Æviágrip
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir er fædd 25. ágúst 1954 og er Reykvíkingur. Hún lærði sagnfræði í Lundi Svíþjóð árið 1973-1974 og sögu og myndlist við Instituto Allende í Mexíkó árið 1977-1978. Hún lauk Cand Mag-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983 og hefur síðan fengist við ritstörf. Eftir hana liggja tuttugu bækur – skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit – auk fjölda greina og þátta fyrir útvarp og sjónvarp. Barnævisöguna Sól í norðurmýri (1993) og nóvelluna Dag kvennanna (2010) skrifaði hún með Megasi.
Fyrsta skáldsaga Þórunnar, Höfuðskepnur, kom út árið 1994. Skáldsagan Alveg nóg var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 1997 og Stúlka með fingur hlaut síðan Menningarverðlaun DV árið 1999 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2001. Skáldsögur Þórunnar Kalt er annars blóð (2007) og Mörg eru ljónsins eyru (2010) eru glæpasögur sem gerast í samtímanum en byggja báðar á Íslendingasögum, sú fyrri á Njálu og sú seinni á Laxdælu. Þær voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta, en Þórunn hefur einnig hlotið þar tilnefningar í flokki fræðibóka fyrir bækurnar Snorra á Húsafelli: saga frá 18. öld (1989), Til móts við nútímann (4. bindi Kristni á Íslandi, 2000) og Upp á sigurhæðir: saga Matthíasar Jochumssonar (2006).
Þórunn er búsett í Reykjavík.
Forlag: JPV útgáfa.
Frá höfundi
Frá Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur
Ég ætlaði aldrei að skrifa.
Það komu í mig þrjár hefðbundnar vísur þegar ég var krakki, eins og þessi þegar ég lék mér við Hrefnu og Láru á Táknafirði sumarið 1965. Þar passaði ég syni Urðar:
Lára skeit, uppí sveit
í skítaræsi fögru;
Lára veit, að ég leit
rasskinnina mögru.
Núna sé ég hvað þetta segir mikið um ... eitthvað í mér. Ég og rasskinnar kvenna ... ég og holdið ... ég og skíturinn .... ég og hefðin ... læt bókmenntafræði með sálfræðilegu ívafi um þetta.
Jón Helgason skáld og handritafræðingur segir í grein sem ég las nýlega að á tímum hrynjandinnar hafi fólk hneigst til þess að hafa annaðhvort góða rytmataug eða stuðlataug. Ég hef góða rytmataug. Ég veit það úr músiklífi mínu, ég elska taktbrot og er hooked á afrískum dansi. Hann felst í því að nota líkamann sem rytmískt hljóðfæri. Síðan ég byrjaði að læra það er ég farin að heyra hrynjandi íslensks kveðskapar sem hreinan rytma.
Synd að lifa ekki á rugg og rytmatímum orðkynginnar. Þar mættust músik og magía orða. Vestfirska amma mín bjó heima fyrstu tvö árin mín og hafði mig oft síðan og rytmaði mikið inn í mig. Hún rytmaði annarra orð stöðugt. Þegar Benny Goodman kom í útvarpið sagði ég, sagði hún mér: -Amma, amma, Benny Goodman! Jazzinn smó inn í rytmarullurnar hennar og gjörsigraði þær að lokum.
Ég fór í fangið á pabba syni hennar því að fangið á mömmu fylltist stöðugt af nýjum börnum. Pabbi er mikil tilfinningavera, ég finn enn hvað það var gott að vera í fanginu á honum. Öðruvísi en þegar ég skreið úr martröð uppí til mömmu, þar var miðja heimsins og himneskt logn. Pabbi kenndi mér pínulítilli að lesa og ég fann hvað hann elskaði mig þegar ég var snjöll. Það gat ég verið þó ég væri hljóðlát og róleg. Ég var horuð með vott af beinkröm þótt mamma gæfi mér lýsi, rigningasumrinu mikla var kennt um, og meira innhverf af því matarborðið var fuglabjarg. Allir geta ekki talað í einu, sumir fara inn. Þegar við pabbi fjarlægðumst líkamlega og ég hætti að fara í bað með honum, Trausta og Lilju held ég að ég hafi reynt að vera gáfuð áfram svo að pabbi elskaði mig meira. Þess vegna er ég „vitrænni“ en systur mínar sem eru klassískir tónlistarmenn og „vinna í hreinu vatni“.
Lymska og illska, sprottnar af sársauka þrífast vel í afbrýðiseminni sem fylgir því að eiga fjögur yngri systkini átta ára gamall. Pabbi lét okkur syngja bænir (en mamma bara heiðið), svo að ég reyndi að biðja úr mér illskuna. Hún var ekki mikil og ég gat ekki kvartað því að ég hafði viðurkennda stöðu sem uppáhaldsbarn ömmu og afa í föðurætt. Var með mikla þörf fyrir að láta elska mig og vernda.
Ástsýkin er rót framagirninnar. Ég sá það fljótt. Líka er hægt að skrifa til að láta hata sig, hugsa ekkert um markaðinn, skrifa bækur sem maður veit að fáir geta náð, eins og vísindaskáldsöguna mína, eða bækur sem eru fullar af sársauka með þjáningarendi. Það hef ég gert í þrígang en það er ekki praktískt. Minni peningar, meira álag. Andþjóðfélagslega sönn getur mamman ekki verið nema að því marki að það skaði ekki barnið.
Mamma skrifaði barnabók sem reykvíska amma mín las henni efnið í, Bernsku í byrjun aldar. Silja Aðalsteinsdóttir færði mér bók sína um barnabækur á sæng 1982. Hún vissi ekki að þessi kona væri mamma mín, en skrifaði um hana í þessa bók og ég las það þarna: þessi kona er fínn höfundur, hví skyldi hún ekki hafa skrifað meira? Mamma átti sjö börn, fékk krabbamein í andlitið þegar ég var í menntaskóla og dó eftir langt stríð. Talandi um sársaukann! Þarna var hann. Silja minnti mig með nýfætt barnið í fanginu á að mamma gat skrifað og ef mamma manns getur eitthvað gæti manni alveg fundist að maður gæti það.
Ég man það augnablik sem krakki þegar ég sá að ég gat skrifað. Í barnaskóla efndi kennarinn minn til ferðar í Ásgrímssafn á Bergstaðastræti og við áttum að skrifa um hana ritgerð. Það nísti mig hvað ég var skelfilega fölsk á meðan ég skrifaði, ég skrifaði meðvitað þannig að henni líkaði. „Myndirnar voru dásamlegar ...“ Púkinn í mér hló, svona vildi hún hafa það, hástemmt og væmið. Samt var neisti af sannleika í þessu, ég kann svo að hrífast. Ég fékk verðlaun, þetta var ekki samkeppni en hún fann sig knúna til að verðlauna mig með prentaðri mynd Ásgríms af björk á Húsafelli. Sektin gusaði upp aftur. Þetta heitir að vera meðvitaður um stíl.
