Úr Engli, pípuhatti og jarðarberi:
20
Á miðjum klettinum situr Steinn undir tré sem er eina tréð á klettinum og tréð styður sig við Stein. Hann er niðursokkinn í bókina sem Mjöll gaf honum fyrr um daginn. Tréð er hrafnsvart og snúnar greinarnar bera þykk lauf og stjörnulaga akörn með hvassar nálar á hörðum skeljum utan um mjúka kjarna. Tréð líkist rytjulegum háfættum fugli. Steinn flettir bókinni. Í kringum hann og tréð er allt sem tréð hefur misst. Þurrar greinar og skrælnuð lauf og það stirnir á opin akörn. Tréð líkist fugli sem dottar á öðrum fæti á baki hvals lónandi í lygnum firði.
Himinninn dýpkar. Sól snertir sjónarrönd. Það slær rauðu á klettana. Allir skuggar lengjast.
Skuggi Steins og skuggi trésins fikra sig saman að grunnri tjörn. Á botni tjarnarinnar og börmum og í sendnum moldarflákum víðs vegar um klettinn vaxa dimmgrænar jurtir sem eru hvorki lands né sjávar. Þær bera blá blóm. Þau virðast stærri í tæru vatni tjarnarinnar. Nú falla á þau skuggar. Steinn lítur ekki upp úr bókinni. Hún gerist neðansjávar. Þar er engin sól. Hann les áfram. Tjörnin er blástursop hvalsins. Jurtirnar þangið sem loðir við hann. Steinn flettir. Fuglinn hefur sig til flugs. Hvalurinn blæs og stingur sér svo ekkert verður eftir nema rótlaust þangið. Og Steinn.
(s. 93-94)