Æviágrip
Sigurbjörg Þrastardóttir er fædd 27. ágúst 1973 á Akranesi. Hún lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1997 og prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla 1998.
Fyrsta bók Sigurbjargar, ljóðabókin Blálogaland, kom út árið 1999 en síðan hefur hún sent frá sér fleiri ljóðabækur, leikrit og prósa. Sigurbjörg hefur gefið út tvær skáldsögur, Stekk (2012) og Sólar sögu, en sú síðarnefnda hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar þegar hún kom út árið 2002. Sigurbjörg hefur fengið fleiri viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars var ljóðabókin Hnattflug valin besta ljóðabók ársins af starfsfólki bókaverslana árið 2000, ljóðsagan Blysfarir hlaut Fjöruverðlaunin 2008 og Brúður var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2010. Ljóð Sigurbjargar hafa verið þýdd á ein tólf tungumál í tengslum við bókmenntaþing, ljóðahátíðir og útgáfu safnrita um Evrópu þvera. Af annars konar verkefnum má nefna bókverkið IS(not) sem Sigurbjörg vann í félagi við fjóra aðra höfunda og fimm pólska ljósmyndara, margvíslega gjörninga með Metropoetica-hópnum og textagerð fyrir íslensk tónskáld. Sigurbjörg var skáld Borgarbókasafns í janúar og febrúar 2003, skáld Skírnis haustið 2001 og staðarskáld í Villa Concordia í Bamberg, Þýskalandi, veturinn 2011-2012.
Sigurbjörg Þrastardóttir býr í Reykjavík.
Forlag: JPV útgáfa
Frá höfundi
Ljóð í neyð
Geng stundum upp fyrir og sæki ljóð í heiðarlindina ber þau
heim í tveimur skjólum á trjábol sem ég reiði yfir herðarnar
sný mér aftur að húsverkum um stund en jafnskjótt og
þurrkurinn verður óbærilegur gríp ég gamla ausu sem amma
mín lét mér eftir og eys yfir mig orðaflaumi úr skjólunum.
Það er eitthvað líkamlegt við áráttuna að yrkja. Ég finn að minnsta kosti enga aðra skýringu á skrifum mínum en þá sem fram kemur í ofangreindum línum. Ég skrifaði þær fyrir nokkrum árum og geymi á góðum stað.
Í ljóði er líka hægt að segja svo margt sem erfitt er að tjá með öðrum hætti (t.d. tilgátur um það hvers vegna menn skrifa) og best að láta þar við sitja.
Ég vona að heiðarlindin tæmist aldrei.
Með lengri texta gegnir svipuðu máli – þó ekki alveg. Uppsprettan er sú sama en ferðalagið lengra, stundum um býsna framandi heima. En fyrst ljóðunum var lýst með ljóði, er rétt að lýsa sögunum með sögu:
Þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð hinn 11. júlí 1998 var afráðið að halda almenningshlaup í hinum nýju göngum áður en umferð almennings yrði hleypt á. Þetta var daginn eftir að Akraborginni var endanlega lagt og athyglin beindist því öll að hinum dularfullu göngum sem sprengd höfðu verið undir hafsbotninn, hvorki meira né minna. Daginn fyrir hlaup fékk ég þá hugdettu að slást í hóp skemmtiskokkara, dró fram gamla strigaskó, skráði mig og fékk m.a.s. sérmerktan bol til þess að hlaupa í. Ég var alls ekki í líkamlegu formi til stórátaka – réði í mesta lagi við kvöldgöngu um hverfið – en þar sem ég hafði aldrei séð hlaupaleiðina vissi ég ekki hvað í vændum var. Enginn hafði séð innviði ganganna áður. Og ekki síst af þeim sökum virkuðu þau svo spennandi.