Einu sinni kom sami kennari með tvo fína kennslufulltrúa í tíma sem gerðu tilraun. Lesinn var texti og við sátum með blað og blýant og áttum að skrifa stikkorð og endursegja efnið. Við krotuðum samviskusamlega eitthvað niður. Þá kom hræðilega pínlegt augnablik þar sem hún mændi út í bekkinn með fallega hundslegu augunum sínum ... kallað var á sjálfboðaliða. Hún leit bænaraugum á okkur og sagði með þeim, ég geri allt fyrir ykkur, geriði það nú, bjargiði mér! Enginn bauð sig fram og loftið varð þykkara og þykkara. Loksins var kvöl augnabliksins yfirsterkari en óttinn. Ég lét mig hafa það að fara upp og það gerðist sem oft síðan hefur gerst við svona aðstæður, það er mjög undarlegt, munnurinn og heilinn segja eitthvað, þó að maður sjálfur geti það ekki. Munnurinn á mér talar oft án þess að ég viti það, og hendurnar skrifa án þess að ég komi þar nærri. Svona fórnfús, að bjarga augnablikinu þó að ég þyrði það ekki og vilji ekki trana mér fram, var ég líka á leið í frumskóg Mið-Ameríku 1978. Þetta var árið sem ég var þar í myndlistarskóla. Var á leið að teikna Maya-rústir með punkta tækni. Einn úr hópnum átti að læra að sprauta okkur hin við snákabiti og enginn vildi vera gíneusvínið. Ég var skíthrædd við sprautur en þrúgur andrúmsloftsins urðu svo óbærilega höfugar að ég bauð mig fram. (Svona virkar rísandi venus-neptúnus í vog, það verður að redda stemmningunni ef hún er óbærilega pínleg.) Seinna dæmið er útúrdúr, það fyrra, að læra að skrifa punkta, hefur skipt mig öllu máli.
Góð stikkorð flytja hugsun áfram. Til dæmis þegar maður liggur í órum á nóttunni sem maður vill ekki gleyma, þá bara rís maður upp og skrifar nokkur orð sem eru lykil að órunum. Það reyndi aftur á þennan hæfileika tvö sumur í sveit þegar ég var látin muna veðurfregnir og fréttir á meðan allir voru í fjósinu. Ég var látin endursegja bæði veður og fréttir. Aðalatriðin forstås.
Það var gott að geta haldið þræðinum lengi í gáfulegum samræðum, ég var sérlega góð í því og þakka fréttamennsku minni fyrir fjósafólkið. Ég sem lét skera af mér brjóstin til að gáfaðir karlmenn nenntu frekar að skemmta mér með löngum djúpum samræðum! Drukknir kappar sem ég vildi ekki brúka til slíks áttu það til að mæna bara á barminn. Ég laug því að lýtalækninum að ég væri slæm í bakinu, eða réttara sagt hann spurði mig og ég sagði, jaaaa. (Þetta er stíleinkenni þegar ég skrifa frjálsan essaystíl, að hoppa aftur og fram. Ég nenni ekki að eyða nema einu síðdegi í þetta. Ég er löngu hætt að hafa gaman af gáfulegum samræðum.)
Í fyrsta bekk í gaggó var ég mjög hyper eftir skilnað foreldra minna, hrapaði í náminu en ruglaði þess meira. Þá byrjuðum við vinkonurnar að skrifa leikrit fyrir árshátíðina, það gekk ekki of vel, þær fóru heim en ég settist niður og kláraði það. Þetta var einþáttungurinn Sorgarsaga Eika bítils. Sigurður Karlsson leikari setti það upp. Foreldrar Eika klipptu af honum síða hárið sofandi og hann drekkti sér í vaskafati. Þetta var alveg rithöfundakomplexa-laust flipp. Leikritið á ég ekki. Ég er mjög lélegur safnari.
Í menntaskóla hrósaði Jackie Hannesson mér fyrir ritgerð. Ég leit á stúdentsprófið mitt til að sjá hvaða einkunnir væru bestar og fór þess vegna í ensku og sögu. Í enskudeildinni kenndi amerísk kona sem hrósaði mér fyrir texta. Þetta man ég, því að hrós er ást, en nafninu á henni er ég búin að gleyma! Sagan varð enskunni yfirsterkari og þar með var ég komin á kaf í skriftir. Sögunám er fínn skóli í klassískri textagerð, frumtextarnir færa manni yndislega fyrnd og falleg orð og kennararnir hakka það sundur og saman sem maður skrifar. Maður lærir að nálgast upplýsingar og verður meðvitaður um afstæði tímans og vöxt og viðgang menningar-trésins.
Þar til ég komst á cand.mag stig fannst mér ég læra meira hjá Eysteini vini mínum en í skólanum. Við bjuggum í sambýli ásamt þriðja aðila í ár minnir mig, en eftir það var ég mikið hjá honum. Hann mótaði mig og skólaði mig frá tvítugu og uppúr, samt vorum við jafnaldrar og erum enn. Hann var bara svo mörgum sinnum klárari. Ég fílaði mig aldrei sem Músu, fannst ég ekki hafa næga töfra í það hlutverk, kunni þó held ég vel að þegja og ljóma. Eysteinn er Björnsson, ekki rithöfundurinn heldur sá sem á ótrúlegan vef um Hrafnagaldur Óðins og Eddukvæðaheiminn, og annan um dróttkvæði. Hann lærði ensku, hebresku og grísku. Hinn lærisveinn Eysteins á tímabili var Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld. Ef ég hefði ekki kynnst Eysteini og notið þess sem hann kenndi mér væri ég allt önnur manneskja, og ég vil alls ekki vera hún. Það sem hann kenndi mér hefur með dýpt að gera, ég hafði ekki mikið af henni úr heimahúsum. Og hún var ekki til sölu í sagnfræðinni. Frekar í enskudeildinni í enskum bókmenntum.
Ég er alveg einlæg í þessum texta. Það er mér vandalaust. Nú snerti ég mesta feimnismálið á mínum rithöfundarferli: Á námsárunum samdi ég lög með textum og söng og spilaði á píanó í einrúmi og loks alein inn á spólu. Af einhverjum ástæðum sem ég man ekki gaf ég Sveinbirni Blöndal sagnfræðinema spóluna. Hann fór yfir í hagfræði og er fínn maður í París. Stundum óska ég þess að ég ætti spóluna af því að ég man bara brot úr textunum og það kemur enn fyrir að ég sest við píanóið og syng, mest jass. Ég hitti Sveinbjörn nýlega en gat ekki nefnt þetta við hann, það er of embarrassing því að þetta var alltaf pukur og einkamál. Ég hef of gott vit á músik til að skammast mín ekki ... veit að þetta er frekar ómerkilegt, bæði lög og textar. Maður er menntaður sínum eigin tilfinningum til vansa, það hef ég oft fundið! Þess vegna er gott að komast nær dýrinu og upprunanum í afrískum þjóðdönsum.
