Æviágrip
Guðrún Helgadóttir fæddist í Hafnarfirði þann 7. september 1935 og ólst hún þar upp í stórum systkinahópi. Hún starfaði sem ritari við Menntaskólann í Reykjavík frá 1957 - 1967 og sem deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 1973 – 1980. Guðrún var fulltrúi Alþýðubandalagsins í borgarstjórn Reykjavíkur frá 1978 – 1982 og alþingismaður frá 1979 - 1995. Hún var forseti Alþingis 1988 - 1991, fyrst kvenna til að gegna því embætti.
Fyrsta bók Guðrúnar, Jón Oddur og Jón Bjarni, kom út árið 1974 en hún er fyrsta bókin af þremur um þessa uppátektasömu tvíburabræður. Allar hafa þær verið endurútgefnar mörgum sinnum og gerð hefur verið kvikmynd byggð á sögunum. Guðrún var einn þekktasti núlifandi barnabókahöfundur á Íslandi og hafa bækur hennar verið þýddar á fjölmörg tungumál. Hún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 1992 fyrir bók sína Undan illgresinu, var tilnefnd til H.C. Andersen verðlaunanna 1988 og hefur auk þess fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín á Íslandi, meðal annars var bókin Öðruvísi fjölskylda tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004. Árið 2018 hlaut hún Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi.
Guðrún skrifaði aðallega fyrir stálpuð börn en sendi einnig frá sér nokkrar myndabækur fyrir yngri börn með myndskreytingum eftir þekkta listamenn. Hún sendi frá sér eina skáldsögu og sjónvarpsleikrit fyrir fullorðna. Leikrit hennar Óvitar var frumflutt í Þjóðleikhúsinu 1979 og hefur einnig verið sett á svið í Færeyjum og Noregi.
Árið 2019 setti Reykjavíkurborg á fót ný barnabókaverðlaun sem veitt eru fyrir handrit að barna- eða unglingabók og eru þau kennd við þennan merka barnabókahöfund, Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.
Guðrún Helgadóttir lést þann 23. mars, 2022.
___
Þann 5. október 2014 var haldin hátíðardagskrá í Borgarbókasafninu Grófinni undir yfirskriftinni „Að þið skulið vera að þessu“, í tilefni af fjörutíu ára rithöfundarafmæli Guðrúnar Helgadóttur.
Dagskráin var haldin í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg og Forlagið, og á sama tíma var opnuð sýning tileinkuð höfundarverki Guðrúnar, þar sem sjá mátti myndir úr bókunum í félagi við fleygar tilvitnanir.
Fram komu Ari Eldjárn, Katrín Jakobsdóttir (í félagi við syni tvo) og Silja Aðalsteinsdóttir. Guðni Franzson og Egill Ólafsson fluttu atriði úr tónverki Guðna sem samið var við Ástarsögu úr fjöllunum. Og Hildur Knútsdóttir ræddi við Guðrúnu sjálfa.
Hér fyrir neðan má sjá upptöku af dagskránni. Hljóðupptakan mætti vera betri en þó má vel heyra hverju fram fer.
Frá höfundi
Frá Guðrúnu Helgadóttur
Af hverju skrifa ég? Mætti ekki alveg eins spyrja: hver er ég eiginlega? Það er skrambi flókið, held ég. Og þó, kannski ekki. Einhverntíma var ég pínulítil stelpa í sjávarplássi, sem mér þótti ljótt. Þar óx ekkert fegurra en njóli. Og grindverkin voru að falli komin. Húsin ómáluð. Elst af tíu systkinum í allt of litlu húsi. En utan við byggðina var holtið og tún með sóleyjum og bláklukkum. Og himinninn yfir. Þar var fallegt. Og þannig átti lífið að vera, fannst mér. Sumt fólk gat haft fallegt hjá sér, sumir ekki. Það fannst mér óréttlátt. Fullorðna fólkið sagði að það væri ríka fólkið sem ræktaði blóm og tré og hefði steinveggi og járnhlið í kringum húsin sín. Mér fannst það engin skýring. Af hverju gerði fátæka fólkið ekki eitthvað til að hafa fínt hjá sér? Það sat bara og drakk kaffi. Ég þoldi það ekki og var þrasgjörn.