Farið var með rútu frá Akranesi fyrir Hvalfjörð, í síðasta sinn sem margir óku þann veg. Á tilsettum tíma tóku svo hlauparar, hjólreiðamenn og línuskautaliðar sér stöðu við gangamunnan sunnan megin og hófu teygjuæfingar. Undir þeim strekkingum hélt prúðbúinn maður opnunarræðu og fléttaði inn í hana aðvörunarorð; göngin væru drýgri en margan grunaði ... o.s.frv. en fólkið hélt samt áfram að hita upp og brosti sín á milli. Svo var skotið úr skammbyssunni.
Göngin voru stórkostleg. Dálítið dimm á meðan sjáöldrin vöndust, en víð og vel gerð. Leiðin lá niður í móti og ég byrjaði strax að hlaupa við fót þótt ég hefði vandlega brýnt fyrir sjálfri mér fyrirfram að skynsamlegast væri nú að ganga jafnt og þétt til þess að springa ekki á limminu. En nei, ég hljóp og hljóp, fannst ég næstum svífa á loftpúðaskónum og mér var alveg sama hversu margir voru á undan mér og hversu margir á eftir, þetta var minn hraði og mér fannst gaman.
Ég hljóp þangað til óvæntur hlaupastingur gerði vart við sig, þess var dapurlega skammt að bíða. Þá skipti ég í röska göngu, leiðin lá enn niður í móti og ég reyndi að hugsa ekki út í það hvað ég væri stödd langt undir sjávarmáli. Hlaupastingurinn dvínaði eilítið en þó ekki alveg. Ég gekk og gekk. Þegar mig grunaði að nú hlyti ég brátt að hitta fyrir brekkuna sem bæri mig upp hinum megin, gekk ég fram á skilti sem sýndi vegalengdina sem ég hafði lagt að baki. Þar stóð: 1,5 km. Ég greip um sára síðuna og hætti eitt augnablik að anda. Göngin eru 5,8 km löng.
Ég herti upp hugann og tók aftur til við að hlaupa, andaði eins hægt og hljótt og mér var frekast unnt og virti fyrir mér útsýnið, ljósin, vifturnar, hálfmanngerða veggina, veginn, kantana, neyðarsímana. Margir höfðu dregist aftur úr, en margir voru líka komnir úr augsýn fyrir framan mig. Og allt í einu fannst mér aftur gaman. Þetta var í raun stórkostlegt ævintýri; að fá að vera ein með hugsunum mínum í iðrum jarðar og hafa allan heimsins tíma til ráðstöfunar.
Ég gekk og valhoppaði á víxl, tók snarpa spretti og setti undir mig svitastorkið höfuðið þegar brekkan norðan megin tók við. Hún var ótrúlega lúmsk. Ekkert tiltakanlega brött, en löööng. Um tíma missti ég aftur trúna, hélt ég myndi aldrei ná í mark, fannst að ég myndi næsta örugglega láta lífið þarna einhvers staðar úti í kanti.
En ég var komin of langt til þess að hætta við og þetta var líka erfiði sem borgaði sig, því við marklínuna fékk ég medalíu um hálsinn (eins og reyndar allir hinir) og var svo glöð með þetta litla ævintýri að strengir komandi daga voru ekkert nema ljúf áminning um lítinn en mikilvægan áfanga í lífinu.
Eftir á að hyggja var alveg nákvæmlega eins reynsla að skrifa fyrstu skáldsöguna. Hún hófst sem hugdetta og ef ég hefði haft hugmynd um þá löngu, og á stundum rökkvuðu, leið sem ég mátti leggja að baki til að ná lokapunkti, hefði ég kannski aldrei farið af stað. En það var gaman að vera landkönnuður, gaman að mæðast, svitna, jafna hraðann, stilla sig um að grípa í neyðarsímann. Þetta var reynsla sem herti, kenndi – og skemmti.
Ég er reiðubúin að draga aftur fram gömlu strigaskóna hvenær sem er. Og ég vona að ég finni ævinlega (eins og allir hinir) ljósið við enda ganganna.
