Æviágrip
Sif Sigmarsdóttir er fædd í Reykjavík 30. nóvember árið 1978. Hún starfar sem rithöfundur og blaðamaður á Íslandi og í Bretlandi og fæst við skrif bæði á íslensku og ensku. Hún hefur skrifað fjölda bóka á báðum tungumálum sem hafa meðal annars hlotið tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Hún starfar sem pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu og skrifar reglulega fyrir breska fjölmiðla á borð við The Guardian, The Independent og The Bookseller.
Sif lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sif hélt í kjölfarið til Bretlands til framhaldsnáms og útskrifaðist með MA í bókmenntum frá University of Reading.
Fyrsta skáldsaga Sifjar, unglingabókin Ég er ekki dramadrottning, kom út árið 2006. Hún varð söluhæsta íslenska unglingabók ársins. Bók hennar, Freyju saga – Múrinn, fantasía fyrir unglinga byggð á norrænni goðafræði, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Bókin Sjúklega súr saga, Íslandssaga í léttum dúr fyrir unglinga sem myndskreytt var af skopmyndateiknaranum Halldóri Baldurssyni var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkur.
Fyrsta skáldsaga Sifjar sem skrifuð er á ensku er bókin I am Traitor. Bókin er gefin út af Hachette, stærstu bókaútgáfu Bretlands. Önnur bók Sifjar sem skrifuð er fyrir enskan markað er bókin The Sharp Edge of a Snowflake. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála.
Árið 2007 stofnaði Sif bókaútgáfuna Handtöskuseríuna, sem gaf út ritröð þýddra skáldsagna eftir konur. Á vegum seríunnar komu út í fyrsta sinn á íslensku höfundar á borð við Audrey Niffenegger, Monica Ali, Karen Joy Fowler, Candace Bushnell og Anna Gavalda. Klúbburinn óx hratt og keypti Forlagið útgáfuna.
Heimasíða Sifjar: http://www.sifsigmarsdottir.com/
Um höfund
Frá dramadrottningu til lausnara mannkyns - og ýmislegt þar á milli -
umfjöllun um verk Sifjar Sigmarsdóttur
„Litlar stelpur selja ekki“ segir mamma Emblu Þorvarðardóttur, aðalpersónunnar í Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu - enn af raunum Emblu Þorvarðardóttur. Bókin er önnur skáldsaga Sifjar Sigmarsdóttur og kom út árið 2007. Mamma Emblu er að skrifa barnabók sem byggir á bernskubrekum Emblu, en hefur fengið þau skilaboð frá ritstjóranum sínum að bækur um hunda og talandi plómur selji betur en bækur um stelpur (11). Í Sjúklega súrri sögu, sem kom út árið 2018 og er nútímalegt yfirlit Sifjar og teiknarans Halldórs Baldurssonar um Íslandssöguna bendir sögumaðurinn og sagnfræðingurinn Sif á að konur séu nánast algerlega ósýnilegar í sögubókunum. Fjarvera þeirra sé reyndar áberandi þegar að er gáð.
Sif Sigmarsdóttir hefur sent frá sér sex skáldsögur fyrir ungt fólk og ofangreinda sögulega fræðibók, síðustu tvær skáldsögur hennar hafa komið út í Bretlandi og á ensku en verið þýddar á íslensku. Í verkunum leggur hún sitt að mörkum til að auka sýnileika kvenna á öllum vígstöðvum. Skáldsögur Sifjar tilheyra mismunandi bókmenntategundum en eiga það sameiginlegt að fjalla um ungar konur, sem búa við ólíkar aðstæður og hafa ólíkan bakgrunn en eiga það sameiginlegt að vera að fóta sig í lífinu og finna sínar eigin leiðir. Verkefnin sem lögð eru fyrir þær eru æði misjöfn, allt frá því að takast á við búferlaflutninga með fjölskyldunni, fyrstu ástina og hallærislega foreldra yfir í að bjarga mannkyninu frá sjálfu sér eða öruggri glötun. Sterk tenging við nútímann einkennir allar bækurnar og vísanir í forna og nýja menningu, tækniþróun og siðferðileg álitamál eru áberandi.
