Glæpasagnaunnendur hafa úr nógu að velja í bókaútgáfunni fyrir þessi jól enda flestir af vinsælustu glæpasagnahöfundum landsins sent frá sér nýja bók í ár. Þeirra á meðal er bókin Horfnar eftir Stefán Mána Sigþórsson og bókin Lok, lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur. Báðar hafa bækurnar verið tilnefndar til íslensku glæpasagnaverðlaunanna, Blóðdropans. Stefán Máni og Yrsa hafa bæði hlotið verðlaunin áður, Yrsa síðast fyrir bók sína Bráðin sem kom út í fyrra. Sögusvið þeirra beggja er að þessu sinni utan höfuðborgarsvæðisins og í báðum bókunum er komið inn á mál sem hafa verið ofarlega í umræðunni undanfarið svo sem fjölgun ferðamanna og félagslega einangrun.
Horfnar – Stefán Máni Sigþórsson
Hörður Grímsson er orðinn íslenskum glæpasagnalesendum góðkunnur og í Horfnar er hann mættur aftur til leiks í níundu bók Stefáns Mána sem segir frá ævintýrum rannsóknarlögreglumannsins rauðhærða. Þó að bókin sé sú níunda sem kemur út um Hörð er hún númer fjögur í röðinni miðað við innri tímalínu bókanna. Að þessu sinni er Hörður ekki að kljást við óþjóðalýð í undirheimum Reykjavíkur heldur er hann kominn út á land í tímabundna stöðu sem varðstjóri á Kirkjubæjarklaustri. Þangað hefur hann verið sendur eftir atburði sem áttu sér stað í bókinni Aðventa sem kom út árið 2019. Þrátt fyrir að lítast illa á heilt sumar sem sveitalögga endar með því að hann tekur það fram yfir launalaust leyfi sem annars blasti við honum meðan rannsókn á atvikinu úr Aðventu stóð yfir. Hvað ætti hann svo sem að gera á Kirkjubæjarklaustri? Þar gerist aldrei neitt. Í fyrstu virðast allar hrakspár Harðar um rólegt sveitalífið ætla að rætast en ekki líður á löngu áður en voveiflegir atburðir eiga sér stað í kyrrlátum bænum og það kemur sér vel að hafa rannsóknarlögreglumann á staðnum.
Hörður er ekki eini sögumaður bókarinnar en samhliða hans frásögn er fléttað inn sjónarhorn þýsku stúlkunnar Herthu. Á fyrstu síðum bókarinnar eru lesendur kynntir fyrir tveim þýskum stúlkum sem eru á bakpokaferðalagi um Ísland, þeim Herthu og æskuvinkonu hennar Barböru. Fyrir tilviljun liggja leiðir þeirra og Harðar ítrekað saman á ferð hans til Kirkjubæjarklausturs. Titill bókarinnar gefur lesendum ekki tilefni til bjartsýni um örlög þeirra enda kemur á daginn að þýsku stúlkurnar hverfa stuttu eftir komuna að Kirkjubæjarklaustri. Framan af er ennþá skipt milli sjónarhorna Harðar og Hertu en þess er þó gætt að lesendur fái aldrei of miklar vísbendingar gegnum sjónarhorn hennar. Lesendur vita á tímabili meira um afdrif stúlknanna heldur en Hörður og fá að fylgjast með viðbrögðum hans og íbúa Kirkjubæjarklausturs við hvarfi þeirra. Í fyrstu er alls ekki ljóst hvort hvarf þeirra hafi borið að með saknæmum hætti eða hvort þær hafi einfaldlega farið sér á voða í óblíðri náttúru svæðisins sem samkvæmt heimamönnum er ekki óalgengt. Hörður hefur þó alltaf illan grun um málið og kemst auk þess fljótt á snoðir um fleiri mannshvörf á svæðinu sem hann rekur marga áratugi aftur í tímann. Greinilega er ekki allt sem sýnist í sveitinni.
Bókin byrjar hægt og fer full mikill tími í raunalegar vangaveltur Harðar um hvernig komið sé fyrir honum í kjölfar atburðanna í Aðventu. En þegar á Kirkjubæjarklaustur er komið og ljóst að eitthvað er gruggugt við hvarf þýsku stúlknanna verður atburðarásin fljótt meira spennandi og gaman að fylgjast með Herði greiða úr fortíðarflækjum og fjölskylduleyndarmálum bæjarbúa við rannsókn sína á hvarfi stúlknanna. Bókin bregst því ekki væntingum lesenda hvort sem þeir eru dyggir aðdáendur Harðar Grímssonar eða eru að kynnast þessari ástkæru söguhetju íslenskra glæpasagna í fyrsta sinn.