Sigurbjörg Þrastardóttir, 2002
Um höfund
Sigurbjörg Þrastardóttir: „hvar sleppir einu hafi og hvar tekur annað við?“
„Ó þá náð að eiga svona land“ segir í ljóðinu „Laugavegur“ í annari ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Hnattflug (2000), og ljóðið heldur áfram:
...búa með undrum alla daga ákaflega
sem það mótar mig þetta náttúrunávígi ítreka ég yfir súpunni og
nikka til erlendra starfsbræðra jájá blessaðir veriði ég hef farið
hringinn fram og til baka séð heiðargæsir í sárum svifið yfir
gjósandi grímsvötnum skoðað öskju kverkfjöll og blikandi
lónsöræfi allt þetta og miklu fleira í lit og syngjandi víðómi ó
guð varðveiti ómar ragnarsson og svo eru afnotagjöldin alls ekki há.
Ljóðið minnir okkur á það að nútímamanneskjan upplifir ekki aðeins fréttir, menningu og veður í gegnum miðla af ýmsu tagi, heldur og allt umhverfi sitt, þarmeðtalda sjálfa náttúruna. Þannig verður náttúran að ímynd, sem hefur í för með sér breytta skynjun á náttúru. Í ljóði Sigurbjargar kemur fram greinileg meðvitund fyrir því að við búum í ímyndasamfélagi og að hugmynd okkar um náttúru, land og þjóð er háð ákveðinni ímynd. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt, ljóð Sigurbjargar er einmitt gott dæmi um skemmtilega sýn á þessa ímyndasköpun. Og það er einmitt sú sýn sem einkennir skrif Sigurbjargar, þessi blanda af einlægri náttúruupplifun og meðvitund fyrir miðlun slíkrar upplifunar í upplýsingasamfélaginu. Í kaflanum „Höfuðstöðvar“ sem rekur sig meðal annars eftir götum Reykjavíkurborgar birtist einmitt Reykjavík okkur sem náttúrufyrirbrigði, „Laugavegurinn“ er vettvangur náttúrunávígis, á „Hringbraut“ birtast hrímaðir bílar og það er ómögulegt að greina „hvað er íshröngl og hvað augu“ bílstjóranna. Flugvélarnar í „Vatnsmýrinni“ breytast í varkára fugla og frá „Sæbrautinni“ siglir víkingaskipið suður til Portúgal yfir opið haf.
Á svipaðan hátt er ást Sólar í Sólar sögu (2002) á sinni ítölsku súlnaborg er alltaf blönduð ást hennar á landinu, en fyrsta upplifun hennar af landinu eru sumrin sem hún eyddi á vínberjaekrum. Sól verður að uppgötva að náttúran er ekki alltaf griðastaður þegar hún einn daginn fær nóg af borginni og fer út á jaðra hennar í leit að skógi sem hún hafði heyrt af. En í þessum skógi leynast illvirkjar sem ráðast á þessa rauðhærðu stúlku og skilja hana eftir svo illa farna að hún liggur heila nótt í blóði sínu í skógarbotninum og tyggur mold. Náttúran bæði hlúir að henni og ógnar henni. Árásin í skóginum birtist sem andstæða við ástarævintýrið á vínekrunum, sem Sól rifjar upp á göngu sinni um borgina, í tilraun sinni til að takast á við lífið eftir nauðgunina.
Vínekrurnar hafa áður komið við sögu í ljóðum Sigurbjargar, en í Blálogalandi er sagt frá „Ódæði“ á auðum ekrum, og seinna frá þrá í ljóðinu „Ég vil þig“, en það hefst svo: „Reyndar er líf/á vínekrunum/þessa dagana//ég vil þig“.
