Æviágrip
Árni Ibsen fæddist í Stykkishólmi 17. maí 1948, en fluttist til móðurforeldra á Akranesi haustið 1952 ásamt móður sinni og tveimur eldri systrum og ólst þar upp. Árni lauk almennu kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og stúdentsprófi frá sama skóla 1971; hann brautskráðist með BA gráðu í leiklist og enskum bókmenntum frá Exeter-háskóla á Englandi vorið 1975. Árni kenndi ensku við Ármúlaskóla í Reykjavík 1970-72 og ensku, leiklist og listasögu við Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1975-79. Hann starfaði um langt árabil sem leiklistar-og bókmenntaráðunautur Þjóðleikhússins og jafnframt sem þýðandi og leikstjóri, en frá 1995 var hann sjálfstætt starfandi rithöfundur. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa, sat m. a. í stjórn Leikskáldafélags Íslands frá 1989 og var formaður þess 1998 - 2004.
Árni sendi frá sér nokkrar ljóðabækur, m. a. Vort skarða líf, Úr hnefa og A Different Silence, mikið, tvítyngt ljóðaúrval á bók og geisladiski sem kom út í Englandi og Bandaríkjunum haustið 2000. Seinasta verk hans var ljóðabókin Á stöku stað með einnota myndavél sem Bjartur gaf út sumarið 2007. Eftir hann liggur fjöldi leikrita sem hafa verið þýdd á tíu tungumál og sviðsett í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Þýskalandi, Ungverjalandi, Eistlandi, Írlandi, Englandi og Bandaríkjunum, en hér heima hafa öll helstu atvinnuleikhúsin sýnt verk hans. Hann samdi einnig kvikmyndahandrit og margvíslegt efni fyrir útvarp og sjónvarp, þætti, stuttmyndir, leikrit og áramótaskaup.
Árið 1996 var Árni tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna fyrir leikritið Himnaríki – geðklofinn gamanleik, sem hefur verið sýnt í fjölda Evrópulanda. Á meðal annarra leikrita hans eru Skjaldbakan kemst þangað líka, Fiskar á þurru landi, Elín Helena, Ef væri ég gullfiskur! og Að eilífu. Jaðarleikhúsið The Luminous Group í New York frumsýndi örleikrit Árna O, Meg! My Life Is … í desember 2000. Árni þýddi yfir 30 leikrit fyrir öll íslensku atvinnuleikhúsin, m.a. eftir Alan Ayckbourn, Samuel Beckett, Jim Cartwright, Elizabeth Egloff, Michael Frayn, Athol Fugard, David Hare, David Mamet og Arthur Miller. Hann þýddi einnig nokkrar bækur og mikið af ljóðlist, sendi m. a. frá sér Rauðar hjólbörur, úrval ljóða eftir bandaríska skáldið William Carlos Williams 1997.
Árni var ritstjóri leikskrár Þjóðleikhússins í 15 ár og Theatre in Iceland í 12 ár, en að auki samdi hann kaflana um íslenskt leikhús og leikritun í The Cambridge Guide to Theatre, The World Encyclopedia of Contemporary Theatre og Theatre Companies of the World. Ennfremur er hann einn höfunda Alfræðibókar Arnar og Örlygs og Íslenskrar bókmenntasögu. Loks hélt hann fyrirlestra, og skipulagði og stjórnaði námskeiðum um leikritun hér heima, á Norðurlöndunum og Englandi. Á haustönn 1999 var hann „writer-in-residence“ við tvo háskóla á Englandi, De Montford Háskóla í Leicester og Háskólann í Loughborough.
Árni Ibsen lést 21. ágúst 2007.
Frá höfundi
Frá Árna Ibsen
Heimarnir voru alltaf tveir. Að minnsta kosti. Innri heimur og ytri heimur. Veruleiki, draumur. Ég og annar ég. Ég og aðrir. Heimur móður minnar og heimur föður míns.
Hver klöpp, hver steinn á hólnum í Stykkishólmi þar sem bernskuheimili mitt stóð var bústaður. Í kjallara hússins voru dyr úr þvottahúsinu sem vissu að engu nema klöppinni; fet frá þröskuldinum var klapparveggur sem náði upp í loft. Auðvitað bjó einhver bakvið þessar dyr, þar var annar heimur. Í húsinu sjálfu gekk alls kyns fólk um gættir og sumt af því var úr öðrum tíma og enginn gaf því sérstakan gaum. Minn tími var eyja, tími umheimsins haf.
Í umheiminum var ég minnstur. Minn skilningur náði skemmst þar. Annað fólk talaði þar. Og það talaði hvað við annað, að því er virtist. Það hló saman. Það grét einsamalt. Orð voru furðuleg, það var unun að hafa þau yfir í huganum hvort sem þau merktu eitthvað eða ekki. Þá var tal fólks ekki síður furðulegt og sú furða varð meiri eftir því sem skilningur minn á viðtekinni merkingu orðanna óx. Fólk talaði þvert um hug sér, eða á skjön við það sem það hafði sagt áður. Hljómur orðanna réði oft meiru um byggingu orðræðunnar en merking þeirra.
Og stóri heimurinn var ákaflega kyrr, líkt og hann væri undir glerhimni. Þögnin mikil og djúp. Það er í þögninni sem allt er. Á kyrrum sumarkvöldum kveikti taktur vélanna í rafstöðinni frammi á tanga hugboð um hve þögnin var óendanlega djúp.
Svo varð ókyrrt, glerhiminninn brotnaði. Það hvessti í tali fólksins, raddirnar urðu fleiri og orðuðu framandi efni. Það varð styrjöld milli heimanna í húsinu og ég var færður burt. Eitthvað tapaðist. Eitthvað dó. Ef til vill var það ég. Þetta hlýtur að hafa gerst í draumi. Að minnsta kosti hafði mig dreymt brottförina. Leiðin lá yfir endalausa hóla, ofan í endalausa dali og yfir endalaus fjöll. Mörgum fjöllum síðar var komið fram á mjótt og flatt nes. Í grennd stóð aðeins eitt fjall, klofið í tvennt og tindarnir toguðust hvor í sína áttina. Tveir ósáttir heimar.
Þetta var Akranes. Þar angaði margvíslegur fiskurinn; fjörurnar voru langar og þung alda brotnaði á klettum. Það var við Krókalónið norðanmegin við skagann umgirt klettum sem brimið brotnaði með gný og gusum upp í úfinn himinn. Tveir klettar stóðu upp úr miðjum garðinum og sneru ákveðnir hvor að öðrum, samstaða fleirra eindregin. Þeir voru nefndir Bræður.
Sunnanvert á skaganum var Langisandur. Baðströnd eins og þær gerast bestar. Einhverja óveðursnótt rak togara upp á sandinn. Þar sat hann svartur og mikill með ljósavélina í gangi. Þar var annar heimur. Næsta morgun var togarinn horfinn. Minningin um hann situr enn á sandinum. Seinna rak heila verksmiðju þar upp. Sandinum var skipt í tvennt; efri hlutinn var áfram ósnortinn, en neðri hlutinn girtur af með miklum grjótgarði. Í fáein ár var skeljasandi dælt viðstöðulítið innfyrir grjótgarðinn upp úr skipum sem sóttu hann á hafsbotninn norður undir Snæfellsnesi. Skeljasandurinn þornaði og vindurinn hrifsaði hann upp og fleytti honum af afli í gegnum glugga nærliggjandi húsa. Móðir mín vakti okkur þegar sandurinn buldi á húsinu og færði rúmin í hinn enda íbúðarinnar. Það var eins og ókyrrðin, stríðið í Stykkishólmi væri komið suður með þessum sandi. Svo lægði. Svo kom verksmiðjan og hóf að sloka skeljasandinn í sig, breyta honum í annað efni eins og hún væri skáld.
