Æviágrip
Emil Hjörvar Petersen fæddist í Gautaborg í Svíþjóð, 7. maí 1984. Hann fluttist til Reykjavíkur tveimur árum síðar og þaðan í Kópavog þar sem hann ólst að mestu upp. Hann lauk B.A.-gráðu í almennri bókmenntafræði – með íslensku og skapandi skrif sem aukafag – árið 2007. Einnig M.A.-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, 2009. Þá flutti hann til Svíþjóðar og bjó þar í áratug og tók M.A.-próf í Literature-Culture-Media frá Háskólanum í Lundi, 2011.
Emil er einn af stofnendum Icecon – furðusagnahátíðar á Íslandi, en sú fyrsta var haldin árið 2016. Hann hefur verið ötull í því að kynna heim furðusagna, í fyrirlestraröðum og ritsmiðjum, t.d. í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Þar hefur hann lagt áherslu á skrif furðusagna á íslensku.
Undanfarin ár hefur Emil helgað sig ritstörfum, en hann hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögur. Jafnframt hefur hann starfað sem ritstjóri, textasmiður og fyrirlesari. Hann hefur ritstýrt skáldverkum, hannað námsefni og komið fram víða hérlendis og erlendis og rætt mest um efni tengt furðusögum.
Emil býr nú í Kópavogi og heldur úti vefsíðunni: www.emilhpetersen.com
Frá höfundi
Ég er næstelstur fjögurra systkina og ólst að mestu upp í austurbæ Kópavogs.
Í æsku hafði ég áhuga á flestu sem viðkom ævintýraheimum, ég las mikið, spilaði hlutverka- og borðspil og tölvuleiki með vinum (allt eru þetta sögur) og þörfin fyrir að skrifa skáldskap kom snemma. Ég æfði líka fótbolta, svo því sé haldið til haga.
Þegar ég rifja það upp var furðu lítil áhersla lögð á ritlist í grunnskóla, áherslan var á lesskilning en ekki frumsamin skrif. Kannski er því öðruvísi farið í dag. Vegna fárra ritlistarverkefna man ég sérstaklega vel eftir því þegar við áttum loks að skrifa okkar eigin sögu. Mín var blóðugt ævintýri, ég bjóst við skömmum en fékk þess í stað hrós frá kennaranum ‒ það gæti hafa verið sami kennari sem braut stundum upp kennslu og endursagði Íslendingasögurnar. Á gagnfræðiskólaaldri byggði ég svo upp fantasíuheim sem ekkert varð úr en neistinn fyrir furðusagnaskrifum á íslensku var þar kominn.
Á sumrin, þegar ég var unglingur og vann ýmist í bæjarvinnunni eða í 10-11 Engihjalla, hafði ég alltaf skrifblokk með mér, reyndi að yrkja á meðan ég reytti arfa í rigningu og skrifaði persónulýsingar byggðar á fólki sem ég afgreiddi í búðinni. Ég var búinn að gleyma þessu, að ég hafi gert svo margar tilraunir til skrifta á unglingsárunum, en man það núna.
Í framhaldsskóla jókst áhuginn á ljóðlist meðfram lestri á þyngri fantasíum og ég varði mörgum stundum á skólabókasafninu þar sem ég las ljóðabækur eftir íslenska höfunda. Ljóð eftir mig birtust fyrst í skólablaði Menntaskólans í Kópavogi, þá undir dulnefni. Ég hafði þörf fyrir að skrifa og yrkja og sýna öðrum en átti enn erfitt með að gangast við efninu. Á þessum tíma byrjaði ég einnig að lesa heimsbókmenntirnar og eftir að ég hóf nám í bókmenntafræði í háskólanum öðlaðist ég meiri skilning á skáldskap en komst um leið að því að ég vildi ekki fást við bókmenntarannsóknir í fullu starfi. Ég vildi verða rithöfundur ‒ en það er vægast sagt fjárhagslega háll ís. Ef ég ætlaði að fást við skáldskap allan daginn yrði ég að hafa möguleika á plani B. Ég fór því í master í ritstjórn og útgáfu en eftir námið og starfsnám á bókaforlagi komst ég að því að ég vildi ekki heldur verða ritstjóri í fullu starfi. Ég vildi fyrst og fremst verða rithöfundur, með bókmenntafræði og ritstjórn sem aukastarf. Ég þjáðist af þörfinni fyrir að skrifa sögur. En hvaðan kemur sú þörf? Hvers vegna verð ég eirðarlaus og líður eins og ég sé útþynntur ef ég fæ ekki tækifæri til að loka mig af og skrifa? Ég held að enginn rithöfundur hafi svarið við því, en það hljóta að vera til ýmiskonar félagslegar og sálfræðilegar skýringar á þessu fyrirbæri, skrifþörfinni.
