Beint í efni

Hjartastaður

Hjartastaður
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Skáldsögur

Bókin var endurútgefin í kilju 1998 og í rafbók og kilju 2020.

Úr Hjartastað:

Núna finnst mér, hvað sem mér fannst þá, að á þessum árum eftir að við fluttum í Bollagötukjallara, úr feitum faðmi rukkarans, lifðum við Edda sómalífi þótt svigrúm væri lítið og tíðindi fá, ef frá er talið viðhald við ónefndan mann sem birtist að vísu sjaldan en tók þó upp talsvert af ráðstöfunartíma mínum til einkahugsana og var Eddu þyrnir í augum. En það var hvergi óráðsía nema í ástamálum ef ástamál skyldi kalla. Nægjusemi og nýtni var viðhaft í hvívetna, saumað úr gömlu, breytt og bætt og keyptar til þess álitlegar flíkur á markaði Kattavinafélagsins, búinn til plokkfiskur úr leifum, peysur prjónaðar heima, úr afgöngum ef þess var kostur. Straujuðu og snyrtilega brotnu taui var raðað vandlega í skápa, Ajaxilmur í lofti, reykur af ræstidufti, hægt að spegla sig í klósettskál, gólfin bónuð háskalega stíft, matur á réttum tíma. Ég gætti þess líka að pússa rúður reglulega, ekki síst rósarúðuna sem ég kallaði svo. Ég var heppin að það skyldi vera nýbúið að skipta um gler á Bollagötu þegar við Edda tókum íbúðina á leigu. Það munar öllu að sjá vel út. Í vetur verð ég áreiðanlega að búa við móðugroms á rúðum.
Edda aðstoðaði við heimilisstörfin, hafði ákveðin verkefni og var samviskusöm að sinna þeim. Þegar ég kom heim af kvöldvakt var barnið mitt sofnað í hreinu rúmi, út frá uppbyggilegri bók, mjög sennilega af Borgarbókasafni í Þingholtsstræti. Ef það stóðu kaldar tær undan sæng kom mamma og breiddi yfir og strauk barninu vangann. 
Eins og hendi væri veifað skipti um. Ekkert barn í rúmi þegar mamma kom af kvöldvakt, matur óhreyfður í ísskáp, reykjarbræla í stofu, stubbar í bökkum um allt hús, landaslæða sveif yfir vötnum, glös í gluggakistum, inni á baði, uppi á ísskáp. Þá tók við næturvakt þreytta sjúkraliðans eftir kvöldvaktina, bið, kannski til fimm eða sjö, fram á næsta dag þess vegna, og þegar umskiptingurinn loksins kom tók heimahjúkrun við. Það gat þurft að styðja fram á klósett, halda um enni á gubbandi barni, eða plástra sár af miðbæjarvígvellinum, stundum eftir flöskubrot eða sígarettu. Aldrei svaf aumingja mamman heilan svefn, vaknaði með andfælum eftir stutta dúra og fór inn til barnsins að gá hvort það andaði, að snúa því ef það lá á bakinu. Margt óreglufólk hefur dáið af því það vaknaði ekki til að kasta upp.

(s. 129-130)

Opna rifu á annað augað. Allt komið á sinn stað. 
Eyjarnar í fjarðarmynninu báðar í heilu lagi. Önnur ótrúlega græn, af fuglaskít aldanna og fjarveru manna, háreistur kollur fuglabjargs sem vildi vera fjall, hin í ætt við sker, skáhöll og nakin. 
Allt stendur heima og meira til, því örlát sólin hallar geislum yfir öxlina á fjallinu, undir þokuvegg, lýsir stráheila útjörð, yljar gæsum á túni og kemur af stað litlum láréttum flugeldasýningum fyrir syndandi fugla á yfirborði fjarðarins. Sjórinn í firðinum djúpa er ekki lengur úr söltu vatni, hann er seigfljótandi silkibráð, mýksta vagga heimsins handa kvöldsvæfum andarungum. 
Beittur tindur út úr tindi, bergrisi hátt í hlíð. 
Fjallið sem sprengdi allt utan af sér og eilífur sandur lekur ofan hlíðar.
Þokutægjur niður í miðjar hlíðar handan fjarðar, hjúpa hálfan garð við sjóinn þar sem mamma mín hvílir. Ekki beint í friði. 
Þeir ættu að rífa þetta, segir Heiður. 
Ekki þó fjöllin. 
Þessa húskofa. 
Það vona ég að þeir láti eiga sig. Þetta hefur verið svona frá því ég man eftir. Ég skoðaði þá af hafi þegar ég var lítil. Finnst þér ekki stemmning yfir þessu manneskja? 
Draugastemmning, segir Heiður. 
Draugahúsin á stangli fremst í firðinum líta út eins og dauðar sálir hafi farið á stúfana og ætlað að byggja sér þorp en hætt við. Reisulega verustaði úr steingrárri steypu með gapandi gluggum sem eru upplagðir handa dauðum sálum til að horfa út um. Ég ætla að flytja í eitt af þessum húsum þegar ég verð dauð eins og sálirnar og sinna ekki öðru en að horfa út á minn fjörð, og galdra þangað fimmtíu skútur undir seglum sem líta út eins og vængir á farfuglageri. Í von um góðan félagsskap af brúneygðum Flandraramanni sem þekkir til á mínum slóðum frá ömmutíð. Saman skulum við horfa á reisuleg býli handan fjarðar og kirkjugarðinn þar sem þessi Flandraramaður hvílir og mamma mín ekki langt undan. 
Sú sem horfir hálfu dagana á skúturnar á firðinum fékk útsýnispláss við fjörðinn að eilífu. 
Þorpið hangir utan í hlíðinni hinum megin fjarðar, eins og húsin hafi lyppast niðrúr þokunni og þau fyrstu blessunarlega staðnæmst rétt áður en sjórinn tekur við. Í húsinu sem stendur tæpast í flæðarmálinu gistir flóttakonan ég, og á hverjum morgni þegar hún gengur út eru tvö þriggja mannhæða grenitré það fyrsta sem hún sér. Eiga ekki að geta verið til, ekki á þessum stað. 
Snjóbönd í hlíðum, sumarsnjór eftir veturinn, snjórinn sem bráðnar ekki úr því sem komið er, fyrirboði um snjó, meiri snjó í vetur og enn meiri snjó. 
Og fjöllin speglast í leirunum flaggandi sköflum fyrra árs. 
Sjáðu Heiður, rétt hjá frystihússplaninu, alveg oní flæðarmáli, þar er Dýrfinnuhús.

(s. 297-298)

Fleira eftir sama höfund

Tidstjuven

Lesa meira

Tidsrøveren

Lesa meira

Hundrað dyr í golunni

Lesa meira

Hugástir

Lesa meira

Gletschertheater

Lesa meira

Frænkuturninn

Lesa meira

Frænkuturninn

Lesa meira

Fiskarnas kärlek

Lesa meira

Fiskenes kærlighed

Lesa meira