„Ég vissi alltaf að Rúna systir ætti eftir að skrifa þríbók um bilað grindverk,“ sagði einn bræðra minna einu sinni. Það var rétt. Það var ljóst frá byrjun. Ég vissi það bara ekki þá. Ég vissi hins vegar að ég var ein inni í mér. Hræðilega ein. Það vissi enginn um mig í þessum stóra heimi. En það skyldu svei mér allir fá að vita af mér. Einsemdin var óbærileg. Besta vinkonan bjargaði ekki öllu þar um, því að það var ekki hægt að tala um svona lagað. Og ég tók mér ýmislegt fyrir hendur til að vekja athygli heimsins á þessari dapurlegu tilveru. Enginn annar myndi hvort sem er gera það. Það var nærtækt að vera dugleg í skólanum, dugleg að sauma út, hekla og prjóna, leika í leikritum. Fólk tæki eftir því. Það var líka hægt að rækta blóm í lóðinni. Þau uxu ágætlega hvað sem fullorðna fólkið sagði. Mér fannst það stundum vitlaust. Og svo var hægt að lifa í eigin heimi, þar sem allt var betra. Miklu betra. Heimi þar sem enginn sagði þetta asnalega orð kotroskin, ef maður sagði eitthvað við þessa bjána. Hluti af þessum undursamlega heimi voru bækur. Íslenskar bækur og útlendar bækur. Bækur um allt milli himins og jarðar. Bækur um sorg og gleði, niðurlægingu og reisn. Bækur um allar tilfinningarnar sem enginn gat talað um. Og einsemdin vék eins og ský fyrir sólu á meðan.
Grindverkin í bænum löguðust smám saman og húsin voru máluð. Núna finnst mér fallegi fæðingarbærinn minn næstum hæðast að mér þegar ég kem í heimsókn. En þá hugsa ég kotroskin: „Hvað sagði ég ekki?“ Ég hélt áfram að vera þrasgjörn. Um árabil var það atvinna mín að þrasa. Stundum gerði þrasið gagn, stundum ekki. Samt var það nauðsynlegt. Það þýðir ekki að drekka bara kaffi. Einhver verður að taka til hendinni. Hitt vefst meira fyrir mér – þetta með einsemdina. Ég er ekki lengur hrædd um að enginn viti af mér! Það er stundum ágætt, stundum ekki eins gott. Það fer eftir því hversu góður ferðafélagi ég er hverju sinni, hversu aflögufær ég er. Og það er einmitt þá sem ég skrifa. Þegar ég er óvenjulega aflögufær.
Guðrún Helgadóttir, 2000
Um höfund
Guðrún Helgadóttir – Málsvari barna
Hvernig eiga góðar barnabækur að vera? Sitt sýnist hverjum, en það eru þó nokkur atriði sem oftast eru nefnd; Barnabækur „eiga“ að vera fyndnar og skemmtilegar, byggja upp siðferðisvitund ungs lesanda og vera á góðu máli. Þær „eiga“ að hjálpa ungum lesanda að verða að dyggum þjóðfélagsþegni, en umfram allt „eiga“ þær að fjalla um lífið sjálft. Það er ekki svo erfitt að setja saman fyndna sögu og enn auðveldara að predika hvað sé rétt og hvað rangt. Vandað málfar er einnig á flestra færi. Það sem skilur hins vegar á milli meðalgóðra barnabókahöfunda og þeirra bestu er trúverðugleiki sögunnar og sá hæfileiki að segja frá á þann hátt að lesandinn hrífist með og láti sig örlög persónanna varða. Allra bestu barnabækurnar birta okkur ævintýri hversdagsins á glænýjan hátt og fá okkur til að hugsa upp á nýtt.
Guðrún Helgadóttir er fædd þann 7. september 1935 í Hafnarfirði. Auk ritstarfa hefur hún mikið starfað að stjórnmálum og sat á alþingi frá 1979 fram á miðjan tíunda áratuginn. Fyrsta bók Guðrúnar kom út fyrir 25 árum. Það var sagan um tvíburabræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. Þeir búa í blokk með pabba sínum og mömmu, Möggu litlu systur sinni og Önnu Jónu, en hún er hálfsystir þeirra og er með ógurlega veiki sem heitir unglingaveiki og ungir lesendur botnuðu jafn lítið í og þeir bræður. Heimilishjálpin Soffía passar krakkana á daginn, á meðan foreldrar þeirra eru í vinnunni og amma dreki, sem er erindreki hjá útvarpinu og hefur skoðanir á öllum hlutum, kemur einnig við sögu. Tvær bækur um þá bræður fylgdu í kjölfarið og árið 1981 gerði Þráinn Bertelsson vinsæla kvikmynd um Jón Odd og Jón Bjarna og fjölskyldu þeirra.
