Úr Þokunni
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera af mér. Hvernig drepur maður dauða tímann? Hann var að kæfa mig. Ég var einhvern veginn að springa úr engu, eirðarleysi, tilgangsleysi, pirringi. Mig langaði út en ég vildi ekki vera einn. Það getur verið þreytandi. Ég hafði enga löngun í „spurt og svarað“ með gestunum inni í stofu. Föstudagskvöld og ekkert í gangi, byrjun október. Engin plön. Óvanalegt. Tommi í fjölskylduboði eins og ég, Álfhildur í sumarbústað og Hildigunnur eflaust enn að gramsa á háaloftinu. Ég hafði ekkert heyrt í Sölva, Fannari eða Línu í dag. Eflaust brjálað að gera í skólanum hjá öllum nýnemum sem ætla að sanna sig á fyrstu önninni. Mér líkaði vel í MA og ég var feginn að Sölvi, Fannar og Lína völdu VMA.Það var algjör óþarfi að hanga með vinum sínum allan daginn afþví við hittumst oftast á kvöldin.
Ljósmyndin frá Hellnum og frásögn Hildigunnar vék varla úr huga mér. Skrýtið. Var virkilega til svona hávaxið fólk fyrir einhverjum ... hvað sagði hún, milljónum ára eða voru það einhver hundruð þúsunda? Hvað hefur verið í gangi í þessum heimi sem enginn veit um? Eða öllu heldur sem einhverjir vita um en fáir þora að tala um. Getur verið að Ísland verði upphaf nýja heimsins eftir áratug eða var það kannski eftir þúsund ár? Skiptir ekki öllu máli.
Ég nartaði í saltstangirnar eins og naggrís.
(bls. 16)