Dramadrottning segir frá
Embla Þorvarðardóttir er sem sagt aðalpersóna bókanna Ég er ekki dramadrottning- raunir Emblu Þorvarðardóttur sem kom út árið 2006 og Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu - enn af raunum Emblu Þorvarðardóttur sem kom út ári seinna. Í þeim fær lesandinn innsýn í líf og raunir hinnar 14 ára gömlu Emblu, sem er að mati fólksins í kringum hana frekar dramatísk týpa. Hún á það til að ofhugsa allt og bregðast við minnstu vandamálum eins og um heimsendi væri að ræða.
Í upphafi fyrri bókarinnar býr Embla ásamt mömmu sinni, stjúpa og litla bróður í Reykjavík, gengur í skóla, hittir vinkonur og er hrifin af hrikalega æðislegum strák sem veit varla að hún er til. Hún veltir sér upp úr hverju orði sem hann slysast til að láta út úr sér og hverri augngotu, sem hún túlkar í þaula ásamt misáhugasömum og mis-stuðningsríkum vinkonum. Öll vinna Emblu við að vekja áhuga hans fer hins vegar fyrir lítið þegar mamma hennar tilkynnir að þau ætli að flytja til London á meðan stjúpi Emblu stundar nám þar. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir Emblu til að fá mömmu sína til að skipta um skoðun verður áformunum ekki haggað. Þegar til London er komið reynist hugmyndin svo reyndar kannski ekki eins slæm og Embla átti von á og kemur í ljós að þar er ýmislegt áhugavert og spennandi, eins og til dæmis frekar sætur og skemmtilegur strákur sem vill svo til að býr í sama húsi og þau fjölskyldan.
Í seinni bókinni hafa málin snúist algerlega við. Mamma Emblu hefur nú ákveðið að stytta dvölina í London svo hún geti fylgt eftir útgáfunni á barnabókinni sem hún hefur verið að vinna að. Emblu finnst bæði bókaútgáfan og flutningarnir afleitar hugmyndir, bæði vegna þess að bókin fjallar um Emblu sjálfa og svo á Embla núna kærasta í London sem hún vill alls ekki fara frá. Hún fær hins vegar engu ráðið frekar en fyrri daginn og neyðist til að fara aftur til Íslands. Hún fer aftur í gamla skólann sinn og gamla bekkinn og reynir að falla aftur í sama formið en áttar sig á því að það er ekki eins auðvelt og hún hélt, ýmislegt hefur breyst og kannski ekki síst hún sjálf.
Þegar bækurnar um Emblu komu út voru blogg, eða vefdagbækur, vinsæl leið til að tjá sig við umheiminn um allt milli himins og jarðar. Embla er nútímakona og notar einmitt bloggið sitt til að létta á hjarta sínu og tjáir sig þar í ákveðnum bloggstíl, telur til dæmis upp bólur á nefi og orð dagsins, hver staðan í lífi hennar er á dramaskjálftamæli og segir svo á frekar persónulegan hátt frá því sem á daga hennar drífur. Í þessu ljósi er athyglisvert að velta fyrir sér þróun samfélagsmiðla og viðhorfi okkar til þeirra þar sem sjálfsritskoðun tíðkaðist varla á bloggum og allt var látið flakka. Eins og sjá má í Í Sharp Edge of a snowflake sem fjallað verður um hér á eftir hefur viðhorfið til tjáningar á netinu breyst töluvert síðan.
Frásögnin er fléttuð saman úr færslum Emblu á blogginu og svo annars konar fyrstu persónu frásögn þar sem Embla fer nánar ofan í saumana á því sem gerist í lífi hennar. Dagsetningar á bloggfærslunum afmarka frásögnina í tíma og athugasemdir sem vinkonur Emblu skrifa við þær gefa örlítið annað sjónarhorn á frásögnina. Bækurnar eru báðar skrifaðar í léttum og gamansömum stíl. Viðbrögð Emblu við hinum ýmsu atburðum í lífi hennar eru gjarnan stórkostleg og yfirdrifin en þó að oft skapist kómískar aðstæður og líf hennar sé að eigin mati frekar dramatískt má sjá hvernig hugmyndir hennar og viðhorf breytast smám saman. Hún þroskast og lærir að anda rólega, fylgja eigin sannfæringu og skilja sjálfa og umheiminn betur.