Blálogaland (1999) inniheldur fyrst og fremst náttúruljóð eins og titillinn gefur til kynna. Bókin skiptist í fjóra hluta sem heita eftir höfuðskepnunum fjórum: „Jörð af jörðu“, „Vatn frá vatni“, „Loft úr lofti“ og „Eldur um eld“. Í bókinni kemur strax fram sú sérstaka sýn sem Sigurbjörg hefur á náttúru, sýn sem einkennist af samsömun og hlýju. Skáldkonan upplifir sjálfa sig í náttúrunni, sem hluta af henni eins og birtist í fyrsta ljóðinu „Föðurland“ en þar er landið þitt snjóbreiða, „þú á gangi/og ísbjörn í grennd.“ Í næstu ljóðum „Skapi næst“ og „Land“ birtist sama tilfinningin fyrir nálægð og eiginlega eignarhaldi, því ljóðmælanda er tamast að „hlaupa upp um hálsinn á jöklinum“ en fyllist stundum vantrú yfir því hvort hann eigi virkilega „allan þennan ís?“ Eins og í Sólar sögu birtist Ísland fyrst og fremst sem vetrarland. Eignarhaldið á náttúrunni kemur aftur fyrir í ljóðinu „Tunglið mitt“, tunglið tyllir sér á öxl ljóðmælanda og „kveðst þreytt/á að vera einlægt/háfleygt og fullt“. Tunglið staðsetur Sigurbjörg í vatns-hlutanum, en í loft-kaflanum vofir ógnin hvað mest yfir. Við heyrum ummerki draugasagna í „Myrkfælni“ þegar það er „þrammað á ísspöng/svo glymur í hvelfingu“, en dauðinn býr líka í villukenndri „Miðborg“ og bíður ljóðmælanda á einhverju götuhorni. Í lokahlutanum „Eldur um eld“ er ástin aðalviðfangsefnið en heldur áfram að hverfast í náttúrumyndmál, kossinn í „Berdreymi“ vekur hraunið sem sefur „undir mjúkri mosasæng“, og sólin kyndir undir lostanum í „Umhugsun“ en hrafnseggið á brjóstkassanum er „eflaust/úr annarri/hugmynd.“
Þessi fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Blálogaland, vakti heilmikla athygli og þótti lofa góðu, sérstaklega hvað varðaði nýstárlega nálgun hennar á náttúrumyndmál, sem einkennist af þeirri nálægð sem hér hefur verið lýst. Í annarri bók sinni, Hnattflugi, sýndi Sigurbjörg að hún var traustsins verð, því sú bók uppfyllir allt sem hin bókin lofaði. Ljóðin í Hnattflugi eru meitlaðari og bera merki um meira öryggi, bæði ákveðið sjálfsöryggi og öruggari tök á ljóðinu. Það er í raun makalaust að sjá hvað skáldkonan hefur strax í annari ljóðabók sinni þegar náð að skapa sér eigin stíl.
Hnattflug er ein af þessum heildstæðu ljóðabókum, sem er einskonar ljóðabálkur eða saga í ljóðum. Þessi heildarmynd er mjög skemmtileg og virðist vera mikið í tísku, en sem dæmi má nefna þá hefur Ísak Harðarson sent frá sér sérlega skemmtilegar ljóðabækur af þessu tagi. En þetta er ekki auðvelt form, því þarna þarf í raun að byggja upp söguþráð, þarsem upphafs og lokaljóðin verða enn mikilvægari en annars. Það er nú svo að það skiptir lesandann miklu máli að ljóðabók hefjist á sterku ljóði sem gefur fyrirheit um fleiri slík og hvetur til áframhaldandi lesturs, og sömuleiðis er mikilvægt að skilja lesandann eftir með áhrifamikla mynd í lokin, til þess að gera viðskilnaðinn bærilegri. Annað sem gerir heild af þessu tagi ögrandi er að þau ljóð sem eru veikari verða eins og veikir hlekkir í keðju, hættulegir heildarmyndinni, en á hinn bóginn má líka segja að heildarsýnin veiti daufari ljóðunum stuðning með samhljómi sínum. Í Hnattflugi er það helst síðari hlutinn sem er ekki eins vel heppnaður, ójafnari og ljóðin ekki eins sterk. En innanum eru verulega fínir textar og síðasta ljóðið, „Atlandshaf III“, lokar bókinni á mjög skemmtilegan hátt. Það hljóðar svo: „Samviskuspurning/til sjófarenda:/hvar sleppir einu hafi/og hvar tekur annað við?“
Þannig verða lokin ásættanleg og heildarhljómurinn nær að yfirgnæfa veikari raddirnar.