Eins og svo margir byrjaði ég að yrkja af alvöru í hópi ungs fólks með skáldadrauma. Það var á háskólaárunum. Við héldum upplestrakvöld á börum bæjarins og skeggræddum ljóðlistina í heimahúsum. Þetta var holl og góð útrás. Ég gaf út fyrstu ljóðabókina snemma árs 2007, en tveimur mánuðum áður, um desembernótt milli svefns og vöku, hafði ég fengið grunnhugmyndina að Sögu eftirlifenda. Á ungskáldaárunum fór ég að mestu leynt með ástríðu mína fyrir furðusögum og sagði engum frá því að ég væri með eftirlifendur Ragnaraka á heilanum og ætlaði að skrifa fantasíu fyrir fullorðna á íslensku. Sjálfur var ég ekki viss um hvort það væri hægt, hvort ég ætlaði raunverulega að leggja í það, hvort ég yfirhöfuð gæti það, hvort einhver myndi vilja gefa það út, en ég var viss um að ef ég segði frá vangaveltum mínum myndi draumurinn leysast upp. Næstu árin gerði ég tilraunir með söguna meðfram námi og vinnu í plötu- og bókabúð og útgáfu annarrar ljóðabókar. Eftirlifendurnir voru sjaldan fjarri.
Fyrstu drög að fyrstu köflum Haðar og Baldurs voru tilraun til einhvers konar tilvistarlegs bókmenntaverks, eitthvað sem ætti heima meðal þess sem ég hélt að teldust íslenskar bókmenntir. Ég var með mótþróa gagnvart sjálfum mér, ég átti erfitt með að viðurkenna hvers konar saga þetta raunverulega var. Loks á myrkum janúarmorgni 2009, þegar Búsáhaldabyltingin var í algleymingi, dró ég djúpt andann og byrjaði upp á nýtt. Ég hélt grunnhugmyndunum og leyfði öllu því sem ég hafði ástríðu fyrir að flæða inn í söguna, hugsaði ekkert út í viðtökurnar og skrifaði það sem mig lysti. Þess á milli skundaði ég niður á Austurvöll. Það má þó ekki misskilja mig. Ég hvarf ekki frá hinu tilvistarlega. Form furðusagna býður upp á jafn miklar pælingar og önnur skáldskaparform. Pælingarnar eru byggðar og oft styrktar út frá hinu fantastíska. Gjarnan er gengið lengra og spurningin „Hvað ef?“ er í forgrunni. Í vísindaskáldskap verður þetta „ef“ stundum að veruleika síðar.
Þegar við unnustan fluttum til Lundar í Svíþjóð um haustið var ég hálfnaður með handritið og eftirlifendurnir fluttu því með mér yfir Atlantshafið. Við bjuggum í Lundi í áratug, 2009-2019, þar sem ég tók annan bókmenntatengdan master, konan mín fór í doktorsnám, ritstörf mín urðu veigameiri auk þess sem ég fékk ýmis rittengd verkefni. Ásamt því vann ég hlutavinnu hjá Lundarháskóla. Ég skráði mig í námið í upphafi til þess eins að geta skrifað, klárað fyrstu skáldsöguna, en svo reyndist námið býsna gott veganesti. Ég kynntist fantasíufræðingi sem varð leiðbeinandi minn fyrir lokaritgerðina og út frá ráðstefnum sem ég sótti kynntist ég heimi furðusagnanna erlendis betur; hefðinni, nýjungunum og samfélaginu sem umlykur þessa bókmenntategund. Þó var ég alltaf staðráðinn í að skrifa furðusögur á íslensku og nú vildi ég ganga lengra. Borgarfantasíur, gufupönk, eftirhamfarasögur ‒ íslenskan átti að geta náð utan um þetta allt. Þegar á botninn er hvolft tel ég að í Svíþjóð hafi ég öðlast þá fjarlægð sem ég þurfti á að halda: áratugur þar sem ég mótaði skrifin.