Hlekkir hugans
Með Freyju sögu kveður við myrkari tón í skrifum Sifjar. Sagan er dystópísk framtíðarsýn og skiptist í tvær bækur, Múrinn (2013) og Djásn (2014). Sögusviðið er Ísland eftir rúm hundrað ár þar sem samfélagið hefur breyst töluvert frá því sem við þekkjum. Byggð hefur færst inn í landið eftir ýmsar hamfarir og í kjölfar stríðsátaka hafa íbúar borgarinnar Dónol einangrast frá umheiminum. Umhverfis borgina hefur verið reistur ókleifur múr sem gegnir því hlutverki að vernda íbúana, en lokar þá að sama skapi inni. Í Donól er rafmagn munaðarvara og fátækt útbreidd, einráður leiðtogi stjórnar harðri hendi. Varðsveitir hans þramma um göturnar og hneppa hvern þann í fangelsi sem óhlýðnast á einhvern hátt, og jafnvel fyrir engar eða vafasamar sakir.
Aðalpersónan og miðpunktur frásagnarinnar er unglingsstúlkan Freyja, sem elst upp munaðarlaus hjá ömmu sinni. Hún veit fátt um foreldra sína og uppruna. Þegar sagan hefst er Freyja að klára níunda bekk en við þau tímamót eru unglingar í Dónol tekin í fullorðinna manna tölu og fá framtíðarstörfum sínum úthlutað. Freyja vonast eftir því að fá að læra verkfræði en þegar draumar hennar verða að engu brýst uppreisn sem hefur ólgað innra með henni upp á yfirborðið. Á sama tíma sækja myrkir skuggar inn í Dónol, fólk sem tilheyrir ekki borginni og sem virðist eiga erindi við Freyju. Þegar Freyja kemst smám saman á snoðir um raunverulegan uppruna sinn og ástæðuna fyrir því að Dónol er lokuð af frá umheiminum styrkist hún í áformum sínum um að hún verði að gera allt sem hún getur til að frelsa borgina. Hún þarf að komast út fyrir múrinn og fær vini sína með sér í lið, en hættan er mikil og erfitt að vita hverjum er hægt að treysta.
Djásn gerist nokkrum mánuðum eftir lok fyrri bókarinnar. Freyju hefur tekist ætlunarverk sitt og brotist út úr Dónol, en þurft að fórna miklu í leit sinni að frelsi. Hún hefur fundið samastað í borginni Vanheimum, sem virðist á yfirborðinu fullkomin andstæða Dónol. Lífið þar einkennist af ofgnótt og óhóflegri neyslu, en jafnframt af nánast gagnrýnislausri dýrkun á leiðtoga borgarinnar, sem hefur náð völdum yfir megninu af hinum frjálsa heimi utan Dónol. Þegar Freyja fer að ná áttum í nýju heimkynnum sínum sér hún að fólkið í Vanheimum er ekki eins frjálst og það heldur þó að hlekkirnir séu annars eðlis en í Dónol. Hér er fólki haldið í greipum botnslausrar neysluhyggju og steypir sér umhugsunarlaust í himinháar skuldir til að fullnægja þörfum sem það er sannfært um að það verði að uppfylla til að vera hamingjusamt. Eftir fátæktina og skortinn í Dónol heillar hugmyndin Freyju í fyrstu en smám saman sér hún að undir gljáfægðu yfirborðinu eru myrkari öfl að verki. Framtíðin sem Freyja hefur fórnað öllu fyrir er í húfi og hún neyðist til að umturna lífi sínu enn á ný til að finna frelsi.