Enn fannst mér tal fólksins furðulegt þó málkennd mín hefði vaxið. Menn gegndu margvíslegum nöfnum þarna og sumir báru auk þess nöfn sem voru eingöngu notuð ef þeir voru fjarstaddir. Fátítt að skírnarnöfn væru notuð óstytt og yfirleitt fylgdi viðurnefni. Stundum var viðurnefnið látið nægja. Á betri dögum var viðurnefnið notað með ákveðnum greini eins og um bát væri að ræða fremur en mann. Hvert nafn gaf hugboð um nýja persónu; margir heimar í einum búki. Ekkert var heilt.
Ég byrjaði að skynja tímann. Þegar ég fléttaði sítt hárið á ömmu gaf ég þáttum fléttanna nöfn. Öll tengdust þau lífinu og tímanum. Og mér. Eða lífinu, dauðanum og mér. Meðan fingur mínir brugðu þáttunum hverjum yfir annan muldraði hugurinn í sífellu „Lífið, dauðinn, ég.“ Þessir þrír þættir mynda fléttu. Tíminn er meginþáttur leikrits. Og leikrit er flétta úr lífi, dauða og því margbrotna fyrirbæri sem nefnir sig „ég“.
Og með tímanum varð sá heimur sem ég hafði misst að eins konar paradís í huga mínum. Draumur sem mér yrði nauðsyn að ráða. Eða veruleiki sem ég hafði sofnað frá. Eitthvað sem var óvíst að hefði gerst. Eina tækið sem ég hafði til að öðlast það aftur var ímyndunaraflið. Lífið var hér, á þessu nesi sem var mikill og margbreytilegur leikvöllur, kartöflugarðar og fjörur, flösin og slippurinn, bryggjur og bátar, fiskur og fótbolti; mikill fiskur, mikill fótbolti. Og á kvöldin settist sól hjá jökli hinum megin við víðan sjó. Þessi jökull drottnaði við sjónbaug þar sem týndi heimurinn minn var. Þá var ekki enn búið að ramma jökulinn inn „í hvítu gullinsniði“, eins og Hannes Sigfússon greindi síðar frá, sjónarspil hans enn óhamið, hvert sólsetur seiður sem engin rök gátu útskýrt.
Ljósmyndastofan hans afa var enn einn heimur, myrkrakompan, filmurnar og ekki síst hans kvika lund, þar sem fagurkeri og háðfugl kepptu um völd. Tveir menn í sama búknum. Ég fylgdi honum á endalausum gönguferðum um mýrar og móa í leit að myndefni, ég sat hjá honum við dimmgula týru í myrkrakompunni og horfði á myndir dragast fram á pappírinn. Þannig galdraði hann hvern heiminn af öðrum fram. Hann var líka orðhagur og orti tækifæriskveðskap og kersknivísur, sumt af því varð fleygt.
Aðrir heimar voru bækur. Bækurnar hennar mömmu og bækurnar hennar ömmu. Bækurnar snjáðu á bæjarbókasafninu, útvarpið, útvarpsleikritin, skemmtiþættirnir. Og Bíóhöllin birti nýjan heim annað og þriðja hvert kvöld, ýmist í formi kvikmyndar eða lifandi leiks á sviðinu. Þá var hátíð, ef leikarar eða skemmtikraftar tróðu upp, danskir kabarettlistamenn sem höfðu oft sést á myndum í dönsku blöðunum hennar mömmu, sjónhverfingamenn sem gátu mettað 374 áhorfendur á súkkulaðistöngum sem þeir drógu fram úr skyrtuerminni, göldróttir tónlistarmenn sem léku á mörg hljóðfæri í einu og skiptu samtímis um föt. Þarna gat að líta sýningar áhugaleikara á staðnum og oft mátti sjá afburðaleikara í nafntoguðum alvörusýningum frá leikhúsunum í Reykjavík, því engin leiksýning var send útfyrir borgarmörkin án þess að eiga viðkomu á Akranesi.
Það var mikil uppgötvun þegar mér varð ljóst að til voru menn sem ortu ljóð um götuna mína og fjöruna. Í glugga bókabúðarinnar skipaði Nóttin á herðum okkar heiðurssess eitt haustið, því Jón Óskar var Skagamaður umfram allt annað. Hann var æskuvinur mömmu og bróðir hennar Ingu hans Óla frænda á loftinu. Löngu síðar, þegar ég var kominn út fyrir þennan garð, hafði ég veður af Steinari Sigurjónssyni. Hann leit þetta allt saman öðrum augum.
Í raun átti ég aldrei afturkvæmt eftir að ég fór í skóla fyrir sunnan, kannski var sálin glötuð því heimurinn stækkaði stöðugt og heimunum fjölgaði. Í Reykjavík voru snargöldrótt leikhús sem drógu mig að sér, þar voru mánudagsmyndir sem voru öðruvísi en aðrar bíómyndir, skáld á götunum og í strætisvögnunum. Og bókabúðir! Ég hóf að viða að mér ljóðabókum á útsöluverði og leikritum í stórum stíl, bæði íslenskum og útlendum, og las af áfergju. Ég orti mitt fyrsta ljóð þegar ég sá Hannes Pétursson í strætó. Ég hafði samið paródíu af Skugga-Sveini tólf eða þrettán ára, en í vikunni sem ég sá Svínastíuna eftir Pasolini og las Beðið eftir Godot eftir Beckett, gerði ég tilraun til að skrifa leikrit.
Með tímanum hef ég farið að líta á ljóð sem aðferð til að muna, en leikrit sem aðferð til að skilja. Hvor tegundin um sig er aðferð til að endurbyggja, til að gera heilt.
Árni Ibsen, 2001
Um höfund
Um leikrit Árna Ibsens
Árni Ibsen kvaddi sér hljóðs sem leikritahöfundur árið 1984 með leikritinu Skjaldbakan kemst þangað líka. Þar tók Árni tvö ljóðskáld sér hjartfólgin, Ezra Pound og Williams Carlos Williams, og kannaði tengsl þeirra, raunveruleg og ímynduð, og byggði verkið á skilningi sínum á verkum þeirra beggja og hugmyndum sem hann hafði gert sér um vináttu þeirra þrátt fyrir gerólík viðhorf til skáldskaparins og lífsins. Verkið kom vafalaust mörgum á óvart, ekki síst vegna efnisvalsins sem tæplega höfðaði beinlínis til hins almenna leikhúsgests, til þess var efnið of sérstakt og meðferð höfundarins hlaðin vísunum í ljóðheim skáldanna tveggja og sneiddi meðvitað hjá allri viðleitni til að bjóða áhorfandanum auðveldustu leið til skilnings. Verkið bar ótvírætt með sér að hér var kominn fram höfundur sem hafði vald á mikilvægustu þáttum leikritunar, þ.e. sköpun dramatískra aðstæðna, snörpum samtölum ásamt sterkri tilfinningu fyrir mikilvægi ljóðræns texta í leikhúsi, eyra fyrir hljómfalli í samtölum ásamt því að byggja upp persónur með sköpun málsniðs og mótun afstöðu til umræðuefnis og annarra persóna í verkinu. Allt birtist þetta í Skjaldbakan kemst þangað líka tiltölulega áreynslulaust. Næsta verks var því beðið með nokkurri eftirvæntingu og kom sannarlega á óvart, þar sem þar sýndi Árni á sér allt aðra hlið en búast mátti við af fyrra verkinu.
