Bókin kom fyrst út 1995 og var endurútgefin í kilju 1998 og nú í rafbók og kilju (2020).
Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina árið 1995.
Guðni Elísson ritar eftirmála.
Um bókina
Harpa Eir flýr úr borginni til að bjarga dóttur sinni úr hæpnum félagsskap. Með mæðgunum í för er vinkona Hörpu sem ekur bílnum og stefnan er sett á ættaróðalið fyrir austan. En ferðin snýst brátt upp í fleira en að bjarga barninu, því óafvitandi er Harpa Eir á leið til fundar við sannleikann um sjálfa sig.
Hjartastaður er ferðasaga þar sem leiðin liggur jafnt um stórbrotna náttúru við þjóðveginn og hrjóstrugt landslag hugans. Í bílnum og utan hans tekst þrenningin á við uppákomur af ýmsu tagi en yfir og allt um kring sveima áleitnar minningar og fortíðarpersónur, lífs og liðnar.