Beint í efni

Oddaflug

Oddaflug
Höfundur
Guðrún Helgadóttir
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2000
Flokkur
Skáldsögur

Oddaflug er fyrsta skáldsaga Guðrúnar fyrir fullorðna. Þetta er saga Katrínar Ketilsdóttur, manns hennar og fjögurra dætra - og sonarins sem þau misstu. Tilvera þeirra virðist í föstum skorðum en ekki er allt sem sýnist og undir liggja óuppgerð, sársaukafull mál.

Úr Oddaflugi:

Katrín og Loftur sátu undir suðurveggnum. Hlý golan blés hvítum hárlokkunum fyrir andlitið á henni og hún festi þá stöðugt með spennu. Það dugði ekki.
Leyfðu mér að líta á þessa hárspennu, sagði Loftur.
Flestu þarftu nú að skipta þér af, sagði Katrín og rétti honum spennuna.
Sérðu ekki, kona, að hún er farin að gliðna? spurði Loftur. Hún er alveg gagnslaus svona. Áttu ekki einhverja töng svo ég geti hert hana?
Katrín dæsti. Þú ert nú stundum þreytandi, sagði hún og fór inn og kom að vörmu spori með lítil skæri. Hann klemmdi saman spennuna og því var ekki að neita að hún hélt lokkunum betur í skefjum.
Þú hefðir aldrei átt að láta mig róa, sagði Loftur sigri hrósandi. Hann Sæmundur hefði ekki einu sinni tekið eftir því þó að þú værir með hárið niðri í augum. Hann hefði gapað upp í þig þó þú værir með hausinn undir hendinni.
Katrín hló. Það segirðu satt. Ég varð nú heldur ekki vör við að þú hirtir mikið um hárgreiðsluna á henni Eddu.
Nei. Hún var góð kona, hún Edda. Betri en ég átti skilið. Hefði hún bara getað gert fyrir mig það eina, sem mig langaði til.
Konum er ekki skylt að eignast börn, svaraði Katrín með þykkju. Auk þess hefði hún alið þér börn ef hún hefði getað það. Og reyndar sagði hún mér að þú hefðir vitað allt um það þegar þið giftust.
Mér var sama þá, sagði hann. Búinn að horfa á eftir þér hingað upp að Hrauntjörn.
Vertu ekki með þessa vitleysu, sagði Katrín afundin. Ykkur leið ágætlega saman.
Ég losaði mig aldrei við þig, sagði Loftur eins og hann væri að upplýsa staðreynd.
Þú varst nú bara heppinn þar, sagði Katrín. Fáðu þér skonsu. Hún hellti kaffi í bollann hans. Hvar heldurðu að þú værir staddur ef þú hefðir ekki mig? Og ég þig? Hvað heldurðu að það sé margt fólk sem getur talað saman um beinlínis allt? Heila ævi? Vertu bara feginn, gamli minn. Og gleymdu því ekki að þú hafðir ýmislegt gagn af mér. Fékkst að nota glósurnar mínar allan menntaskólann. Þú varst svoddan dauðans sleði í náminu.
Stundum var ég nú bara að gera mér ferð til þín, sagði Loftur og horfði sposkur á hana. Skelfing ertu falleg, Katrín.
Hvolfdu nú í þig kaffinu. Okkur vinnst ekkert með þessu móti. Það er einhver fjandans elfting í gulrótarbeðinu.

(s. 106 - 107)

Fleira eftir sama höfund

I Troll Islandesi

Lesa meira

Islandi trollilugu

Lesa meira

Ekkert að marka!

Lesa meira

Ekkert að þakka!

Lesa meira

Flumbra : an Icelandic Folktale

Lesa meira

Flumbra: en islandsk troldemor

Lesa meira

Í abbasa húsi

Lesa meira

Í afahúsi

Lesa meira

Jon Egil og Jon Bjarne

Lesa meira