Úr Hrafnhildi:
- Mig dreymdi undarlegan draum í nótt. Mér fannst Guðrún mín vera komin hingað til mín, og við vorum bæði orðin ung í annað sinn. Það var bjartur vordagur, alveg eins og þegar við giftum okkur forðum, og við vorum klædd eins og þá. Við leiddumst hérna suður túnið, og Guðrún mín sagði fagnandi rómi: - Nú er ég komin að sækja þig, Valdimar minn. - Og hvert eigum við að fara? spurði ég. - Fram að Hofi. Við látum nýja prestinn þar gifta okkur núna, svaraði Guðrún. - Já, það skulum við gera, mér lízt svo vel á hann, sagði ég og brosti. En þá mundi ég allt í einu eftir því, að þú varst hérna í Mýrarkoti, og svo bætti ég við: - En eigum við ekki að bjóða henni Hrafnhildi að koma með okkur til kirkjunnar? - Nei, Valdimar, svaraði Guðrún. Hún getur ekki orðið okkur samferða þangað núna. En hún fer fram að Hofi í vor, þegar blómin eru sprungin út. - Þá verður hún ein, sagði ég. - Nei, svaraði Guðrún. – Nýi presturinn leiðir hana þangað, hann er byrjaður að flétta handa henni brúðarkransinn. - Jæja, hann verður þá að vera fallegur, sagði ég. Þá brosti Guðrún: - Já, hann er það líka, því að hún hefir sáð fyrir svo fallegum blómum. Síðan leiddumst við létt í spori fram að Hofi, og við vorum komin að kirkjudyrunum, en þá vaknaði ég.
(s. 124-5)