Skjaldbakan kemst þangað líka (1984 / 1988)
WILLIAMS:
það er í þögninni sem það er. Og maður verður að vera einn ... aleinn. Og ekki ... grípa frammí fyrir þögninni … Ég er svo lánsamur að vera uppi einmitt núna, þegar varla getur heitið að búið sé að finna upp símann. Hann er að vísu kominn í gagnið, greyið. Hangir á veggnum og muldrar eitthvað af og til. Truflar ekki þögnina. Ég gef honum hornauga. Svara seinlega. Það lætur nærri að einu skiptin sem ég tala í síma séu þegar ég er kallaður til að sinna sjúkum … því ég er læknir.POUND:
(Dauft hvísl í fjarska). það er allt of dauðalegt í kringum þig.WILLIAMS:
(Gefur engan gaum að rödd Pounds). Ég er farinn að venjast bílunum. En þeir hafa líka hægt um sig. Enn sem komið er. þeir róta ekki veginum uppí loft, eins og mér skilst að þeir séu farnir að gera á ykkar tíð. Nei. Bílarnir á minni tíð hafa hægt um sig. Og bíða. þeir fara sér löturhægt og lyfta rykinu varlega af veginum … um eitt fet eða svo … og í loftinu tekur það nokkur vanburða vængslög eins og vönkuð hæna, en sest síðan varlega á veginn á nýjan leik. Já, ég lifi á andskoti merkilegum tímum. Ég man til dæmis … þögnina sem ríkti hér áður. Hún var full af hljóðum einfaldleikans. þögn með stöku plógjárni, ellegar gufuvél langt í fjarska. Og ég hef fylgst með hvernig þögnin hefur látið treglega undan … allri tækninni … sem smám saman hefur verið að smokra sér inní hana. Já. Og hún smokrar sér ofurvarlega innfyrir, tæknin, vegna þess að hún vill ekki ýta við tortryggninni. Enda er það víst svo á ykkar tíð, að tortryggnin er rétt að rumska, þegar tæknin er búin að koma sér rækilega fyrir og jafnvel búin að taka völdin. En á minni tíð er valdabaráttan ekki einu sinni hafin … Ja … jú … kannski … Baráttan er hafin … en það stríð er uppfullt af afsökunarbeiðnum og kurteisi og allt getur ennþá gerst. Og tæki og tól eru ennþá bara tæki og tól, til að flytja eitthvað einfalt og nauðsynlegt milli manna. Flytja hugsun frá vilja til verks. Flytja boð frá manni til manns, eða flytja mann til annars manns … og alls ekki hraðar en hann gæti gengið. þannig er það í þessu landi, í þessu héraði, í þessum smábæ. Allt er í mótun. Og enn er ekki búið að finna orð yfir hvað er í mótun. Öll reynsla er enn mállaus. þessi heimur er óskrifað blað.
Afsakið hlé var einþáttungur saminn fyrir Egg-leikhúsið 1989 sem tilbrigði við einþáttung Ghelderodes Escurial, en báðir þættirnir voru sýndir saman undir heitinu Sál mín er hirðfífl í kvöld. Afsakið hlé var þó meira en tilbrigði þar sem það var sjálfstætt verk sem reyndist falla vel í geð áhorfenda. Þar segir frá lífsþreyttum framkvæmdastjóra auglýsingastofu sem vélar einkaritara sinn til að taka á sig ábyrgðir fyrir gjaldþrota fyrirtækinu í krafti þeirrar ástar sem hún hefur lagt á mannkertið. Árni sýndi hér svo ekki varð um villst að honum var lagið að skrifa gamansama háðsádeilu og textinn var tekinn beint úr munni þjóðarinnar; hversdagsmálið bryddað slettum úr ensku, rétt eins og það er talað manna á milli en þó kænlega yddað af næmi ljóðskáldsins fyrir hljómfalli og áherslum.
Afsakið! Hlé. (1989)
LÍSA:
Er ekki einfaldast að fara hreinlega alveg á botninn og alla leið niður úr honum, og koma svo bara upp hinu megin?ÆVAR:
Hvernig þá?LÍSA:
það veit ég ekki. Ég meina, ekki kann ég bisniss.ÆVAR:
Er þetta möguleiki?LÍSA: Nú, Dante gerði þetta og því skyldir þú ekki geta það?
ÆVAR: Hvaða Dante?
LÍSA: Ítalskt skáld.
ÆVAR: Skáld! Skáld! Ertu galin manneskja! Hér stend ég úrræðalaus af leiðindum og þú talar um skáldskap!
LÍSA: Já, hvað annað? það er allt hægt í skáldskap svo fremi það sé gert snyrtilega.
ÆVAR: Lísa, hvað á ég að segja þér það oft? Skáldskapur er rugl! Og farðu nú ekki að bregðast von minni um að ráðning þín hingað á skrifstofuna beri ekki vott um neitt annað en minn brillíans. Mitt eðlislæga talent til að uppgötva eitthvað orgínalt. Ekki vekja grun hjá mér um að þessi vingulsháttur þinn sé bara tillærður en ekki meðfæddur. (Dvöl). Æ, ég nenni ekki að æsa mig þetta. það eyðileggur bara ánægjuna af leiðindunum.
LÍSA: Allt í lagi þá! Gleðileg leiðindi! (Tekur til við að tína blöðin uppúr gólfinu). Ég er bara venjulegur vingull. því miður. Ég er sefhæna. Ég er gargönd. Ég er blaðsegull með raðara. (Tuðar áfram ad lip).
ÆVAR: (Horfir á hana um stund. Dæsir). Ókei. Hvernig fór hann að þessu?
LÍSA: (Með þótta). Hver?
ÆVAR: þessi Dennis?
LÍSA: Ha?
ÆVAR: þarna, þú veist, þessi sem fór alveg á botninn og í gegnum hann?
LÍSA: þú meinar Dante.
ÆVAR: Já, hann. Hvað gerði hann?
LÍSA: það veit ég ekki.
ÆVAR: Nú, hefurðu ekki lesið hann?
LÍSA: Dante! Ertu frá þér maður? Lesa Dante? það les ekki nokkur maður Dante nú til dags.
ÆVAR: Af hverju ekki?
LÍSA: Nú, af því bara! Ég meina þetta eru fleiri þúsund blaðsíður og allt í bundnu máli. Ekki einu sinni á íslensku.
ÆVAR: Hvernig veistu þetta þá? Að hann hafi farið svona, eins og þú segir, alveg niður úr. þurftuð þið ekki að lesa svona lagað í bókmenntasögunni?
LÍSA: Nei, elskan mín! það var nóg að kunna teóríur til að slampast í gegnum bókmenntasöguna.
ÆVAR: Nú, er þá til einhver teóría um þetta, eða hvað?
LÍSA: Um Dante?
ÆVAR: Já, og þetta sem hann gerði.
LÍSA: það veit ég ekki. Jú, sjálfsagt.
ÆVAR: Hvað á ég þá að gera?
LÍSA: (Skellir blaðabunkanum sínum á borðið). Mér líst ekkert á hvernig þetta samtal er að þróast. það er ekki líkt þér að standa svona ráðþrota gagnvart einum litlum efnahagsvanda. þarftu einhverjar teóríur? Í alvöru talað, ef þú þarft að gera eitthvað þá gerirðu það bara. Veistu, ég botna heldur ekkert í því hvaða vanda þú ert að tala um. þú ert búinn að fjárfesta eins og andskotinn út um allar jarðir. Átt eignir og bréf upp á miljónir. þú getur snúið þér að því að selja þetta drasl. Ég sé bara ekkert próblem. Sorrí!
ÆVAR: Ég hef ekki áhuga. Hver heldurðu að nenni að leggjast í sölumennsku nú orðið? Ég er búinn að fara í gegnum þann fasa. Og það var bara gaman meðan allt var í uppsveiflu, en það kaupir enginn neitt núna.
