Æviágrip
Kristján Karlsson fæddist þann 26. janúar 1922 að Eyvík á Tjörnesi í Suður-Þingeyjarsýslu. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942 lagði hann stund á nám í enskum bókmenntum við University of Berkeley í Kaliforníu og lauk þaðan B.A.-prófi 1945. Hann hélt til New York í framhaldsnám við Columbia University og lauk þaðan M.A.-prófi í samanburðarbókmenntum 1947.
Kristján sat í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags 1979 og Hins íslenska þjóðvinafélags 1984-1985. Hann átti jafnframt sæti í dómnefnd Minningarsjóðs Björns Jónssonar 1985. Hann ritstýrði tímaritinu Islandica á árunum 1948-1952, sem gefið er út á vegum Cornell háskóla í Íþöku, Andvara 1984 og Skírni, ásamt Sigurði Líndal, 1983-1986. Kristján var einnig meðritstjóri Nýs Helgafells á árunum 1956-59.
Kristján hefur fengist við ljóðasmíð, smásagnagerð og greinaskrif auk þýðinga. Hann hefur ennfremur ritstýrt fjölda bóka. Hann stóð að ýmiss konar útgáfum áður en hann sendi frá sér ljóðabókina Kvæði árið 1976. Hann hlaut Davíðspennann 1991 fyrir ljóðabókina Kvæði 90 og viðurkenningu Rithöfundarsjóðs Ríkisútvarpsins ári síðar.
Kristján lést 5. ágúst 2014. Hann var kvæntur Elísabetu Jónasdóttur bókaverði.
Um höfund
Um verk Kristjáns Karlssonar
Kristján Karlsson fæddist 26. janúar 1922 í Eyvík á Tjörnesi og ólst upp á Húsavík. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk síðar prófi í bókmenntafræðum í Bandaríkjunum. Hann bjó í Bandaríkjunum um árabil að námi loknu en fluttist til Íslands á ný 1952 og hefur stundað ritstörf síðan og unnið að útgáfumálum og ritstjórn. Frumsamin skáldverk hans eru átta ljóðabækur og eitt smásagnasafn.
Kristján Karlsson var orðinn 54 ára gamall þegar fyrsta ljóðabók hans kom út. Hún heitir Kvæði og þann titil hafa flestar ljóðabækur hans að viðbættu ártali. Þriðjungur ljóðanna í fyrstu bókinni er ortur á ensku og í öðrum bókum hans eru nokkur ljóð á ensku. Kristján birtist fullskapað skáld þegar með fyrstu bók sinni og hann hefur verið afkastasamur í ljóðagerðinni síðan hún kom út.
Kristján Karlsson er af kynslóð atómskáldanna og ljóðstíl hans svipar til módernistanna þótt hann komi ekki fram sem skáld fyrr en löngu á eftir þeim. Eigi að síður eru ljóð hans sérkennileg í íslenskum skáldskap. Mörg þeirra minna að hrynjandi og hugblæ á kvæði T.S. Eliots, t.d. á ferhendurnar í Poems, 1920, en samskonar hrynjandi hefur Kristján í mörgum ljóða sinna, tvíhendum, þríhendum og ferhendum. Hlutverk persónanna í ljóðum beggja skáldanna eru og stundum svipuð. Af ljóðunum má einnig ætla að Kristján sé gjörkunnugur ljóðum Ezra Pound. Tileinkanir, vísanir og tilvitnanir fylgja allmörgum ljóðanna. Kristján yrkir ekki einungis ljóð á tveimur tungumálum, heldur notar hann ensku einnig sem hluta af stíl íslensku ljóðanna, bæði í fyrirsögnum og einstökum ljóðlínum, auk þess sem fleiri tungumálum bregður fyrir. Ljóðstafi notar hann allvíða í ljóðum sínum á ýmsan máta, og ýmsum fleiri tilbrigðum hefðbundinna eiginda beitir hann, einkum í hinum fyrri bókum sínum. Háttbundin ljóð hans eru ýmist rímuð eða órímuð. Ljóðmál Kristjáns er yfirleitt vandað en viðhafnarlaust að öðru leyti en því að hann notar þéringar og véringar en þann sið höfðu módernísk skáld lagt niður.
Ljóð Kristjáns hafa alþjóðlegt yfirbragð. Umhverfið er ýmist íslenskt eða erlent og oftast eiga ljóðin sér stað í borg. Í einni ljóðabókinni, New York (1983), eru öll ljóðin staðsett í heimsborginni og í þeim birtast myndir og atvik úr hversdagslegu lífi borgarbúa; sumum þeirra er fylgt eftir í mörgum kvæðum. Í blaðaviðtali hefur hann sagt að ljóðin í bókinni fjalli um raunverulegt fólk sem hann þekkti meðan hann dvaldist þar. Eitt megineinkenni á ljóðum Kristjáns er sá fjöldi fólks af margskonar þjóðerni sem þar er á ferli, ýmist nafngreindar persónur eða auðkenndar á annan hátt; sögð eru deili á þessu fólki, staðsetningu þess, daglegu bjástri og stundum afdrifum. Í New York er kvæði sem heitir „Vor 1945“ og byrjar svona:
Djúpt undir tröppu á Eighty-first
býr Adèle Ney frá Paris France.Hvert morgunsár, og Madame Ney
í máðum slopp með úlfgrátt hár.
Mörg ljóðanna geyma hugleiðingar og viðhorf um skáldskapinn sjálfan og einnig um lífsviðhorf skáldsins. „Úr rústum og rusli tímans/reisum vér kvæði vor undir dögun“ segir í ljóðinu „Kvæði er hús sem hreyfist“ (Kvæði 81) en þar birtist sú ímynd kveðskapar sem skáldið hefur einnig mótað í fleiri ljóðum og í óbundinni ræðu; kvæðið verður að geta treyst á eigin verðleika til að standast öll veður, ella fellur það. Í bálkinum „Minnir kvæði á skip?“ (Kvæði 94) stendur: „Minnir kvæði á skip, / í einum skilningi / eitthvað sem holt er / að innan? // í öðrum hægfara / gamaldags / flutningatæki?“ Þessari spurningu er svarað neitandi og í síðasta kvæði bálksins birtist myndin af höll kveðskaparins sem hægt er að nálgast og skoða. Kristján álítur kvæðið ekki vera flutningatæki sem flytur eitthvað til okkar, heldur byggingu sem hægt er að ganga um og virða fyrir sér innréttingar og búnað. Skáldið er sífellt að gaumgæfa hlutverk og gildi skáldskapar. Stundum er líka fjallað um kveðskapinn í teiknum náttúrunnar, t.d. í IX. ljóði bálksins „Minnir kvæði á skip?“: „Eins dulið og hreyfing landsins / leggst upphaflegt formleysi / dags þvert á áætlun kvæðis / að binda í ljósi sumars einn væng / við hafsbrún að eilífu í / rím“.
Öll yrkisefni skáldsins safna gjarnan til sín persónum, nema helst ljóð um náttúruna og um skáldskapinn; talað er til þessara persóna eða um þær, stundum tjá þær sig eða verða á annan hátt hluti af ljóðmyndum. Svipmyndir úr þekkjanlegu umhverfi blasa við í ljóðunum sem fjalla um fólk, staði og atvik á ýmsum tímum en ásýnd hlutveruleikans er samt oft skoðuð með sterku ímyndunarafli og fjallað er um atferli fólksins með heimspekilegum og menningarsögulegum skírskotunum. Ekkert er í föstum eða sjálfsögðum skorðum: „Ég óttast lausnir, og lokaðan hring“ segir í upphafi ljóðabálksins „Við Viðeyjarsund“ í Kvæðum 81.
Yfirbragð kvæðanna einkennist af hlutleysi, líka gagnvart öllu því fólki sem í þeim er á ferli. Eigi að síður býr oft skilningur og samúð undir kurteislegri athugun sjáandans, t.d. í einu eftirminnilegasta kvæðinu um fólk í borgarumhverfinu. Það heitir „Svört ræstingarkona bónar anddyri“ (Kvæði 87) en þar speglast menning og hlutskipti svertingja þegar kústurinn dregur dansspor í steininn og „sveip inn í sveip, eins og skeljar / rís fortíðin hálfstigin spor / upp af steininum“.
Hin villta náttúra er ekki nákomin í þessum ljóðum en verður áleitnari í hinum seinni bókum. Veður og árstíðir eru þó tíð minni; oftast eru náttúrumyndirnar fjarlægar og fremur kuldalegar en samt eru þær gjarnan tengdar hugarfari og ígrundun, t.d. í bálkinum „Undir skammdegi“ (Kvæði 87) en fyrsta ljóð hans er svona:
Eitt kvöld grípur vindur
í kulnaða dagsbrún af leik.