Ég get ekki kallað kennarana mína mentora, nema Björn Þorsteinsson, sem fyrir undarlega tilviljun er frændi Eysteins og Guðmundar Hálfdánarsonar sem mér fannst gáfaðasti samstúdent minn í sagnfræði á cand. mag. stigi. Á þeim árum orti ég eitt ljóð, sem var það fyrsta. (Það sem rann upp úr mér óvart lítilli var næstum ekki neitt, og það sem kom með lögunum sem ég samdi var algjörlega „bara“ textar, eitthvað sem loddi við músikina.) Þetta fyrsta fullorðna meðvitaða ljóð var Ættjarðarþula, ég mundi kalla það „einlægt mockery“, púkinn í mér hló og sagði hvert hvarf þessi „genre“? Hvernig mundi maður yrkja innan þessarar „genre“ núna? Ég var í sama kamelljónsham og þegar ég skrifaði um mynd Ásmundar, ég setti mig í stellingar. Samt var bullandi einlægni og sterk skynjun í gangi, ég man tilfinninguna algerlega, sköpunarkikkið er ofboðsleg nautn, það væri gaman að sjá innrauðar myndir af taugakerfinu þegar ekta skapandi flæði er í gangi. Ég sýndi Gunnari Karlssyni ljóðið, hann sýndi Silju konu sinni, hún setti það í TMM, Eysteinn Þorvaldsson valdi það í Ljóð ungskálda, og þarna var ég, höfundur eins ljóðs komin í úrval. Ég sagði við sjálfa mig, nú, það er þá einhvers virði, og fór að punkta hjá mér ljóðskynjanir.
Það að ég skrifaði bók var alger tilviljun og óx beint út úr sagnfræðináminu. Cand.mag.-ritgerðin mín féll vel að ritröð Sögufélags, Safni til sögu Reykjavíkur. Ég var beðin um að breyta henni í bók, sem ég gerði. Vísindasjóður opnaði sig í fyrsta skipti. Þá var ég við það að verða kennari. Aldrei hef ég farið verr með vetur en í kennslufræðum við H.Í. Betra var það sem áður var að reykja hass og drekka te vetrarlangt, lesa hippalitteratúr og rýna í cosmos inni í sér og myllu guðs langar vetrarnætur.
Næst var ég beðin að skrifa ævisögu manns sem lifði á sviði Reykjavíkurbókar minnar, sem by the way er Sveitin við sundin. Ég gerði allt sem karlar sögðu mér að gera, þangað til Megas skólaði mig. BA.ritgerð mín og CM. voru báðar skrifaðar eftir uppástungu meistara minna í sagnfræði. Svo kom sætur karl og bað mig að skrifa Snorra á Húsafelli um forföður sinn, en þá var ég komin með nógu sterka sjálfsvitund til að skrifa öðruvísi bók en hefðin gerði ráð fyrir. Launasjóður rithöfunda opnaði sig í fyrsta skipti.
Næst kom Sól í Norðurmýri með Megasi. Hann togaði mig út úr heimi fræðanna yfir í frelsið. Hann var minn mentor þegar hann bjó hjá mér sumarið 1979 og aftur síðan 1990. Það er algerlega honum að þakka að ég fór að skrifa skáldskap. Ég óskaði þess oft þegar við töluðum saman í síma á morgnanna, sem við gerðum í mörg ár, að það væri upptökutæki í gangi. Öll sú snilld sem flaug út í loftið og leystist upp!
Það sem hefur gerst síðan liggur ljóst fyrir. Mótuninni var lokið haustið 1990, þegar ég er 36 ára fjögurra bóka höfundur. Ég var búin að fatta sporin og tilbúin að dansa.
Fjórtánda bókin mín er að koma út, en þrjár á ég þó bara hálfar. Ég er alls ekki dugleg, ég bara geri ekkert annað. Ég set oft öryggisnælur í staðinn fyrir að sauma, þó mér þyki ekkert leiðinlegt að sauma, af því að ég þarf að spara orkuna. Maður veit ekki hugmynd þreyttur og leiður.
Við Megas skrifuðum saman nóvellu fyrir löngu, sem er í teiknimyndastíl og segir frá hremmningum Barbie og Ken á kvennadaginn mikla þegar bærinn fylltist af kvenfólki og ástum þeirra upp frá því. Þau heita Himinhrjóður og Máney. Ég roðnaði lengi vel þegar ég las hana, en er orðin svo forhert núna að það gerist ekki lengur eða að dregið hefur úr blygðun tímans. Tveir útgefendur neituðu að gefa hana út. Mig langar að taka hana upp með Magga og pússa hana og ljúka og strjúka og gefa hana út 2003. Ég fann útgefanda sem er nógu purrkunarlaus.
Núna er endalaus vinna framundan við ævisögu Matthíasar Jochumssonar. Að henni lokinni, ef guð lofar segir Matti, bíða möguleikar á frjálsari tilraunum.
Það er fínn flótti frá raunveruleikanum að skrifa.
Það er ekkert að raunveruleikanum nema hvað hann getur verið leiðinlegur.
Ekki má gleyma sársaukanum þó hann sé ekki í manni sjálfum í löngu bili.
Hann er raunverulegastur.
Þórunn Valdimarsdóttir, 2002
Um höfund
Verk Þórunnar Valdimarsdóttur
Á skemmtilegan hátt vefur Þórunn Valdimarsdóttir sjálfa sig inn í nýjustu skáldsögu sína, Hvíta skuggann (2001). Ein aðalpersónan, Sólveig, er myndlistarmaður og dettur niður á hugmynd að listaverki, að skera út skugga sem fólk hefur varpað á snjó og selja mynd af þeim síðan hverjum skugghafa:
Menn myndu muna eftir Hljómskála-ísskugganum 2002. Hún myndi setja um hálsinn á skugganum nafnnúmer viðkomandi á skilti: Skugginn af 250854 4209. (bls. 97)
En það nafnnúmer, eða sú kennitala, tilheyrir einmitt Þórunni Valdimarsdóttur samkvæmt þjóðskrá. Að Þórunn geri sjálfa sig að hluta eigin verks, lýsir afstöðu hennar til skáldskapar síns. Hann er persónulegur og um leið heildstæður, persónan Þórunn Valdimarsdóttir er hluti af heild skáldskaparins um leið og höfundurinn Þórunn Valdimarsdóttir. Því tel ég óhætt að líta á skáldskap hennar sem heildstætt höfundarverk, eins og gert verður hér. Einnig rennur það sterkum stoðum undir það viðhorf að flestar aðalpersónur skáldagna Þórunnar eru konur, og konur segja sögurnar.
