Beint í efni

Fyndnir krakkar

Fyndnir krakkar
Höfundur
Yrsa Þöll Gylfadóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Yrsa Þöll Gylfadóttir (f. 1982) hefur sent frá sér þrjár skáldsögur frá árinu 2010 auk sex barnabóka. Höfundarferli hennar einkennist af fínlegum og vönduðum stíl sem heillar lesendur á öllum aldri. En hún er líka glettinn höfundur og óhrædd við að prófa nýjar aðferðir og taka áhættu.

Yrsa Þöll hefur sent frá sér sex barnabækur í bókaflokki sem nefnist Bekkurinn minn, en þar kynnumst við mismunandi krökkum sem eiga það sameiginlegt að vera í sama bekk í íslenskum skóla. Bækurnar er ætlaðar fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor í lestri og eru auðlesnar og vel uppsettar. Sögurnar eru skemmtilegar og sagðar frá sjónarhorni hvers og eins krakka fyrir sig. Þær byrja á blaðsíðu sem eldri lesendur kannast kannski við úr gömlu vinabókunum þar sem krakkarnir gera grein fyrir sér, sínum uppáhaldslit og áhugamálum. Það er hugað vel að öllum smáatriðum og uppáhaldslitur hverrar persónu fyrir sig er að finna á bókarkápu og er það einmitt hluti af því sem litlir lesendur kunna að meta. Bækurnar eru samvinnuverkefni Yrsu Þallar og Iðunnar Örnu þar sem sú síðarnefnda sér um myndirnar sem eru órjúfanlegur hluti af söguþræðinum. Þetta eru fjölbreyttar frásagnir sem opinbera heim barna í ólíkum aðstæðum. Eins og til að mynda saga Bjarna Freys í Geggjað óréttlátt (2020) þar sem við upplifum  hið mikla óréttlæti sem felst í því að vera skammaður fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert. Í gegnum stutta frásögn af Bjarna Frey og Mikael vini hans tekst höfundi að opinbera heim þar sem sumum krökkum líður illa í skólanum. En það er ekki mikið rætt í barnabókum, sérstaklega ekki fyrir þennan hóp. Þessir tveir strákar hafa báðir upplifað óréttlæti í skólanum og fundið fyrir vanmátt og reiði.  Í Lús! (2021) upplifum við hversdagsáfall með augum Sigríðar, sem einnig er í bekknum, en það hefst með tölvupósti um lús í bekknum. Við fylgjum Sigríði í gegnum angistina þegar á að kemba og eitra fyrir lús en líka vangaveltum hennar um tilvistarrétt lúsarinnar og nýlendustefnu. Í Prumpusamloka (2020) kynnumst við Nadíru sem er nýkomin til Íslands frá Írak og þarf að tileinka sér tungumálið, en líka Leónóru sem er sannfærð um að húsvörðurinn sé varúlfur. Þannig höfða bækurnar til krakka með mismunandi áhugamál og reynslu og gefa færi á að setja sig í stað annarra. Án þess þó að það sé verið að predika eitthvað, því sögurnar eru spennandi og grípandi og geta staðið einar. Eins og til að mynda í sögu Nadíru þar sem stelpurnar í bekknum eru að hjálpa henni að læra íslensku. Þær kenna henni að segja „prumpusamloka“, sem engin veit hvað þýðir og skemmta sér konunglega við að kalla orðið á eldri krakkana.

Þó að ljóst sé að verið sé að dýpka orðaforða barnanna með lestrinum þá flækist það ekki fyrir og fléttast eðlilega inn í sögurnar. Við fylgjumst alltaf með sama bekknum, svo persónur úr einni bók dúkka upp í hinum og þannig eiga Hulda og Lenóra, sem eru vinkonur Nadíru í fyrstu bókinni, sínar eigin bækur. Svo það er hægt að lesa um allan bekkinn eða eina og eina sögu eftir áhuga.

Allar bækurnar eru auðlesnar og ætlaðar byrjendum  en bækur 1- 4 hafa líka verið gefnar úr í laufléttri útgáfu. Þá eru þær styttar örlítið og meira pláss á milli setninga, sem gerir þær enn læsilegri án þess að gefinn sé afsláttur af fjörinu.

...

Skáldsögur Yrsu Þallar eru áræðnar og metnaðarfullar tilraunir til þess að fanga íslenskan samtíma. Þær bera vott um vandaðan höfund sem veigrar sér ekki við því að vinna með bæði form og inntak á fjölbreyttan og áhugaverðan hátt. Persónusköpun Yrsu Þallar er einstaklega áhugaverð þar sem henni tekst vel að skapa margbrotnar persónur sem lesandi þarf að takast á við. Þær eru ekki endilega geðfelldar og taka ekki endilega réttar ákvarðanir en bera engu að síður uppi sögurnar þannig að lesandi neyðist til þess að kynnast þeim. Þetta á sérstaklega við um kvenpersónur á borð við Úlfhildi, Kamillu og Evu, og ber það vott um ferskan blæ í samtímabókmenntum þar sem konur eru oftast annað hvort sýndar sem vanmáttugar eða ofurhetjur. Hér ber við nýjan tón og þær fá að birtast sem flóknar persónur sem hafa atbeini og áhrif á eigið líf, til góðs og ills. Sama má segja um barnabækur Yrsu Þallar þar sem hún er óhrædd við að taka fyrir flóknar persónur þó það sé auðvitað allt annars eðlis þegar tekið er tillit til lesendahópsins. Þessi gerð bóka er oftar en ekki skrifuð á forsendum kennslufræði, sem getur verið gott og gilt, en hér sést greinilega hversu mikil gæði eru fólgin í skapandi nálgun og frásagnargleði. Auðlesnar bækur eru vanrækt bókmenntaform, en þær eru einmitt það fyrsta sem mætir börnum á leið þeirra inn í heim bókarinnar. Flestir foreldrar kannast vafalaust við að sitja yfir börnum við lestur á lestrarheftum sem eru hvorki til þess fallinn að vekja áhuga né gleði. Þá er allt kapp lagt á að kenna börnum stafi eða hljóð og engin áhersla á söguþráð eða inntak. Því er það mikið heillaspor fyrir íslenskar fjölskyldur að Yrsa Þöll og Iðunn Arna hafi tekið þennan bókaflokk fyrir og glætt hana nýju lífi með sögum úr íslenskum samtíma.


Rósa María Hjörvar, desember 2022


Athugið að þessi umfjöllun er hluti af yfirlitsgrein um verk Yrsu Þallar sem birtist á höfundasíðu hennar hér á Bókmenntavefnum.