Ég lauk við Sögu eftirlifenda árið 2014, átta árum eftir að ég fékk hugmyndina. Áður en þriðja bókin kom út hafði ég fengið hugmyndina að Víghólum, sem er einnig furðusaga en talsvert frábrugðnari þríleiknum. Ég vildi bregða á leik með norrænu glæpasagnahefðina og færa fantasíuna inn í hana: huldir heimar þjóðsagna eru raunverulegir, sagan gerist á Íslandi, aðalpersónurnar eru miðill og dóttir hennar. Bergrún Búadóttir fær verkefni hjá rannsóknarlögreglunni við að leysa sakamál sem tengjast yfirnáttúru og oftar en ekki vættum úr þjóðsögunum. Dóttir hennar, Brá, flækist inn í atburðarásina og í ljós kemur að hún býr yfir duldum hæfileikum. Hún þjónar veigamiklu hlutverki sem ég hef ekki enn afhjúpað fyrir lesendum.
Eftir langt heimshornaflakk með eftirlifendunum fór ég yfir í íslenskan, en þó yfirnáttúrulegan, samtíma. Aðalpersónan býr í Engihjalla í Kópavogi og bókaflokkurinn hefst á því að hún rannsakar glæp sem framinn var á Víghól, á stað sem er mér kær. Ég gekk yfir hólinn daglega þegar ég var í framhaldsskóla og fer þangað enn til að hugsa. Ég lít svo á að þríleiksárin hafi verið nauðsynleg svaðilför þar sem ég upplifði furðuna um heim allan, ég hafi síðan lent á Íslandi og sé nú eyjuna sem sögusvið sem hægt er að stækka, þar sem hægt er að glæða ólíklega staði hinu fantastíska.
Það er vissulega hægt að skapa og njóta furðusagna fyrir eldri lesendur á íslensku. Þetta er ekki íslenskurembingur heldur vil ég að hægt sé að skrifa og gefa út fjölbreyttan skáldskap á móðurmálinu. Í því kjarnast best hugsanir, minningar, upplifanir, þrár, væntingar, vonir og vonbrigði. Ég vil geta tjáð það allt með verkfærum furðunnar.
Þrjár bækur um Bergrúnu og Brá hafa komið út. Tvær bækur eru eftir, ég veit hvernig sagan endar, en ákvað að skilja tímabundið við mæðgurnar til að skrifa annars konar sögur. Þegar þetta er skrifað, árið 2020, er ég fluttur til Íslands, við eigum tvö börn og á daginn vinn ég að tveimur bókum, annars vegar hrollvekju, hins vegar dystópíu.
Eftir að hafa litið snöggt yfir ferilinn og rifjað upp ýmislegt kann ég þó engar skýringar á því hvers vegna ég leiddist út í ritstörfin, hvers vegna ég sé mig knúinn til að setjast við skrifborðið dag hvern. Ef til vill er ekki hægt að skýra þörfina eða tilganginn með henni, en hún er samt alltaf þarna, sagnaþörfin, sem ég held að við öll búum yfir, hvort sem við viljum segja sögurnar, skrifa, lesa, hlusta eða horfa á þær.
Emil Hjörvar Petersen, 2020
Um höfund
Blóðraunir hversdagsins
Emil Hjörvar Petersen hefur gefið út þrjár ljóðabækur og tvo fantasíu þríleiki . Í verkum Emils fyrirfinnast furðuheimar þar sem ýmsar þjóðsögur, goðsögur og hjátrú lifa hlið við hlið. Spenna og hryllingur er ávallt í fyrirrúmi og óhætt að segja að blóð mæti blóði á síðum bókana.
