Æviágrip
Þórður Helgason er fæddur í Reykjavík 5. nóvember 1947. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1967 og stúdentsprófi frá sama skóla ári síðar. Hann útskrifaðist með B.A.-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1972 og lauk síðan Cand. mag.-prófi í íslenskum bókmenntum í kjölfarið (1977) við sama skóla.
Þórður kenndi við Verslunarskóla Íslands um árabil en er nú dósent í íslensku við Kennaraháskóla Íslands. Áður hafði hann verið stundakennari við sama skóla í nokkur ár. Einnig sinnti hann stundakennslu í Háskóla Íslands um langt skeið og var auk þess lektor þar einn vetur.
Þórður hefur sent frá sér ljóðabækur, barna- og unglingabækur auk þess að hafa samið fjölda námsbóka og séð um útgáfu verka, s.s. eftir Þorgils gjallanda. Smásögur hans hafa einnig birst í bókum og tímaritum. Hann er félagi í Ritlistarhópi Kópavogs og hefur haldið fjölmörg námskeið um ljóðagerð um árabil og séð um útgáfu bóka í kjölfar þeirra.
Þórður býr í Kópavogi.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Um höfund
Að segja margt í fáum orðum: Um verk Þórðar Helgasonar
I. Inngangur
Þórður Helgason rithöfundur hefur lítið haft sig frammi og verk hans láta lítið yfir sér. Ekki er þó allt sem sýnist og kúnst Þórðar felst í því að bregða upp eftirminnilegum myndum og segja margt í fáum orðum. Hann hefur skrifað ýmis konar verk, ljóðabækur, barnabækur, unglingabækur, smásögur, kennsluefni og greinar. Þrátt fyrir ólíka miðla eru höfundareinkenni Þórðar skýr: knappt, lágstemmt form og góður húmor.
Fyrst mun ég fjalla um ljóðabækur hans fjórar og þar á eftir barna- og unglingabækur sem líka eru fjórar talsins.
II. Ljóð
II.I
Ljóðabækur Þórðar Helgasonar eru fjórar talsins. Þar var ég frá 1989, Ljós ár frá 1991, Aftur að vori frá 1993 og Meðan augun lokast frá 1995.
Ljóðin eru óbundin og eru ýmist stutt, hnitmiðuð ljóð eða prósaljóð. Fyrsta bókin Þar var ég fjallar um sveitadvöl ungs drengs í Fljótshlíðinni en ljóðin í hinum bókunum eru sundurleitari, stundum tengjast þó ljóð sem standa saman.
Ljóðin í Þar var ég eru einföldust og hæfir það vel efni hennar, bernskunni. Lýst er umhverfi, fólki og atvikum þar sem heimur Njálu er sjálfsagður hluti veruleikans.
Sjónarhornið er tvöfalt, fullorðinn ljóðmælandi miðlar upplifun barns. Sjö ára drengur í sveit er bæði lítill og stór og margt sem hann þarf að takast á við, sbr. ljóðaheitin ÁLAG, HÁSKI, AFREK og SPENNA. Með tímanum hefur allt skroppið saman og misst merkingu líkt og Stóristeinn í sveitinni: „Nafnlaus er hann nú og miklu minni“. (Þar var ég, STÓRISTEINN, bls. 22) Ljóðin í Þar var ég eru ljúf, skondin og tregafull í myndum sínum af horfnum heimi og dánu fólki. Lokaljóð bókarinnar gefur hinum ljóðunum nýja vídd:
LOK
Undarlegt
hafa fundið sólina
koma upp í hjartanu
yfir rauðan jökulinnsilfurlæki og gullár
renna um æðarnarfæturna skjóta rótum
í tærri morgundöggundir þessari hlíð
og síðan
aldrei meir.