En þá er líklega kominn tími til að ég segi hver þessi heildarsýn er, en sú saga sem þarna birtist, er eins og titillinn gefur til kynna, ferðasaga, flugferð um hnöttinn. Því er sýnin á umheiminn oftar en ekki loftsýn, líkt og í áðurnefndu ljóði „Atlandshaf III“, þarsem flugfarþegi á ferð yfir endalaus úthöf getur ómögulega séð á þeim þær markalínur sem landakortið fyrirskipar. Þessi þversögn afmörkunarlína landakorta og markaleysis náttúrunnar sjálfrar er einn af þráðum bókarinnar eins og kemur fram í einskonar stefnuskrárljóði í upphafi:
Systir mín átti upplýstan hnött rafmagnaðan grip og það er trúlega
honum að kenna að ég hugsa mér stundum fimmþúsund vatta
peru inni í jarðkúlunni þá verður hafið gegnsætt fjallgarðar
logandi og örnefni vandlega letruð í litaðan svörðinn.
Fyrsti hluti bókarinnar lýsir Íslandi og Reykjavík og heitir „Höfuðstöðvar“, en sá seinni heitir „Þjóðvegir“ og tekur til afgangsins af umheiminum. Milli þeirra er millikaflinn „Millilending“, sem lýsir millilendingu á Íslandi. Þannig er skemmtilega gefið í skyn að umheimurinn sé einskonar rammi utanum nafla alheimsins, eyjuna Ísland, sem Sigurbjörg lýsir svo í fyrsta ljóðinu, „Atlandshaf I“: „Sjá þessa litlu eyju/þessa stóru einmana eyju/þar sem enginn hleypur/berfættur/um svarta sanda á haustin“. Myndskynjunin er ákaflega skemmtileg, og sveiflast milli hins smáa og stóra, fyrst sjáum við eyjuna, sem er lítil en samt stór og aðallega einmana. Aftur er hinu stóra og smáa teflt saman í myndinni af stórum svörtum söndum og þessum engum sem hleypur þar berfættur, því auðvitað sér lesandinn fyrir sér litla berfætta veru á hlaupum, um leið og hann þurrkar hana úr huga sér, því hún er ekki þar.
Það er einhver tærleiki í þessari myndsýn, eitthvað nýstárlegt og skemmtilegt. Sigurbjörg er bæði hlý og kaldhæðin þegar hún lýsir íslandi, í ljóðinu um „Akrafjall“ skammar hún þann sem litar fjallið leikhúsbleikum skuggum með álfabláan himinn í bakgrunni og segir „Hef ég ekki margsagt þér/að fara varlega/með pastellitina?“ „Skorradalsvatn“ skammast sín fyrir að eiga ekki skrímsli, og hvað sem þú reyndir að festa glyminn úr „Gullfossi“ í eyrunum þá breytist hann alltaf aftur í póstkort. Sérstaklega er gaman að því hvernig fjöllin fara á flakk í ljóðunum, í „Reykjavík I“ er ljóðmælandi í fyrstu feimin við borgina, nafnlausar afgreiðslukonur, hallir nefndar eftir bændum og templurum og styttur af kölkuðum stórmennum, „en svo fór ég að rekast á villiketti og fjöll eins og heima“. Í millikaflanum dáist ljóðmælandi að því hvað fjöllin standi sig vel og verjist húðroki og hraglanda, en hefur áhyggur af því að þau fái engan frið fyrir krafsi og spyrningum. Það þyrfti að koma upp skiltum: „hætta, mannýg fjöll ganga laus í girðingunni“.
Á sama hátt eru gerðar úttektir á helstu borgum heims, og þrátt fyrir að sá hluti sé ójafnari en sá fyrri er nóg af skemmtilegu stöffi, kannski er eftirminnilegust lestarmyndin fá Ancona, þarsem ljóðmælandi lýsir hrifningu sinni á lestinni en finnst vont að vera ekki í belti: „en skóreimarnar/duga/bind mig við lestarvörð“.