Konur og sagnfræði eru kannski þeir tveir þættir sem mest áberandi eru við fyrstu sýn á skáldverk Þórunnar, enda er hún kvenkyns sagnfræðingur. Í fyrstu skáldsögu hennar Júlíu (1992) er það rannsakandinn/tölvuforritarinn/sagnfræðingurinn Ágústa sem setur saman sögu aðalpersónanna Júlíu, Starkaðs, Emils og Lenu, sögu sem snýst mest um ástir Júlíu og Starkaðs og að lokum tortímingu þeirra í framtíðarþjóðfélagi vísindaskáldsögunnar. Skáldsagan Höfuðskepnur (1994) er skrifuð og lifuð af E., kvenkyns rithöfundi. Líf E. er jafnframt efniviður skrifa hennar sem nálgast mest dagbókar- og bréfaformið, eitt af uppáhalds rannsóknarefnum sagnfræðinga. Alveg nóg, skáldsaga frá árinu 1997, hefur einnig að geyma uppgjör aðalpersónunnar, Guðrúnar, við eigið líf í gegnum frásögn, frá átakanlegum sjónarhóli. Stúlka með fingur er söguleg skáldsaga (1999), gerist um og eftir aldamótin 1900, og er sögð af aðalpersónunni Unni. Fræðimennskan sem Þórunn hefur unnið til að koma þjóðfélagi fortíðarinnar til skila, hefur smitast yfir á Unni og hún sýnir fræðum ýmiskonar mikinn áhuga, meðan hún berst fyrir betri stöðu í karlmiðjuðu samfélagi. Hvíti skugginn (2001) brýtur líklega mest gegn ofangreindri reglu. Aðalpersónurnar eru fleiri og af báðum kynjum, listamaður, bókmenntafræðingur og læknir. Með hjálp sérstakra samtaka, Hljómskálasamtakanna, og veraldarvefsins, hins nýja skriftastól (í tvöfaldri merkingu auðvitað) leysa þau upp skilin milli fræða og viðfangsefnis, gera eigið líf að viðfangi líkt og í Höfuðskepnum.
Hér verða hin fjölmörgu sagnfræðirit Þórunnar látin liggja á milli hluta þótt sannarlega megi finna ýmislegt sameiginlegt þeim og skáldverkunum. Margir athyglisverðir þræðir í höfundarverki Þórunnar verða að vísu skyldir eftir ónefndir eða í lausu lofti, meðan aðrir fá örlitla umfjöllun.
Skynjun og hringir
Í fyrsta skáldverki sínu, ljóðabókinni Fuglar (1991), klæðir Þórunn Valdimarsdóttir þá hugsun í ljóðbúning, að skynjun mannsins sé bundin við hring, sjóndeildarhringinn. Hringur þessi breytist í sífellu:
mitt eigið land þar sem allt lætur að stjórn
leysist upp í sjóndeildarhringi („Hringurinn“)
Vitund mannsins er eins og rauður punktur á korti sem segir að maður sé „hér“: „rauði punkturinn er þar sem þú ert“, skrifar Þórunn („Í gamla kirkjugarðinum“). Þessa sýn má kenna við einstaklingshyggju, þótt ekki sé þráðbeint samband þaðan yfir í stjórnmálalega einstaklingshyggju. Sýn Þórunnar er heimspekileg og sem slík einna skyldust sjálfshyggju. Hún gerir miklar kröfur til einstaklingsins/sjálfsverunnar, því hann/hún verður sífellt að smíða utan um sig nýja og nýja heimsmynd. Auðvitað styttum við vitundarverurnar okkur oft leið með því að taka upp tilbúnar heimsmyndir utan að frá okkur, en vinnan við uppsetningu heimsmyndar á sér engu að síður stað í hverri andrá. Á þetta minnir Þórunn lesandann, í ljóðum sínum, og ekki síst í gegnum skáldsagnapersónur sínar. Hverri heimsmynd fylgja nefnilega goðsögur, mýtur, sem renna rökrænum stoðum undir heimsmyndina og réttlæta hana. Í skáldskap Þórunnar er stöðugt verið að vinna með goðsögur, nýjar jafnt sem gamlar. Goðsagan er undir stöðugri árás annarra goðsagna því sjóndeildarhringur vitundar okkar rekst sífellt á aðra slíka hringi:
lambhrútur í Suðursveit
skynugt kjöt í ull
telur sig hreyfanlegt fjall
fattar að hann er ekki vitund sjóndeildarhrings
þegar bíllinn æðir að honum („Hringurinn“)
Svona rekast hringir vitundar okkar á, þótt yfirleitt sé það ekki með jafn áþreifanlegum og líkamlegum hætti og hér.
Raunar er, í þessu samhengi, nær að tala um þrívítt rými hverrar vitundar, fremur en flatan hring. Þannig lýsir Unnur sínu rými í skáldsögunni Stúlka með fingur, um leið og hún sameinar vísindi rúmmálsfræðanna galdri:
Sit með leggina undir mér, inni í ímynduðum teningi. Hann hefur sex hliðar, teningurinn, átta horn, tólf kanta, hinn magnaði alþjóðlegi algeimslegi teningur. Ég sit inni í honum miðjum. Ef ég tel hjartað með, sem miðju míns tenings, þá eru hér sex hliðar og ég, samtals sjö, átta horn og ég, samtals níu, tólf kantar og ég, samtals þrettán. Hér er komin galdraþulan sjö, níu, þrettán! [Teningurinn] færist með mér hvert sem ég fer […] hann er mitt rými. (bls. 164)
Einstaklingshyggja/sjálfshyggja Þórunnar kemur ekki í veg fyrir að tvær vitundir geti náð saman, þótt samkvæmt henni sé það sjaldgæft, eins og segir í ljóðinu „Ást og þeir vessar“ í Fuglum: „alheimsklukkan / býr til fingraförin / gangandi klukkur með tíu vísum / engar stilltar eins […] svo sýnir hún náð tímaskekkjan mikla / tveir hljóma saman / á sama stað / sá stríði undirhljómur / verður himneskur tónskratti / og dettur áfengur dropi / úr himintunglum“. Til að vega upp á móti þeim örlögum að engar vitundir séu „stilltar eins“, setur Þórunn fram hugmyndina um fúríurnar fjórar, grísku refsinornirnar, sem í skáldsögunni Höfuðskepnum fá nýtt hlutverk (tekið upp eftir rithöfundinum Madison Smartt Bell, úr bókinni Doctor Sleep). Fúríurnar eru persónugerðar sem ljóð, trú, spákúnst og ást, og í Höfuðskepnum verða þær að fyrirsögnum, hver fyrir einn af fjórum hlutum bókarinnar. Í þessum fjórum fyrirbærum virðast vitundir geta náð saman. Fyrirsögn trúarkaflans segir: „þú ert ég / því ég er mestöll vatn / og vatn ert þú“ (bls. 75). Í skáldsögunni Júlíu, þar sem fúríurnar koma einnig fyrir, er lýst hvernig ástin tengir saman vitundir þegar Lena horfir á elskendurna Júlíu og Starkað í samförum: „Sér Júlíu og Starkað sameinast í eina skepnu þessa stund“ (bls. 67). Ljóðið (skáldskapurinn) sameinar vitundir lesanda og ljóðmælanda (skáldsins): „grænar frumur í húð / úthaf laufa / regnskógur erum við / um sólsetur vefjumst saman / í loga“ (Fuglar, bls. 30). Formgerð Höfuðskepna bendir einnig á slíkan samruna lesanda og mælanda. Í bréfaskáldsöguforminu verður lesandinn „patrónn“, viðtakandi bréfanna og ástarviðfang rithöfundarins E.