(Þar var ég, bls. 64)
Hamingjutilfinning sveitardvalarinnar samofin náttúrufegurð Fljótshlíðarinnar er dýrmæt og fágæt. Bókarheitið Þar var ég sem vísar í ljóðið NÆSTA VETUR má því túlka tilvistarlega, í sveitinni hafi ljóðmælandi fundið sjálfan sig:
NÆSTA VETUR
Ég rétti strax upp höndina
þegar kennarinn minn sagði
í landafræðitíma
Hún er stundum kölluð
Fljótshlíðin fagraÞar var ég!
(Þar var ég, bls. 63)
II.II
Í seinni bókunum þremur kemur Fljótshlíðin og Njála fyrir en almennt má segja að ljóð þeirra séu óhlutbundnari og margræðari. Prósaljóðum fjölgar og eru þau flest í síðustu bókinni. Þau innihalda stuttar frásagnir, oft aðeins eina málsgrein:
JÖKULLINN
Öldum saman blasti hann við og enginn tók eftir
neinu óvenjulegu – hann var þarna rétt eins og
honum hefði verið komið fyrir af ósýnilegri hendi
sem allir vissu að setti allt á sinn stað og hann var
jafnan blár og hvítur en grænn í rætur og skreytti
sig oft á morgnana með rauðum lit og stundum
glitrandi litleysu sem skar í augu og öllum fannst
það við hæfi – þar til það barst um sveitina að
Ásgrímur ætlaði að koma og mála jökulinn – þá brá
svo við að Guðmundur gamli í Háamúla sem
sjaldan lét til sín taka í hinum stærri málum kvað
upp úr um það að sér hefði ævinlega þótt þessi
jökull ágætur eins og hann var.
(Ljós ár, bls. 17)
Prósaljóðin hverfast um eina hugmynd. Endir þeirra er óvæntur og oft ganga ljóðin í hring. Í hinni gerðinni fer Þórður enn sparlegar með orð og línuskil, sérstaklega þau síðustu, magna upp endinn. Merking ljóðanna felst því ekki síður í þögn þeirra, því sem ekki er sagt beinum orðum. Afstaða Þórðar kemur vel fram í ljóðinu ORÐ þar sem ljóðmælandi er:
einn í sjálfheldu
á einstigi
orða.
(Ljós ár, bls. 7)
Umræða um tungumálið birtist líka í ljóðinu BLÁ FJÖLL þar sem fólk á leið frá „fjallinu“ finnur „afdrep/í húsi meðal húsa“. Ljóðinu lýkur svo:
Þar æjum við um stund og segjum sögur
af bláum fjöllum fjarri húsum.
(Ljós ár, bls. 8)
Náttúrumyndmál þessa ljóðs er mjög einkennandi fyrir ljóð Þórðar. Lífið er stutt áning á lengri ferð, fjallið táknar upprunann og þrána eftir nálægð og algildri merkingu. Þeirri þrá er ekki fullnægt nema í dauðanum, fjallið er alltaf fjarlægt, blátt, og þótt tungumálið megni ekki að tjá hið einstaka eru sögurnar allt sem við höfum.
Ljóðið Á HEIÐI fjallar um mann sem verður bensínlaus á miðri heiði:
…Furðulegt, hugsaði maðurinn,
að svo hittist á þegar ég verð bensínlaus á
miðri heiði að þá hitti ég fyrir mosaþúfu, fjall,
ár og læki, gamla brú og fossa og að auki
stöðuvatn þar sem synda endur og svanir.
(Meðan augun lokast, bls. 10)
Maðurinn er einn á heiðinni, utan samfélagsins. Upplifun hans er einstök og órökræn, laus undan oki vanans sér hann umhverfi sitt í nýju ljósi. „Hálffallna“ brúna mætti túlka sem tengingu við upprunann.
Í ljóðinu MAÐUR OG LÆKUR leitar týndur maður byggða og finnur læk. Lækurinn táknar ævina, flæði tímans, og maðurinn snýr við og fylgir læknum að uppsprettu:
undir kvöld speglast dimmrauð ský í hyljum
og maður og lækur koma saman
að uppsprettu
undir haustgrænu mosafjalli.
