Halla Sólveig Þorgeirsdóttir myndskreytti.
Af bókarkápu:
Þegar teir ísbrnir hafa gengið á land sama sumarið hugsar fólk um fátt annað. ,,Ég væri til í að fá ísbjörn í afmælisgjöf, segir unglingurinn Karen þegar fjölskylda hennar þarf að skreppa norður í land. Síst grunar hana þó að systkini hennar þrjú, Bjössi, Lóa og Krummi, fái tækifæri til að láta þá ósk rætast.
Úr Þriðja ísbirninum:
Ísbjörn þroskaðri en pabbi?
,,Vill einhver ís áður en við förum? Mamma opnaði frystinn og beið eftir viðbrögðum frá pabba og krökkunum. Allir sögðu já nema Björn sem var önnum kafinn við að reyna að lesa Morgunblaðið á hvolfi. ,,Viltu ekki ís, Björn? spurði mamma og leit á son sinn sem var þrettán ára.
,,Ha? Jú, jú, sagði Bjössi einbeittur en leit síðan á pabba sinn og spurði: ,,Hvaða ísbjörn er þetta?
,,Það var verið að kryfja ísbjörninn sem var skotinn í Þverárfjalli, sagði pabbi án þess að líta upp úr Mogganum. ,,Hann var víst grænmetisæta, bætti hann við og glotti. ,,Ekkert annað en mosi og lyng og grænt drasl í maganum á honum.
,,Drasl? sagði Lóa tíu ára. ,,Hvers konar drasl?
,,Pabba þínum finnst allt kál, spínat, gulrætur og svoleiðs nammi vera drasl, sagið mamma og ýtti hressilega við pabba.
,,Ísbjörninn var grænmetisæta eins og mamma ykkar, sagði pabbi stríðnislega og rauk skyndilega á fætur. Hann tók mömmu í bóndabeygju, lagði hana á gólfið og kitlaði hana. ,,Mamma ykar borðar bara gras eins og beljur og fer örugglega að baula áður en langt um líður. Við þurfum að byggja fjós fyrir hana og vinkonur hennar.
,,Ekki meiða mömmu, sagði Hrafn sem var nýorðinn þriggja ára. Hann klifraði upp á bakið á pabba og togaði í eyrun á honum. Mamma spriklaði undir pabba, skellihló og bað hann vinsamlegast að sleppa sér. Pabbi hélt kitlinu áfram, síðan kyssti hann mömmu og hjálpaði henni á fætur.
,,Það er aldrei stundlegur friður fyrir þér, sagði hún og strauk yfir hárið, glöð í bragði.
,,Þið látið eins og hálfvitar, sagði Karen sem átti sextán ára afmæli daginn eftir. ,,Ég skammast mín geðveikt fyrir ykkur, bætti hún við.
,,Flestir unglingar ganga í gegnum það tímabil, sagði mamma og setti ís-sósuna á borðið. ,,Þegar þú verður eldri áttu eftir að dýrka okkur og dá og jafnvel neita að fara að heiman.
Þegar pabbi var sestur aftur lét mamma litla ískúlu detta ofan í hálsmálið á skyrtunni hans. Pabbi þóttist ekki taka eftir því en sagði sallarólegur. ,,Það er bannað að hefna sín.
(5-7)