Lok, lok og læs – Yrsa Sigurðardóttir
Líkt og Horfnar eftir Stefán Mána gerist nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur einnig í sveitasælunni. Sögusvið hennar er þó enn einangraðra, en Lok, lok og læs gerist að mestu leyti á sveitabænum Hvarfi sem stendur innst í Hvalfirði. Þangað hefur moldrík fjölskylda flutt og reist sér glæsihýsi til viðbótar við gamla bæinn og tekið upp það sem sveitungar þeirra kalla hobbý búskap. Sagan hefst á því að lík fjölskyldunnar finnast illa útleikin þegar bóndinn á næsta bæ fer að athuga hvers vegna ekki hafi náðst í þau í nokkra daga. Aðkoman er öll hin óhugnanlegasta og mikill mannskapur er fenginn í rannsókn morðanna, bæði frá lögreglunni á Akranesi og Reykjavík. Þar notar Yrsa tækifærið til að láta persónur annars vel þekkts glæpasagnahöfundar koma fyrir, eða eins og hún segir í aðfararorðum að bókinni: „Kærar þakkir fær Eva Björg Ægisdóttir fyrir lánið á sögupersónum hennar af Akranesi sem koma hér fyrir í aukahlutverki. Segja má að hér sé um að ræða tilraun til að skapa nokkurs konar Marvel Universe í heimi íslenskra glæpasagna.“
Sagan er sögð í tveim tímalínum sem fléttaðar eru saman: Tímalínu morðrannsóknarinnar og svo er litið til baka og saga fjölskyldunnar í aðdraganda morðanna er sögð. Sjónarhorn rannsóknartímalínunnar er hjá lögreglumanninum Tý sem hefur verið kallaður á vettvang ásamt Karólínu, kollega sínum úr Reykjavík, til að aðstoða lögregluna á Akranesi við rannsókn málsins. Týr er nýfluttur til Íslands og upplifir sig sem hálf utanveltu, bæði í rannsókn þessa máls og í lögreglunni á Íslandi almennt. Þrátt fyrir að vera fæddur á Íslandi er hann uppalinn í Svíþjóð og lítur meira á sig sem Svía en Íslending. Vel þekktar persónur úr fyrri bókum Yrsu, þau Huldar og Freyja, kom einnig að rannsókn málsins.
Saga fortíðartímalínunnar er sögð frá sjónarhorni ungrar konu að nafni Sóldís sem hefur ráðið sig til fjölskyldunnar á Hvarfi sem ráðskona og kennari. Hún er að flýja höfuðborgina eftir slæm sambandsslit og tekur einangruninni í sveitinni fegins hendi því þar mun hún ekki eiga á hættu að rekast á sinn fyrrverandi eða vini þeirra. Hana fer þó strax á fyrsta degi að gruna að á Hvarfi sé ekki allt eins og glansmyndirnar sem fjölskyldan setur á samfélagsmiðla gefi til kynna. Bílstjórinn sem skutlar henni á Hvarf segir henni til dæmis frá því að báðir fyrirrennarar hennar í starfi hafi hætt eftir grunsamlega stuttan tíma. Þegar hún kemur á bæinn líður heldur ekki á löngu uns þar fara að eiga sér stað dularfullir atburðir sem hún á erfitt með að útskýra.
Yrsa er þekkt fyrir hrollvekjandi glæpasögur og í Lok, lok og læs fær hryllingurinn virkilega að njóta sín. Hún tvinnar hér saman tvær sögur sem tilheyra hvor sinni bókmenntagrein, glæpasögu í frásögninni af morðrannsókn þeirra Týs og Karólínu og einangrunar- og umsáturs hrollvekju í frásögninni af Sóldísi og fjölskyldunni í aðdraganda morðanna. Spennan í frásögn Sóldísar stigmagnast og passar vel inn í frásögnina af Tý og Karólínu og rannsókn þeirra. Frásagnirnar vinna vel saman í gegnum bókina og keyra upp spennuna hvor í annarri. Líkt og hjá Stefáni Mána er sagan þó ansi lengi í gang og spennan fer ekki að grípa um sig af alvöru fyrr en um miðbik bókarinnar. Það kemur þó ekki að sök því að þá fer sagan á flug með spennandi ráðgátu og vel heppnuðu hrollvekjandi andrúmslofti.
Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, desember 2021