Á árunum 1974 til 1980 þegar bækurnar um þá bræður komu út var krafan um pólitískar og jafnvel byltingarsinnaðar barnabækur hávær. Bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna falla að mörgu leyti vel að hugmyndum þess tíma. Foreldrar bræðranna vinna bæði utan heimilisins og taka þátt í pólitísku starfi. Í bakgrunni verksins glittir jafnvel í pólitísk átök, enda eru allar fullorðnar persónur verksins hver í sínum stjórnmálaflokki og ekki alltaf sammála. Bækur Guðrúnar hvetja lesendur sína, börn jafnt sem fullorðna, til umhugsunar um þjóðfélagið og þau lögmál sem þar ríkja, en höfundur fellur aldrei í þá gryfju að koma sínum eigin stjórnmálaskoðunum að.
Margar barnabækur sem skrifaðar voru á þessum tíma hafa elst illa. Þær eru þyngri og alvarlegri en flestar barnabækur í dag og fjalla meira um vandamál en góðu hófu gengdi. Það merkilega við bækur Guðrúnar Helgadóttur er að þær eru, ólíkt flestum bókum þessa tíma, jafn skemmtilegar í dag og þegar þær komu fyrst út. Galdurinn felst meðal annars í sjónarhorninu.
Eitt af höfundareinkennum Guðrúnar Helgadóttur er bernskt sjónarhornið. Hún hefur þá náðargáfu að geta sett sig í spor barns og sagt frá heiminum eins og það sér hann. Sýn barnsins er alltaf fersk og því eldast verk hennar svo vel. Oft er skemmtilegt misræmi milli þess sem börnunum í sögunum finnst og raunveruleikans. Kærastinn hennar Önnu Jónu, hálfsystur tvíburabræðranna, hann Simbi, er til dæmis alltaf með eina bólu í andlitinu. Bræðurnir halda að þetta sé alltaf sama bólan og fylgjast grannt með ferðum hennar um smettið á Simba. Þeir sem eldri eru skilja hins vegar sannleik málsins. Hvort sem lesandinn skilur hvernig í pottinn er búið eður ei, þá er bólan hans Simba áhugaverð og fyndin og eitt þeirra óteljandi atriða í bókum Guðrúnar sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman af, þó á ólíkan máta sé. Auga barnsins getur nálgast viðfangsefni sín á annan hátt en fullorðnir gera. Því er það oft að sögupersónur Guðrúnar benda á ýmsa meinsemd samfélagsins, sem hinir fullorðnu taka sem sjálfgefinn hlut.
Margir fullorðnir barnabókaunnendur krefjast þess að bækur fyrir börn beri með sér góðan boðskap. Það gera bækur Guðrúnar Helgadóttur svo sannarlega. Réttur og staða þeirra sem minna mega sín eru henni alltaf hjartfólgin. Á alþingi íslendinga hefur þingmaðurinn Guðrún Helgadóttir barist fyrir bættum kjörum fólks. Í bókum hennar stendur baráttan sjaldnast um peninga eða fisk, heldur viðurkenningu á stöðu barna og annarra sem minna mega sín og eiga sér enga rödd í þjóðfélaginu. Í verkum sínum bendir hún á réttleysi barna og hversu háð þau eru vilja og skoðunum fullorðna fólksins. Þeir Jón Oddur og Jón Bjarni eru svo heppnir að eiga góða foreldra, en það er alveg ljóst að það eru ekki allir svo heppnir. Jói á hæðinni fyrir neðan, er hræðilegt hrekkjusvín, en jafnvel yngstu lesendur bókanna hafa samúð með honum, þegar mamma hans er að skamma hann og rífast. Fæstir eiga heldur erfitt með að sjá hvað er orsök og hvað afleiðing á heimili þeirra. Vinur tvíburanna er Lárus. Sú mynd sem er dregin upp af heimili hans og fjölskyldu er mjög ólík fjölskyldu bræðranna. Pabbi hans er sjómaður og því er móðir Lárusar mikið ein með með hann og hana Selmu systur hans. Selma er ein af þeim persónum Guðrúnar sem hefur ekki heppnina með sér. Hún er með Downs heilkenni, en strákarnir taka hana upp á sína arma og eru duglegir að passa hana. Þeir verða svo fyrir aðkasti annarra barna sem skilja ekki eðli málsins. Þar slær Guðrún tvær flugur í einu höggi. Hún er bæði búin að koma því á framfæri við unga lesendur að svona lagað geri maður ekki og senda hinum fullorðnu tóninn; Það er þeirra að ala upp börnin svo þau verði víðsýnar og umburðalyndar manneskjur.
