Myndir eftir Halldór Baldursson
Um bókina
Fíasól er í logandi vandræðum! Hjálparsveit Fíusólar stendur í stórræðum. Það er eldgos í Vindavík og Alla Malla og Stebbi flýja í Grænalund. Bjössi byssó flytur í götuna. Fíasól tínir upp skítalummur og syngur í Skólóvisjón og þau Ingólfur Gaukur rífast miklu meira en venjulega.
Þetta er áttunda bókin um hina heimsfrægu Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.
Úr bókinni
Daginn eftir tilkynnti Fíasól Ingólfi Gauki að hún ætlaði að stofna dýrabjörgunardeild í hjálparsveitinni. Þau röltu saman heim úr skólanum og ræddu um Skrítnaskegg í draugahúsinu.
- Ég held að þetta hafi ekki verið byssa, sagði Ingólfur Gaukur efins. En gott samt að við fundum fjólu. Hún hefði getað dáið úr hungri og þorsta ef við hefðum ekki kíkt inn í kofann.
- Það eru svo mörg dýr í vandræðum, sagði Fíasól áhyggjufull.
- Já, en þú getur samt ekki bjargað öllum heiminum, svaraði Ingólfur Gaukur spekingslega.
Honum fannst dýrabjörgunardeildin alls ekki góð hugmynd og nöldraði í Fíusól alla leiðina heim úr skólanum og röflaði um að það væri óþarfi að flækja hlutina. Og að það væri nóg að gera hjá hjálparsveitinni án þess að þau færu að leita að týndum köttum alla daga. Kettir væru alltaf út um allt og hann sagðist ekki nenna að leita að þeim.
- Ég get það bara víst. Ég get víst bjargað heiminum, mótmælti Fíasól. Og við getum alveg bætt við okkur verkefnum. Það eina sem hjálparsveitin gerir núna er að vísa á Umboðsmann barna. Það er eiginlega bara Vala umboðsmaður sem hefur nóg að gera. Ekki við.
- Það er ekki rétt, svaraði Ingólfur Gaukur. Í gær var stelpa að biðja mig að hjálpa sér, bætti hann svo við og varð allt í einu dálítið óöruggur.
- Nú? Þú sagðir mér ekki frá því?
Fíasól stoppaði og horfði hissa á Ingólf.
- Nei, sko, hún bað líka eiginlega bara mig.
- Bara þig? Hvað meinarðu? Erum við ekki saman í hjálparsveitinni? Fíasól góndi forviða á Ingólf Gauk.
(s. 36-37)