LÍSA: Geturðu ekki losað um þessar fjárfestingar þínar?
ÆVAR: það situr allt pikkfast, það helvíti. Engin hreyfing á nokkrum sköpuðum hlut. Engin eftirspurn eftir neinu. Framboð án eftirspurnar! Hefurðu vitað nokkuð hallærislegra? Ömurlegt!
Næsta verk Árna, Ský, var samið fyrir Útvarpsleikhúsið og bar hvorutveggja einkenni beggja fyrri verkanna, ljóðrænt verk sem þó bar með sér svo ekki varð um villst hvert Árni stefndi í leikritaskrifum sínum; sköpun aðstæðna sem báru sumpart einkenni fáránleikans en samt um leið kyrfilega staðsett í mjög vel þekkjanlegum samtíma, textinn ljóðrænn í hljómfalli en hversdagslegur í málsniði. Beiting markvissra endurtekninga í samtölum reyndist einnig vera að festast í sessi sem eitt af höfundareinkennum Árna.
Ský (1990)
Útvarpsleikrit
EIRÍKUR: Mikið getur nú himinninn orðið blár á þessu landi. Og skýin hvít. það var alltaf þetta sem ég saknaði mest þegar ég var í siglingum. þessi birta. Á heimsiglingum fylgdist ég með hvernig himinninn breyttist dag frá degi, frá einni stund til annarrar. Hvernig þessi himneska birta færðist yfir. þegar ég sá jökulinn rísa eins og himnaríki úr hafi var ég kominn heim. Einhver tilfinning sem hríslaðistum mig allan. Kannski var ég hamingjusamastur á þeim stundum. Án þess að hafa hugmynd um það.
BIRNA: Mín hamingja var öll bundin við þig.
EIRÍKUR: Enginn getur átt annan.
BIRNA: þú áttir mig.
EIRÍKUR: það var skelfilegt.
BIRNA: Já. það var skelfilegt.
EIRÍKUR: Samt elskaði ég þig. Elska þig ennþá.
BIRNA: Karlmenn elska ekki.
EIRÍKUR: Ég elskaði þig. Ég elska þig núna.
BIRNA: Má vera. Á þinn hátt. Kannski elska karlmenn bara öðruvísi en konur.
EIRÍKUR: Sennilega gera þeir það.
BIRNA: Karlmenn eru undarlegar skepnur, þegar allt kemur til alls. Og ennþá undarlegra að konur skuli ekki uppgötva það fyrr en þær eru dauðar. þeir elska ekki. þeir gráta ekki. þeir segja ekki sannleikann. Sumir sofa ekki einu sinni. þeir taka sér eitthvað fyrir hendur, en hugurinn fylgir ekki máli. Hendur þeirra eru kaldar. Svo eru þeir þjakaðir af samviskubiti yfir að vera eins og þeir eru, yfir að vera ekki eins og þeir ímynda sér að þeir ættu að vera. Og þó ættu þeir ekki að vera neitt öðru vísi en þeir eru. þeir reyna. Eða þykjast reyna. þykjast vera annað en þeir eru. Og það er svo undarlegt að konur elska þá eingöngu þegar þær sjá í gegn um þá. það er eins og það færi þeim einhverja öryggiskennd að sjá í gegnum þá, að vita að þeir eru jafn óheilir og þeir eru. Samt hafa þær aldrei hugmynd um hvers vegna þær elska þá. Einhversstaðar er einhver fáránleg mótsögn í þessu öllu saman.
EIRÍKUR: Karlmenn eru farmenn í eðli sínu. þeir fylgja sólinni. Skila sér heim í jökulinn á vorin.
BIRNA: (Hlær að þessu). þú varst að minnsta kosti í eilífu fríi frá öllum vanda.
EIRÍKUR: það er satt! Aldrei viðstaddur. þó búkurinn væri á staðnum var hugurinn annars staðar. Ég var meira að segja fjarverandi á mestu sælustundum lífs míns!
BIRNA: Fjarverandi öllum stundum.
EIRÍKUR: Eitt sinn komst ég . . . nálægt því að skilja . . . eitthvað. Ég veit ekki hvað. Kannski mína eigin fátækt. Sennilega var fátæktin það eina sem ég átti. Ég er að tala um annars konar fátækt.
BIRNA: Ég veit hvað þú átt við.
EIRÍKUR: það var eftir að þú . . . fórst. Ég kom í húsið okkar um nótt. Ég var þá hættur á bátnum, búinn að selja húsið. Húsgögnin farin suður. Húsið stóð autt, tunglskin inn um suðurgluggana. Og það var svo kyrrt, svo óhugnanlega kyrrt. Ég gekk inn og stansaði innst á ganginum, hélt niðri í mér andanum til að trufla ekki kyrrðina. þá heyrði ég það duttu dropar úr eldhúskrananum í vaskinn, bara dropar, einn af öðrum með löngum hléum. Ég varð stjarfur. Ég settist á gólfið og hlustaði, hlustaði bara, lengi. Og smám saman . . . kom yfir mig . . . depurð, einhver mikil depurð sem óx eftir því sem fleiri dropar duttu í vaskinn. Svo veit ég ekki hvað gerðist, hlýt að hafa gleymt mér, en ég vissi ekki fyrr en tárin voru farin að streyma niður kinnar mínar. þegar tók að birta af degi var ég hágrátandi, einn í auðu húsinu og grét eins og hvítvoðungur. Ég hef aldrei hugsað út í það fyrr en núna, en ég var ekki að gráta út af þér. Nei. Ég var að gráta út af mér. Ég veit það núna. Og þeirri ást sem ég var ófær um að finna fyrir, hvað þá að veita. Ég sigldi með skipinu um morguninn og hef ekki komið í plássið síðan. Kannski komst ég þarna næst því að vera . . . viðstaddur . . . eða hvað það heitir . . . vera á lífi.
Fiskar á þurru landi (1993) sem Pé-leikhópurinn sviðsetti var gamanleikur í háðskum stíl. Ólíkindagamanleikur þar sem segir frá ungum pilti og eldri konu sem reka saman gistiheimili úti á landi. Til þeirra rekast ung stúlka og bisnessmaður úr höfuðborginni, hún hrífst af einlægni piltsins og á milli þeirra skapast tengsl, en á meðan kemur æ betur í ljós að bisnessmaðurinn er með allt niðrum sig og skuldar allt sem hann slær um sig með. Hér kemur aftur skýrt fram eitt af megineinkennum Árna sem leikritahöfundar; tilfinning hans fyrir tilgerð og uppskafningshætti hinnar nýríku stéttar og samkennd með þeim sem láta minna yfir sér en búa þó yfir ríku innra lífi, nægjusemi í vissum skilningi eða öllu heldur sátt við eigið hlutskipti án uppgjafar. Gamanleikrit hans slá þannig sterkan tón í samfélagsádeilu um leið og þau hlaupa útundan sér í ólíkindalátunum.
Fiskar á þurru landi (1993)
Ólíkindagamanleikur
"Ég geri allt. Kaupi inn. Elda matinn. Vaska upp. Sópa gólfin, skúra stigana, skrúbba þröskuldana, þvæ gluggana, ryksuga, bóna, þvæ og strauja. Sé um bókhaldið. Rukka kostgangarana. Tek fyrir næturgreiðann. Ég er ekki til annars nýtur. Kann ekkert. Get ekkert. Svo er líka voða mikið að gera hjá mér við að endurnýja öll happdrættin, kaupa lottóseðlana. Halda utanum það alltsaman. það er líka ég sem horfi á sjónvarpið. Einhver verður að horfa á það. það verður að horfa á sjónvarpið. Svo það svari kostnaði."