Hvor bók um sig gerist á rétt um viku og er kaflaskipt eftir vikudögunum; með þessu móti myndast ákveðinn hraði í frásögninni, en margt getur gerst á einni viku eins og Freyja kemst að. Leit hennar að frelsi, sannleika og réttlátu samfélagi eru meginþemu í báðum bókum en þessir þættir eru skoðaðir frá ýmsum sjónarhornum. Eitt sterkasta aflið sem Freyja á við að etja og þarf að sigrast á er ótti, bæði hennar eigin og annarra. Ótti er ráðandi afl í Dónol og Freyja heldur í fyrstu að það sé ógnin sem stafar af leiðtoganum Zheng sem heldur fólkinu í fjötrum, en málið reynist vera flóknara en svo. Zheng hefur einungis fundið leið til að nýta sér þrá fólks eftir öryggi með því að snúa henni gegn þeim:
„Því óttinn gerir fólk að heiglum og hrætt fólk smíðar sér sína eigin hlekki. Meðan ég hef óttann á mínu bandi sér fólkið sjálft um að viðhalda þeim.“ Zheng hló holum hlátri. „Ég þurfti aðeins að sá fræjunum og íbúarnir sáu um að dreifa þeim; Dagblaðið, slúðrandi kerlingar við brunninn, rolulegir karlmenn á brugghúsinu eftir nokkra drykki – allir hjálpuðust að við að kynda undir hræðslunni hver hjá öðrum. Mér nægði að viðhalda óttanum með því að koma annað slagið af stað orðrómi um nýjan sjúkdómsfaraldur, láta myrða nokkra ólukkans útigangsmenn og fullyrða að raðmorðingi gengi laus eða kveikja í Bókasafninu og klína því á hina Utanaðkomandi.“ (Múrinn 347)
Með þessum orðum leiðtogans verður það ofurefli sem Freyja á við að etja ljóst, “[þ]að er ekki Múrinn sem umlykur borgina sem heldur ykkur inni heldur múrinn í höfðinu á ykkur. Ykkar eigin ótti. Ykkar eigin hömlur” (347-348). Í raun er hið sama uppi á tengingunum hjá íbúum Vanheima, þar sem fólkinu er varla sjálfrátt í ímyndaðri þörf sinni fyrir gagnslausa hluti. Á meðan fólkið kaupir og kaupir og vinnur fyrir skuldunum geta leiðtogarnir athafnað sig í friði, án þess að þurfa að beita valdi. Það þarf rétt að ota fólki í rétta átt og það fer sjálfviljugt í fjötrana. Þannig er í Múrnum og Djásn varpað ljósi á tvær leiðir að sama takmarki, leiðir til að auka völd og halda fólki í skefjum og það er ekki erfitt að draga hliðstæður með okkar eigin samtíma í þessu samhengi.
Uppruni og þróun samfélagsins sem Freyja býr í er kynntur jafnt og þétt og rakinn frá okkar tímum til framtíðarinnar á tímum Freyju. Vísanir í samtíma okkar og frekar nýliðna fortíð eru áberandi en Freyja upplifir ákveðinn söknuð eftir þeim horfna heimi sem eitt sinn var í upphafi 21. aldarinnar þar sem lífið var einfaldara og betra að hennar mati. Freyja kynnist ólíkri söguskoðun í Dónol og Vanheimum og það vekur hana til umhugsunar það hvað er rétt og hvað er satt. Hún veltir því fyrir sér hvernig það hefur áhrif á frásagnir af liðinni tíð hver túlkar söguna og hverra hagsmuna viðkomandi hefur að gæta. Veruleikinn er ekki eins klipptur og skorinn og hann virðist á yfirborðinu í þessu samhengi og Freyja áttar sig á því opinber söguskoðun er yfirleitt sú sem gagnast best valdhöfum. Reynsla hennar af lífinu í borgunum tveimur kennir henni að gagnrýnin hugsun og sjálfstæður vilji er mesta ógnin við þá sem vilja stýra umræðunni og þagga ákveðin sjónarmið niður til að auka sinni eigin hróður.