Einnig verður að nefna að hönnun bókarinnar er sérlega vel heppnuð og dæmi um hvernig góð útlitshönnun styður við verkið og á þátt í að skapa því heildarmynd.
Með tilliti til þeirrar heildarmyndar sem einkenndi Hnattflug þurfti það ekki að koma á óvart að Sigurbjörg gæti vel hellt sér út í prósaskrif. Fyrsta skáldsaga hennar leit dagsins ljós tveimur árum síðar, og þrátt fyrir að vera ekki gallalaus er vissulega lofsvert byrjendaverk. Sólar saga segir, eins og titillinn gefur til kynna, frá Sól, ungri íslenskri stúlku, sem er búsett í ítalskri borg, en þar er hún við nám í túlkaskóla. Við fáum að vita að hún hefur dvalið nokkur sumur við vinnu á vínberjaekrum en hefur nú að mestu snúið sér að náminu. Fyrir utan tungumálaáhugann er stúlkan listræn, og hefur fengið myndlistina í arf frá afa sínum sem á sínum tíma flakkaði um Evrópu og málaði og teiknaði.
En nú er hvorki námið né listin henni ofarlega í huga því sagan lýsir því hvernig hún er að reyna að ná aftur tökum á lífi sínu eftir að hafa orðið fyrir árás þar sem henni var nauðgað og hún stungin hnífi. Aðferð hennar er sú að sættast við borgina sem hún hefur dvalist lengi í og þykir mjög vænt um, og sættirnar felast í því að hún gengur um borgina þvera og endilanga og faðmar þær fjölmörgu súlur sem á vegi hennar verða. Ástæður þessarar aðferðafræði eru ekki fyllilega ljósar, en í dómi sínum í Víðsjá bendir Birna Bjarnadóttir á að umföðmun Sólar á súlum borgarinnar beri merki þess að hún sé að snúa sér frá mannlegu samfélagi, sem hafi reynst henni hættulegt, og að dauðum hlutum. Einnig fléttast vangaveltur um súlur sem stoðir og tengslin við öndvegissúlur íslenskra sagna inn í söguna og því mætti hugsa sér að það sem Sól leiti að sé annarsvega einhver festa í líf sitt, eitthvað áþreifanlegt sem hún getur tekið á, meðan hún leitar leiða til að takast á við áfallið og sorgina. Þannig standa súlur fyrir festu, eitthvað sem er rótgróið, gamalt, traust og jarðbundið, hvort sem er í íslenskri eða ítalskri menningu.
Súlurnar tengjast listinni og eiga sinn þátt í að skapa þá einstöku myndrænu stemningu sem einkennir bókina og kemur fram í myndmáli borgarinnar sem er lýst sem sólarborg, með tilheyrandi litrófi gulra, rauðra og rauðgulra lita.
Sól rekur sig eftir götum borgarinnar eftir götukorti og skrifar hugleiðingar og teiknar í stílabók sem hún hefur meðferðis, og þannig teiknast upp borgin sjálf, sem leikur ákveðið lykilhlutverk í sögunni. Þetta er síðan ítrekað með því að á innanverðri kápunni er götukort af borginni, og enn á ný á vel heppnuð hönnun bókar og bókakápu þátt í að styrkja söguna. Jafnframt er sagan af árásinni teiknuð smátt og smátt í þessum minninga- og hugleiðingabrotum. Síðar í sögunni skilur hún svo eftir blaðsíður í stílabókinni hér og þar um borgina í einhverskonar framhaldi af sáttunum, en með því er gefið til kynna að heilunarferlið hafi borið einhvern árangur.