"Hún er bara búin að spá hundrað sinnum fyrir öllum í plássinu. Allir orðnir dauðleiðir á að sjá inní framtíðina."
"Konur vita svona lagað, Guðmundur. Og ég er kona. Nærðu því? Veistu hvað það er? Nei. þú veist það ekki. Maður veit sko ekkert hvað það er að vera kona fyrr en maður er orðin kona."
Elín Helena fylgdi þétt í kjölfarið á Fiskum á þurru landi og var frumsýnt haustið 1993 í Borgarleikhúsinu. Árni hefur sjálfur sagt að efni þessa verks hafi búið með honum lengi og því sé sköpunartími verksins mjög langur, það megi jafnvel segja að það sé í vissum skilningi eldra en Skjaldbakan (Ritþing um Árna Ibsen í Gerðubergi maí 1999). Það skýrir kannski að nokkru leyti hvers vegna Elín Helena er um margt ólíkt þeim verkum sem Árni skrifaði á þessum tíma. Þetta er alvörugefið dramatískt verk þar sem átök skáldsins við leikritsformið eru greinileg, hann veltir fyrir sér tíma og rúmi, textinn er ljóðrænn og hversdagslegur á víxl. Hér er fengist við grundvallarspurningu í íslensku samfélagi sem snýst um hernám hugarfarsins, þar sem íslensk stúlka leitar amerísks föður síns og uppgötvar sífellt meira um sína eigin fortíð og fjölskyldusögu sína eftir því sem leitinni fleygir fram. Hún veit í lokin ekki lengur hvort hún er amerísk eða íslensk, er hún dóttir föður síns eða móður sinnar, hverjum tilheyrir hún þegar á reynir?
Elín Helena (1993)
Rikki: Veistu? Ég hef séð himinn og jörð ... snertast. þau tókust í hendur, fléttuðu fingur sína saman. Svona. Sko! Og þau bráðnuðu saman. það var svo heitt! Svo heitt. Himinninn sendi hita í jörðina og þaðan steig hann upp sem vatn. Sem raki. Gljáandi af sól. það er kallað tíbrá, þessi ástarfundur himins og jarðar. Ég var þar. Varð partur af því. Og hitinn svo megn að maður kemst á annað tilverustig, þar sem allt stendur áhaus. Og þögnin í sólarbrækjunni. þögnin er svo ofboðsleg, það gnestur í henni; endurómar um allan skóginn. Og maður heldur að það sé óvinurinn. þessi djöfullegi óvinur að laumast aftan að manni. EN þA' ER EKKI HANN! þA' ER ALDREI HANN! það er bara þögnin. Og þessi blautlegi ástarfundur milli himins og jarðar. Ég var þarna. Sá þetta. Sofnaði við það. þarna, þar sem að vera alsgáður var að vera ölvaður. Af blóði og rjúkandi búkum. þar sem glýja í augum var eðlilegt ástand. þar sem bein manns urðu duft og þreytan hélt líkamanum uppi. þar sem að vera maður var að vera skepna. Veistu hvað ég meina? Ha? þú verður að vita hvað ég meina, annars ... annars hefur þetta engan tilgang, engan ... engan tilgang ...
Elín Helena: Ertu að tala um stríðið?
Rikki: Hvaða stríð? Ég er að tala um guð!
Elín Helena: Guð?
Rikki: Guð hefur ástríðu. þess vegna er hann guð. Vissirðu það?
Elín Helena: Nei, ég vissi það ekki ...
Rikki: Nei. þú ert heldur ekki í heimspekinni. Hann er svo ... svo ástríðufullur.
Elín Helena: En þú sagðir áðan að hann væri kaldur.
Rikki: Já. Tilfinningalaus.
Elín Helena: Hvernig getur hann þá haft ástríður?
Rikki: það er einmitt málið, sjáðu. það er stóra mótsögnin við hann. Snjallt hjá honum, finnst þér ekki? Ég þekki engan sem fattar þetta. Hann er svo yfirgengilega karakterlaus að maður tekur eftir því. Sko! Enn ein mótsögnin. það er ástríða hans að vera kaldur og tilfinningalaus. Og ef maður hefur ástríðu ... sjálfur... Eða, ef einhver jarðneskur maður hefur ástríðu, sjáðu, þá er hann guð. Guð. Hugsaðu þér! Að vera guð. Hefur þú enga ástríðu?
Elín Helena: Ég ... ég veit það ekki ...
Rikki: Ég hafði það. Ég var einu sinni guð.
Elín Helena: Ég get vel trúað því ...
Rikki: Helena hefur sagt mér frá því, en það er eins og það hafi verið einhver annar, eins og hún sé að lýsa draumi ...
Elín Helena: þið voruð ... elskendur ... ?
Rikki: það er bara eitt sem ég get ekki skilið.
Elín Helena: Hvað er það?
Rikki: Veistu hvers vegna fólk er að lifa? Ha? Veistu það? Ég veit það ekki. Mér er fyrirmunað að fá botn í það. Ha? það geta nefnilega allir orðið guð. Bara ef þeir vilja. Ef þeir elska.
Elín Helena: Ég ...
Rikki: Hvers vegna deyr fólk ekki bara? Ha? Úrþví það er svona ástríðulaust? Ég væri löngu dauður ef ég væri ekki svona bæklaður. Löngu búinn að farga mér. Nei, fólk er svo yfirgengilega ástríðulaust. Mig langar til að hrista það stundum, gá hvort það hrekkur ekki í samband. það er ekkert varið í þetta öðruvísi. Ha? Enginn tilgangur ef ástríðurnar vantar. Finnst þér það ekki?
Elín Helena: Ég ...
Rikki: Er þetta erfið spurning hjá mér?
Elín Helena: Ja ...
Rikki: Geturðu ekki svarað?
Elín Helena: það eru til svo mörg svör, ég ...
Rikki: Er það? Eru til mörg svör við einni spurningu? Skrýtið. Gefðu mér dæmi ...
Elín Helena: Dæmi? Dæmi um svar?
Rikki: Já.
Elín Helena: Kannski ... kannski deyr fólk ekki og heldur áfram að lifa ... vegna þess að það hefur alltaf eitthvað fyrir augunum. Eitthvað ...
Rikki: Hvernig þá?
Elín Helena: það er alltaf eitthvað í sjónmáli.
Rikki: Eins og hvað?
Elín Helena: Bara ... eitthvað sem dregur það áfram ...
Rikki: Svona eins og agn?
Elín Helena: Já! Eins og agn. En það er — alltaf — utan seilingar, sama hvað við reynum að nálgast það.
Rikki: (Hlær). þetta er gott! þetta er gott hjá þér ... (Hættir að hlæja). Alltaf utan seilingar! Helvíti gott hjá þér. En agnið er blekking, er það ekki? (Dvöl. Ekkert svar). Miklu betra að hafa ástríðu, held ég. Já. Sko, þá lætur maður ekki blekkjast. þá bítur maður ekki á agnið. Ertu mát eða ertu patt?
Elín Helena: Ég ...
Rikki: Hvað sagðist þú heita?
þögn.
Elín Helena: (Varlega). Pabbi? (þögn). Ég er Elín Helena. Dóttir þín. (þögn. Hann horfir bara á hana). Dóttir þín.
Elín birtist. Stendur þögul álengdar. Fylgist með. Hann sér hana. Hann á í mikilli baráttu. Hann deplar augunum ákaft, eins og hann hafi misst stjórn á augnlokunum. Hendurnar byrja að titra. Hann ber þær upp að höfðinu til að hemja þær. Strýkur gegnum hárið. Nuddar lófunum við andlitið eins og hann sé nývaknaður. Loks.