I
Gárungagap (2007) er fyrsta ljóðabók og fyrsta útgefna verk höfundar. Þetta er metnaðarfull frumraun, sem fullvissar lesanda frá upphafi um að höfundi liggi eitthvað á hjarta og hafi verulega ánægju af því að koma því frá sér. Þannig er mikil sköpunargleði í ljóðunum. Þau eru vissulega bæði draumkennd og jafnvel framúrstefnuleg á köflum, en epík og húmor eru aldrei langt undan. Tvær erkitýpur takast á í verkinu, annarsvegar „brjálaður rómantíker“ og hinsvegar holdgerving neyslumenningar sem gengst upp í hagvexti og teinóttum jakkafötum og spyr spegillinn í samnefndu ljóði:
segðu mér
hvar á landi
besta sólbaðsstofan er
Á meðan sveiflast rómantíkerinn á milli lostafylltra skynjana og kæfandi bölsýnar. Ljóðin eru vel ort og skemmtileg en háfleyg upphafning á rómantíkinni andspænis vonda jakkafatamanninum er full einfeldningsleg á köflum. Í lok verks glittir í einlæg minningarbrot ljóðmælanda og þá erum við kyrfilega staðsett í íslenskum raunveruleika. Í ljóðinu „Minningarfasti 1“ segir: „Þegar ég lykta / af mjólkurkexi / dettur mér dauðinn / í hug // Þegar ég heyri / stef Dánarfregna og jarðarfara / dettur mér mjólkurkex / í hug.“
Þessar einföldu ljóðlínur drag upp kunnuglega mynd en gefa á sama tíma hinu gróteska í hversdagsleikanum rými. Í ljóðabókinni eru vísanir í goðsögur og norræna goðafræði sem einkenna þau verk sem á eftir koma.
Önnur ljóðabók Emils, Refur (2008) leikur sér að minni tófunnar í fortíð og nútíð. Verkið hefst á því að ljóðmælandi laumast um borð á skip sem stjórnað er af refum og fleytt áfram af skrifum. Við taka ýmis ljóð um svik og sektarkennd þar sem við og við er vikið aftur af refa-fleyinu. Í verkinu takast á hugmyndir um norræna epík og hversdagsleika. Stundum virðist ljóðmælandi yrkja herkall til goðsagna norðursins en fellur jafnharðan inn í tómleika og tilgangsleysi samtímans. Þannig tekst verkið á við nostalgíu eins og í ljóðinu „Anti-nostalgía“, þar sem ljóðmælandi líkir fortíðinni við rifið blað sem hægt er að líma saman aftur og þannig endurlífga en lýkur svo á orðunum:
Og hvers vegna ættirðu að gera það?
Þannig hrynja stórvirki fortíðar í meðförum ljóðmælanda, sem þó heldur för sinni á bókmenntaskipinu áfram og heldur þannig í einhverja von um að goðsagnir og bókmenntir skipti manneskjuna máli sérstaklega þegar hún þarf að takast á við veikleika sína og grimmd.
Ætar kökuskreytingar (2014) er lítil ljóðabók í röð meðgönguljóða. Í henni eru hugmyndir um hamingju í fyrirrúmi og þær mismunandi birtingarmyndir sem hamingjan hefur. Verkið hefst á vísun í leikritið Beðið eftir Godot og setur þannig tóninn um tilgangsleysi lífsins. Í upphafs ljóðinu „Dance Macabre“ virðist ljóðmælandi njóta þess að sökkva ofan í eðju eftir að hafa keyrt í skurð og á öðrum stað er hápunktur gleðinnar ætar kökuskreytingar. Í ljóðinu Hornreka úrhrak er að finna þessa skemmtilega hversdagslegu athugun sem viðmið á gleði:
Fellistólarnir innst inni í bílskúr sem aldrei hafa verið notaðir verða dregnir út í kvöld
Ljóðin eru knöpp og skörp í athugunum sínum og hugrenninga tengslum og skemmtilegt hvernig höfundarverk Emils rúmar bæði þessi litlu verk og svo á hinn bóginn fantasíudoðranta.
