Beint í efni

Gæðakonur

Gæðakonur
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur

Um Gæðakonur:

Eldfjallafræðingurinn María Hólm er á leið í flugvél til Parísar. Hinum megin við ganginn situr kona sem gefur henni auga. Daginn eftir sér hún sömu konu á kaffihúsi þar sem hún fær sér morgunverð. Hver er hún þessi Donna með rödd sem er í senn suðandi þýð og raspandi gróf? Og hvað vill hún Maríu – konunni sem jökullinn skilaði?

Úr Gæðakonum:

Það er meginregla í Parísarferð að borða ekki morgunmat á hótelinu, heldur skreppa á barinn í götunni, þar sem hægt er að ganga að góða kaffibollanum vísum, þar sem hægt er að hefja umsvifalausa þátttöku í deginum, ímynda sér að maður deili kjörum með Parísarbúum. Ef letin ætlar mig lifandi að drepa læt ég færa mér upp á herbergi. Það er eitt af því sem er svo menntað við Frakkland að jafnvel á ómerkilegustu hótelum er morgunmatur á herberginu sjálfsagt mál.

Þennan fyrsta morgun í ferðinni skoða ég splunkunýju spegilmyndina mína, konan sem er hætt að horfa í spegil. Hárgreiðslumeistarinn hefur skilið allra manna best um hvað þetta snýst; hvernig klipping passar þessu tiltekna höfði, þessari andlitsbyggingu, eða því sem eftir er af henni. Aldrei á ævinni hef ég verið svona fín um hárið, og ég skælbrosi framan í kraftaverk gærdagsins, sem hefur enst svona vel yfir nótt.

Sjaldan því vant baksa ég við að mála mig, gref upp fátæklegt snyrtidótið, vanda mig við að smyrja meikinu sem er komið fram yfir síðasta söludag, og rúlla á mig augnháralitnum sem ekki má nota nema í hálft ár frá opnun, en þessi er orðinn ársgamall minnst. Hins vegar er fúksíurauði varaliturinn skammlaus og vel það, meiraðsegja bragðgóður og laus við blý, unninn úr plöntuefnum.

Þegar ég bregð nýmáluðu andlitinu út um gluggann kemur í ljós að gatan mín er ekki bara böðuð sól, það er líka mun hlýrra í veðri en í gær, ég giska á sextán stig, svo ég legg frá mér íþyngjandi yfirhöfnina. Hraunmoli úr síðustu göngu að Stóra-Stubbi hrekkur úr úlpuvasanum. Þetta var einn ásteytingarsteinninn, Diddi eiginmaður þoldi ekki krónískt grjót í vösum konunnar sinnar. Hvaða vasa sem var – hnullungur gat í versta falli slæðst í vasa á sparikápu. Ég sá það ekki þá, eftir mínum löngu leiðslum, að þetta hlýtur að hafa verið afbrýðisami út í vinnusemina hjá mér. Samanber, ef hann greip mig í tölvunni að næturlagi, þá óskapaðist hann og kallaði mig Maríu Grjóthólm.

(33-4)

Fleira eftir sama höfund

Tidstjuven

Lesa meira

Tidsrøveren

Lesa meira

Hundrað dyr í golunni

Lesa meira

Hugástir

Lesa meira

Gletschertheater

Lesa meira

Frænkuturninn

Lesa meira

Frænkuturninn

Lesa meira

Fiskarnas kärlek

Lesa meira

Fiskenes kærlighed

Lesa meira