Rikki: Dóttir mín er dáin. það er ekki fallegt af þér að vera að minna mig á það. Hún dó.
Elín Helena: Nei. Hún ...
Rikki: Hún er dáin segi ég!
Elín Helena: Nei ... (Hann ætlar að segja eitthvað). Bíddu! Bíddu við ... þú sagðir mér sögu þegar ég var lítil. Oft. Ég vildi heyra þessa sögu aftur og aftur. Manstu hana? (Hann starir bara á hana). Hún var um manninn sem var svo einmana. (Hún bíður eftir viðbrögðum hans. Engin viðbrögð). Hann settist niður á strönd og fór að bíða eftir ástinni. En hún kom aldrei. Manstu ekki? (Hann starir bara). Og hann sat þarna lengi, lengi, hár hans óx og varð grátt og féll niður á herðar hans, og hann sat með lokuð augu alveg þangað til hjarta hans sprakk af harmi. En þá opnaðist brjóst hans. Og það komu fuglar af hafi, heil hersing, og þeir flugu í gegnum hann. Inn í brjóst hans og út um bakið. þú sagðir að það væri tíminn að líða. En svo ... allt í einu ... opnaði hann augun, brjóst hans lokaðist og einn fuglinn lokaðist þar inni. Hár mannsins varð aftur dökkt og fuglinn ólmaðist í brjósti hans — og hvorugur dó.
Rikki: Var hann þá hættur að vera einmana?
Elín Helena: Já.
Rikki: þetta er skemmtileg saga.
Elín Helena: Ég vildi aldrei heyra aðra sögu.
Með Himnaríki var brotið blað í íslenskri leikritun. Hér gerði Árni merka tilraun til að sameina með athyglisverðum hætti tilraun í formi, texta og efni þannig að verkið varð að margræðu tákni fyrir þá kynslóð sem það lýsir. Fólk á þrítugsaldri um miðjan síðasta áratug 20. aldar. Form verksins er með þeim hætti að um tvo einþáttunga er nánast að ræða. Þeir eru leiknir samtímis og gerast annars vegar úti og hins vegar inni. Áhorfendur sátu sitt hvorum megin við tvískipt sviðið og þeir sem sáu atburðarásina inni í fyrri hlutanum, skiptu um sæti við hina og horfðu á sömu atburðarás úti í seinni hlutanum. Í lokin er fléttaður nýr þráður svo endir verksins kemur á óvart eins og vera ber.
Sjálfur segir höfundur að verkið endurspegli í sínum huga hið geðklofna ástand þeirrar kynslóðar sem þar er lýst. Textinn er einnig nýstárlegur þar sem samtölin eru mjög enskuskotin og persónurnar eiga sumar hverjar giska erfitt með að tjá sig á mæltu máli en gengur þó betur ef enskan er notuð. Þetta er ýkt mynd sem höfundur dregur upp af kynslóð sem alist hefur upp við amerískar bíómyndir og sjónvarpsefni en skilaboðin eru skýr; með sama áframhaldi verðum við hætt að tala íslensku eftir fáeina áratugi. Persónusköpunin er einnig sérstæð að því leyti að hópurinn er einsleitur, börn reykvískrar peningastéttar eru komin í sumarbústað út í landi. Þau eru gersamlega úr tengslum við umhverfi sitt, landið hefur enga merkingu fyrir þau, nema þá til að rasa út á, þau hafa ekki hugmynd hverjir byggja þetta land eða hvaða máli það skiptir.
Himnaríki – geðklofinn gamanleikur (1995)
"Veistu, það er bara nó problem hjá pabba hans Tryggva! Veistu' ekki' hvað pabbi' hans Tryggva segir alltaf? Pabbi hans Tryggva, hann segir alltaf: "Heyrðu vinurinn! það eru bara plebbar sem hafa áhyggjur!""
"Heyrðu! Hérna, fyrirgefðu! Skjús míííí! Hérna: Til hvers ertu að hafa fyrir þessu, ha? Ég meina, sko, af hverju tekurðu ekki bara, þú veist, hérna, pínulítið minna, ha?! Ha? Ég meina: Af hverju, hérna, skilurðu ekki bara allt draslið eftir handa mér, ha? Kvenfólk, maður!"
"Dáldið svona ... öfgakennt ... dáldið mikið þjóðlegt ... eitthvað svona, þú veist. Æða' útí sveit og láta' eins og það sé komið sumar. það á að njóta fyrirfram ..."
"Og svo bara kemur maður út og það er bara' ekkert að gerast! Djís, maður ... það er allt að verða klárt þarna' inni, maður! Ha?! Bara' eftir að skella draslinu' á grillið, og svo bara ... ! Djísus, Tryggvi! þú ert ekki hægt! Allir að drepast úr hungri, maður, bara meiriháttar hungursneyð í aðsigi og allt ... og svo bara fattast allt í einu' í miðju dauðastríðinu, maður, að bara' einn maður! Ha?! Bara' einn maður, Tryggvi! Einn maður sem gleymdi að kveikja' á fokking grillinu!"
"Ég veit ekkert hvernig þau eru' eða neitt og þau vita' ekkert hvernig ég er og enginn veit neitt hvort nokkur passar saman við neinn eða neitt og endar svo bara með því að enginn er öruggur með sig og enginn veit neitt hvernig hann á að vera' eða neitt og ekki neitt ... og bara ... Komon, Gaui. þú hefðir nú alveg mátt reikna með að ég og þessi þarna Steinunn, ha, þú hefðir alveg mátt átta þig á þeim möguleika. Og þessi' Unnur, maður! Vaá! Ég meina: það er sko engu líkara en hún hafi gleymst á fæðingardeildinni og hreinlega misst af öllum grunnskólanum!"
"Sko, Gaui. þú ert alveg ágætur og allt, bara ... Ég hugsa meir að segja að þú sért fínn, en ... Sko, ef ég á segja þér alveg eins og mér finnst, þá held ég að þú ættir ekki' að venja þig á að vera' í margmenni."
"Ég var bara farin að halda að við ættum að urða alla familíuna hérna."
"Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki við þig þá er það hvað þú ert alltaf ógeðslega jákvæð, eitthvað. Ég meina, þú ert alveg ofboðslega neikvæð líka, en það er bara frontur, sko, þín neikvæðni er einhvern veginn svo ... svo jákvæð ..."
TRYGGVI: (Frá sér numinn). Ég ætla' að kurla spírukvikindið niðurí hekk! Og bara svoleiðis drussa því allt í kringum bústaðinn svo karlófétið geti bara vaðið plöntutussur uppí klof! Svo dúndrum við bara í bæinn! Ha! Aníta! Ha?!! Ég og þú, Aníta! Hvernig líst þér á það?
ANÍTA: Ji, Tryggvi ...
TRYGGVI: Jess, beibí ...
ANÍTA: Vá! þú varst næstum því sexí núna!
Árni fylgdi Himnaríki eftir með því að skrifa hefðbundinn farsa fyrir leikfélag Reykjavíkur sem frumsýndur var haustið 1996. Sjálfur hefur hann lýst Ef ég væri gullfiskur sem einu erfiðasta verkefni sem hann hafi tekist á við, því farsi byggist á verkfræðilegri nákvæmni. (Ritþing í Gerðubergi í maí 1999). Ef ég væri gullfiskur gerist í Reykjavík okkar tíma, þar sem aðalpersónan er dæmigerður meðaljón, skrifstofublók sem dag nokkurn ákveður að taka til sinna ráða svo lífið fari ekki algjörlega framhjá honum. Konan hans er á kafi í pólitík, bróðir hans á skítnóga peninga og faðir hans gullfiskasalinn græðir vel á erlendum viðskiptum. Blókin býður kvenmanni með sér heim í hús föður síns í þeirri trú að hann sé erlendis en svo reynist aldeilis ekki vera þar sem í ljós kemur að konan hans og bróðir hafa einnig hugsað sér að nýta húsið í einkaerindum sömu nóttina.
