Um þýðinguna
Þýðing Árna Bergmann á Ígorskviðu, ásamt inngangi, skýringum og greininni „Ígorskviða og norræn skáldskaparhefð“.
Sótti skáldið sem samdi frægasta verk rússneskra fornbókmennta í sömu smiðju og íslensk og norsk hirðskáld? Ígorskviða, sem hér birtist í íslenskri þýðingu Árna Bergmanns, er samin seint á 12. öld. Hún er þjóðargersemi og hefur haft mikil áhrif á rússneska menningu, m.a. er efnið í óperu Borodíns, „Ígor fursti“, sótt til hennar. Kviðan hefur verið mönnum ráðgáta vegna þess hve mjög hún ber af öllu sem samið var í Rússlandi til forna og hve ólíkt verkið er öðrum textum frá þeim tíma. Sumir hafa jafnvel talið að Ígorskviða væri seinni tíma fölsun.
Úr Ígorskviðu
Vötn ýfast á miðri nóttu,
yfir land æða skýstólpar.
Guð vísar Ígor konungi til vegar,
frá landi Polovtsa,
til lands Rússa,
til gullins hásætis feðranna.
Kvöldroði sortnar.
Ígor sefur,
Ígor vakir þó.
Ígor mælir í huga sér sléttuna
frá Don hinni miklu að litlu Donéts.
Á miðnætti blístrar Ovlúr
á hest handan við ána,
lætur konung skilja:
Ígori er ekki til setu boðið!
Ovlúr kallar,
jörð dundi,
þaut í grasi,
lyft er tjaldskör í búð Polovsta.
En Ígor konungur
stökk sem hreysiköttur út í sefið,
kastaði sér sem hvít hvinönd í vatnið.
Hljóp á hest fráan,
stökk af baki sem grár úlfur,
hljóp að Donéts-bugðu
og flaug sem fálki undir skýjum
sem slær gæsir og álftir
í árbít,
til dögurðar,
til kvöldverðar.
Flygi Ígor sem fálki
þá rann Ovlúr sem úlfur
og hrist af sér dögg kalda.
Báðir riðu þeir fráum hestum á slig.
(s. 60-61)