Beint í efni

Allt fer

Allt fer
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Smásögur

Um Allt fer

Í Allt fer birtist ástin í öllum sínum myndum. Stundum slokknar hún, persónur fara í hundana eða finna hamingjuna. Þær leita að sjálfum sér á flugvöllum og í fjarlægum klaustrum, í köttum og ljónum, skáletruðum punkti og gráti annarra. Geldingur í kvennabúri soldánsins leitar lausnar, ungt fólk leitar að samastað í tilverunni og meira að segja djöfullinn er friðlaus.

Úr Allt fer

Dýrin í garðinum voru óróleg.

Þetta var á mánudegi í júní. Himinninn var skýjaður, hlýtt í lofti, líklega hátt í þrjátíu gráður – við upphaf hitabylgjunnar. En raunar man ég ekki svo vel eftir því. Ég man bara þetta: fáir gestir voru í garðinum og dýrin voru óróleg. Ég veit ekki af hverju ég hugsaði þetta, líklega var það þögnin, búrin virtust þögulli en venjulega og full af eftirvæntingu sem braust stund- um út í slagsmálum, skrækjum og öskrum. Dýrum lætur ekki sérstaklega vel að bíða!

Eg sat framan við ísbjarnargryfjuna og át samlokuna mína, á eftir drakk ég svo kaffi og reykti sígarettur. Af þessum tíu tímum sem ég vinn, sex daga vikunnar, hef ég hálftíma fyrir sjálfa mig utan kaffihússins og reyni þá yfirleitt að skoða dýrin.

Umhverfis ísbjörninn var gryfja með grænleitu, skítugu vatni í botninum, og hár veggur. Frá ísbirninum séð sat ég á bekk ofan á veggnum, en auðvitað var veggurinn ekki nema sléttur gangvegur fyrir okkur hinum. Ég hafði komið þarna í nokkra daga til að verja hádeginu með birninum og man að ég hugsaði stundum um þetta, muninn á þessari afstöðu minni og skepnunnar, hvort hann langaði ekki að tæta okkur í sig og verða frjáls aftur í stað þess að láta svona peð gnæfa yfir sér alia daga. Sjálf hefði ég viljað út.

Þennan dag var ísbjörninn ljómandi hvítur í sólinni, breiddi værðarlega úr sér á einum klettinum, lygndi aftur augunum og lét tunguna hanga út úr sér. Á bekk skammt frá mér sat kona, nokkrum árum eldri en ég sjálf, líklega um tuttugu og fimm ára og talaði í símann sinn. Fyrir framan hana var lítil stelpa í kerru sem konan fóðraði á Mentosi – raðaði því í munn hennar eins og hún væri einhver vél eða sjálfsali sem þyrfti að fóðra svo hægt væri að halda símtalinu áfram.

Manneskja sem verðskuldar búr, hugsaði ég – ekkert frá- brugðið því sem er utan um dýr. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég hneykslaðist á konunni. Hún birtist stundum í garðinum, án þess að hún virtist hafa nokkurn áhuga á dýrunum, heldur talaði hún alltaf í símann, sem hafði háværa og skræka júrótekknóhringingu sem heyrðist stundum yfir hálfan garðinn, og á meðan afvegaleiddi hún stúlkubarnið, stillti kerrunni upp framan við eitt af búrunum en gekk svo sjálf í hringi, blaðrandi, eða sat fyrir framan hana og raðaði í hana sælgæti eða kartöfluflögum til að hún þegði. Enginn svipur var með konunni og barninu og ég ákvað með sjálfri mér að hún væri barnapía.

Ég veit ekki hversu lengi ég sat þarna við ísbjarnargryfjuna en ég man að ég punktaði ekkert hjá mér í minnisbókina, tók hana ekki einu sinni upp úr vasanum – annað sem var skrýtið við þennan dag. Yfirleitt fæ ég flestar hugmyndir mínar við að fylgjast með dýrunum. Ég var handviss um að eitthvað myndi gerast; kannski að ísbjörninn hætti þessum leik sínum, stæði upp og hyrfi inn í skuggann sem lengdist úti í einu horni búrsins. Ég hugsaði að hann gæti ekki gert þetta miklu lengur, að liggja svona í sólinni: ég varð sannfærð um að hann hefði allan tímann verið að þykjast og langaði að sjá sposkan svipinn á honum þegar hann stæði upp. Hann var ísbjörn! Ísbirnir liggja ekki í sólinni og slaka á; líkamlegt atgervi þeirra leyfir ekki slíkt og það er ekki í eðli þeirra. Ég sá hvernig hann laumaðist til að mása, svona svíðandi heitur undir feldinum, hvernig hann skimaði af og til kringum sig milli pírðra augnlokanna, hlátur í augunum en líka eitthvað annað: kannski dúndrandi geðveiki.

Sjálf er ég að mestu blind á eðli sjálfrar min og hvernig ég fúnkera. Eftir því sem ég les fleiri bækur verð ég sannfærðari um þetta, án allrar tilgerðar (vona ég að minnsta kosti). Og ef menningin sem er innan í okkur og allt í kringum okkur er andstæð eðli – fædd í heiminn til að reisa rimla utan um það, þá skil ég hvorugt.

En eftir á að hyggja beið ég kannski einhvers annars. Til dæmis þess að Silverio, austur-tímoríski fóðrarinn, kæmi á hlaupum út úr stöðvarbyggingunni. Starfsfólkið í dýragarðinum hleypur aldrei, okkur er bannað það af því slíkt gefur slæma mynd af umönnun dýranna, auk þess sem dýrin sjálf þurfa yfirvegun og skipulag á öllu sínu lífi til að innilokunin verði þeim bærilegri. Þegar ég sá Silverio koma hlaupandi vissi ég því samstundis að eitthvað væri í ólagi.

Ég stóð upp af bekknum og um leið og Silverio hljóp framhjá mér hrópaði ég á eftir honum: „Hvað gerðist?"

„Ljónin!“ hrópaði hann á móti, talstöðin við öxl hans spýjandi skruðningum og æstum, óskiljanlegum röddum. Ég stakk inn á mig sígarettunum og flýtti mér á eftir honum að ljónabúrinu, sem var ekki langt frá ísbirninum.

Fleira eftir sama höfund

Hálendið

Lesa meira

Kobiety

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira
dáin heimsveldi

Dáin heimsveldi

Í þessari skáldsögu fer höfundur með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og komið sér fyrir í geimnum.
Lesa meira

Turninn

Lesa meira

Áhyggjudúkkur

Lesa meira

Ljóð í Ljóð ungra skálda

Lesa meira