Stundum er eins og boðskapur bóka Guðrúnar sé jafnvel enn frekar ætlaður fullorðnum. Brúðustrákurinn Páll Vilhjálmsson kom fram í barnatíma ríkissjónvarpsins tvo vetur og Guðrún Helgadóttir samdi textann hans. Síðar kom út bók þar sem Páll eða Palli eins og öll þjóðin kallaði hann, var í aðalhlutverki. Þar sem Palli var brúða en ekki raunverulegur strákur gat Guðrún látið hann gera og segja ýmislegt sem hún hefði aldrei komist upp með að láta barn leika eftir. Páll Vilhjálmsson er málsvari allra barna á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hann er gagnrýninn á veröld og venjur hinna fullorðnu og segir skoðanir sínar óhikað. Hann stofnar meira að segja samtök krakka, sem berjast fyrir réttindum barna, sem eru að hans mati fótum troðin af fullorðnu fólki. En Palli er líka skemmtilegur og fyndinn. Eins og aðrar bækur Guðrúnar er bókin um Palla jafnt fyrir börn og fullorðna og því vinsæl til upplestrar. Á þann hátt ná skilaboðin jafnt til hinna fullorðnu sem verða kannski aðeins kurteisari við krakka fyrir vikið.
Ári áður en Páll Vilhjálmsson kom út sendi Guðrún frá sér bókina Í afahúsi. Þar segir frá Tótu sem er átta ára og óvenju bráðþroska og skýr stelpa, enda veitir ekki af, því lífið er ekki alltaf dans á rósum. Tóta býr ásamt foreldrum sínum og systkinum í húsi afa og ömmu eftir að foreldrar hennar kúpla sig út úr lífsgæðakapphlaupinu og selja hús sem þau voru að byggja. Heimilisfaðirinn hættir á sjónum og gerist ljóðskáld og fjölskyldan flytur í kjallarann hjá afa og ömmu. Það þarf að hafa bein í nefinu til að synda á móti straumnum og það hefur Tóta svo sannarlega. Og enn beinir Guðrún sjónum lesenda að hinu óvenjulega og sérstaka. Tóta eignast nýja vinkonu, sem heitir Ásdís og er tökubarn frá Kóreu. Hún verður fyrir aðkasti í skólanum vegna þess að hún lítur öðruvísi út en hin börnin, en stelpurnar snúa bökum saman og vinna sigur á hrekkjusvínunum.
Mest áberandi er ádeila hins bernska á heim hinna fullorðnu þó í leikritinu Óvitar sem Guðrún samdi fyrir Þjóðleikhúsið á barnaári Sameinuðu þjóðanna 1979. Þar framandgerir hún leikheiminn með því að snúa allri hlutverkaskipan við. Börnin í verkinu eru öll leikin af fullorðnu fólki, en hinir fullorðnu leiknir af börnum. Í þessum sérstæða heimi fæðast börnin stór, en minnka þegar fram líða stundir. Gamla fólkið er auðvitað minnst. Í Óvitum segir frá tveimur stórum en ungum drengjum, þeim Guðmundi og Finni. Heimilislífið hjá Finni er ekki sem best og hann ákveður að strjúka og felur sig hjá Guðmundi. Foreldrar Guðmundar vinna svo mikið að þau verða ekkert vör við laumugestinn. Leikritið er ákaflega skemmtilegt og sniðugt og með því að snúa hlutverkunum við fær höfundurinn okkur til að leiða hugann að ýmsu sem ekki er sjálfgefið. Leikmyndin við sýninguna í Þjóðleikhúsinu var t.d. öll í barnastærð og því sniðin að fullorðna fólkinu í verkinu.