Ógnin utan úr geimnum
Í Ég er svikari er önnur unglingsstúlka í aðalhlutverki. Bókin kom fyrst út á ensku árið 2017 undir titlinum I am traitor og var þýdd á íslensku árið 2019. Sagan gerist í London nútímans en árás utan úr geimnum ógnar mannkyninu. Geimskip sveima yfir borgum heims og samfélagið er í lamasessi. Enginn veit almennilega hvað geimverunum gengur til eða hvert erindi þeirra er við jarðarbúa, en eitt er þó ljóst, unglingum er rænt í stórum stíl og þeir fluttir upp í geimskipin. Geimverurnar virðast vita nákvæmlega hvar þá er að finna og láta ekkert stöðva sig.
Amy er 14 ára og líf hennar hefur umturnast frá því að geimverurnar sáust fyrst. Fjölskyldan er innilokuð á heimilinu, oft rafmagnslaus og vistir eru smám saman að verða upp urnar. Vinir hennar hverfa einn af öðrum en á einhvern óskiljanlegan hátt tekst Amy að sleppa. Enginn endir virðist þó ætla að verða á mannránum og þegar foreldrar vinkonu Amy biðja hana um aðstoð við að koma skilaboðum til andspyrnuhreyfingar í einu geimskipana sér Amy að hún á engra annarra kosta völ. Lífið verður aldrei samt hvort sem er. Hún stillir sér upp sem tálbeitu og bíður þess sem verða vill.
Líkt og í bókunum um Emblu Þorvarðardóttur er frásögnin hér römmuð inn af dagbókarfærslum Amy, en þar sem hún getur ekki treyst á rafmagn notast hún við hefðbundna dagbók og handskrifar færslurnar í hana. Í dagbókinni fá hugsanir Amy að ráða og líkt og hjá Emblu þá eru þær eins konar inngangur að restinni að frásögninni, sem er sögð í fyrstu persónu. Bókinni er svo skipt í tvo hluta, sá fyrri gerist á jörðu niðri og spannar tæpar tvær vikur en seinni hlutinn á sér stað í geimskipi sem sveimar yfir London. Þó að færslurnar sem skrifaðar eru í geimskipinu séu í fyrstu dagsettar samviskusamlega hættir Amy að telja dagana eftir einhverjar vikur, enda hætta dagsetningar fljótt að skipta máli í þar sem dagur og nótt renna saman í eitt.
Þegar í geimskipið er komið áttar Amy sig á því að hún veit ekkert hvernig hún á að leysa verkefnið sem henni hefur verið falið, eða hvernig það muni gagnast henni að klára það ef það á annað borð tekst. Aðstæður í geimskipinu eru slæmar, unglingarnir dvelja við afar bágar aðstæður í fangabúðum í risastórum sal, sem er nánast tómur að öðru leyti. Þeim er rétt svo haldið á lífi með vatni og graut en varðsveitir sem samanstanda bæði af geimverum og unglingum sem hafa gengið til liðs við þær þramma um og ógna föngunum eða þaðan af verra. Engin leið er til að vita hverjum er hægt að treysta og Amy, sem lítur ekki á sig sem neina sérstaka hetju þarf að læra að treysta á sjálfa sig, sína eigin getu og innsæi, áður en hún getur orðið öðrum að liði.
Frásögnin er á margan hátt rækilega tengd við umhverfið sem sagan gerist í, vísanir í lífið í London á meðan síðari heimsstyrjöld geisaði og aðstæður venjulegs fólks á þeim tíma eru áberandi. Aðstæður unglinganna í geimskipunum minna Amy á frásagnir úr sögubókunum af föngum í útrýmingarbúðum nasista. Ýmsum siðferðilegum spurningum er velt upp í því samhengi, svo sem hversu langt má ganga til að bjarga sjálfum sér og hverjum megi fórna í þágu málstaðarins. Á yfirborðinu fjallar Ég er svikari um innrás geimvera og ungling sem tekst á við sjálfa sig og umheiminn þegar hún ákveður að fórna sér til að standa vörð um frelsi mannkyns og tilverurétt. En í stærra samhengi eru geimverurnar og för þeirra til jarðarinnar líka táknmynd vísindasamfélags sem hefur farið úr böndunum, fólks sem setur sinn tilverurétt ofar annarra og samfélags þar sem hagsmunir sumra vega þyngri en annarra.