Í þessu má sjá ákveðna speglun borgarinnar og Sólar sjálfrar, en í sögunni er að finna vangaveltur um tengsl borgar og líkama, en sú tenging á sér heilmikla hefð í bókmenntum og listum, eins og kemur ljóslega fram í skáldsögu Rögnu Sigurðardóttur, Borg (1990). Þessi tenging kemur meðal annars fram í myndmáli beina, en eftir árásina í skóginum sér Sól fyrir sér hvernig líkami sinn myndi mögulega samlagast skógarbotninum þartil ekkert yrði eftir nema beinin. Súlur eru einskonar bein borgarinnar og í einu minningarbrotinu um árásina segir: „nú er ég opin beinin gegnumlýst og maður í hvítum slopp bendir búið að fletta af mér húðinni svona erum við þá ljót svona erum við ekki lengur til“ (94). Þessi hugleiðing kemur í kjölfar upprifjunar um þegar Sól varð upptekin af bókinni Svona erum við, sem er barnabók um líkamann. Sú upprifjun hefst á orðunum: „Einu sinni fannst mér gaman að rannsaka líkamann sem ég bjó í“ (93). Í þessum orðum er dregin upp samlíking líkama og borgar, fyrirbæra sem ’er búið í’. Samsömum Sólar við borgina kemur líka fram í því að borgin hefur einnig orðið fyrir árás, sprengjuárásum hryðjuverkamanna. Sól er mjög upptekin af ummerkjum þessara sprenginga, sérstaklega upplifir hún þó tengsl við lestarstöðina, en þar er áletruð minningarplata með nöfnum þeirra sem létust. Líkt og borgin hefur náð sér á strik, án þess þó að geta nokkurntíma gleymt árásinni, virðist Sól leitast eftir að sættast við líkama sinn, sem hefur orðið fyrir óþolandi innrás: „búið að skemma mig brjótast inn í mig“ (93). Gangan um borgina felur því líka í sér þörf til að skilja eftir sig spor í borginni, merkja sér hana, líkt og borgið hefur markað hana, en þau spor birtast meðal annars í formi dagbókarbrota og myndbrota sem hún dreyfir um borgina í kveðjuskyni.
Það er margt mjög vel gert í þessari sögu, þrátt fyrir að hún beri þess greinileg merki að vera byrjendaverk. Helsti gallinn er sá að byggingin er helst til losaraleg, sagan hverfist of mikið um persónuna á kostnað atburðarásarinnar og ýmis minni og hugmyndir, svo sem rauðhettuminnið og súlupælingin hefði mátt taka sterkari tökum. Þetta gerir það meðal annars að verkum að það tekur svolítið langan tíma að komast inn í bókina.
Hinsvegar er það vel þess virði að lesa áfram, því þrátt fyrir þessa galla í byggingu eru heildaráhrifin merkilega sterk, og lesandi finnur til vaxandi samkenndar með stúlkunni. Sagan er vel skrifuð og Sigurbjörg dregur upp lifandi myndir af þessum tveimur ólíku löndum, Íslandi og Ítalíu. Þegar henni tekst best upp lifði ég mig svo inn í söguna að ég var næstum búin að taka upp sólgleraugun og farin að dusta af mér rykið af súlunum.
Árásin markar ákveðin hvörf í lífi Sólar sem koma fram í því að inn í söguna fléttast baklit í tíma, þarsem hún rifjar upp uppvöxt sinn á Íslandi, sambandið við fjölskyldu sína, og tengsl sín við land og þjóð, sem hún ber saman við tengslin við Ítalíu. Í þeim upprifjunum kemur fram að hún er mikið náttúrubarn. Það verður ljóst að tengslin við afann og ömmuna eru sterkari en tengslin við nánustu fjölskyldu, eins og hefur reyndar komið fram í arfi afans, sem er tvíþættur, annarsvegar er það listgáfan og hinsvegar leggur hann til fjármagnið sem hún þarf til að vera á Ítalíu. Í gegnum þessar upprifjanir og minningar teiknast upp nokkuð sérstök mynd þessarar ungu rauðhærðu stúlku, sem lesandinn finnur fljótt að er nokkuð sérsinna og einbeitt.