II
Þríleikurinn Saga eftirlifanda kemur út á árunum 2010–2014 og samanstendur af bókunum Höður og Baldur (2010) Heljarþröm (2012) og Níðhöggur (2014). Verkin tilheyra fantasíubókmenntum og eru einskonar framhald af norrænni goðafræði. Við fylgjum þeim ásum sem lifað hafa ragnarök og tilraunum þeirra til þess að fóta sig í nýjum heimum. Váli og Baldur takast á um svokallaðar gulltöflur sem gefa goðum völd yfir mönnum. En til þess að sigrast á Vála og hans liði þarf Baldur að horfast í augu við fortíðina og sættast við orðin hlut. Bæði í sambandi sínu við Nönnu og Höð. Dystópían er alls ráðandi við upphaf sögunnar en þemu hennar ríma við athugannir Dante og Milton – að kanna stöðu mannsins og hugmyndir um frjálsan vilja, sekt og sakleysi. Hér er þó farið alla leið í hryllingi. Við upplifum miskunnarlausan stríðsrekstur, kynferðislegt ofbeldi, pyntingar og mannfórnir. Verkin virðast stíluð inn á yngri hóp fullorðna þar sem höfundur heldur vel utan um atburðarrásina og skýrir alla hluti vel og ítarlega.
Við hefjum leika hjá Heði þar sem hann er staddur á Íslandi árið 2010, en verkið fer um víðan völl og fjöldi annarra persóna lita atburðarásina. Hver bók er sjálfstæð frásögn, en mynda saman heildarsögu um afdrif goðana eftir ragnarök. Höður, Baldur og seinna Hænir eru aðalsöguhetjur en stríðsgoðynjan Skaði fær líka sitt pláss ásamt hinni dularfullu Heiðri sem við kynnumst í seinni hluta verksins. Eins og vera ber í slíkum bókmenntum þá eru mörg verk sem þarf að leysa áður en að lokum líður og þar koma til Naglfari, Atlantis og Babelsturninn við sögu.
Þessi metnaðarfullu verk tilheyra ekki því sem kallað hefur verið fagurbókmenntir. Höfundur er ekki að leika sér að minnum eða formi klassískrar fantasíu heldur hefur þvert á móti skapað heilsteyptan fantasíu heim með öllum þeim galdramunum, vættum og ófreskjum sem þar tilheyra. Fyrr á árum voru slík skrif talin annars flokks bókmenntir en hafa á undanförnum áratugum öðlast sess á meðal annarra bókmenntaforma og hafa átt stóran þátt í að auka fjölbreytni í bókaútgáfu. Rómantísk íhaldssemi hefur löngum loðað við slíkar fantasíur. Það sést strax í upphafi hjá Tolkien en er líka áberandi hjá nýrri höfundum á borð við J.K. Rowling. Hefðbundin vestræna gildi og heimssýn eru í fyrirrúmi hjá þessum höfundum og það sama á að vissu leyti við um þennan þríleik Emils. Í grunnin er siðmenningin sett andspænis hinu frumstæða og jafngildir andstæðum góðs og ills. Norrænu goðin eru skaparar heimsins og ómissandi í öllum átökum, þótt þeir bæti á sig blómum úr öðrum trúarbrögðum og menningarhefðum. En hugmyndin er engu að síður orðin aðeins óstöðugarri hér en oft áður. Goðin, sérstaklega afkomendur Loka, bera siðferðilega ábyrgð á illvirkum og stjórnlausri græðgi og á einum stað hæðist höfundur að kjarna vestrænna hugsunar. En þar lýsir hann tilraunum Ödipusar og Hómers til þess að kynnast aðstæðum í klaustri Taó munka. Þeir höfðu „verið að skoða sig um á svæðinu, þreifandi á styttum, ljóskerum og pagóðum, spyrjandi sjálfa sig spurninga sem þeir svöruðu jafnharðan sjálfir — það var þeirra háttur til að kynnast nýjum aðstæðum (Höður og Baldur 41).