(Ljós ár, bls. 41)
Kvöld, haust og sólarlag eru allt dauðamyndir en dauðinn er áleitið minni í ljóðum Þórðar. Nokkur ljóða hans fjalla um dauðastundina og í ljóðinu HEIM líkir hann dauðastundinni við það þegar „heimfúsir“ hestar renna að kvöldi þreyttir heim í hlað. (Aftur að vori, bls. 38). Í ljóðinu ÞAR KEMUR má túlka dauðastundina sem þá stund þegar barn sem ekki mátti vera lengur úti sofnar við köll þeirra sem fengu að vera lengur (Meðan augun lokast, bls. 41). Önnur ljóð fjalla um gamalt fólk, horfna tíð og látna vini. Dauðinn birtist einnig í myndum af myrkri, nóttum, djúpum hyljum, hyldýpi, botnfiskum, svörtum sandi, svörtum himni og vetri.
Dauðamyndirnar gegna þó fyrst og fremst því hlutverki að skerpa lífsmyndirnar, dauðinn er ekki andstæða lífsins heldur hluti þess. Gamla fólkið er þreytt, markað harðri lífsbaráttu og dauðinn því nálægur og náttúrulegur. Dauðastundunum fylgir friður, hvíld og svefn. Nóttin græðir, og myrkrið er mjúkt, sbr. upphafslínur ljóðsins DAGUR: „Meðan sárin gróa/undir mjúku myrkri“ (Ljós ár bls. 19). Nóttin er tími drauma: „flökta gamlir draumar/bak við luktar brár“ (ANDRÁ, Ljós ár, bls. 22).
Ljósi og hvítum lit er telft fram gegn myrkri og svörtum lit. Í ljóðinu ÁNING er hvítur söngur og draumur um ljósár (Ljós ár, bls. 18). Í ljóðinu STRÁ glóa gul hauststrá úr freðinni jörð (Ljós ár, bls. 11) og í ljóðinu DRENGUR eru augun björt bak við lokuð augnlokin og nóttin skínandi (Ljós ár, bls. 24). Sömuleiðis biður ljóðmælandi stjörnur og mána að lýsa syni sínum leiðina heim í ljóðinu BIÐ (Ljós ár, 25).
Ljósið í myrkrinu táknar von og í sumum ljóðum birtist vonin sem tilhlökkun eftir vori og sumri. Vorkonan setur niður haustlauka (Aftur að vori, HAUSTLAUKAR, bls. 21), vormaðurinn deyr um vor (Aftur að vori, VORMAÐUR, bls. 22), heitur andvarinn blæs í kaun trésins (Ljós ár, TRÉ, bls.12), strákur borðar brauð með hásumri, þ.e. rifsberjasultu (Ljós ár, UM HAUST, bls, 27) og fer með rútu fullur tilhlökkunar í sveitina að vori (Aftur að vori, VIÐ GÖTU, bls. 33).
Ljósið í myrkrinu sem jafnvel er hulið tengist áherslu Þórðar á hið smáa og viðkvæma sem jafnframt er ótrúlega sterkt. Gamla fólkið er viðkvæmt en þrautseigt og traust. Ritur í samnefndu ljóði verpa „brothættum eggjum“ „á ystu nöf“ (Aftur að vori, bls. 28). Andartakið er tákn lífsins, annars vegar í formi óvæntrar lífsfyllingar þar sem hið hversdagslega og ósýnilega lifnar við, og hins vegar sem líf mannsins, séð í stærra samhengi:
SAGA
Ég vil koma við sögu
eins og fiskur
sem brýtur spegil vatnsins
eitt andartakog lítið barn segir
þarna var fiskurÞannig vil ég koma við sögu
eitt andartak.
