Um bókina
In Watermelon Sugar eftir Richard Brautigan, í þýðingu Gyrðis Elíassonar.
Úr Vatnsmelónusykri
Nafn mitt
SENNILEGA ERTU FORVITINN um hver ég er, en ég er einn þeirra sem eiga sér ekkert venjulegt nafn. Nafn mitt veltur á þér. Nefndu mig bara það sem þér kemur í hug. Sértu að hugleiða eitthvað sem gerðist fyrir löngu: einhver spurði þig um eitthvað og þú gast ekki svarað. Það er nafn mitt. Kannski hellirigndi. Það er nafn mitt. Eða einhver vildi fá þig til að gera eitthvað. Þú gerðir það. Síðan var þér sagt að það sem þú gerðir væri rangt - “Fyrirgefðu mistökin” - og þú varðst að gera eitthvað annað. Það er nafn mitt. Eftilvill var þetta leikur sem þú lékst þegar þú varst barn eða eitthvað sem kom fyrirvaralaust í hugann þegar þú varst orðinn gamall og sast í stól við gluggann. Það er nafn mitt. Eða þú gekkst eitthvert. Allt um kring uxu blóm. Það er nafn mitt. Kannski starðirðu ofan í vatnsfall. Einhver sem þú elskaðir var hjá þér. Hún var um það bil að snerta þig. Þú fannst þetta áður en það gerðist. Síðan gerðist það. Það er nafn mitt. Eða þú heyrðir einhvern kalla úr órafjarlægð. Röddin var næstum bergmál. Það er nafn mitt. Eftilvill lástu í rúminu, í þann veginn að sofna og hlóst að einhverju, spaugi um sjálfan þig; gott að enda daginn þannig. Það er nafn mitt. Eða þú snæddir eitthvað ljúffengt og gleymdir andartak að þú værir að borða, en hélst áfram, vissir að þetta var gott. Það er nafn mitt. Kannski nálgaðist miðnættið og eldurinn gnast í arninum einsog gömul klukka. Það er nafn mitt. Eða þér leið illa þegar hún sagði þessa hluti við þig. Hún hefði getað sagt þá við einhvern annan: einhvern sem vissi meira um vandamál hennar. Það er nafn mitt. Eftilvill synti urriðinn í tjörninni en áin aðeins átta þumlunga breið og tunglið lýsti yfir iDEATH og vatnsmelónuakrarnir glóðu óraunverulega, dimmir, og tunglið virtist stíga upp frá hverri plöntu. Það er nafn mitt. Og ég vildi óska að Margrét léti mig í friði.
(s. 10-11)