Beint í efni

Skálds saga

Skálds saga
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Sjálfsævisögur

Um bókina

Verðlaunahöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir hefur á löngum ferli samið fjölda skáldsagna, ort ófá ljóð og skrifað vinsælar sannsögur, en hér er hún á nýjum slóðum og segir frá sjálfri sér, viðhorfum sínum, aðferðum og aðstöðu við skriftir.

Hún sýnir inn í vinnuherbergin og hugarfylgsnin, flakkar um landið og heiminn og dregur upp myndir af harðri glímu sinni við form og stíl, persónur og sögusvið, ytri aðstæður og innri hindranir. Um leið lýsir hún umhverfi, lífsreynslu og atvikum sem hafa orðið henni kveikjur að skáldskap og hvatning til að halda út dagana og árin sem það tekur að komast á leiðarenda, ljúka verki – sem ekki er alltaf sjálfgefið að takist.

Úr bókinni

Ein afdrifaríkasta ákvörðun stök sem höfundur tekur varðandi verk til birtingar er titillinn. Andlit verksins út á við. Fyrsta viðkynning lesanda af bókinni. Sé titillinn ekki nógu góður spillir hann fyrir áhuga lesenda. Hvað höfum við ekki oft séð bók með titli sem við segjum um: "Þessa nenni ég ekki að lesa."
   Einhver besta bók sem ég hef lesið eftir íslenskan höfund seinni árinn ber svo bjánalegan titil að ég ætlaði að láta hana eiga sig. En ég fór að lesa, gleymdi ólukkans titlinum, og úr varð lestur sem ég er beinlínis þakklát fyrir.
   Þegar að því kemur að finna réttan titil, og hér er það virkilega fundvísi sem gildir, þá er fínt að yfirlesarar og útgefendur komi sterkir inn, hjálpi til ef svo ber undir, já eða komi í veg fyrir slys í uppsiglingu. Því titlar eru virkilega eitt af því í ritmennskunni sem er samningshæft, málamiðlunarhæft. Og þeir eru eitt af því sem margir gætu komið með tillögur um. Svo hægt að vinsa úr. Adlrei skaði að því að fá glommu af uppástungum hér.
   Ég má fullyrða að ég hafi fundið alla titlana mína sjálf. En langir listar af titlum áður en sá eini rétti var negldur. Hér hlusta ég semsat á álit ritstjóra, forleggjara, ritvina. Og vinsa úr með hliðsjón af því.
   Leiðin að því að finna titil er mér merkilega ánægjuleg. Titlarnir bókstaflega renna uppúr mér. Ég gæti trúað að ég hafi átt tuttugu þrjátíu hugdettur að titli fyrir flestar ef ekki allar skáldsögurnar. Og kannski tíu nothæfar. Ekki alveg svo há tala þegar ljóðabók er annars vegar. Hið upphafna fyrirbæri hugljómun vil ég sem minnst kannast við úr mínu ritlífi en það er þó eitthvað í ætt við hugljómun þegar titillINN rís úr djúpinu. Ég gleymi því til dæmis ekki hvernig mér varð við þegar ég fann titlana á skáldsögurnar HJARTASTAÐ og SÓLSKINSHEST. Í báðum tilvikum urðu þeir fyrir mér í orðabók. Hjartastaður er úr Orðastað eftir Jón Hilmar Jónsson. Sólskinshestur er úr langtíma viðhaldi mínu Sigfúsi Blöndal. Hér hafði titillinn bein áhrif á inniviði skáldsögunnar en ég var svo heppin að finna þetta lýsandi orð miðja vegu og áttaði mig á því að sólskinshestur yrði lykilorð. Lilla söguhetja er sögð "enginn sólskinshestur" af mjólkurbúðarkonunni, þegar hún kemur lítil að sækja mjólk í reykvísku slagviðri. Orðið dularfulla, sólskinshestur, fylgir Lillu og verður að nokkurs konar Orði lífsins, um leið og spurningarmerkið blaktir, og neikvæða formerkið. Hún þorir aldrei að spyrja hvað orðið þýði, óttast að koma með bjánaspurningu. Orðið fylgir henni svo langt að deyjandi hugsar hún að grafskrift hennar ætti að vera: "Hér hvílir enginn sólskinshestur."

(s. 26-27)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Liebe auf den ersten Blick

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Amour de l'Islande

Lesa meira

Ljóð í Poésie islandaise contemporaine

Lesa meira

The Thief of Time

Lesa meira

Ástarljóð af landi

Lesa meira