Allar fúríurnar gegna stóru hlutverki í höfundarverki Þórunnar. Ljóðið, augljóslega sem skáldskapurinn, ljóðræna Júlíu, Höfuðskepna og Alveg nóg kallast á við ljóðabókina Fugla. Ljóðið er líka frjálsust fúríanna, sú sem mestan frið hefur fengið fyrir stofnunum samfélagsins (Höfuðskepnur, bls. 20). Ástin hefur verið „lokuð inni og falin“ (Höfuðskepnur, bls. 20), og fær kannski þess vegna mesta útrás sína í skáldskap/ljóði. Ástin er a.m.k. viðfangsefni allra skáldsagna Þórunnar. Í Stúlku með fingur getur ástin sameinað vitundarrýmin og ástleysið sundrað þeim, eins og Unnur segir: „Ég bý í teningi. […] Það er ósýnilegur teningur utan um J.J. Hann vill ekki lengur inn í minn tening“ (bls. 164). Að trúin skipti hér miklu máli gæti komið spánskt fyrir augu okkar nútímamanna, en trúin er líklega mikilvægasti hlutinn í goðsögunni og þar með heimsmynd einstaklingsins/sjálfsverunnar. „Lífið er furðulegra en skáldskapur. Það er helgisaga“, skrifar Þórunn í Alveg nóg (bls. 18), og endurtekur síðan í lok Stúlku með fingur (bls. 312). Trúin kallar á fórnir og píslarvætti sem bæði koma fyrir aftur og aftur í skáldsögum Þórunnar. Þannig er dauði Júlíu (í samnefndri bók) skipulagður eftir flóknu fórnarritúali Azteka, ætluðu til að lengja líf sólarinnar. E. í Höfuðskepnum er nauðgað, einnig Unni í Stúlka með fingur en þar er nauðgunin beinlínis fórn af hennar hálfu til Guðs. Hún gerist um borð í fjárflutningaskipinu Birninum í miklu óveðri: „Það eina sem ég hugsa er að skipið hljóti að farast og heimurinn allur að ganga úr skorðum og man þá að ég hafði sagt við Guð að ég ætlaði að þola næstu hörmung ef hann bjargaði skipinu“ (bls. 257). Guðrún í Alveg nóg og Sólveig í Hvíta skugganum, líða píslarvætti, Guðrún með missi dóttur sinnar og Sólveig í eigin dauða.
Kannski er erfiðast að útskýra hvernig spákúnstin sameinar tvær vitundir. Þórunn setur þó samasemmerki milli spákúnstar og fræðimennsku í Höfuðskepnum:
ber í barmi gráðugt kvenhjarta
hún Sundfríður með gullmittið
hennar séraukagrein er að hressa
daufa fræðimenn
sem synda í Vesturbæjarlauginni
og þykjast betri
með sín spáljóð (bls. 23)
Hlutverk spákúnstarinnar gæti því verið að búa til nýja vitund, þ.e. hún sameinar gamla vitund einstaklingsins/sjálfsverunnar við nýja. Fræðimennska spilar stóra rullu í skáldskap Þórunnar. Sjálf er hún sagnfræðingur eins og áður hefur komið fram og hefur skrifað bækur og sjónvarpsþætti sem slíkur. Skáldsagnapersónur hennar eru gjarnan fræðimenn eða listamenn sem nota kúnst sína til að koma skipulagi á líf sitt. Segja má að skáldsagnapersónur Þórunnar, hver fyrir sig, tengi saman ólíkar og misgamlar vitundir sínar, og jafnvel annarra, eins og Ágústa púslar saman lífi Júlíu í Júlíu, og Sólveig reynir að samræma hjátrú og efahyggju vísindanna í Hvíta skugganum.
Menn og dýr
Það er engin tilviljun að hrútur sé í miðju þess sjóndeildarhrings sem verður fyrir árás bílsins, í ljóðinu sem vitnað er í hér ofar. Mikilvægur þáttur í höfundarverki Þórunnar er einmitt skyldleiki mannsins við önnur dýr jarðarinnar. Hér erum við í Fuglum: „flugur eru skyldar mönnum“ (bls. 40), „í rauninni erum við eins / nokkur stökk-gen milli okkar / báðar spendýr / ég kona / þú læða“ (bls. 41). Ástæðan er sú að Þórunni er mjög hugleikin þróunarkenning Charles Darwins og hvernig sú kenning kollvarpaði hugmyndum manna um sjálfa sig og Guð. Auk ofanvitnaðra ljóðlína er að finna í Fuglum ljóðið „Galapagoseyjar“, þ.e.a.s. um staðinn þar sem Darwin gerði einna mikilvægustu uppgötvanir sínar, þar sem risaskjaldbökur og sækembur eru „nú eftir milljón ár / komnar í formið sem eyjarnar heimtuðu“ (bls. 42). Í skáldsögunni Stúlka með fingur, sem gerist um og eftir aldamótin 1900, er aðalsöguhetjan (og sögumaðurinn) Unnur gagntekin af Darwin og kenningum hans: „Darwin skynjaði ótrúlega dýpt þróunarsögunnar og ég finn í því styrk að gera hans sýn að minni“ (bls. 196). Svipuð áhrif hefur Darwin á Starkað í Júlíu, sem býður til veislu sögufrægu fólki úr fortíðinni (Júlía er framtíðar/vísindaskáldsaga þar sem slíkt er hægt), þeirra á meðal Darwin: „Darwin sér í gegnum allt eins og ópíumneytandi, og miklu miklu dýpra en hinir. Sér fyrstur manna hinn raunverulega lífsgaldur sem sjá má með því að rýna í eðli lífheimsins“ (bls. 164). Þróunarkenning Darwins er því lykilgoðsaga í heimsmynd Þórunnar (ef hægt er kenna heimsmynd verka hennar við höfundinn en ekki persónur þær er hann hefur skapað), og minnir stöðugt á hve stutt við mennirnir erum í raun frá dýrunum. Þórunn skrifar oft um persónur sem dýr, eða tengir þær við dýr í líkingum og myndhverfingum. Þannig eru Emil og Starkaður kallaðir „karldýr“, þegar þeir koma til sögunnar í Júlíu (bls. 38), og Starkaður spyr Júlíu „ertu ekki dýr sjálf og vilt láta mig elska þig?“ (bls. 39) þegar þau hittast í fyrsta sinn, og vefur saman dýrsleika og ástinni. Í Stúlku með fingur er fólki og persónum víða líkt við dýr, t.d. segist Unnur vera kattleg skepna (bls. 60), og kettir koma líka fyrir í mynd Unnar af samfélaginu: „Stéttirnar sem ráða hér í landi, ráðamennirnir og þeirra lið, finnast mér sem kettir“ (bls. 128). En sú samlíking sem liggur næst þróunarkenningunni, kemur fram í samanburði Þórunnar á samfélagi manna og apa: „Mannfólkið er eins og dýr, ég sé það svo skýrt, við erum mannapar með æ betri vopn“, segir Unnur í Stúlku með fingur (bls. 94). Hámarki nær sá samanburður í Höfuðskepnum, hér er ástalíf manna og apa borið saman:
Menn eru ekki skyldastir hinum einkvænis siðprúðu gibbonöpum, því ólíkt konum eru gibbonfrúrnar alltaf graðar, svo gibbonkarlarnir þurfa ekki annað að sækja sér svölun.