(Aftur að vori, bls. 26)
III. Barna- og unglingabækur
Söguefni
Barna- og unglingabækur Þórðar eru barnabókin Ég er kölluð Lilla frá 1985 og unglingabækurnar Einn fyrir alla frá 1991, Geta englar talað dönsku? frá 1996 og Tilbúinn undir tréverk frá 1998.
Ég er kölluð Lilla fjallar um níu ára stelpu Gunnhildi, kallaða Lillu, sem kynnir fjölskyldu sína og segir söguna af því hvernig föðurafi hennar í sveitinni og hin snobbaða móðuramma hennar ná ástum.
Einn fyrir alla fjallar um Kalla en hjá honum eru samræmdu prófin í nánd. Nafn sögunnar vísar til einkunnarorða skyttanna þriggja sem vinirnir Kalli, Nonni og Siggi kenna sig við. Seinna fjölgar í klíkunni og í sögunni tekur hún lögin í eigin hendur þegar í ljós kemur að maður Sæunnar kennara lemur hana. Móðir Kalla kemur heim frá útlöndum en henni hefur Kalli aldrei kynnst. Pabbi hans gerir sér vonir um að taka upp þráðinn að nýju en í ljós kemur að það gengur ekki. Þess í stað tekur hann saman við aðra konu og á Kalli sinn þátt í því. Ástarmál koma upp á milli vinanna Kalla og Nonna og um tíma er Kalli „kominn á fast“. Erla móðir Nonna fær krabbamein og er dauðvona í lok sögunnar.
Geta englar talað dönsku? fjallar að mestu um tæpa viku í lífi Ernu sem er í 10. bekk. Erna á tvö systkini, eldri bróður og litla systur. Móðir Ernu er þunglynd, faðirinn farinn að heiman og Erna hefur áhyggjur af náminu þar sem heimilishaldið hvílir á henni. Nýr kennari kemur vegna veikinda íslenskukennarans og Erna verður dálítið skotin í honum. Birna skólasystir Ernu er veik og deyr í lok sögunnar. Þrátt fyrir vandamál og sorglega atburði er sagan, líkt og Einn fyrir alla, jákvæð. Erna lærir að takast á við hlutina, þiggja hjálp frá vinum og endurnýja vináttu við gamla vini. Skólalífið er fjörugt og ástandið á heimilinu batnar til muna, mamman fer á sjúkrahús og pabbinn flytur aftur heim til reynslu.
Tilbúinn undir tréverk lýsir sumri í lífi Jens sem fer að vinna í byggingavinnu eftir samræmdu prófin. Sumarvinnan og samskiptin á vinnustaðnum eru meginuppistaða sögunnar en auk þess er sagt frá fjölskyldu Jens og vinum, „klíkunni“ hans. Með honum í byggingavinnunni er Snorri sem er dúx úr skólanum, fyrir utan að vera ríkt dekurbarn. Snorri reynist mjög fínn þegar Jens kynnist honum. Síðan er það meistarinn Simbi, töffarinn Axel, Kalli sem er drykkfelldur og frekar takmarkaður, Helgi sem er eldri maður og fyrrverandi bóndi og loks Sonja sem er ung, falleg og mjög röggsöm stúlka. Fyrir tilstuðlan Sonju breytast karlremburnar í hópnum og vinnuskúrinn verður huggulegasta afdrep. Jens lærir einnig að Axel og Kalli hafa átt erfitt og að útlit fólks og framkoma segi ekki allt.
Persónur
Geta englar talað dönsku? er sögð í 3. persónu en hinar í 1. persónu. Munurinn er þó lítill því lesandinn samsamar sig Ernu og veit hugsanir hennar líkt og aðalpersónanna í hinum sögunum.
Aðalpersónur sagnanna eru það sem kallast „venjulegar“ og því ættu flestir lesendur að geta speglað sig í þeim. Lilla er ekki eins þæg og góð og systir hennar. Erna er ekkert sérstaklega sæt, bara meðal, Kalli er enginn svaka töffari og Jens er samkvæmt samræmdu prófunum meðalmaður á landsvísu, „hitti upp á kommu á meðaleinkunnina yfir landið“ (Einn fyrir alla, bls. 9).