Næstu skáldsögur Guðrúnar eru þríleikurinn Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni. Þar kveður við nýjan tón. Bækurnar segja frá barnmargri fjölskyldu í Hafnarfirði í lok seinni heimsstyrjaldarinnar og á eftirstríðsárunum. Stórfjölskyldan býr saman í hrörlegu húsi og lífskjörin ráðast af því hvernig fiskast hverju sinni. Fjölskyldufaðirinn er drykkfelldur sjómaður, mamman duglaus, amman guðhrædd og afinn á heimilinu gamall, blindur og bitur. Í fyrstu bókinni stendur sögumaðurinn þétt upp við elstu systurina, Heiðu. Hún er alvarleg og metnaðarfull og ber að mörgu leiti ábyrgð sem hinir fullorðnu í fjölskyldunni ættu frekar að bera. Hana dreymir um að vera eins og hinir og gerir allt sem í hennar valdi stendur til að koma fjölskyldunni á réttan kjöl. Í næstu bók sjáum við lífið með augum Lóu Lóu systur hennar. Hún hugsar mikið, að eigin sögn og tekur lífið ekki eins alvarlega og Heiða. Þriðja bókin er sögð frá sjónarhóli Öbbu hinnar, yngstu systurinnar. Hún er fjörkálfurinn í hópnum og því er léttara yfir síðustu bókinni. Að öðrum verkum Guðrúnar Helgadóttur ólöstuðum, eru þessar bækur hápunktur ferils hennar. Þær hafa allt til að bera sem gerir bækur sígildar. Örlagasaga fjölskyldunnar og annarra bæjarbúa kemur öllum við og eru jafnmiklar bókmenntir fyrir börn og fullorðna. Þá veita þær innsýn inn í séríslenskan heim á umbrotatímum og beina sjónum manna að þeim fjölmörgu sjómannsfjölskyldum sem byggja þetta land, en lítið hefur verið fjallað um í barnabókum. Illugi Jökulsson hefur gert prýðilega leikgerð eftir sögunum sem flutt var í ríkisútvarpinu sumarið 1999.
Undan illgresinu kom út árið 1990. Þar segir frá Mörtu Maríu sem er að flytja ásamt mömmu sinni og tveimur bræðrum, úr glænýju einbýlishúsi í íbúð í gömlu og dulúðugu húsi. Pabbi hennar framdi sjálfsmorð tveimur árum áður og síðan þá hefur lífið ekki verið neinn dans á rósum. Í gamla húsinu búa ýmsar athyglisverðar persónur, en það hvílir yfir þeim skuggi. Marta María fer að hreinsa illgresið í garði hússins og brátt fara íbúarnir einnig að taka til í lífi sínu. Loks fer að birta til þegar sannleikurinn hefur verið sagður. Bókin fékk Norrænu barnabókaverðlaunin árið 1992.
Næst sendi Guðrún frá sér bókina Litlu greyin. Þar segir frá drengnum Trausta og systrum hans, þeim Tobbu og Tinnu. Saman fara þau með mömmu sinni í sumarbústað upp í sveit. Litla fjölskyldan er ósköp döpur, enda er pabbi að flytja frá þeim. Amma barnana kemur í heimsókn og ætlar að reyna að hressa þau við, en þess í stað týnist hún. Þessir óvæntu erfiðleikar verða til þess að þjappa fjölskyldunni saman á ný og pabbinn steinhættir við að flytja burt. Ungur strokufangi kemur einnig við sögu og reyndar er það hann sem finnur ömmuna. Eitt af höfundareinkennum Guðrúnar, er einmitt að ekkert er eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn og ólánsami strokufanginn reynist gæðablóð þegar til kemur.
Í næstu þremur bókum er Guðrún enn með hugann við glæpamenn. Bækurnar Ekkert að þakka!, Ekkert að marka! og Aldrei að vita! mynda saman þríleik um þrjá krakka sem lenda í óvæntum ævintýrum og leysa glæpamál. Í fyrstu bókinni, Ekkert að þakka! frá árinu 1995, segir Eva frá því þegar hún og vinur hennar Ari Sveinn finna tösku fulla af peningum sem glæpamenn reyndu að koma undan. Peningana nota þau til að gleðja þá sem eru blankir og minna mega sín. Skjólstæðingar krakkanna eru sundurlaus hópur og þar skapast tækifæri til þess að skyggnast inn í heim ólíkra einstaklinga. Í bókinni er einnig sagt frá samkynhneigð á hlutlausan og ofureðlilegan hátt. Önnur bókin Ekkert að marka! er sögð frá sjónarhóli Ara Sveins og í henni upplýsir hann og Áki dularfullt bruggmál. Í þriðju bókinni, Aldrei að vita!, fáum við að skyggnast inn í hugarheim Áka. Strákarnir fara með fjölskyldu Ara Sveins upp í sveit. Þar reynir á strákana, því þeir verða vitni að æðadúnshnupli. Í síðustu tveimur bókunum leggur Guðrún meiri áherslu á að sögurnar séu spennandi og því eru þær æsilegri en fyrri verk hennar. Í viðtali hefur hún sagt að það geri hún vegna aukins framboðs af ýmiskonar spennandi afþreyingu fyrir börn. Hún vilji skrifa bækur sem geti keppt við allt sem í boði sé. Þessar bækur flokkast þó seint með hefðbundnum afþreyingarbókum, til þess eru þær of margslungnar. Hér sjáum við fleiri hliðar málsins en vant er í slíkum bókum. Sem dæmi má nefna að í Ekkert að marka! hlýtur afbrotamaðurinn, gömul kona sem drýgir tekjurnar með bruggstarfssemi, ekki hefðbundna refsingu.