Snjókorn
Nýjasta bók Sifjar, The Sharp Edge of a Snowflake kom út á ensku árið 2019 og hefur þegar þetta er ritað ekki verið þýdd á íslensku. Bókin er gjörólík fyrri verkum Sifjar þó að hún falli vissulega undir flokkinn ungmennabókmenntir. Hér er á ferðinni glæpasaga í norrænum stíl, sem stundum er kallaður Nordic Noir og hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu, bæði í bókmenntum og sjónvarpi.
Aðalpersónur bókarinnar eru tvær ungar konur, hin breska Imogen og Hannah sem á íslenskan föður og breska móður. Báðar eru þær rétt um tvítugt og stefna af ólíkum ástæðum til Íslands. Hannah hefur nýverið misst móður sína og er, finnst henni sjálfri, send til föður síns á Íslandi í refsingarskyni eftir að hafa valdið uppþoti í skólanum. Imogen fer til Íslands sem fulltrúi ráðgjafafyrirtækis sem hún starfar hjá og leynt og ljóst líka til að takast á við óuppgerða fortíð sem hún losnar ekki undan. Hannah fær starf á dagblaði þar sem faðir hennar er ritstjóri og þegar Imogen er sökuð um alvarlegan glæp fléttast líf þeirra saman. Hannah er sannfærð um sakleysi Imogen og einsetur sér að komast til botns í málinu sem reynist teygja anga sína lengra en nokkurn óraði fyrir. Á sama tíma neyðast þær báðar til að takast á við erfiða atburði úr fortíðinni sem hafa áhrif bæði á sjálfsmynd þeirra, hugsanir og daglegt líf.
Sagan gerist að mestu leyti að vetri til í Reykjavík og hrjóstrugt íslenskt landslag og vetrarveður leika stórt hlutverk. Myrkrið, rokið og kuldinn skapa ákveðið andrúmsloft og hafa áhrif bæði á söguþráðinn og upplifun Imogen og Hönnuh af dvölinni. Sagan er svo undirbyggð með lýsingum á fortíð þeirra beggja, lífi þeirra fram að glæpnum og áhrifum hans á þær. Hugsanir þeirra eru raktar með myndum sem þær setja á Instagram og vangaveltum um hvaða texti eigi að fylgja hverri mynd. Báðar nota miðilinn til að skapa ákveðna ímynd þó að Imogen geri það sem áhrifavaldur með ótal fylgjendur og Hannah frekar á lægri nótunum til vina sinna. Myndatextarnir sem þær velta fyrir sér sýna fram á ákveðna togstreitu, að langa til að lýsa lífinu og hugsunum samkvæmt sannleikanum en finna jafnframt fyrir þörf til að vera einhver önnur. Umræðan um þann veruleika sem birtist á samfélagsmiðlum er áberandi í gegnum söguna og er einnig sett í stærra samhengi, annars vegar út frá hefðbundnum fjölmiðlum og mati þeirra á fréttnæmi en einnig í tengslum við ráðgjafarfyritækið sem Imogen starfar hjá þar sem eru þróaðar vafasamar aðferðir til að ná til fólks í gegnum samfélagsmiðla. Imogen veltir auk þess fyrir sér áhrifunum sem færslurnar hennar á Instagram hafa á aðra og hvort hún sé sjálfri sér sönn þegar hún birtir útpældar myndir með texta sem segir ekkert endilega það sem hún myndi vilja segja. Áhrif miðilsins á líf hennar og annarra eru óralangt frá því sem má sjá í opinskáum og ósíuðum vefdagbókarfærslum Emblu Þorvarðardóttur rétt um fimmtán árum fyrr og augljóst að markmiðin með bloggskrifum þess tíma voru allt önnur en markaðsvæddar Instagram myndir nútímans þar sem söluvænlegar glansmyndir eru í fyrirrúmi.