Höfundur notar eins og fyrr segir verkið til þess að kanna ákveðnar grunnhugmyndir heimspekinnar en jafnframt kynnir það líka yngri lesendum fyrir persónum og leikendum í mörgum goðsögum. Ferðast er um mesta allan mannheim, auk annarra heima, atzekar, drúídar, búdda-munkar, Dante og þýskir nasistar koma meðal annars til sögu, en ávallt eru það æsirnir sem knýja áfram framvindu. Bækurnar eru svo ríkar á fyrirbærum og frásögnum að oftar en ekki grípur höfundur til þess ráðs að endursegja atburðarrás. En þess á milli er sögurnar uppfullar af æsandi átökum og hasar.
III
Annar þríleikur Emils samanstendur af verkunum: Víghólar (2016), Sólhvörf (2017) og Nornasveimur (2018). Þær fjalla allar um huldumiðilinn Bergrúnu Búadóttur og Brá dóttur hennar. Við kynnumst þeim fyrst þegar samband þeirra er orðið verulega erfitt. Bergrún hefur einangrað sig og er í fjárhagserfiðleikum eftir erfiðan skilnað og verkefna leysi. En hún er kölluð til þegar stjórnvöld þurfa aðstoð með mál sem teygja sig út fyrir mannheim. Eitt slíkt mál sameinar mæðgurnar og í ljós kemur að Brá býr ekki síður yfir hæfileikum á huldusviði. En samveran og átökin laga samt ekki allt sem úrskeiðis hefur gengið í sambandi móður og dóttur og höfundur heldur sig við einhverskonar norrænan drunga í lýsingum. Ásamt því kallast verkin á við þekkt minni glæpasögunnar, þá kannski sérstaklega norrænu glæpasögunnar. Til að mynda hvað varðar samvinnu Bergrúnar við lögreglu, en hún þarf oft að fara sínar eigin leiðir þó að hún geti stundum treyst á að rannsóknarlögreglumaðurinn Ólafur bakki hana upp. Fyrsta bókin snýr að álfum, hefst á því að framkvæmdir nærri álfabyggð í vanda og það sem í fyrstu sýnist vera saklaus skipulagsdeila vindur upp á sig og í ljós koma alavarlegir glæpir sem mæðgurnar þurfa að takast á við. Auk þess sem Bergrún þarf að takast á við sjálfa sig og ákveða í hvorum heiminum hún vill vera. Í næstu bók eru tröllin tekin fyrir ásamt íslenskri jólahefð, jólasveinarnir taka upp á því að ræna börnum og aftur þurfa mæðgurnar að elta vættina uppi. Brá er orðin metvitaðari um eigin færni og er að fóta sig sem sjálfstæð manneskja í hulduheimum og lendir í ýmsum hættum. Í þriðju bókinni eru við komin í galdramenninguna á ströndum, Brá er að kynna sér nornastarfið, þegar hún þarf aðstoð móður sinnar. Það er framið morð og rannsókn málsins ýfir upp gömul sár sem tengjast sögu galdra á svæðinu.
Höfundur fær mikla útrás fyrir ímyndunaraflinu í fyrstu tveimur sögunum á meðan frásögnin virðist vera í fastari skorðum í þriðju bókinni. En verkin eru engu að síður uppfull af ótrúlegustu atburðum, vættum og spennu. Þegar stíllinn er bestur er hann hraður og leikandi og hentar einstaklega vel fyrir unglinga. Höfundur er aldrei langt undan og tryggir að lesandi sé vel upplýstur um lögmál og eðli heimana. Höfundur er gagnrýnin á auðvaldshyggju og lesendur fá einnig inn sýn í erfiðleika hversdagsins hvort sem það er í mannheimum eða hulduheimum. Fíkn er stórt þema í verkunum, og höfundur lýsir því vel hversu margbreytilegar birtingarmyndir hennar eru. Svo fjalla þær líka um ást, hvort sem það er innan fjölskyldna eða rómantísk ást: og um vonbrigði og brotin sambönd og hversu erfitt getur verið að eiga tjáskipti þó að maður sé af sömu „gerð“ og tali sama tungumál.
Sögurnar af Bergrúnu og Brá má því kalla einskonar fantasíu-raunsæi og þó að hér hafi verkin verið tekin fyrir sem þríleikur er ekkert því til fyrirstöðu að fleiri bækur komi til í þessum flokki.
