Beint í efni

Ljúlí ljúlí

Ljúlí ljúlí
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Ljúlí Ljúlí er fyrsta skáldsaga Guðrúnar Evu. Hún fjallar um unga menntaskólastúlku sem býr með föður sínum og fjórum vinum hans. Þessi litla fjölskylda er samheldin og innileg þar til stúlkan og einn af vinum föðurins hefja flókið og tilfinningaþrungið ástarsamband.

Úr Ljúlí ljúlí:

Sumar bókasafnskonur eru nákvæmlega eins og manni finnst þær eigi að vera og þannig var einmitt þessi; í hnésíðu pilsi, silkiblússu og glansandi konuskóm með hógværum hæl. Með kvikar hreyfingar, blíðlegan svip og illa dulinn áhuga fyrir henni sem oft sá út undan sér að verið var að skoða hana í krók og kring.
Einn daginn var hún svo allt í einu komin, með ilmvatn í hálsakotinu og gullhöfrung nældan í kragann. Hún strauk um mjaðmirnar eins og til að laga pilsið enda þótt engin þörf væri á og sagði:
- Þér er auðvitað velkomið að vera hérna eins mikið og þú vilt, en langar þig ekki að fara með bækurnar heim til þín?
- Ég veit það ekki, svaraði hún.
- Það er miklu notalegra fyrir þig, sagði konan og tók af henni nafn, heimilisfang og kennitölu. Hún baukaði smástund bak við afgreiðsluborðið og kom aftur með plastað skírteini og rétti henni með þeim orðum að það gilti í ár og að hún mætti hafa bækurnar í fjórar vikur í senn.
- Kostar það ekkert? spurði hún.
- Sama og ekkert, þú borgar það bara seinna.
Hún var á báðum áttum en konan hló og sagði: - Láttu nú ekki eins og ég sé að gefa þér allan heiminn.
- Ég veit ekki hvenær ég get borgað, sagði hún.
- Ussussuss, sagði konan og dró þúsund króna seðil upp úr lítilli buddu og rétti henni.
- Nei, sagði hún.
- Taktu nú við þessu. Mig munar ekkert um einn svona bleðil. Ég sé þig svo oft og þú ert alltaf í sömu fötunum. Mig langar bara að gefa þér þetta, svona nú.
- Ég held mér finnist betra að eiga ekkert heldur en einn þúsundkall sem einhver hefur gefið mér, sagði hún.
- Þú getur bara eitt honum um leið og þú kemur út, brosti konan.
- Allir ættu að tala eins og þú, sagði hún og fannst það ekki sér líkt að tala svona en gat ekki stillt sig um að segja eitthvað fallegt.
- Sko, sagði konan og fór eitthvert á bak við.

Hún kom við í skranverslun og keypti uglu úr hvítu snæri með birkigreinar fyrir augu og fætur, oddhvöss eyru og skrýtið skott.
Næstum komin heim á Hverfisgötuna þegar einhver kom á móti henni með skínandi belginn yfir buxnastrengnum af því að bolurinn náði ekki almennilega utan um. Hann spurði hvort hún ætti tvöhundruðkall fyrir rauðspritti og blygðaðist sín ekkert. Hún lét hann fá afganginn af peningunum og létti þegar hann var úr augsýn.

(s. 134-135)

Fleira eftir sama höfund

Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss

Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira

Pendant qu’il te regarde tu es la Vierge Marie

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira