Beint í efni

Úlfur og Edda : Drottningin

Úlfur og Edda : Drottningin
Höfundur
Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Úlfur og Edda eru staðráðin í að fara aldrei aftur til goðheima. Þrátt fyrir það lenda stjúpsystkinin óvænt í Svartálfaheimi og þurfa að finna leið heim.

Ferðalag þeirra ber þau á slóðir Ægis, Ránar og Miðgarðsormsins en erkióvinur barnanna sjálfur Loki lævísi kemur einnig við sögu.

Úlfur og Edda: Drottningin er sjálfstætt framhald bókanna Úlfur og Edda: Dýrgripurinn og Úlfur og Edda: Drekaaugun.

Úr bókinni

   Lágværir skrækir bárust frá pokanum sem kipptist til og frá.
   „Æ, litla greyið er glorhungrað.“ Úlfur teygði sig í brauðkörfu á borðinu, gómaði súrdeigssneið og reif hana niður í bita.
   „Jæja, fyrst við erum loksins ... öll saman ... í ró og næði,“ sagði Binni vandræðalega. Hann ræskti sig og leit til Unnar.
   Hún kinkaði kolli og brosti.
   „Hvað er að ykkur? Af hverju eruð þið svona asnaleg? Getum við ekki bara farið út að borða eins og venjulegt fólk?“ spurði Edda.
   Stjúpbróðir hennar renndi rennilásnum til að opna bakpokann sinn.
   „Við erum með smá tilkynningu,“ sagði Unnur rjóð í kinnum.
   Edda fékk kvíðahnút í magann. „Hvað nú? Ætlið þið að segja okkur að íbúðin sem við flytjum í losni ekki fyrr en um áramót?“
   Úlfur leit upp skelkaður á svip en þá greip gæludýrið hans tækifærið og tróðst upp úr pokanum.
   Svarbrún leðurblaka krækti í dúkinn, klifraði upp á veisluborðið og beraði tennurnar.
   Unnur hrópaði, Binni gapti eins og þorskur og amma Edda saup hveljur.
   Edda kippti í dúkinn og reyndi að kasta honum yfir dýrið en hún var of sein. Leðurblakan hóf sig til flugs og diskarnir, hnífapörin og kristalsglösin líka. Veislusalurinn fór á annan endann. Öskur, hróp og köll dundu við úr öllum áttum. Einhver galaði „vampíra“ og silfurbakki þeyttist úr höndum þjóns, rækjukokteill og laxasnittur fóru á loft, mávastell brotnaði, stólar ultu, gestir lögðu á flótta og móttökustjórinn féll í yfirlið. Leðurblakan flögraði stefnulaust um í leit að útgönguleið en hélt svo í átt að Snæfellsjökli sem blasti við út um gluggann.
   „Nei, ekki á glerið!“ hrópaði Úlfur.
   „Hún flýgur ekki á fluggann,“ sagði Edda og reis á fætur. „Allar leðurblökur eru með bergmálsmiðun.“
   Hún hafði varla sleppt orðinu þegar leðurblakan skall á rúðunni og féll vönkuð á lítið tveggja manna borð.

(s. 13-14)

 

Fleira eftir sama höfund

Nornasaga: Hrekkjavakan

Lesa meira

Engar ýkjur

Lesa meira

Örlög guðanna: Sögur úr norrænni goðafræði

Lesa meira

Kata og ormarnir

Lesa meira

Lygasaga

Lesa meira

Lokaorð

Lesa meira

Úlf a Edda: Ukradený kleenot

Lesa meira

Kata og vofan

Lesa meira