Aukapersónur sagnanna eru margar mjög litríkar og ýktar. Siggi vinur Kalla er eldheitur kommúnisti, amma Kalla keðjureykir með eineygða köttinn Óðin á öxlinni, pabbi Kalla er öfgamaður, afi Kalla er út úr heiminum, amma Lillu er fín frú, afi Jens er söngmaður og kvennagull að eigin mati, fjölskylda Finns vinar Jens engist alltaf um í hláturskasti og svona mætti lengi telja. Fyrir utan að lífga upp á sögurnar er boðskapurinn skýr, að allir séu ágætir eins og þeir eru.
Veikindi og dauði
Aðalpersónurnar í unglingasögunum þurfa að kljást við erfiðar aðstæður og Þórður lýsir tilfinningum þeirra vel, án allrar væmni eða yfirþyrmandi mæðu. Mikilvægast er að takast á við hlutina og sætta sig við að sumt leysist en annað ekki. Kalli á erfitt með að sætta sig við að mamma hans hafi yfirgefið sig en þegar mamman hefur dvalist á Íslandi dálítinn tíma „finna“ þau hvort annað:
Og ég tek utan um þessa dularfullu konu sem er mamma mín þrátt fyrir allt og ég legg vangann að hennar vanga og svona sitjum við lengi.
Þannig finnum við hvort annað og ég missi nokkur tár á öxlina á henni og sé ekkert eftir þeim. (Einn fyrir alla, bls. 76)
Síðan fer mamman sína leið og líf Kalla sem var ágætt fyrir heldur áfram.
Í sömu bók er einnig á mjög fallegan hátt lýst kveðjustund Erlu móður Nonna. Hún horfir á þau á sjúkrahúsinu til að varðveita með sér mynd þeirra:
Og allt í einu skil ég hvað Erla er að gera. Hún er að gleypa okkur í sig með augunum og hún ætlar að taka okkur með sér þangað sem hún er að fara til að geta haldið áfram að hafa okkur hjá sér, sjá okkur og hlusta á alla delluna í okkur og ég finn hvernig ég renn inn í þessi stóru augu og hún lokar þeim á eftir mér. (Einn fyrir alla, bls. 92)
Sögunni lýkur síðan án þess að meira sé fjallað um veikindi hennar eða dauða.
Birna bekkjarsystir Ernu er mjög veik, hún er í hjólastjól og deyr í lok sögunnar. Birna sem lent hafði í slysi og lamast er góð vinkona stelpnanna og ein af hópnum. Engu að síður er hún ósátt við hlutskipti sitt og bitur:
Engin þeirra hefur veitt Birnu athygli. Skyndilega er eins og hún ranki við sér. „Haldið þið að ég verði ekki skotin í strákum eins og þið? Mér finnst Jonni sætastur í bekknum. Stundum dreymir mig um hann. Haldið þið að hann hefði ekki gaman af því að skipta á mér, taka óhreinar bleiur og setja nýjar? Eða þá að púðra á mér rassinn svo ég brenni ekki eins og litlu börnin. Það væri verðugt starf fyrir Jonna sæta, finnst ykkur það ekki? Svo gæti hann farið með mér á öll fínu böllin sem hann á áreiðanlega eftir að sækja og sveiflað mér í hjólastólnum og …“ Birna andvarpar og þær stara á hana og koma ekki upp orði. (Geta englar talað dönsku?, bls. 124)
Afstaða Birnu er óvenjuleg því í bókum eru fatlaðir oft yfirmáta jákvæðir og þakklátir svo lesandinn þurfi ekki að axla ábyrgð á misrétti og erfiðleikum.
