Myndir: Sigrún Eldjárn
Úr Halastjörnu:
Tölvuleikur
Með lafandi tungu við tölvuna sat hann
og tökkunum hamaðist á
en faðir hans þurfti á meðan að mata hann
og mamman bar kopp til og frá.
Þetta var leikurinn “Drepum og drepum
og drepum án miskunnar”
en strákurinn safnaði stigum og þrepum
og stolt sinna foreldra var.
Hann sat við svo lengi að á meðan óx mosinn
en metið sitt loks gat þó bætt.
Hann límdist við skjáinn, sat fastur og frosinn
og fann að hann gat ekki hætt.
Þá loksins kviknuðu í kollinum perur:
Hann kveinaði af skelfingu og fann
að innan í tölvunni voru verur
sem voru að leika með hann.
(án blaðsíðutals)