Ef væri ég gullfiskur! (1996)
Farsi
"þið hafið ekkert með peninga að gera! Ykkur helst ekkert á þeim! Peningurinn er nefnilega félagsvera. þess vegna tollir hann svona illa hjá fátæklingum."
DÓRA: Óskaplega er hún eitthvað trekkt, konan. Meiddi hún þig?
BINNI: Mig varðar ekkert um það. það hirðir hvort eð er enginn um hvernig mér líður.
DÓRA: Æ, Binni! Ekki segja svona! það þykir öllum svo vænt um þig!
BINNI: Hvers vegna er ég þá ekki hamingjusamur úr því allt bendir til að ég sé það? Áreiðanlega útaf einhverju sem gerðist þegar ég var lítill. Heldurðu það ekki, Dóra?
DÓRA: Ji, Binni, ekki spyrja mig að svonalöguðu!
Dóra fer inní eldhús. Binni hraðar sér hikandi og laumulega að íþróttatuðrunni undir sófanum. Dregur hana fram, opnar hana og sturtar úr henni. Í fyrstu hrynja fáeinar flíkur úr tuðrunni, en síðan koma fleiri fleiri búnt af peningaseðlum. Heill haugur af peningum. Binni fær allt að því taugaáfall og starir á þennan fjallmyndarlega peningahrauk. Hann heyrir eitthvert hljóð, það kemur óðagot á hann og hann flýtir sér að troða öllu í tuðruna aftur. Hann smeygir henni nú í annan felustað og sest eins og ekkert hafi í skorist. þó er honum illa brugðið
DÓRA: (Kemur). Hvers vegna ferðu ekki í sund? Hressa þig við?
BINNI: Ég er hættur að synda. Nú treð ég bara marvaðann, reyni að sjá til lands áður en ég sekk ...
DÓRA: Mér finnst nú alger óþarfi að vera með eitthvert svartsýnistal.
BINNI: Ég vildi óska að ég væri gullfiskur.
DÓRA: Gullfiskur?
BINNI: Enginn hefur það eins gott og gullfiskurinn. Hann heyrir ekki neitt, veit ekki neitt, man ekki neitt. Bara gapir útí loftið og næringin fellur af himnum ofan, gersamlega fyrirhafnarlaust. Og hann syndir bara. Syndir og syndir, hring eftir hring og man ekki nokkurn skapaðan hlut. Meiriháttar. Man ekki neitt. Bara syndir og syndir.
DÓRA: Jújú. Ég er búin að ná því. Hann er ansi duglegur að synda.
BINNI: Hann mætir kellingunni sinni í hverjum einasta hring sem hann syndir um tankinn. Og það merkilega er að hann man aldrei eftir að hafa séð hana áður. Er það ekki yfirgengilegt? það er alltaf nýr maki. Alltaf ný kelling.
DÓRA: Flest er nú til! Hefur hann svona lélegt minni?
BINNI: Hann getur ekki munað nema fáeinar sekúndur aftur í tímann. Er það ekki meiriháttar?
DÓRA: Ja, ég veit það ekki. Mér finnst ég nú nógu slæm þó aðrir séu ekki verri.
Dóra fer í eldhúsið. Binni dregur tuðruna fram í flýti, opnar hana. Hann lítur flóttalega í kringum sig. Hann opnar ryksuguna, rífur rykpokann úr henni og treður peningunum í pokahólfið. Hann lokar ryksugunni og tuðrunni. Hann treður tuðrunni aftur í felustaðinn um leið og Dóra kemur.
DÓRA: Ber að skilja þetta þannig að þú sért orðinn leiður á Stínu, Binni?
BINNI: (Laumar rykpokanum bakvið stól). Ha?
DÓRA: Ég get svosem ekki sagt að ég lái þér ...
BINNI: Ég hef aldrei haldið framhjá Stínu, Dóra. Ég vil að það sé alveg á hreinu. Aldrei í lífinu! Ég var alltaf stabíli gæinn í einu og öllu! En svo bara ... þetta hjónaband okkar er orðið eins öll önnur hjónabönd. Eins og hver annar brandari ...
Árni skrifaði leikritið Að eilífu með útskriftarárgang Leiklistarskólans 1997 og Hafnarfjarðarleikhúsið í huga og sýndi þar enn eina hlið á sér þar sem form verksins er gerólíkt fyrri verkum; Að eilífu minnir á kvikmynd að því leyti að atriðaröðin hverfist um einn tímapunkt, brúðkaup að íslenskum sið með amerískum áherslum. Verkið reyndist svo fyndið að ádeila þess leið kannski nokkuð fyrir, hér stakk Árni á nýjungagirni þjóðarinnar og þeirri áráttu að taka upp alls kyns erlenda háttu án þess að hafa hugmynd um merkingu þeirra eða menningarlega forsögu. Efnishyggjan og ofhleðslan sem einkennir nútímabrúðkaup íslenskt með gæsa- og steggjapartíum að ógleymdum hrísgrjónunum, og tilraunin sem gerð er til að endurskapa brúðkaup Hollywoodkvikmyndarinnar, sjálfur stíll verksins dregur dám af því sem hæðst er að.
Að eilífu (1997)
Svipmyndir úr brúðkaupi Guðrúnar Birnu Klörudóttur og Jóns Péturs Guðmundssonar, aðdraganda þess, undirbúningi og eftirköstum.
"það er stutt orð. Ást. Ákaflega stutt. Munar næstum því engu að það heyrist ekki. Bara svona, bara svona andardráttur, aaaaaaúúú, svona andvarp, þið vitið, með svolítið sssssssssuuuð-hljóð í eftirdragi, sem endar svo á daufu tu! Svona eins og hurð sé lokað á eftir suð-hljóðinu. Lok lok og læs. Ást. Ákaflega stutt orð."
"þú ferð ekki í þessum druslujakka og ekki þessari örmagna, útjöskuðu peysu, Einar! þú ert ekki að fara á kennarafund. þú ert að fara í heimsókn til tilvonandi tengdaforeldra dóttur minnar. þetta er fínt fólk. Hann á kvóta. Finndu eitthvað skárra."
"Ég kenni nú svona sitt lítið af hverju, aðallega íslensku. Byrjaði í fil med, jájá. Koxaði á anatómíunni. Hún var allt of konstrúeruð fyrir mig. Fór svo í klíníska síkkólógíu, gutlaði dáldið í fílunni meðfram, og fór svo að hafa svolítinn, ja, svona teóretískan áhuga á teólógíunni í bland við hippótesíska dekonstrúxjón, en fékk ákaflega lítið útúr guðfræðideildinni. Ákaflega lítið."
"Sumar konur eru ekkert nema skúffur og leynihólf og engin leið að sortéra allt innvolsið."
"þær fengu hérna kollektíft taugaáfall, kvennsurnar. Giska pent."
"Mér finnst bara hlutirnir ekki gerast ef enginn hefur áhyggjur af þeim. "
"Nema hvað! Tveim vikum seinna! Hvað heldurðu? Kemur ekki á daginn að ég er ólétt! Eftir hann! Eftir þórarin þerripappír, þetta greppitrýni, þennan dellumakara og dela. Ekki nóg með það! Níu vikum eftir þessa uppgötvun, nýtt sjokk! Tvíburar! það er alveg með ólíkindum hvað sumir karlmenn geta verið mikið ódó. […] þeir sem stoppa styst skilja alltaf mest eftir sig."