Því miður erum við skyldust simpönsum. Meðal þessara frænda okkar gín hver alfaapi yfir mörgum apynjum. Simpansafrýrnar frænkur okkar hafa nefnilega í sér tunglhring, tímgunarhring eins og við. (bls. 59)
Þungamiðjan í lífi E., sögumanns og söguhetju bókarinnar, er simpansaungi sem heitir ekki neitt nema Api, því að nöfn „bera með sér svo svakalega byrði, mannlega byrði, sem er sem betur fer ekki leggjandi á apa“ (bls. 43). Þessari apalegu nafnaformúlu er svo fylgt í Höfuðskepnum með því að engin persóna heitir neitt, vitundarmiðja sögunnar er sú eina sem fær eitthvað í líkingu við nafn, og það er aðeins einn stafur, E. Í móður-barnssambandi sögumannsins/bréfaritarans E. og apans hefur þróunarsagan snúist við. Apinn er ekki lengur forfaðir mannsins eins og goðsagan um kenningu Darwins „segir“ okkur til um, heldur niðji hans, barn E. Það er heldur ekki einungis í Höfuðskepnum sem Þórunn varpar manninum af toppi þróunarpíramídans. Í þeirri skáldsögu sinni sem mest fjallar um samband móður og barna, Alveg nóg, sér Guðrún, söguhetja og sögumaður bókarinnar, dóttur sína Lísu sem „villibarn“, Lísa minnir á „björn að koma upp úr vök“ og er þessi „mikli litli hugur í vaxandi kjöthjúpi sínum“ (bls. 60). Þórunn afbyggir því stöðu mannsins enn frekar en líffræðin sjálf hefur gert. Hér höfum við líka séð gott dæmi um það hvernig goðsaga, sem áður kollvarpaði eldri goðsögum, er tekin upp og endurunnin af Þórunni.
Kannski má segja að frásagnaraðferð Þórunnar liggi í ofangreindu, að vinna nýjar goðsögur úr gömlum. Efniviðinn sækir hún jafnt úr sögu og vísindum sem trúarbrögðum og skáldskap. Kafli úr sagnfræðiriti eftir Þórunni, Snorra á Húsafelli (1989), gefur þetta til kynna:
Vísindatrúin sem kom í kjölfar upplýsingar eða skynsemisstefnunnar sýnir eins og öll mannleg fyrirbæri vafasöm einkenni ef lögð er á hana of sterk áhersla. Stakkurinn sem vísindahyggjan sníður skynjun mannsins er svo þröngur að segja má að hún kljúfi aldagamla hugmyndafræði, „orð sannleikans“, og útiloki hið óræða svið dulhyggju, táknmáls og hygmyndaflugs. (bls. 273)
Skrif Þórunnar leitast einmitt eftir að jafna þann mun er samfélagið hefur sett milli ólíkra „fræði“-tegunda, með því að vara við of sterkri áherslu á einhverja eina þeirra. Í skáldskap erum við vön að táknmáli, dulhyggju og hugmyndaflugi sé hampað á kostnað raunvísinda, félagsfræði og sagnfræði, og síðan er hlutföllunum snúið við í allri „opinberri“ umræðu. Einstaklingshyggju Þórunnar fylgir góður skammtur af efahyggju sem getur nýtt sér eitthvað úr allri orðræðu, sama hvaða sess hún hefur í samfélaginu, en gerir allt að goðsögum til að vinna úr.
Gróteska
Ef leitað er að fræðilegu hugtaki er náð getur yfir skáldskap Þórunnar, liggur líklega næst við að nefna hugtakið grótesku. Því tengdu verður dýrsleikinn og skepnuskapurinn (Jón Jakob segir við Unni í Stúlku með fingur, „mundu að við höfum hegðað okkur jafn undurvel og sakleysislega og skepnur“ (bls. 304)) að frelsistákni, táknar þá frelsið undan mannlegum boðum og bönnum. Menning er áfall eins og segir í Alveg nóg: „Þegar maður verður fyrir áfalli er best að muna að maður er dýr. Þau gera ekki of mikið úr hlutunum og jafna sig fljótt. Svo lifa þau eins vel og þau geta af því engin menning ruglar þau“ (bls. 12). Frelsið felst í því að átta sig á dýrsleika mannsins en best táknar Þórunn þetta dýrslega frelsi með fuglatáknmyndum. Flug fugla er dýrslegt en um leið handan við eðli mannsins. Fuglar er auðvitað heiti ljóðabókar Þórunnar og bendir á þátt þeirra í höfundarverkinu, en í öllum skáldverkum hennar gegna þeir mikilvægu hlutverki. Í Júlíu má sjá hvernig flug fugla kveikir hugmynd í huga sögumannsins Ágústu, og gefur þannig til kynna að hið dýrslega frelsi sé nauðsynlegt skáldskapnum, sögunni:
smáfuglarnir í garðinum mínum strengja með mynstri sínu gleðilegt tjald um hvolfið. […] Þeir sveipast burt í mynstri, tugum saman, allir sem einn og snúa svo skyndilega við […] Mynstrið sem svo margir frjálsir einstaklingar mynda saman er ótrúlegt [Þeir s]núa augum mínum við svo hugmynd rennur í ramma míns innra auga. (bls. 181)
Líta má á skáldskap Þórunnar einmitt sem mynstur frjálsra einstaklinga. Í Júlíu er allar aðalpersónurnar „ótamdar“ og „sjálfstæðar“, andstætt (framtíðar) þjóðfélagi sem þrífst á tamningu, og eru þess vegna verðugt skáldsöguefni. En persónur í öðrum skáldsögum Þórunnar eru líka að berjast gegn tamningu samfélagsins, þótt örlög þeirra séu ekki að sigra í þeirri baráttu, ef undanskilin er Unnur í Stúlku með fingur, sem brýtur sér leið til meira frelsis en konur áttu að venjast á sögutíma bókarinnar.