Það er kvöld eins og fyrrlangt framundan vor
og óviðkomandi öllu
sem er í þann veginn að gerast:eitt augnablik truflar
rautt yfirskin þunnt
brúna ígrundun fjallsins.
Ástar- og tilfinningamál ber ekki oft fyrir augu en þau fáu ljóð sem slík yrkisefni geyma eru sterk og myndrík, t.d. „Úr bréfi til Elísabetar“ (Kvæði 94), og einstaklega fallegt tregaljóð er „Eintímarnir“ (Kvæði 81):
Um vind sem að eilífu þýtur um glugga þinn
og þrusk hans við sólorpnar dyr:
ég heyri hann stöðugt og hærra nú en um sinnyfir vorvind sem heggur nökt hús og hans högg verða dauf
loks heyri eg þau stopulla en fyr
undir saumsprettuhljóðið af regni sem rásar um lauf;ég þokast í áföngum sumar af sumri til þín
meðan sit ég og hlusta kyr.
Brátt er ég regnið og vindurinn, vina mín.
Efnið í smásögum Kristjáns Karlssonar, sem komu út á bók 1985, svipar til hinna mörgu kvæða hans um fólk og atvik sem gerast á ákveðnum stöðum. Sögusvið margra þeirra er í New York og sögurnar fjalla allar um ógæfusamt fólk og dapurleg örlög þess, niðurlægingu og gjarnan um vofeiflegan dauðdaga.
Kristján hefur verið mikilvirkur bókmenntafræðingur. Margar af bókmenntagreinum hans birtust í Nýju Helgafelli (1956-1959) en hann var í ritstjórn þess tímarits. Sem bókmenntafræðingur og gagnrýnandi var Kristján frumkvöðull í aðferð nýrýninnar; bókmenntaskrif hans bera einkenni hennar og sjónarmið nýrýninnar ríkja einnig í kvæðagerð hans þar sem hann leggur áherslu á sjálfstæða veröld ljóðsins sem kvæðið geymir og miðlar til lesandans. Auk bókmenntarýni hefur Kristján fjallað um höfundarverk annarra höfunda og annast útgáfu á verkum þeirra Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar, Einars Benediktssonar, Stefáns frá Hvítadal, Bjarna Thorarensen, Magnúsar Ásgeirssonar, Guðfinnu frá Hömrum og Sigurðar Nordals. Hann ritstýrði og ritaði formála að Íslensku ljóðasafni 1.-5. og ennfremur ritsafninu Íslenskar smásögur I-IV. Ritgerðir Kristjáns Karlssonar um framangreind skáld komu út endurprentaðar í bókinni Hús sem hreyfist. Sjö ljóðskáld 1986.
Einnig hefur Kristján þýtt ýmis verk, m.a. smásögur eftir William Faulkner og Ernest Hemingway.
© Eysteinn Þorvaldsson, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Jakob F. Ásgeirsson: „Græn lína og hálf“
Þjóðmál, 1. árg., 2. tbl. 2005, s. 29-33
Jakob F. Ásgeirsson: „Kristján Karlsson“ (viðtal)
Í húsi listamanns, Ugla: 2006, s. 134-145
Pétur Blöndal: „Það þarf náttúrulega borð og stól og svo framvegis“
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 288-307
Örn Ólafsson: „Kristján Karlsson“ (eftirmæli)
Þjóðmál 2014, 10. árg., 3. tbl. bls. 58-64.
Um einstök verk
Grátt myrkrið Marianne
Þorsteinn Siglaugsson: „Stutt hugleiðing um kvæði“
Þjóðmál 2012, 8. árg., 4. tbl. bls. 40.
Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum: sögur
Matthías Viðar Sæmundsson: „Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum“
Skírnir, 160. árg. 1986, s. 363-6
Kvæði ’84
Bernard Scudder: „Kvæði 84“
Skírnir, 159. árg. 1985, s. 311-320
Kvæði ’87
Kristján Árnason: „Ljóð 1987“
Skírnir, 162. árg. 1988, s. 422-424
Verðlaun
1992 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1991 - Davíðspenninn: Kvæði 90
Smásaga í Kalkül & Leidenschaft
Lesa meiraKvæðaúrval
Lesa meiraKvæðasafn og sögur 1976-2003
Lesa meiraLimrur
Lesa meiraKvæði 03
Lesa meiraLjóð í Wortlaut Island
Lesa meiraVoices from Across the Water
Lesa meiraHringrásir
Lesa meiraKvæði 94
Lesa meira