Guðrún hefur einnig sent frá sér nokkrar myndabækur. Sú fyrsta er Ástarsaga úr fjöllunum frá 1981og er unnin með Brian Pilkington. Sú bók er löngu orðin klassísk, enda fara þar saman frábær saga og skemmtilegar myndir. Sagan styðst við íslenska þjóðtrú og segir frá tröllskessunni Flumbru sem heldur til fundar við ástmann sinn en verður að steini þegar fyrstu geislar morgunsólarinnar ná að skína á hana. Í sögunni er ýmis náttúrufyrirbrigði eins og jarðskjálftar og eldgos útskýrð með látunum úr tröllunum. Ástarsaga úr fjöllunum er fyrir löngu orðin sígild og hefur komið út á fjölmörgum tungumálum.
Næst kom Gunnhildur og Glói frá 1985, en myndir við hana gerðu Terry Burton og Úlfar Örn Valdimarsson. Þar segir frá Gunnhildi sem á erfiðan dag á leikskólanum, en þegar tilveran sýnist sem svörtust kynnist hún álfadrengnum Glóa sem veitir henni nýja og bjartari sýn á lífið. Svo var það Núna heitir hann bara Pétur frá 1990 sem er einföld saga prýdd myndum Harðar Haukssonar. Þar segir frá Pétri, fjögurra ára, sem pissar enn í buxurnar, en snarhættir því þegar endurnar á tjörninni vilja ekki pissublautt brauð. Velkominn heim Hannibal Hansson kom út tveimur árum síðar. Það er falleg saga um strákhnokka sem er að flytja heim til Íslands. Hann langar ekki vitund til þess en á leiðinni heim kynnist hann skýjakrökkum og eftir það lítur hann öðruvísi á málið. Nýjasta myndabók Guðrúnar heitir Englajól. Vigdís Finnbogadóttir las söguna á jóladag í Sjónvarpinu árið 1995 en sagan kom ekki út á bók fyrr en 1997, en það var Brian Pilkington sem gerði einstaklega fallegar myndir við söguna.
Börn eru einstaklingar í mótun og það er öllu samfélaginu lífsnauðsynlegt að barnabækur séu skrifaðar með ást og virðingu fyrir börnum að leiðarljósi. Það hefur Guðrún Helgadóttir alltaf gert og betur en flestir aðrir. Ég sjálf og flestir af minni kynslóð eru þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp með verkum hennar. Við erum betri manneskjur fyrir vikið. Sem betur fer er Guðrún enn að skrifa fyrir börn á öllum aldri og því er fjársjóðurinn okkar alltaf að stækka. Það ber að þakka.
Margrét Tryggvadóttir
Greinar
Almenn umfjöllun
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, Guðmundur Karl Friðjónsson og Kristín Heiða Kristinsdóttir: „Dansað á línu“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg. 3. tbl. 1986, s. 312-317
Guðrún Stella Gissurardóttir: „Það þarf þykkan skráp í pólitík“
Viðtal við Guðrúnu Helgadóttur, fyrstu konuna sem gegnir embætti forseta Sameinaðs Alþingis
19. júní, 40. árg., 1990, s. 56-60
Guðrún Hannesdóttir: „Hamingjan á heima í manni sjálfum“
Börn og menning, 14. árg., 2. tbl. 1999, s.12-16
Illugi Jökulsson (ritstj.): Ritþing um Guðrúnu Helgadóttur
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 1999
Inga Sigrún Þórarinsdóttir: „Berbrjósta tröll“
Spjallað við Guðrúnu Helgadóttur
Jón á Bægisá, 4. árg., 1.tbl. 1999, s. 44-50
Katrín Jakobsdóttir: „Mér finnst“
Börn og menning, 30. árg., 1. tbl. 2015, s. 29
Matthías Viðar Sæmundsson: „Ógleði og glötuð kynslóð“
Stríð og söngur. Reykjavík: Forlagið, 1985, s. 9-36
Pétur Blöndal: „Svo skaðar ekki að fólk hafi snefil af kímnigáfu“
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 198-219
Silja Aðalsteinsdóttir: „Trú og siðferði í íslenskum barnabókum“
Raddir barnabókanna. Reykjavík: Mál og menning, 1999, s. 178-200
Silja Aðalsteinsdóttir: „Íslenskar barnabækur. Sögulegt yfirlit.“
Raddir barnabókanna. Reykjavík: Mál og menning, 1999, s. 9-37
Stefán Pálsson: „Englar hversdagsins“
Börn og menning, 30. árg. 1. tbl., 6-9
Steinunn Jóhannesdóttir: „Að opna glufu. Þrír verðlaunahöfundar“
