Beint í efni

Þorgrímur Þráinsson

Æviágrip

Þorgrímur Þráinsson er fæddur í Reykjavík 8. janúar 1959. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 og stundaði nám í frönsku við Sorbonne háskóla í París 1983-1984. Hann var blaðamaður hjá Fróða frá 1985 og ritstjóri Íþróttablaðsins og ritstjórnarfulltrúi barnablaðsins ABC frá 1989. Í lok árs 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Tóbaksvarnanefndar. Þorgrímur lék með meistaraflokki Vals í knattspyrnu frá 1979 til 1990 og gegndi fyrirliðastöðunni síðustu fimm tímabilin. Áður lék hann með Víkingi frá Ólafsvík. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari á knattspyrnuferlinum með Val og tvisvar sinnum bikarmeistari. Þorgrímur lék alls um 180 leiki í efstu deild og 17 landsleiki fyrir Íslands hönd. Þá varð hann bikarmeistari í frjálsíþróttum með FH árið 1988 en hann keppti í spjótkasti.

Þorgrímur hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga og var fyrsta bók hans, Með fiðring í tánum (1989), metsölubók á sínum tíma. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1997 fyrir bókina Margt býr í myrkrinu og aftur árið 2010 fyrir bókina Ertu Guð, afi?. Fyrsta skáldsaga hans fyrir fullorðna, Allt hold er hey, kom út 2004. Hann var útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2013 og árið 2016 hlaut hann viðurkennigu Barnaheilla - Save the Children, fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra.