbl. 1988, s. 43-44
Heimir Pálsson: „Alltaf sama sagan?“
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 4. tbl. bls. 65-79.
Maureen Thomas: „Gunnlaðarsaga og kvenröddin í íslenskri bókmenntahefð“ [Sverrir Hólmarsson þýddi]
Skírnir, 162. árg., vor 1988, s. 138-163
Pétur Gunnarsson: „Gunnlaðarsaga“
Skírnir, 162. árg., vor 1988, s. 199-203
Rory W. McTurk: „Loðbóka og Gunnlöð. Frá frjósemisdýrkun til víkingaveldis“
Skírnir, 165. árg., haust 1991, s. 343-359
Soffía Auður Birgisdóttir: „Á mörgum plönum“
19. júní, 38. árg. 1988, s. 76
Soffía Auður Birgisdóttir: „Lífsvon í deyjandi sköpunarverki. Um Gunnlaðar sögu og Graalsögnina“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 116-130
Sven-Axel Bengtson: „Svava Jakobsdóttir. Gunnlöðs saga. Overs. från isl. av Inge Knutsson“
Gardar, årsbok 22, 1991, s. 50
Svava Jakobsdóttir: „Gunnlöð og hinn dýri mjöður“
Skírnir, 162. árg., haust 1988, s. 215-245
Vésteinn Ólason: „Tvö ferðalög“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 2. h. 1988, s. 242-247
Hvað er í blýhólknum [skrifað fyrir leikhópinn Grímu 1970, útgefið 2003]
„Hvað er í blýhólknum“ [textabrot, myndir]
19. júní, 21. árg. 1971, s. 35-39
Soffía Guðmundsdóttir: „Um skáldverk Svövu Jakobsdóttur“
Réttur, 54. árg., 2. tbl. 1971, s. 63-69
Krabbadýr, brúðkaup, andlát
Svala Þormóðsdóttir: „Þetta er ávöxtur míns starfsdags! Leikið í sögunni „Krabbadýr, brúðkaup, andlát“ eftir Svövu Jakobsdóttur“
Ársrit Torfhildar, 2. árg., 1. tbl. 1988, s. 61-72
Leigjandinn
Ástráður Eysteinsson: „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 126. árg. 2001, s. 141-157
Garðar Baldvinsson: „Tveir karlmenn sem böðuðu sig í heimsins dýrð. Um Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur“
Í Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001
Gunbjørg Dale: Svava Jakobsdóttirs Leigjandinn. Modernistik allegori eller uttrykk for en feministik estetikk?
Bergen, Universitetet i Bergen, 1981
Eysteinn Þorvaldsson: „Leigjandinn“
Mímir, 9. árg., 1. tbl. 1970, s. 51-53
Gunnar Benediktsson: „Með táknum og stórmerkjum“
Tímarit Máls og menningar, 31. árg., 1. h. 1970, s. 77-90
Helga Kress: „Úrvinnsla orðanna. Um norska þýðingu Ivars Eskeland á Leigjandanum eftir Svövu Jakobsdóttur“ 1
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 1. h. 1985, s. 101-119
Helga Kress: „Úrvinnsla orðanna. Um norska þýðingu Ivars Eskeland á Leigjandanum eftir Svövu Jakobsdóttur“ 2
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 2. h. 1985, s. 229-246
Njörður P. Njarðvík: „Undir verndarvæng“
Afmælisrit til Dr. phil. Steingríms J. Þorsteinssonar prófessors 2. júlí 1971, frá nemendum hans, 1971. Reykjavík, Leiftur, s. 117-127
Ólafur Jónsson: „Okkar heimur, okkar líf 2. Leigjandinn“
Líka líf. Greinar um samtímabókmenntir, 1979, s. 70-74
Pétur Már Ólafsson: „Maður er svo öryggislaus. Um Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. h. 1995, s. 104-114
Soffía Guðmundsdóttir: „Um skáldverk Svövu Jakobsdóttur“
Réttur, 54. árg., 2. tbl. 1971, s. 63-69
Sverrir Hólmarsson: „Leigjandinn“
Skírnir, 144. árg., 1970, s. 229-230
Lokaæfing. Leikrit í sex atriðum
Pétur Már Ólafsson: „Leigjandinn á Lokaæfingu“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 176-186
Sigríður Einarsdóttir: „Lokaæfing. Leikrit eftir Svövu Jakobsdóttur“
Vera, 6.-7. tbl. 1983, s. 48-49
Skyggnst á bak við ský
Þórir Óskarsson: „Skáldskapur og saga. Nítjánda öldin sem texti nýrra íslenskra fræðirita“
Andvari, 125. árg. 2000, s. 144-169
Þórir Óskarsson: „Allt er þó hneppt í eina heild. Jónas Hallgrímsson með augum Svövu Jakobsdóttur“
Í Ármann Jakobsson (ritstjóri): Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005, s. 187-203
Tiltekt
Dagný Kristjánsdóttir: „Tiltekt í myndasafninu. Um endurtekningar í smásögunni „Tiltekt“ eftir Svövu Jakobsdóttur“
Skírnir, 171. árg. vor 1997, s. 65-78
Undirstraumar, 1999. Reykjavík, Háskólaútgáfan, s. 157-167
Tólf konur
Ástráður Eysteinsson: „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 126. árg. 2001, s. 141-157
Sigurður Óskar Pálsson: „12 konur“
Múlaþing 1. árg. 1966, s. 180
Undir eldfjalli
Ástráður Eysteinsson: „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 126. árg. 2001, s. 141-157
Friðrika Benónýsdóttir: „Undir eldfjalli“
19. júní, 40. árg. 1990, s. 63-64
Jón Karl Helgason: „Fjórir ónúmeraðir fuglar“
Skírnir, 164. árg., haust, 1990, s. 495-507
María Jóhanna Lárusdóttir: „Undir eldfjalli“
Vera, 9. árg., 2. tbl. 1990, s. 38-39
Soffía Auður Birgisdóttir: „Á mörkunum“
Jón á Bægisá, 1. tbl. 1997, s. 20-28
Veizla undir grjótvegg
Ástráður Eysteinsson: „Að eiga sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“
Andvari, 126. árg. 2001, s. 141-157
Gunnar Benediktsson: „Þrjú ung sagnaskáld“
Tímarit Máls og menningar, 29. árg., 1. h. 1968, s. 83-94
Njörður P. Njarðvík: „Veizla undir grjótvegg. Sögur“
Skírnir, 142. árg. 1968, s. 178-179
Ólafur Jónsson: „Okkar heimur, okkar líf 2. Veisla undir grjótvegg“
Í Líka líf. Greinar um samtímabókmenntir, 1979, s. 67-70
Soffía Guðmundsdóttir: „Um skáldverk Svövu Jakobsdóttur“
Réttur, 54. árg., 2. tbl. 1971, s. 63-69
Verðlaun
2001 – Heiðursviðurkenning Bókasafnssjóðs höfunda fyrir framlag til íslenskra bókmennta
2000 – Jafnréttisviðurkenning frá Jafnréttisráði sem brautryðjandi í jafnréttismálum
1997 – Henrik Steffens verðlaunin. Veitt fyrir listferil sem hefur gildi fyrir evrópska menningu í heild
1996 – Kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands
1983 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1982 – Viðurkenning Rithöfundasjóðs Íslands
1968 – Viðurkenning Rithöfundasjóðs Íslands
Tilnefningar
2000 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Skyggnst á bak við ský
1990 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Undir eldfjalli
1988 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Gunnlaðar saga
1984 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Gefið hvort öðru
1972 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Leigjandinn
1971 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Leigjandinn
Eldhús eftir máli
Lesa meiraGunnlöth's Tale
Lesa meiraGunnlaðar saga
Lesa meiraEldhús eftir máli
Lesa meiraHvað er í blýhólknum
Lesa meiraLa saga de Gunnlöd
Lesa meiraSögur handa öllum
Lesa meiraThe Lodger and Other Stories
Lesa meiraSmásaga í Wortlaut Island
Lesa meira