19. júní, 43. árg., 1. tbl. 1993, s. 16-18
Um einstök verk
Oddaflug
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: „Eins og í sögu.“
Vera, 19. árg., 5.-6. tbl. 2000, s. 65
Saman í hring
Elín Garðarsdóttir: „Saman í hring.“
Vera, 5. árg., 6. tbl. 1986, s. 37
Sitji guðs englar; Saman í hring; Sænginni yfir minni
Silja Aðalsteinsdóttir: „Þrjár systur.“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 1. tbl. 1988, s. 113-118
Sitji guðs englar
Silja Aðalsteinsdóttir: „Meira úr afahúsi“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 3. tbl. 1984, s. 348-352
Öðruvísi dagar og Öðruvísi fjölskylda
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: „Hvernig öðruvísi?“
Börn og menning, 18. árg., 1. tbl. 2003, s. 26-27
Katrín Jakobsdóttir: „Leiðarstefið fyrirgefning : „öðruvísi„ fjölskyldubækur Guðrúnar Helgadóttur“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 2. tbl. 2007, s. 40-44
Margrét Tryggvadóttir: „Fjölskylda heimsins“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 2. tbl. 2005, s. 98-101
María Bjarkadóttir: „Fíasól og Karen Karlotta – sjálfstæðar stelpur sem læra af reynslunni“
Börn og Menning, 21. árg., 1. tbl. 2006, s. 18-20
Öðruvísi saga
Kristín Viðarsdóttir: „Öðruvísi saga“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Brot úr greinum
Úr Meira úr afahúsi
Sagan er sögð í þriðju persónu, þótt Heiða sé aðalpersóna, og sögumaður, hugsanir hans og skoðanir, eru alltaf nærri. Hann horfir með eftirsjá og nokkurri beiskju yfir þetta horfna svið, enda er hann að afhjúpa goðsögnina um hina átakalausu bernsku. Þó er sagan mjög skemmtileg, bæði í stíl og stökum efnisatriðum. Kannski er það einmitt þessi blanda af söknuði, sárindum og fyndni sem gefur sögunni sinn sérstæða svip.
Framan af er frásögnin ekki mjög myndræn, meira bein frásögn með stuttum orðaskiptum eins og Guðrún notar mikið í fyrri bókum sínum. Þó er þessi saga strax dramatískari en þær. En þegar þungi frásagnarinnar eykst í seinni hluta bókarinnar verður hún jafnframt myndrænni. ...
Sama er að segja um lýsingar á tilfinningum, þær verða dýpri og flóknari þegar líður á söguna, og það kemur vel heim við boðskapinn sem er ekki síst sá að ekkert sé eins einfalt og okkur virðist. Sögumaður lýsir tilfinningum án þess að skýra þær, enda eru þær stundum svo mótsagnakenndar að engin leið er jafnvel fyrir fullorðinn lesanda að setja á þær merkimiða. ... Oft er gengið mjög nærri Heiðu og tilfinningasveiflum hennar lýst af dirfsku þótt öguð sé. Þetta er í samræmi við þá þróun sem barnabókmenntir okkar hafa verið að taka undanfarin ár, höfundar þeirra hafa orðið óragari við að lifa sorg og gleði með persónum sínum.
(s. 351)
Sjá Silja Aðalsteinsdóttir: „Meira úr afahúsi“
Úr Íslenskar barnabækur
Algengast í barnabókum okkar er sögumannsafbrigði sem liggur á milli hins alvitra sögumanns og fyrstu persónunnar: þriðju persónu sögumaður sem takmarkar sjónarhorn sitt og yfirsýn. Oft stendur hann þétt upp við aðalpersónu og takmarkar sjónarhorn sitt við hana; stundum veitir hann sér aðgang að fleiri persónum. Með þessu móti hefur söguhöfundur alla þræði í hendi sér, getur séð söguhetjur sínar að utan og innan, vitað það sem hann vill koma á framfæri strax og þóst ekki vita það sem hann vill bíða með. En þetta sparar höfundi ekki að velja texta sínum ákveðna rödd.
Þegar vel tekst til hefur þessi aðferð bestu kosti hinna beggja. Dæmið um það er úr fyrstu bók Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna. Í upphafi þeirrar bókar erum við inni í svefnherbergi tvíburanna. Sögumaður er staddur milli rúma bræðranna, les frásögnina úr hugum þeirra og notar þeirra orðalag.
