Um bókina
Nágrannaerjur í Grindavík, þar sem tvenn hjón takast á, fara úr böndunum. Ung kona er óvænt ráðin sem afleysingakokkur á loðnuskip og brátt fara undarlegir atburðir að gerast um borð. Og torkennilegur beinafundur á sér stað í Reykjavík. Ólíkir þræðir fléttast saman í glæpasögu þar sem ekki er allt sem sýnist.
Úr bókinni
Kuldinn undir iljunum gleymdist þegar hann nálgaðst útidyrnar og litlu moldarhrúguna. Í henni glampaði á eitthvað gyllt sem fangaði auga hans og þegar betur var að gáð sýndust honum þarna vera ljós hár. Þrátt fyrir að kjósa að gleyma þessu, loka dyrunum og koma sér aftur upp í rúm varð forvitnin öllu yfirsterkari. Hann kraup til að sjá betur. Með einum fingri ýtti hann við litla málmhlutnum sem gægðist upp úr hrúgunni og moldin losnaði betur frá. Hann rökk við þegar hann áttaði sig á hvað blasti við honum. Hann gætti ekki að sér og féll aftur fyrir sig á rassinn. Fremur aumt sársaukavein slapp frá honum þegar rófubeinið skall á hörðu gólfinu en það var nógu hátt til að berast inn í eldhús.
"Ó! Meiddirðu þig?" Árny birtist í dyrunum með vatnsglas í hendi. Tónninn í röddinni og skelfingarsvipurinn voru í engu samræmi við smávægilegan verkinn í rófubeininu en það var ekkert nýtt. Árný lét alltaf svona þegar einhver meiddi sig og það þurfti bara smá flís í fingri eða skrámu á hné til að henni fyndist rétt að hringja á sjúkrabíl.
"Ekki koma inn. Farðu aftur inn í eldhús." Ketill ýtti sér lengra frá hrúgunni. "Strax."
Þetta voru kolvitlaus viðbrögð. Hann hefði átt að biðja hana rólega að koma ekki inn í þvottahúsið því að í stað þess að hlýða flýtti Árný sér inn til hans. Hún taldi sig greinilega geta hjálpað honum og í asanum skvettist úr glasinu. Margendurtekið nöldur mömmu hans um að bleyta á gólfi gæti orðið til þess að einhver rynni og dytti ómaði í höfðinu á honum. En í ljósi aðstæðna var það ekki efst á listanum að þurrka upp vatnið.
"Hvað er þetta?" Árný gretti sig. Þegar Ketill ansaði ekki endurtók hún spurninguna. "Hvað er þetta í moldinni, Ketill?" Í seinna skiptið var áhyggjutónninn í röddinni áþreifanlegur. Líklega hafði hún nokkurn veginn áttað sig á hvað blasti við henni.
"Ekkert. Farðu aftur inn í eldhús." Hann brölti á fætur, tilbúinn að smala henni út þegar hún byrjaði að öskra. Þetta voru ekki hljóð eins og þau sem hún gaf frá sér þegar hún sá kónguló eða þegar hann gerði henni bylt við. Þetta var óp sem hljómaði eins og eitthvað hefði rifnað inni í henni.
Sem var kannski ekki að undra.
(s. 44-45)