IV
Ó, Karítas (2021) er svokölluð ‚Storytell original‘ og er samkvæmt fréttatilkynningu skrifuð beint inn í hljóðbókaformið. Hljóðbækur hafa rutt sér til rúms undanfarið sem annað og meira en hjálpartæki fyrir prentleturshamlaða. Upplestur á bók getur verið gefandi og öðruvísi leið til þess að upplifa bókmenntir og erlendis hafa margir látið reyna á möguleika formsins og gert tilraunir með mismunandi hljóðheima og frásagnarform.
Hér er sögusviðið Búðardalur nútímans og höfundur dregur léttilega upp raunsæa mynd af lífinu í þorpinu. En verkið er hrollvekja og notast við hið alkunna minni um grunlausa einstakling sem ramba inn í hryllingsfrásögn í afskekktri sveit. Meistarakokkurinn Bragi flytur með börnum sínum í Búðardal til þess að geta einbeitt sér að samveru og uppeldi eftir erfiðan hjónskilnað. Fyrr en varir hefur sveitasælan hinsvegar umbreyst í hrollvekju og feðginin glíma við óvæntar áskorannir. Atburðarrásin er hröð og heldur lesanda frá fyrstu hlustun, en minni og þemu eru nokkuð hefðbundin fyrir þessa gerð bókmennta þó að það sé vissulega nýstárlegt að sjá þau í íslensku nútímasamhengi. Væntingar um að verkið sé sérstaklega skrifað og framleitt fyrir hljóðbókarformið valda vonbrigðum þar sem ekkert virðist hafa verið sérstaklega unnið með hljóðheiminn og ekki verið að virkja sérstaklega möguleika formsins. Bókin er vel lesin af Guðmundi Inga Þorvaldssyni en sker sig ekki frá öðrum hljóðbókum. Það er á stöku stað unni með hljóðbrellur en ekki þannig að þær dýpki upplifun hlustanda mikið. Sumar raddir hafa verið sér unnar og heyrum við til að mynda draugalega rödd eins og úr öðrum heimi. En slíkar brellur verða ekki til þess að textinn sé brotin upp. Röddin segir eitthvað og á eftir fylgir ritmálsskýring á því hver var að tala og hvernig viðkomandi hljómar og þannig bæta þessar brellur litlu við. Auk þess orkar formið tvímælis, það er sett upp sem framhaldsspennu-saga, kaflaskipt, þar sem hverjum kafla lýkur á spennuþrungnu augnabliki en þar sem flestir hlusta eftir hentisemi koma þessi kaflaskipti ekki að miklu gagni og geta virkað truflandi. Höfundur er líka gjarn á að taka saman helstu atburði sögunar, eins og til upprifjunar sem virðist óþarft í ekki lengri sögu sem er fullkomin í hám-hlustun. Þannig kallast formið frekar á við framhaldssögu í línulegri útvarpsdagskrá og erfitt að sjá að hér sé verið sérstaklega að skrifa inn í hljóðbókar-upplifunina. En það sem á vantar í formi og stíl verksins er bætt upp með ákefð í ímyndunarafli og hrylling. Því hér er á ferð alvöru sjoppu bókmenntahryllingur og ekki skafið utan af neinu. Auk þess kryddað með bældum minningum og óviðráðanlegum kynferðislegum hvötum. Bragi er eina persónan sem hefur einhverja dýpt, flestar aðrar fylla út ákveðin framvindu hlutverk enda er framvindan hröð og minnir á köflum á tölvuleik. Hér er ekki á ferðinni djúp samfélagsrýni, en höfundur sýnir samt ákveðið viðhorf til heimsins í því hvernig hann hleypir kvenhetjum og minnihlutahópum inn í frásögnina. Hetjurnar þurfa einnig að takast á við hugmyndir um gott og vont sem eru blæbrigðameiri en oft vill vera í afþreyingarbókmenntum. Þegar upp er staðið er hér á ferðinni líflegt verk sem ekki aðskilur sig mikið frá fyrri verkum Emils, nema að það er kynnt sem hrein hrollvekja. En þegar á líður söguna birtast þó verur sem eru keimlíkar öðrum úr fyrri verkum höfundar.