Gróteskan birtist í verkum Þórunnar ekki einvörðungu í þeirri stöðugu áminningu að maðurinn sé dýr. Skrif hennar eru líkamleg, í þeirri merkingu að hún fjallar hispurslaust um náttúrulegar þarfir mannsins, ástæðuna er kannski að finna í viðhorfi E. í Höfuðskepnum til skrifa: „Skriftir eru svo naktar, ég er naktari hér við tölvuna en sá litli í kjöltu mér“ (bls. 37). Og náttúrulegar afurðir mannsins leika stórt hlutverk í vitsmunalífi hans, eins og fram kemur í Stúlku með fingur þegar Unnur og Jón Jakob stela kúk undan vinnumanninum Pálma, í mjög gróteskri athöfn: „Hann er undarlegur næstu daga. Þegar kúkur hverfur bilast menn, standa upp, líta niður, ekkert, þá fyrst er dýrið skyni skroppið þegar svona iðratæming með lykt og öllu er ímyndun“ (bls. 77). Gróteskan gerir ekki aðeins manninn að dýri, hún jafnar líka muninn milli fólks, eins og sést aftur í Stúlku með fingur þegar Unnur sem hestastrákur fylgir fínum erlendum mæðgum í reiðtúr: „Dömurnar hafa gengið í hvarf og ég fer fyrir hendingu á sama stað og þær til sömu gjörða. Þessa stund sem við krjúpum í skjóli pilsanna að sinna sömu þörf hverjur allur stéttarmunur, við erum sömu tegundar“ (bls. 58).
Hinni grótesku sýn fylgir ákveðið viðhorf til dauðans sem fram kemur í verkum Þórunnar. Í gróteskunni er dauðinn hluti af stórri hringrás lífsins þar sem lífefni (leita má að heppilegra orði) er unnið og endurunnið. Skýrast birtist þetta viðhorf hjá Þórunni í Júlíu, þegar fjórar persónur gera með sér sáttmála um hvað skuli verða um líkama þeirra eftir dauðann. Júlía, Starkaður, Emil og Aleister gera bandalag á milli sín um að láta grafa sig kistulaus til að syrgjendur geti horft á jurtirnar sem líkaminn breytist í við rotnun. Í orðum Emils kemur fram trúarlegur eiginleiki þessa viðhorfs, þar sem hann sækir sér réttlætingu í heimsbókmenntirnar:
það er kannski kristið að fara í mold, en það heldur manni á sama stað. Beinum línum, kistunni og krossinum er sleppt. Samruninn er málið, viðurkenning á því að maðurinn sé einn af dýrunum en ekki haldinn stórhættulegum hræddum anda sem neitar að deyja, sem valsar um óbeislaður, píndur í víti eða lasinn af sæluleiða. Allt táknmálið, öll ferð Dantes um undirheima er raunveruleg og tilheyrir lífinu. Himnaríki er hér líka. (bls. 89)
Þetta dýrslega, gróteska viðhorf til dauðans snýr út úr því sem kalla má hefðbundna dýrkun á líkinu í menningu okkar. Annað dæmi í verkum Þórunnar er að finna í Alveg nóg, þegar það verður til þess að halda vitinu í Guðrúnu eftir dauða dóttur hennar, Lísu: „Í þessu lenda dýr og þau þola“ (bls. 133). Þar ríkir líka hispursleysi gagnvart líki Lísu, það fær sinn sess í textanum eins og hin lifandi Lísa. Dýrsleikinn fær hlutverk trúarsetningar sem sameinar himinn og helvíti á jörðinni, og allar lífverur í leiðinni.
Áherslu á hringrás lífsins fylgir áhersla á þær athafnir sem tengjast og tengja endurvinnslu og sköpun lífefnis. Hér hefur verið rætt um úrgangslosun og rotnun, en „jákvæðar“ hliðar gróteskunnar eru upptaka efnis, í áti, og sköpun þess, í kynlífi. Matur og matarást leika sitt hlutverk í verkum Þórunnar, t.d. er það kannski engin tilviljun að Guðrún í Alveg nóg er listakokkur. Hin jákvæða hliðin gróteskunnar er þó fyrirferðarmeiri í höfundarverki Þórunnar, sú sem tengist kynlífi og gjarnan er kennd við erótík. Vegna eigin blygðunarsemi vil ég þó frekar nota orðið hispursleysi um skrif Þórunnar fremur en hugtakið erótík. Þórunn er jafn hispurslaus gagnvart kynlífi eins og hún er gagnvart dauðanum og úrgangslosununni, og það skipar jafn hversdagslegan sess í textanum. En kynlífið er sjaldan langt frá ástinni, sem skiptir gróteskuna miklu máli því hún er hvatinn til nýs lífs. Til er kynlíf sem meiðir eins og nauðganirnar tvær í Höfuðskepnum og Stúlku með fingur bera með sér. En þegar kynlíf og ást fara saman, upphefja þau mörkin milli vitunda, milli vitundar og náttúru, jafnvel milli lífs og dauða á augnablikinu sem nýtt líf getur orðið til. Í Hvíta Skugganum má sjá hvernig kynlíf og fegurð fara saman í huga Sólveigar:
Auðvitað eru þetta kynlífsorg, hugsar hún þegar hún kemur út aftur og heyrir gargið í fuglunum. Mikið var hún vitlaus. Fegurðin er í kynlífinu [...] Þessi fegurð yfir Tjörninni er sprottin úr klofinu. (bls. 107)
Og úr fegurð fuglasöngs er ekki langt skref yfir í fegurð listarinnar. Kannski er öll sköpun komin frá sköpunum, slík gæti kennisetning Þórunnar a.m.k. verið!
© Unnar Árnason, 2003
Greinar
Almenn umfjöllun
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: „Gen kvenna þurfa að jafna sig. Rætt við Þórunni Valdimarsdóttur sagnfræðing.“
Vera, 8. árg., 6. tbl. 1989, s. 20-22.
