Beint í efni

Rán

Rán
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur


Um bókina:

Öll sín fullorðinsár hefur Rán lifað og starfað fjarri heimahögunum, mótast og þroskast á framandi slóðum. Nú er hún á leið frá heimili sínu og manni í Sviss til fósturjarðarinnar, Íslands, með viðkomu í Barcelona þar sem hún átti viðburðaríkt líf á æskuárum.
 
Rán hefur fáu gleymt þótt borgin hafi breyst og ferðin verður stefnumót við fortíðina – hún þarf að horfast í augu við liðna tíma og glataðar hugsjónir. En það þarf hugrekki til að halda inn í þyrnóttan minningaskóginn og rifja upp kynnin við eldhugann og andófsmanninn Roberto; sársauki fortíðarinnar „ýfist upp eins og hún hafi skilið hann eftir á miðri Montcadagötu endur fyrir löngu og hann beðið hennar allan þennan tíma eins og tryggur hundur.“

Úr Rán:

Farið er að rökkva þegar við Mado göngum saman upp stíginn í átt að innkeyrslunni þar sem hún geymir bílinn sinn. Mado ætlar á stefnumót og er þess vegna á háhæluðu skónum sem hún hafði sparkað af sér inni hjá mér. Hún stakk hendinni í handarkrikann á mér eins og í gamladaga þegar hún vildi segja eitthvað í trúnaði. Hún segir mér frá Jean-Luc. Hann er sá lukkulegi í kvöld. En Mado segir aldrei skipulega frá, hún byrjar á öfugum enda, er svo stokkin til hliðar við frásöguna og flækist í löngum útúrdúr. Það tekur sinn tíma að átta sig, en loks rennur upp fyrir mér að Jean-Luc er hvorki meira né minna en æskuástin hennar. Ég nem staðar, hleypi brúnum og læt Mado vita að mér sé ekki nokkur leið að skilja hvernig hún geti gert sömu skyssuna æ ofan í æ. Í huga hennar hrærðist ástin á einhverju óræðu plani þar sem straumar mættust og stundum hlaust blossi af. Ég segi henni það, segi að hún ætti að vera minnug þess hvernig önnur æskuást, hann Claude, hafi leikið hana. Það sé ekki unnt að endurheimta fortíðina. Við hefðum glatað æskunni fyrir löngu og vildi Mado endilega fara á séns ætti hún að velja mann sem hún hefði aldrei augum litið né vissi deili á. Mado segirað ég sé skynsemin uppmáluð, en skynsemin leiddi ekki nokkurn mann á vit ævintýra og þess vegna ætlaði hún að láta orð mín sem vind um eyrun þjóta. Ég hefði aldrei annað um dagana gert en það sem ætlast var til af mér.

Þarna gekk Mado of langt, ég þykktist við og við göngum þegjandi upp stíginn. Bíllinn hennar er á sínum stað í innkeyrslunni og fyrr en varir er hún sest inn og búin að setja í gang.

- Reyndu að horfast í augu við staðreyndir! æpi ég hálfbogin við bílrúðuna. Hún rúllar niður og brosir breitt.

- Reyndu það sjálf, Rán, ekki veitir af. Þú lifir í eigin heimi.

Mado ekur af stað með rykkjum og er ekki að hafa fyrir því að kveðja, en þegar hún er komin í gegnum hliðið og út á veginn lyftir hún hendi um opinn gluggann í kveðjuskyni. Ég hleyp á eftir bílnum, veifa og horfi á hann fjarlægjast. Það er hrollur í mér, ég má ekki láta mér verða kalt svona rétt fyrir ferðina og kem auga á mann handan götunnar. Ég þori að veðja að hann horfði í áttina til mín. Skuggalegur er hann. Í síðum frakka með belti sem hangir laust niður og hattkúf á höfðinu. Börðin slúta og skyggja á efri hluta andlitsins. Mér líst ekki á kauða. Hvað var hann að gera á fáfarinni götu? ekki er hann að bíða eftir strætó, stoppistöðin er ofar þar sem akrarnir taka við. En sé hann ekki að góna á mig virðir hann húsið mitt fyrir sér. Þá fyrst skynja ég alvöru þess að vera ein í nótt.

(24-5)

Fleira eftir sama höfund

Le Passage de l'Èbre

Lesa meira

Sagan og undraborgin

Lesa meira

Das haben Menschen getan

Lesa meira

Hringsól

Lesa meira

Hvatt að rúnum

Lesa meira

Errances

Lesa meira

Irrfärd

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Fórnarleikar

Lesa meira