Beint í efni

Kamilla Vindmylla og bullorðna fólkið

Kamilla Vindmylla og bullorðna fólkið
Höfundur
Hilmar Örn Óskarsson
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Dularfullur geisli ferðast um borgina að næturlagi og í kjölfarið gerast einkennilegir hlutir. Svo einkennilegir að kannski ætti frekar að kalla þá tuttuogsjökennilega.

Kamilla Vindmylla er ellefu ára stelpa sem neyðist til að taka þessa tuttuguogsjökennilegu hluti í sínar eigin hendur, enda er það ómögulegt að taka hlutina í hendurnar á einhverjum öðrum því þá þyrfti maður fyrst að taka sjálfar hendurnar af einhverjum öðrum og það væri ekki bara ókurteisi heldur líka sóðalegt.

Góð ráð eru rándýr en Kamilla hefur samt ráð undir rifi hverju. Ekki þó ef góð ráð væru skriðdýr eða köngulær því það væri hreint og beint andstyggilegt að hafa slíkt undir rifjum.
Í þessari bók hittum við til dæmis vísindamanninn Elías Emil, Úlf og Uglu sem eru ákaflega sérstök gæludýr, ungsnillinginn Felix, ógrynnin öll af súkkulaðikexi og fullorðið fólk sem fer að haga sér allt öðruvísi en vanalega.

Úr bókinni

Aftur sló þögn á hópinn í dálitla stund og krakkarnir tvístigu eða horfðu upp í himininn. Það hafði auðvitað ekki farið framhjá neinum að það virtist hafa losnað skrúfa í höfðinu á hverjum einasta kennara skólans en erfiðara var að horfast í augu við að eitthvað gæti verið að foreldrum þeirra. Loks rétti þó Katla upp höndina og fleiri fylgdu í kjölfarið, hægt í fyrstu en það leið ekki á löngu þar til allir í hópnum voru búnir að játa því að eiga í einhvers konar vandræðum með sitt fullorðna fólk.

"Pabbi fór líka að bulla fyrir tveimur dögum," sagði Katla, "og í gærkvöldi þegar ég var að leita að honum til að skutla mér í fimleika fann ég hann úti í bílskúr. Hann var að hlusta á gamlar plötur, svo hátt að hátalararnir titruðu og spilaði eins og brjálæðingur á þykjustugítar. Hann er líka farinn að ganga í gömlu rósóttu skyrtunum hans afa og segir grúví í öðru hvoru orði. Ég veit ekki einu sinni hvað grúví þýðir."

Stelpa í þriðja bekk sem stóð við hlið Kötlu sagðist hafa komið að mömmu sinni á kvöldmatartíma þar sem hún var að baða barbídúkkur í eldhúsvaskinum, blásandi tyggjókúlur á meðan hún beið eftir að hárið á þeim þornaði áður en hún síðan dundaði við að flétta það. Það urðu til margar fallegar fléttur en kvöldmaturinn sást hins vegar aldrei.

(s. 51-52)

 

Fleira eftir sama höfund

Holupotvoríur alls staðar!

Lesa meira

"Brúður"

Lesa meira

Kamilla Vindmylla og leiðinn úr Esjunni

Lesa meira

Kamilla Vindmylla og unglingarnir í iðunni

Lesa meira

"Einu sinni"

Lesa meira

"Uppvakningar"

Lesa meira

Funi og Alda falda

Lesa meira

Kamilla Vindmylla og svikamyllurnar

Lesa meira

Húsið í september

Lesa meira