Titill bókarinnar vísar til aukamerkingar orðsins snowflake á ensku, sem er stundum notað sem niðrandi orð yfir unga manneskju sem upplifir sig einstaka líkt og snjókorn og væntir sérmeðferðar vegna þess. Þær stöllur sýna þó og sanna að snjókornið getur haft beitta egg sem ætti ekki að vanmeta.
Allt annað mál?
Sif hefur ekki aðeins fengist við skáldsagnaskrif; árið 2018 kom út Sjúklega súr saga með texta eftir Sif og myndum eftir teiknarann Halldór Baldursson. Bókin er yfirferð á Íslandssögunni með hliðsjón af nútímanum og í henni er gerð tilraun til að afsanna að allt hafi verið betra á árum áður, að heimur fari versnandi og ungdómurinn hafi aldrei verið jafn hræðilegur og nú. Frásögnin hefst árið 870 og nær til nútímans, en bókinni er skipt í kafla eftir mismunandi tímabilum í sögunni. Textinn er bæði fræðandi og gamansamur og tungutakið óformlegt sem gerir efnið aðgengilegra fyrir yngri lesendur. Í myndunum, ekki síður en textanum, er auk þess reglulega vísað í nútímann og fortíð og nútíð borin saman. Sjúklega súr saga er skrifuð fyrir unglinga og sagan skoðuð frá sjónarhorni þeirra. Íslandssagan er eins og bent er á full af sjúklega súrum köllum sem erfitt er að samsama sig í dag, en sýnt er fram á að ýmislegt annað áhugavert megi lesa úr sögunni og að allt hafi sannarlega ekki verið betra hér áður fyrr. Sögumaðurinn Sif bendir á að saga í sagnfræðilegri merkingu er alltaf túlkun á heimildum og samtíminn hefur áhrif á það hvernig lesið er í þær.
Sannleikurinn og túlkun okkar á honum er gegnumgangandi umfjöllunarefni í verkum Sifjar, sem eru til þess fallin að vekja til umhugsunar um það sem kemur okkur fyrir sjónir í daglegu lífi. Verkin má svo skoða frá ýmsum sjónarmiðum, sem spegil á samtíma okkar með tilliti til siðferðis, þróunar, áhrifa samfélagsmiðla og svo framvegis en einnig sem frásagnir af ungum konum sem eru að fóta sig í heimi fullorðinna, upplifa fyrstu ástina og átta sig á því hverjar þær eru. Hvort sem þær eru lausnarar mannkyns eða venjulegar stelpur sem glíma við venjuleg (eða óvenjuleg og hættuleg) vandamál eiga þær það sameiginlegt að leita að frelsi til að vera þær sjálfar, hugsa fyrir sig sjálfar og ráða því hvernig þær vilji haga lífinu.
María Bjarkadóttir, ágúst 2020
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Greinar
Um einstök verk
Sjúklega súr saga
Guðrún Lára Pétursdóttir: "Þegar allt var miklu, miklu verra" (ritdómur)
Börn og menning 2019; 34 (1): bls. 22-24
Múrinn
Helga Birgisdóttir: „Að brjótast gegnum (bernsku)múrinn“ (ritdómur)
Börn og menning; 2014 (1): bls. 24
Þórdís Edda Jóhannesdóttir: „Hart er í heimi“ (ritdómur)
Spássían; 2013 (4): bls. 17
Ég er ekki dramadrottning
Álfrún Pálmadóttir „Ég er ekki dramadrottning“ (ritdómur)
Börn og menning 2007; 22 (1): bls. 26
Banvæn snjókorn
Lesa meiraLa fille qui jouait avec le feu
Lesa meiraDas dunkle Flüstern der Schneeflocken
Lesa meiraÉg er svikari
Lesa meiraThe sharp edge of a snowflake
Lesa meiraSjúklega súr saga
Lesa meiraI am traitor
Lesa meiraMoi, Edda, reine des faux plans
Lesa meiraDjásn
Lesa meira
Órar
Lesa meiraTröllafell
Lesa meira