Svo gerist það að börn eldast og þá eiga þau að venja sig við alvöru bækur, og um leið af myndum. Þetta er þjáningarfullt ferli og í raun óskiljanlegt og enn stend ég mig að því að sakna myndlýsinga í skáldsögum - mér fannst til dæmis Argóarflís Sjóns, með öllum sínum goðum, mönnum og meinvættum, beinlínis kalla á myndir, sömuleiðis hefðu dularfullar myndir við skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Yosoy, glatt mig afar mikið.
En hvað um það: hér verður fjallað um tvær myndabækur sem ekki eru endilega fyrir alyngstu kynslóðina, þær eru nokkuð miklar um sig af texta, en líka auðugar af myndum. Og báðar fjalla þær um dýr og dýranna líf.
Uppi í skýjunum (Uppheimar, 2005) minnti mig dálítið á Hundaeyju Sindra Freyssonar, en þetta er saga um draumaland dýranna, sem er ómengað og frjálst. Íkorninn Villi neyðist til að flýja Skógarland þegar jarðýtur ryðja því burt, hann leitar að Dýrlandi, en endar í Stórborginni. Þar kemst hann að því að kvikindi nokkurt, sem ekki er ljóst hverrar tegundar er, heldur fjölda dýra föngnum og lætur þræla fyrir sig í verksmiðju nokkurri. Og það sem verra er, vondi verksmiðjueigandinn ætlar sér að finna Dýrland og eyða með því von dýranna um frelsi og framtíð. Sagan er skrifuð af bítlinum Paul McCartney, teiknuð af Geoff Dunbar og rithöfundurinn Philip Ardagh (sem hefur meðal annars skrifað hinar bráðskemmtilegu bækur um Edda Dickens) fór síðan yfir textann og lagaði til. Einhvernveginn virðist dálítill kraftur hafa farið úr í þessu ferli, jafnframt því sem yfir sögunni er óþarflega stílhreinn blær, myndirnar eru of teiknimyndalegar, þó vissulega séu stórsnjallir sprettir inni á milli. En það kemur ekki í veg fyrir að hér er margt skrýtið og skemmtilegt á ferli, sagan er ævintýraleg og falleg og persónurnar sniðugar, sérstaklega hin tölvuvædda líkamsræktarfló Alfredó!
Dýr Tove Appelgrens (Mál og menning, 2005) er í raun smásagnasafn með fjórum sögum um ólík dýr. Fyrsta sagan er um angórunaggrísinn Snowball, en hann býr í kjallara innanum gæludýr sem eigendurnir eru orðnir leiðir á. Þar hittir hann eðluna Rex og vingast við hana. Sagan um leðurblökurnar er sýnu lengst og umfangsmest, en þar er sagt frá unglingaleðurblökugengi og ævintýrum meðlima þess. Þá tekur við undarlega saga um metnaðarfulla urtu og óvænta uppákomu í hennar lífi og loks endar bókin á enn undarlegri örstuttri sögu um gíraffa. Hér er allt í raun þveröfugt við Uppi í skýjunum, sú bók var næstum of hefðbundin og pússuð, en þessi merkilega dýrabók jaðrar við að vera of skrýtin - sérstaklega gíraffasagan undir lokin. Þó er líklega hægt að líta á hana sem einskonar stef við Eyju Múmínpabba, enda höfundurinn finnskur líkt og mamma Múmínálfanna. Fyrstu tvær sögurnar koma áberandi best út, sagan af loðdýrinu og eðlunni á sér skemmtilega óvæntan endi í myndlýsingu Halldórs og sagan af leðurblökunum er hreinlega bráðskemmtileg - leðurblökur eru greinilega málið þetta árið, en skemmst er að minnast hinnar dýrlegu sögu Silfurvængur. Hér má einnig sjá dæmi um hvernig myndir og myndlýsingar auðga texta og bæta við, því myndir Halldórs Baldurssonar eru í einu orði sagt frábærar. Kómískur og ofurlítið skældur stíll hans passar fullkomlega við þennan finnska húmor og hann leikur sér á skemmtilegan hátt með myndabókaformið, því hér birtast ýmist glæsilegar heilsíðumyndir í lit og öllu einfaldari teikningar (oft írónískari) í bland við örstuttar myndasögur og allskonar smáinnskot í myndrænu formi.
Allar virkja þessar ólíku myndabækur fyrir börn ímyndunaraflið á öflugan og ólíkan hátt. Orð og myndir vinna saman og sundur, skapa samhljóm og togstreitu, og kalla fram margskonar upplifanir, allt frá undrun til hláturs.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005