Jón Oddur og Jón Bjarni lágu hvor í sínu bóli og gátu ekki sofnað. Þeim fannst stundum hræðilega leiðinlegt að fara að sofa, sérstaklega þegar mamma flýtti sér einhver ósköp að drífa þá í háttinn. Þá andaði hún svo hratt og það var svo mikill asi á henni, að bræðurnir vissu hvað til stóð: Hún átti von á gestum. Hún hafði meira að segja gleymt að láta Jón Bjarna bursta í sér tennurnar í kvöld. Það var engin von til þess að þeir gætu sofnað.
Strax í fyrstu málsgrein fyrstu bókar höfundar kemur fram óviðjafnanlegur hæfileiki hennar til að horfa á heiminn frá sjónarhóli barna og taka málstað þeirra. Afar algengt er að söguhöfundar bóka um börn undir skólaaldri horfi niður á þau úr fullorðinshæð, en Guðrún horfir á heiminn frá rúmum metra frá jörð og tekur aldrei svari fullorðinna á kostnað barna.
En ekki má gleyma því að ævinlega er aldursmunur á sögumanni af þessari gerð og söguhetju hans, og það hlýtur að verða bil á milli þeirra. Munur sem kallar á tvíræðni eða íróníu vegna þess að ungir og gamlir hafa ólíka sýn á veröldina, finnst til dæmis ekki sömu hlutir fyndnir. Mjög ungur hlustandi textans um tvíburana hér að ofan fyllist hluttekningu yfir sárum örlögum bræðranna en þegar hann er orðinn svolítið eldri – og svolítið eldri en bræðurnir – sér hann hvað þeir gera mikið mál úr lítilræði og fer að skemmta sér yfir líðan þeirra.
(s. 91-92)
Sjá Silja Aðalsteinsdóttir: „Íslenskar barnabækur : sögulegt yfirlit“
Úr Trú og siðferði í íslenskum barnabókum
Það er engin tilviljun að Marta María heitir tvöföldu biblíunafni. Hún er persónugervingur sorgar og þjáningar lengi framan af sögu sinni. Þjáningin sprettur ekki af hennar eigin gjörðum heldur óheilindum annarra. Fyrst og fremst er hún vansæl vegna þess að hún veit ekki hvað varð um pabba. Þjáningin gerir hana ofurnæma á umhverfi sitt og hefur þroskandi áhrif á hana, í gegnum hana verður Marta María næmari á annað fólk, skilur það betur. Það má vel ímynda sér að þjáningin verði undirstaða siðferðisgilda hennar í framtíðinni. Hún veit í sögulok að óheiðarleiki getur verið banvænn og ofdramb líka.
(s. 192)
Sjá Silja Aðalsteinsdóttir: „Trú og siðferði í íslenskum barnabókum“
Verðlaun
2018 - Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi
2015 – Menningarverðlaun DV, heiðursverðlaun
2007 – Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur
2006 – Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana: Öðruvísi saga (sem besta íslenska barnabókin)
2005 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar: Fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu
2005 – Bókaverðlaun barnanna: Öðruvísi fjölskylda
1999 – Viðurkenning Barna og bóka Íslandsdeildar IBBY
1994 – Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur: Litlu greyin
1993 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1992- Norrænu barnabókaverðlaunin: Undan illgresinu
1988 – Viðurkenning Barna og bóka Íslandsdeildar IBBY: Sænginni yfir minni
1980 – Verðlaun úr Thorbjörn Egner sjóðnum: Óvitar
1975 – Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Jón Oddur og Jón Bjarni
Tilnefningar
2005 – Astrid Lindgren verðlaunin: Fyrir rithöfundaferil sinn
2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Öðruvísi fjölskylda
1991 – Norrænu barnabókaverðlunin: Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni
1988 – Norrænu barnabókaverðlunin: Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni
1985 – Norrænu barnabókaverðlunin: Sitji guðs englar
1988 – H.C. Andersen verðlaunin
1987 – Norrænu barnabókaverðlunin: Sitji guðs englar og Saman í hring
Blaubeeren und Vanilleeis
Lesa meiraIslandi trollilugu
Lesa meiraLítil saga um latan unga
Lesa meiraHvem ved
Lesa meiraBara gaman
Lesa meiraUngene lekte i utmarken helt til Páll skjöt på soldatene
Lesa meiraFlumbra : eine isländische Trollgeschichte
Lesa meiraÖðruvísi saga
Lesa meiraÁstarsaga úr fjöllunum á kóreönsku
Lesa meira
Griðastaður
Lesa meira