"Guðrún, þetta ... þetta var ekkert! þetta var bara svona kvöld, þú veist!"
"Byrjaðu bara að tala. þá ferðu ósjálfrátt að hugsa."
Næsta verk sem Árni sendi frá sér, Maður lifandi, hafði verið lengi í smíðum og getur kannski tæplega talist frumsamið til jafns við hin. Um er að ræða umskrift og þýðingu breska miðaldaleiksins Everyman þar sem Árni fer frjálslega með upprunalegan texta og breytir honum nokkuð og umskapar til að finna nútímalega leið að verkinu. Að sögn hans ná frumdrög þessa verks aftur til 1981 enda sker það sig mjög úr öllu öðru sem Árni hefur samið en er skýr staðfesting á því hversu sterk tök hann hefur á ólíku formi og stíl, málsnið þessa verks er allt annað en þeirra á undan og sýnir svo ekki verður um villst að Árni er leikskáld af bestu gerð, persónur hans tala það mál sem þeim er tamast, ef þær eru ófærar um að tjá sig á íslensku þá bregða þær fyrir sig ensku eða handapati, en að baki býr alltaf skilningur höfundarins á því að þarfir leikritsins fara ekki alltaf saman við fágaðan málskilning skáldsins.
Maður lifandi (1999)
Óperuleikur
HVERS MANNS HUGLJÚFI:
Stundum verður lífið á vegi okkar. Og það kann að gerast svo snögglega að við stöldrum andartak, kinkum kolli og segjum: þetta er það sem ég á, þetta er lífið.Flesta daga — oftast nær — eigrum við um, ímyndum okkur að störf okkar séu mikilvæg, gerðir okkar einhvers virði, jafnvel á mælikvarða eilífðarinnar, að við séum góð og einhvers metin af samferðafólki okkar, en við gefum lífinu sjaldan gaum.
Ég er leikari. Ég skoða lífið með augum annarra. Ég geri það í von um að þessi annar sért þú og ég horfi með þínum augum; og að þannig muni þín augu sjá betur.
Stundum verður lífið á vegi okkar. Oftast segjum við ekkert, en við gætum sagt: þetta er það sem við eigum, þetta er lífið.
VERA MEÐ VÆNGI:
Í sjálfum þér innst er myrkur
og innst í því myrkri ert þú.
Og innst í þér sjálfum er annað myrkur
og innst í því myrkri ert þú.
Og innst í þér þar er enn eitt myrkur
og enn er þar einungis þú.
Í sjálfum þér innst
er myrkur myrkur —
þú berð þangað ljós
er þú deyrð —
Loks fylgir hér sýnishorn af því nýjasta sem Árni hefur samið en það er stuttur kafli úr útvarpsleikriti sem stendur til að flytja á næsta ári. Þetta verk má líta á sem nokkurs konar tilbrigði við frægan einþáttung Augusts Strindbergs, Hin sterkari, þar sem tvær konur talast við á kaffihúsi, önnur er nánast þögul en hin talar í sífellu og missir tökin á aðstæðum eftir því sem meira er sagt. Félagarnir tveir í Snóker eiga í svipaðri baráttu, annar heldur við konu hins og spurningin er hvor þeirra er sá sterkari þegar yfir lýkur.
Snóker (2001)
Útvarpsleikrit
FRISSI: Siddi. Veistu, það er nákvæmlega þetta sem ég meina. (Undirbýr stuð). þú lætur alla spila með þig.
SIDDI: Nú?
FRISSI: (Hættir við). Ég var að ljúga þessu.
SIDDI: No-hoj!
FRISSI: Djísus kræst, Siddi. Eins og einhver geti bara pikkað upp dömu með því að morsa til hennar yfir höfnina Meina, þú ert ekki hægt, maður! Einhver er að taka í kellinguna þína. Og hvað gerir þú? Ekki neitt! Notar ekki einu sinni sénsinn til að halda framhjá henni. In keis. Svo þú sért örugglega kvitt. Meina, hvað mundirðu gera ef þetta væri satt? Hvað mundirðu gera ef hún væri með einhverjum? Ha? Mundirðu gera eitthvað? Ha? Djísus! (Tekur stuðið. Laust). Hvað ef hún væri að gera það með mér? (Kúlan dettur í gat. Hann fagnar lágt). Jess!
SIDDI: Með þér?
FRISSI: Aha …
SIDDI: Er hún að því?
FRISSI: Nei! Ég meina: NEI! En ég meina, hvað ef? Ha? Hvað ef? þú veist. Hvað ef það væri nú tilfellið? (Tekur stuð. Kúlan strýkst við aðrar kúlur, fer svo af batta á bak við hinar kúlurnar). Hana! þar tókst mér að setja snóker á þig. þú átt leik.
Hávar Sigurjónsson, 2001
Greinar
Almenn umfjöllun
Hávar Sigurjónsson (ritstj.): Ritþing um Árna Ibsen.
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 1999
Kolbrún Bergþórsdóttir: „Í leit að tilgangi“
Alþýðublaðið, 29. maí 1997
Sveinn Einarsson: „Ibsen yngri: um leikskáldið Árna Ibsen Þorgeirsson“
Andvari 2013, 138. tbl. bls. 145-56.
Súsanna Svavarsdóttir: „Ég vil að ástin mín deyi“
Morgunblaðið, 6. febrúar 1988
Súsanna Svavarsdóttir: „Það er eitthvað á seyði hér“
Morgunblaðið, 8. október 1995
Þröstur Helgason: Formáli í A Different Silence. Ljóðasafn í þýðingu Árna Ibsens og Péturs Knútssonar
London: Harwood Academic Publishers, 2000
Um einstök verk
Á stöku stað með einnota myndavél
Úlfhildur Dagsdóttir: „Ljóðið á ferð – áferð ljóðsins
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Elín Helena
Jórunn Sigurðardóttir: „Leikhúshraðlestin. Leikárið 1993 – 1994“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 4. tbl. 1994, s. 101-113
Himnaríki – geðklofinn gamanleikur
Súsanna Svavarsdóttir: „Viljum við vera svona?“
Mannlíf, nóvember 1995
Skjaldbakan kemst þangað líka
Guðbergur Bergsson: „Hraði hins hæga“
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 3. tbl. 1985, s. 393-395
Guðbrandur Gíslason: „Skjaldbakan kemst þangað líka“
Lesbók Morgunblaðsins, 3. október 1984
Verðlaun
1999 – American-Scandinavian Foundation í New York, þýðingarverðlaun ásamt Pétri Knútssyni: A Different Silence – Selected Poems
1996 – Hafnafjarðarbær: Framlag til menningar og lista í Hafnarfirði
1985 – Rithöfundasjóður Íslands
1983 – Menningarverðlaun DV í leiklist til Stúdentaleikhússins, einkum fyrir þýðingu og uppfærslu Árna Ibsens á Óstöðvandi flaumi – fjórum leikritum / fjórum ljóðum eftir Samuel Beckett
Tilnefningar
1998 – Menningarverðlaun DV: Uppfærsla Hafnarfjarðarleikhússins á Að eilífu
1996 – Norrænu leikskáldaverðlaunin: Himnaríki – geðklofinn gamanleikur
Á stöku stað - með einnota myndavél
Lesa meiraIcelandic Theater Since 1975
Lesa meiraLjóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui
Lesa meiraHimnaríki: geðklofinn gamanleikur
Lesa meiraLjóð í ICE-FLOE, International Poetry of the Far North
Lesa meiraMyndir frá Bruegel
Lesa meiraÞað kemur í ljós
Lesa meiraSnóker
Lesa meiraEndurfundir
Lesa meira
Síðasta segulband Krapps
Lesa meira