Ástarmál
Ástarmálunum er einnig lýst á sannfærandi hátt í unglingabókunum. Erna verður hrifin af kennaranum sínum og finnst hún gera sig að algjöru fífli. Kalli er með Báru sem Nonni besti vinur hans er um það bil byrjaður með og er fyrstu kynlífsreynslunni lýst á mjög raunsæjan hátt, allt búið áður en hann veit af. Jens er tvístígandi varðandi Gerði, búinn að byrja með henni og hætta ótal sinnum. Síðan þegar hann er loksins viss hefur hún ekki áhuga. Ástarmálin eru meira þreifingar en alvara enda eru persónurnar unglingar sem njóta lífsins og finnst „allt“ mjög fyndið, meira að segja rop og prump:
Við pöntum okkur kók og Gerður lítur strax aðvörunaraugum til Finns sem brosir fagurlega til hennar á móti.
„Ef þú …“ En Gerður er of sein. Finnur hefur sturtað í sig hálfum lítra af kóki og hallar nú höfðinu aftur og hleypir af. Finnur gæti eflaust orðið Íslandsmeistari í ropum sem honum finnst að eigi að vera ólympíugrein. (Tilbúinn undir tréverk, bls. 33).
Vinir
Í sögunum er hlutverk vina stórt, bæði er mikilvægt að eiga einhvern trúnaðarvin og tilheyra vinahópi. Erna hefur fjarlægst Dóru bestu vinkonu sína vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna og af því Dóra er sæt og vinsæl. Dóra leyfir henni ekki að forðast sig heldur gengur eftir henni. Kalli þarf einnig að sættast við Nonna besta vin sinn eftir stelpuvesenið og gerir það. Afstaða sagnanna allra til vináttunnar kristallast í orðum Jens sem lent hafði upp á kant við Ægi vin sinn: „Ég flýti mér til Ægis. Maður verður nefnilega að halda fast í vini sína.“ (Tilbúinn undir tréverk, bls. 110)
Gamalt fólk
Afar, ömmur og annað eldra fólk kemur mikið við sögu í bókunum. Kalli elst upp hjá föður sínum en á að Fanneyju í kjallaranum og leitar til hennar með vandamál sín. Helgi í byggingavinnunni hjá Jens er nokkurs konar afi í hópnum og mjög góður maður. Eldra fólkið er þó ekki staðlað. Amma Lillu verður „stelpuleg“ og þau föðurafi hennar fara að draga sig saman. Sama er með Fanneyju og Guðmund á loftinu hjá Kalla.
Fyrir utan að auðga líf persónanna með reynslu sinni hefur nærvera eldri kynslóðarinnar í för með sér heilmikla umræðu um orðaforða og málfar. Stundum bregður höfundur fyrir sig unglingamáli, slangri, slettum og óskýrmæli án þess þó að ofgera því. Til mótvægis kryddar hann svo mál sitt með orðtökum og fleiru úr orðaforða eldri kynslóðarinnar.
Ádeila
Sögurnar gerast í íslensku samtímaþjóðfélagi. Þær sýna sundraðar fjölskyldur, óvenjuleg fjölskyldumynstur og fjalla opinskátt um alkóhólisma, þunglyndi og kynferðismál. Geta englar talað dönsku? og Einn fyrir alla lýsa á lifandi hátt lífinu í skólanum og samskiptum bekkjarins en þrátt fyrir allan þann tíma sem börn og unglingar verja í skólum fjalla flestar bækur um lífið utan skólans.