Þessi stúlka minnir á þá tilfinningaríku stúlku sem birtist sem ljóðmælandi ljóða Sigurbjargar, stúlka með sérstaka náttúruskynjun, líflegt skopskyn og sjálfstæð tök á tungumáli og myndmáli. Þetta er ljóðmælandi sem er tilbúinn að undrast og gleðjast yfir hinum óvæntu uppákomum daglegs lífs og flytja okkur fregnir af þeim.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Alltaf einhver furðuverk“ (viðtal)
Spássían, 3. árg. (haust), 2012, s. 15-20
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „Vítt um heima: merking, veruleiki, skáldskapur“
Ritið, 17. árg. 3. tbl. 2017, s. 143-163
Kristín Heiða Kristinsdóttir: „Ljóðastelpa.“ Viðtal
19. júní, 2003, s. 30-31
Kristín Ómarsdóttir: „Ég verð alltaf svo hissa á að mannkynið geti komið sér saman um eina skoðun“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 77. árg. 3. tbl. 2016, s. 18-33
Greinar um einstök verk
Blysfarir
Guðni Elísson: „Þrettán spor í sandinum“ : samrunafantasíur í ljóðsögu Sigurbjargar Þrastardóttur, Blysförum“
Skírnir 2009, 183. árg., vor, bls. 175-93.
Soffía Bjarnadóttir: „Því að elskan er sterk, eins og dauðinn“ : um fórnargjöf og sígilda endurkomu í tveimur íslenskum ljóðsögum“
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 3. tbl. bls. 58-74.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Prinsessa og dreki“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Bréf frá borg dulbúinna storma
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lífseigar eldspýtur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 4. tbl. bls. 120-6.
Brúður
Eiríkur Örn Norðdahl: „Eðlilegra að naga svartan kveikinn“ (ritdómur)
Spássían 2011, 2. árg., vor, 42-3.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Draumur okkar beggja“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hryggdýr
Helgi Snær Ægisson: „Hryggdýr“
Són, 2018; 16: s. 173-174
Kátt skinn (og gloría)
Úlfhildur Dagsdóttir: „Furðulegt háttalag ljóðs“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sólar saga
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Stórar litlar sögur“
Vera, 21. árg., 6. tbl. 2002, s. 68-69.
Túlípanafallhlífar
Úlfhildur Dagsdóttir: „Gleði og uppgötvun: Módernísk myndsýn“
Vera, 22. árg., 5. tbl. 2003, s. 67
Á eftirtöldum vefsíðum má finna ljóð í þýðingum og / eða umfjöllun um skáldskap Sigurbjargar
www.logos.it (gagnabanki um ítölsk og erlend skáld)
www.iliteratura.cz (vefur um alþjóðlegar bókmenntir). Sjá líka www.iliteratura.cz/clanek.asp?polozkaID=9681
www.transcript-review.org (veftímarit Literature Across Frontiers). Sjá líka http://www.transcript-review.org/sub.cfm?lan=en&id=196
Greinar og viðtöl við Sigurbjörgu hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2013 – Bæjarlistamaður Akraness
2008 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Blysfarir
2003 – Viðurkenning Leikfélags Akureyrar: fyrir uppistandsverkið Egglos
2002 – Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Sólar saga
2001 – Verðlaun VR, Kastljóssins og starfsfólks bókaverslana; besta ljóðabókin: Hnattflug
2000 – Viðurkenning dómnefndar í samkeppni um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Hnattflug
1998 – Fyrstu, fjórðu og sjöttu verðlaun í ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins og Torfhildar, félags bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands
Tilnefningar
2010 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Brúður
2009 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Blysfarir
Flaumgosar
Lesa meiraFlaumgosar er tíunda ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur.. . Hér tekst Sigurbjörg Þrastardóttir á við drauma, angist og undrun fólks í flaumi tímans og veitir fínstillta innsýn í íslenska þjóðarsál. . .Mæður geimfara
Lesa meiraHryggdýr
Lesa meiraHestaferð í hundrað og einn
Lesa meiraKátt skinn (og gloría)
Lesa meiraBréf frá borg dulbúinna storma
Lesa meiraLjóð í leiðinni: skáld um Reykjavík
Lesa meiraStekk
Lesa meira
Þaðan sem við horfum
Lesa meiraBirtan í húminu: ljóðaþýðingar
Lesa meira