Úr Hlæjandi ref : sögunni um Úlfhildi og indíánastráknum sem flúði til Íslands:
Skyndilega fannst mér súrefni í vagninum vera orðið af skornum skammti. Ég togaði í hálsmálið til að ná andanum. Ég varð að komast að hinu sanna. Ekki ætlaði ég að þegja með indíánanum til eilífðarnóns.
„Do you speak English? spurði ég þannig að það fór ekki á milli mála að ég krafðist svars. Til að leggja enn frekari áherslu á spurninguna greip ég í handlegginn á honum.
„Já, sagði hann á ensku og leit undrandi og alvörugefinn á mig.
Mér létti stórum þegar hann sagðist eiga heima í Ameríku og vera hér á landi í fyrsta skipti. Reyndar fylltist ég aftur sektarkennd yfir því að hafa rænt honum frá Línu en það var þó betra að láta skamma sig ærlega heldur en að verða aðalfíflið á Íslandi til frambúðar fyrir það að ræna einhverjum sem bjó hér.
„Þú ert hugrakkur fugl, sagði hann og brosti. „Úlfur er skrýtið nafn á stelpu.
Ég útskýrði hvers vegna ég kallaði mig Úlf en ekki Úlfhildi. Hann kinkaði kolli.
„Ég er Hlæjandi refur, sagði hann og rétti mér höndina.
Ég fann roða hlaupa upp eftir kinnunum þegar við heilsuðumst. Hann var svo mjúkur. Og hann horfði svo fallega á mig.
„Er það íníánanafnið þitt? spurði ég varlega.
„Já, og ég heiti líka Mússí, sagði hann. „Ég var skírður Mússí en kallaður Hlæjandi refur af því að ég var svo kátur þegar ég var lítill.
„Ertu það ekki ennþá? spurði ég. Brosið hvarf að andliti hans og hann horfði í gaupnir sér. Síðan leit hann út og hagræddi húfunni. Hann þagði lengi. Mig langaði að endurtaka spurninguna en það var eitthvað sem sagði mér að bíða með það. Ef til vill var ég of ágeng.
„Ert þú ekki frá þessu landi? spurði hann þegar við höfðum þagað í nokkrar mínútur. Hann gaf mér ekki færi á að svara heldur bætti við að ég hefði ekki verið mjög sannfærandi í stiganum. Það hvarflaði ekki að mér að malda í móinn enda vildi ég að hann treysti mér fullkomlega. Ég sagðist hafa skrökvað til að fá að hitta hann og kynnast honum. Mig langaði að segja honum hvernig mér hefði liðið þegar ég sá hann í sjónvarpinu en fannst það ekki tímabært. Ég spurði hins vegar hvers vegna hann hefði ekkert talað fyrr en núna.
„Ég treysti ekki stóra fólkinu, sagði hann og bætti við að hann héldi reyndar að gamla konan sem hann væri hjá væri góðhjörtuð. Ég kinkaði kolli.
Litlu síðar vorum við komin á áfangastað. Hesthúsin voru aðeins spölkorn frá strætóskýlinu. Ég var ánægð með að hann hafði viljað koma með mér en jafnframt á nálum yfir bífræfni minni. Ég velti fyrir mér hvort það væri tilviljun að Mússí væri kallaður Refur og að ég héti Úlfhildur. Ég sagði honum hvað ég væri að hugsa. Hann sagðist ekki trúa á tilviljanir.
„Ekki ég heldur, sagði ég himinlifandi og snerti varla jörðina. Sannast sagna hafði ég ekkert velt tilviljunum sérstaklega fyrir mér fyrr en ég sá Mússí í sjónvarpinu. Það sem okkur þótti líka stórskrýtið var að ég skyldi kalla hestinn minn Rebba. Var það fyrirboði einhvers eða hrein og klár tilviljun? Ástæða þess að hann hét Rebbi var sú að nóttina eftir að pabbi sagðist ætla að gefa mér folald dreymdi mig að refur skreið upp í rúm til mín og hjúfraði sig upp að mér. Síðan sleikti hann á mér eyrað og hvíslaði að ég mætti ekki gleyma honum. Þessum draumi hef ég aldrei gleymt.
(s. 32-33)