Sögurnar sem sagðar eru frá sjónarhóli barna og unglinga birta einnig ádeilu á fullorðna fólkið og íslenskt samfélag. Lögð er áhersla á mismunandi skoðanir fólks, pabbi Kalla er íhald en Siggi vinur hans vinstrimaður. Helsta ádeila sagnanna er þó á lífsgæðakapphlaup Íslendinga. Faðir Lillu er smiður og vinnur frekar lítið. Foreldrar hennar eiga ekki íbúð, bíl eða sjónvarp. Hin fína móðuramma hennar með ættarnafnið er óánægð með tengdasoninn og finnst hann ekki „spjara sig“. Lilla spyr sig þá af hverju þeir sem fái allt upp í hendurnar geti dæmt hina. Og faðir Jens er alltaf að kaupa ný og stærri hús sem þó klárast seint vegna blankheita:
Foreldrar mínir byrjuðu á unga aldri búskap hjá afa Ingólfi sem þá var sem oftar á milli kvenna. Síðan tók neðanjarðarhúsnæðið við. Eftir það tveggja herbergja íbúð sem þau eignuðust að nafninu til, svo þriggja, þá fjögurra og síðan fimm – og að lokum raðhúsið þar sem við búum núna.
Allar þessar íbúðir hafa átt eitt sameiginlegt; þeim var aldrei lokið. Raðhúsið okkar er að mínu mati ekki íbúðarhæft og engin von til að svo verði í bráð. (Tilbúinn undir tréverk, bls. 10).
Reyndar neitar fjölskyldan að flytja einu sinni í viðbót og vegna arfs er hægt að klára húsið sem þau búa í.
IV. Samantekt
Ljóð Þórðar eru afar góð, gamansöm með alvarlegum undirtóni. Líkt og í sögunum er engu ofaukið og honum tekst að miðla stemmningu augnabliksins og tilvistarlegum pælingum með einföldum myndum.
Barna- og unglingasögurnar einkennast hvorki af vandamálaraunsæi né ærslum heldur millistigi þessara tegunda. Þær taka sig ekki of hátíðlega, stundum er atburðarásin „eins og í sögu“ en stundum gengur höfundur þvert á formúluna. Lilla er jafnframt höfundur og saga hennar fjallar einnig um eðli frásagna og orða. Einn fyrir alla er römmuð inn með formála og eftirmála sem vísa út fyrir sig á heimspekilegan hátt, ekkert endar heldur endurtekur sig í breyttri mynd.
Í byggingu sagnanna er meðvitund um þær sem sögur. Þeim er skipt upp í mjög stutta, skýrt aðgreinda kafla. Kaflaskiptingin dregur úr innlifunartilfinningu og reynir meira á lesandann, hann verður að ráða í þögnina og skapa samfellu úr brotunum. Höfundi hefur því tekist að semja stuttar, skemmtilegar sögur sem leyna á sér.
© Inga Ósk Ásgeirsdóttir, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Andri Snær Magnsson og Davíð Á. Stefánsson: „Á einstigi orða“
Formáli að Þórðarbókinni. Reykjavík, Nykur 2008, s. 11-18
„Samtíðarskáld“ [Kynning á höfundunum Áslaugu Jónsdóttur og Þórði Helgasyni]
Börn og menning, 14. árg., 2. tbl. 1999, s. 23-24
Þórðarfögnuður – haldinn í tilefni fimmtugsafmælis Þórðar Helgasonar 5. nóvember 1997 af samstarfsfólki hans og vinum [Greinasafn]
Reykjavík, [s.n.], 1997
Um einstök verk
Vinur, sonur, bróðir
Brynja Baldursdóttir: „Vinur, sonur, bróðir eftir Þórð Helgason“ (ritdómur)
Börn og menning 2011, 26. árg., 1. tbl. bls. 31-2.
52 sonnettur: ástarsaga
Lesa meiraÞórðarbókin - ljóðasafn
Lesa meiraSmárarnir: gaman að lesa
Lesa meiraFylgdarmaður húmsins: heildarkvæðasafn Kristjáns frá Djúpalæk
Lesa meiraHugðarefni : afmæliskveðjur til Njarðar P. Njarðvík, 30. júní 2006
Lesa meiraHulduháttur
Lesa meiraGræna slumman og önnur ljóð: stelpur og strákar innst inni
Lesa meiraEk hlewagastir
Lesa meiraLjóð í Cold was that Beauty...
Lesa meira