Eins og minnst var á að ofan tilheyra verkin bókmenntaformi sem er frábrugðið fagurbókmenntum að því leyti að það lýtur lögmálum fantasíu. Það þarf að koma miklu til skila af mikilli nákvæmni og stíllinn minnir oft á hlutverka- eða tölvuleik. Það þarf að gera lesanda grein fyrir verkefni hetjunnar hverju sinni, veikleikum hennar og þeim verkfærum eða galdramunum sem hún hefur aðgang að. Við þurfum að kynnast bakgrunni og aðstæðum til þess að skilja hagsmuni hennar o.s.frv. Það getur verið flókið að koma þessu öllu til skila á hnitmiðaðan hátt án þess að það bitni á framvindu og hraða. Ljóðlist er hinsvegar andstætt form þar sem ljóðmælanda leyfist að setja fram orð og hugsanir án samhengis eða frekari skýringa. Það er því óhætt að segja að höfundarverk Emils Hjörvar Petersen samanstandi af tveimur mjög svo ólíkum bókmenntaformum. Þau dýpka hinsvegar hvort annað, ljóðskáldið gerir fantasíu-skáldið markvissara og fantasían gefur ljóðskáldinu endalausa heima að yrkja um. Það er þegar þessir tveir þræðir höfundarverksins spinnast saman að það nær mestum árangri. Sumum viðkvæmari lesendum þykir kannski nóg um nákvæmar lýsingar á hrylling og viðbjóði í verkunum en með því að setja slíkar lýsingar í öndvegi er höfundur að taka skýra afstöðu með ákveðni gerð hryllings og fantasíu bókmennta sem vilja frekar sjá blóð og gall en leik að sálfræðilegri taugaspennu. Viðbjóðurinn í verkunum tilheyrir ákveðni gerð fagurfræði innan þessa bókmenntaforms þar sem mestu máli skiptir að lýsa ófreskjum og ógeði eins nákvæmlega og kostur er á. Samhliða þessari skýru formstefnu höfundar leyfir hann sér að fjalla um vanda samtímans, tómleika, tilgangsleysi, fíkn og brotin sambönd og tekst oft vel til við að flétta saman vanda í mannheimum við ógnir úr handaheimum.
Rósa María Hjörvar, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Greinar
Um einstök verk
Saga eftirlifenda: Höður og Baldur
Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir: „Íslenskar fantasíur: upprisa tegundabókmenntanna“
Spássían: 2013; 4: bls. 11-16
Ásta Gísladóttir: „Hasar eftir heimsendi“
Spássían: 2010; 1: bls. 19
Skuld: Handan hulunnar
Lesa meiraHandan hulunnar er bókaflokkur sem hófst með bókinni Víghólar. Í Skuld ráðast örlög Bergrúnar og Brár.. . Miklar hamfarir eru í uppsiglingu. Himinninn yfir Íslandi leiftrar og undarlegir sviptistormar geisa. Á bak við tjöldin ríkir glundroði og líkin hrannast upp.Náttfarar
Lesa meiraGefin út sem hljóðbók og rafbók. Lestur hljóðbókar: Hjörtur Jóhann Jónsson.. . Í þessari lokabók þríleiksins Myrkraverk gengur hrina hrottalegra ofbeldisverka yfir Reykjavík og lögreglan stendur ráðþrota frammi fyrir voðanum, í loftinu liggur ára óhugnaðar og ljóst er að eitthvað hræðilegt er í vændum. Tvíeykið Halldór og Magga þurfa að beita allri sinni reynslu til að halda lífi og finna svör.Dauðaleit
Lesa meiraUnglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi og það er eins og jörðin hafi gleypt hanaHælið
Lesa meiraSaga sem fer á flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við söguNornasveimur
Lesa meiraTöfraskinna
Lesa meiraSólhvörf
Lesa meiraVíghólar
Lesa meiraLísítsja
Lesa meira
Birtan í húminu: ljóðaþýðingar
Lesa meira