Sigfús Bjartmarsson: „Viðtal við Þórunni Valdimarsdóttur sagnfræðing.“
Teningur 1991 (7), s. 2-5.
Um einstök verk
Af halamiðum á Hagatorg
Helgi Skúli Kjartansson: „Af halamiðum á Hagatorg“
Skírnir 1987 (vor), s. 168-171.
Alveg nóg
Dagný Kristjánsdóttir: „Du er hvad du gör / You are what you do“
Um bók Þórunnar og nokkrar aðrar bækur eftir íslenskar skáldkonur. Í Nordisk litteratur, 1998, s. 70-71.
Sólveig Jónasdóttir: „Miklu meira en alveg nóg.“
Vera, 16. árg., 6. tbl. 1997, s. 55.
Súsanna Svavarsdóttir: „Í frosnum draumi.“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 2. tbl. 1998, s. 157-160.
Horfinn heimur
Erla Hulda Halldórsdóttir: „Horfinn heimur.“
Saga, 41. árg., 1. tbl. 2003, s. 234-237.
Höfuðskepnur
Marín Guðrún Hrafnsdóttir: „Höfuðskepnur“
Vera, 13. árg., 6. tbl. 1994, s. 27.
Júlía
Þórunn Sveinbjarnardóttir: „Júlía“
Vera, 11. árg., 6. tbl. 1992, s. 34.
Kalt er annars blóð
Heimir Pálsson: „Grein um sögu um glæp“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 3. tbl. bls. 128-34.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Höggva hagg huggum hoggið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Leikfélag Reykjavíkur. Aldarsaga
Jón Viðar Jónsson: „Af óskrifaðri leiklistarsögu“
Andvari 1998, s. 129-157.
Kristján Jóhann Jónsson: „Saga í sviðsljósi.“
Ný saga 1998, 10, s. 71-80.
Mörg eru ljónsins eyru
Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir: „Flutningur Laxdælu til nútímans“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., vetur, bls. 12.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Eiginmaður deyr“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sól í Norðurmýri
Ragnheiður Kristjánsdóttir: „Sól í Norðurmýri“
Vera, 10. árg., 1. tbl. 1991, s. 34.
Snorri á Húsafelli
Kristín Ástgeirsdóttir: „Snorri frá Húsafelli. Saga frá 18. öld“
Vera, 9. árg., 3. tbl. 1990, s. 36.
Loftur Guttormsson: „Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld“
Saga, 28. árg. 1990, s. 244-254.
Már Jónsson: „Spuni og saga“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 3. tbl. 1990, s. 103-110.
Sigríður Th. Erlendsdóttir: „Snorri á Húsafelli“
19. júní, 40. árg. 1990, s. 64-65.
Stúlka með fingur
Sigfríður Gunnlaugsdóttir: „Lögmál og líkami.“
Vera, 18. árg., 6. tbl. 1999, s. 58.
Preben Meulengracht Sörensen: „Færösk familiekronike, islandsk kærlighedshistorie og hjemstavnsparodi / A family chronicle from the Faroes, a love story from Iceland and an Icelandic parody on regional literature.“ (Um bók Steinunnar og 2 aðrar bækur). Í Nordisk litteratur 2001, s. 42-46.
Stúlka með maga
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2014, 9. árg., 1. tbl. bls. 162-7.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Í leik með víddir og veruleika“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 4. tbl. bls. 136-40.
Sveitin við Sundin
Guðmundur Jónsson: „Daglegt brauð Reykvíkinga“
19. júní, 37. árg. 1987, s. 37.
Guðrún Ólafsdóttir: „Sveitin við sundin“
Vera, 5. árg., 6. tbl. 1986, s. 36-37.
Magnús Guðmundsson: „Sveitin við sundin: búskapur í Reykjavík 1870-1950“
Saga, 25. árg. 1987, s. 219-223.
Upp á sigurhæðir
Ásdís Káradóttir: „Á brattann til stjarnanna“ (ritdómur)
Stjórnmál og stjórnsýsla 2006, 2. árg., 2. tbl.
Erla Huld Halldórsdóttir: „Upp á Sigurhæðir: saga Matthíasar Jochumssonar“ (ritdómur)
Saga 2007, 45. árg., 1. tbl. bls. 214-9.
Guðmundur Magnússon: „Skáldið á Sigurhæðum“
Þjóðmál 2006, 2. árg., 4. tbl. bls. 90-2.
Heimir Pálsson: „Tungviktare i litteraturhistorien: en kronika“
Scripta Islandica 2007, 57. tbl. bls. 123-47.
Hjalti Hugason: „Að endurskapa einstakling: um ævisagnaritun með sérstakri hliðsjón af sögu Matthíasar Jochumssonar“
Andvari 2007, 132. tbl. bls. 99-113.
Kristján Jóhann Jónsson: „Í kúskinnsskó, eð háan silkihatt“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. bls.
Greinar um verk Þórunnar og viðtöl við hana hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins.
Verðlaun
2013 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Stúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum
2011 – Rauða hrafnsfjöðrin: Dagur kvennanna – ástarsaga (ásamt Megasi)
2008 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2006 – Viðurkenning Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða: Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar (sem besta frumsamda fræðibók ársins)
2000 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Stúlka með fingur
1992 – Fyrstu verðlaun í örverka samkeppni Bjarts og Emilíu: Örsögur í Bjarti og frú Emilíu 1, 1992
Tilnefningar
2013 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Stúlka með maga
2010 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Mörg eru ljónsins eyru
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Kalt er annars blóð
2006 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fræðibækur): Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar
2007 – Heiðursverðlaun Hagþenkis: Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar
2001 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Stúlka með fingur
2000 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fræðibækur): Kristni á Íslandi (sem einn höfunda í 4 binda verki)
1989 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fræðibækur): Snorri á Húsafelli
1997 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Alveg nóg
Spegill íslenskrar fyndni
Lesa meiraÍslensk fyndni kom út um miðbik 20. aldar. Á seinni árum hafa margir efast um að rit þetta sé í raun og veru fyndið. Fræðileg úttekt Þórunnar Valdimarsdóttur á ritinu er greining á meintum gamanmálum og rannsókn á íslenskri menningu.Bærinn brennur
Lesa meiraÁrið 1828 myrti Friðrik bóndasonur í Katadal nágranna sinn, bóndann og lækninn Natan Ketilsson á Illugastöðum í HúnavatnssýsluVillimaður í París
Lesa meiraStúlka með höfuð: sjálfsævisaga
Lesa meiraStúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum
Lesa meiraMeð sumt á hreinu : Jakob Frímann Magnússon lítur um öxl
Lesa meiraDagur kvennanna
Lesa meiraantennae scratch sky (scratch scratch)
Lesa meira